Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

23. mars 1998 MatvælaráðuneytiðFinnur Ingólfsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 1996-1999

Ávarp á ársfundi Orkustofnunar


Á undanförnum misserum hafa orðið mikil umskipti í orkumálum. Um miðjan síðasta áratug var því spáð að Blönduvirkjun yrði síðasta stórvirkjun þessarar aldar og því væri búið að rannsaka og undirbúa nýtingu orkulindanna langt fram á næstu öld. Þessir spádómar reyndust sem betur fer ekki réttir. Nýting orkulindanna á síðustu misserum hefur verið ein helsta forsenda þess að okkur hefur tekist að snúa vörn í sókn í atvinnumálum, efla hagvöxt og skapa skilyrði til bættra lífsskilyrða. Þessa sér glögglega stað í því að kaupmáttur heimilanna hefur aukist um nálega 20% frá árinu 1995.

Nú er rúmlega hálft ár liðið frá því að framleiðsla hófst í þriðja kerskála álverksmiðjunnar í Straumsvík. Allt bendir til þess að rekstur Norðuráls á Grundartanga hefjist í byrjun sumars og í síðustu viku tók stjórn Íslenska járnblendifélagsins lokaákvörðun um þriðja ofn verksmiðjunnar og munu framkvæmdir hefjast í næstu viku. Stefnt er að því að ofninn verði tekinn í notkun í október á næsta ári. Þessi verkefni munu kalla á aukna raforkuvinnslu sem nemur tæplega 2.250 GWh á ári og alls er gert ráð fyrir að raforkuvinnsla aukist um tæplega 2.700 GWh á ári milli áranna 1995 og 2000, eða um 54%.
Það er nú ljóst að framkvæmdir við þessi iðjuver og tengd orkumannvirki sem hófust í lok ársins 1995 munu halda áfram fram á árið 2000 eða í rúm fjögur ár. Þessir áfangar eru stórir á íslenskan mælikvarða en eru tiltölulega litlir borið saman við t.d. álver sem hafa risið í Kanada, Suður-Afríku og Mið-austurlöndum á undanförnum árum. Framkvæmdir við iðjuverin hafa skarast lítilega, en þó þannig að það hefur ekki leitt til óheppilegrar samkeppni um vinnuafl og þennslu sem henni er samfara. Þegar er farið að huga að næstu skrefum í nýtingu orkulindanna eins og kunnugt er. Áhugi Norðuráls á því að stækka verksmiðju sína um 30.000 tonn er þekktur og líklegt er að ákvörðun um stækkun verði tekin fljótlega eftir að sá áfangi verksmiðjunnar sem nú er á lokastig er kominn í eðlilegan rekstur. Við mat á umhverfisáhrifum álversins og í starfsleyfi þess er miðað við 180 þúsund tonna framleiðslu.
Íslenska magnesíumfélagið heldur aðalfund í þessari viku, en sem kunnugt er hefur félagið verið að leita að erlendum fjárfestum til að koma því verkefni til framkvæmda, þ.e. að reisa 50.000 tonna magnesíumverksmiðju á Reykjanesi. Íslensk stjórnvöld og Landsvirkjun eru í samvinnu við Hydro Aluminium að kanna hagkvæmni heildarverkefnis, þ.e. frá vatni til útflutts áls. Of snemmt er að segja hvort það verkefni leiðir til framkvæmda. ÍSAL hefur starfsleyfi sem gefur fyrirtækinu rétt til að auka framleiðsluna um tæplega 40 þúsund tonn og mat á umhverfisáhrifum álversins miðaðist við 200 þúsund tonna framleiðslu á ári. Loks er gert ráð fyrir að síðar komi til frekari stækkun járnblendiverksmiðjunnar, en áður en ákvarðanir um það yrðu teknar þyrfti að sjálfsögðu að fara fram mat á umhverfisáhrifum. Auk þessa hafa fáeinir minni iðjukostir verið til skoðunar af ýmsum aðilum, svo sem verksmiðja til framleiðslu á polyoli, vetnisperoxíði og slípiefnum.

Ef ekki kemur til ný erlend fjárfesting á sviði orkufreks iðnaðar þegar þeim framkvæmdum lýkur sem nú eru í gangi, en það mun verða um aldómót, þá er hætta á að svipað ástand geti orðið í efnahags- og atvinnumálum og var á árunum 1991 til 1995. Það er því forgangsverkefni að tryggja áframhaldandi uppbyggingu atvinnulífs á grundvelli okkar hreinu orkulinda.

Mér hefur orðið tíðrætt um framkvæmdir við iðjuverin. Þær framkvæmdir byggja að sjálfsögðu á miklum orkulindum sem hagkvæmt er að virkja og hagnýtingu þeirra fylgir engin eða óveruleg losun gróðurhúsalofttegunda. Til þess að mæta orkuþörf iðjuveranna hefur verið ráðist í ýmsar framkvæmdir á Þjórsár-Tungaársvæðinu, hækkun stíflu við Blöndu, stækkun Kröfluvirkjunar og raforkuver við Nesjavelli. Með þessum framkvæmdum hafa verið nýttir flestir þeir virkjunarkostir sem voru á lokastigi undirbúnings og heimildir lágu fyrir um. Það er því ljóst að efla verður undirbúnings- og hönnunarrannsóknir vegna nýrra orkuvera, ella er hætt við að ekki verði unnt að mæta orkuþörf þeirra iðjuvera sem kunna að vera á næsta leyti. Það er ljóst að erlendir sem innlendir fjárfestar ganga ekki til samninga um orkukaup langt fram í tímann, og orkuver þyrftu að geta hafið rekstur um leið og iðjuverin eru tilbúin. Þetta þýðir í raun að orkuframkvæmir þyrftu að geta hafist a.m.k. ári á undan framkvæmdum við iðjuverin, þar sem framkvæmdatími iðjuveranna er skemmri. Slíkt kallar á að hægt sé að bjóða út framkvæmdir við virkjanir um leið og gengið hefur verið frá samningum. Við vorum í þessari stöðu þegar samningar um stækkun Ísal tókust, en við höfum gengið verulega á tankana og þá verður að fara að fylla að nýju.

Síðastliðið haust lagði ég fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um framtíðarskipan raforkumála. Meginmarkmið tillögunnar eru:

· Að auka samkeppni í orkugeiranum,
· að skapa möguleika til frekari jöfnunar orkuverðs,
· að auka skilvirkni í orkugeiranum og
· að auka sjálfstæði orkufyrirtækja og ábyrgð stjórnenda.

Tillagan miðar að því að sköpuð verði skilyrði til aukinnar samkeppni í vinnslu og sölu raforku og aukinnar skilvirkni í greininni, með öðrum orðum að komið verði á markaðsbúskap í raforkumálum. Ég geri mér vonir um að tillagan hljóti stuðning þingsins og verður þá hafinn frekari undirbúningur á að koma á nýrri skipan. Þetta er mikið og tímafrekt verkefni. Mikilvægt er að taka eðlilegt tillit til stöðu fyrirtækjanna nú og ætla þeim hæfilegan tíma til að laga sig að breyttum aðstæðum. Sömuleiðis mega breytingarnar ekki hafa í för með sér minna öryggi í orkuafhendingu og að sjálfsögðu verður að taka tillit til umhverfismála. Eitt mikilvægasta verkefnið verður að tryggja að nægur hvati verði í hinni breyttu skipan til þess að stundaðar verði nauðsynlegar orkurannsóknir og undirbúningi virkjana sé sinnt. Í því efni vænti ég góðs stuðnings frá Orkustofnun. Umsagnir um tillöguna hafa almennt verið jákvæðar, þó er það auðvitað þannig að þeir sem hafa hagsmuna að gæta hafa fyrirvara við breytingar á sínu sviði um leið og þeir vilja breytingar á öðrum og auðvitað eru skiptar skoðanir um hve hratt skuli gengið til verks. Ég tel þýðingarmikið að tillagan verði samþykkt og að skipuleg vinna geti hafist um hvernig skynsamlegast og þjóðhagslega hagkvæmast verði að koma á markaðsbúskap í raforkumálum.

Ég hef sömuleiðis lagt fram frumvarp til laga um eignarhald og nýtingu auðlinda í jörðu. Í frumvarpinu er miðað við að reglur um nýtingu auðlinda í jörðu, jarðhita, grunnvatns og jarðefna verði samræmdar, undanskilin er þó nýting jarðhita til raforkuvinnslu. Stefnt er að því að reglur um þá nýtingu sem og vatnorkunnar verði sett í raforkulög. Nái frumvarpið fram að ganga verða sett heildstæð lög um nýtingu aulinda í jörðu og sköpuð samræmd skilyrði til nýtingar þeirra. Í frumvarpinu er miðað við að eignarréttur eins og hann hefur verið viðurkenndur í réttarframkvæmd síðari ára verði staðfestur en um leið að nýting auðlindanna verði auðvelduð og forræði ráðherra aukið. Þannig geti ráðherra veitt rannsóknar- og nýtingarleyfi og landeigandi geti ekki staðið gegn rannsóknum og nýtingu. Þetta er afar mikilvægt til að unnt sé að nýta þessar auðlindir með skilvirkum hætti.

Í frumvarpinu er m.a. gert ráð fyrir að ráðherra geti látið rannsaka auðlindir hvar sem er á landinu. Sömuleiðis getur ráðherra heimilað öðrum aðilum að rannsaka og leita að auðlindum í jörðu og skal hann þá veita til þess svokölluð rannsóknarleyfi. Í rannsóknarleyfum getur ráðherra veitt fyrirheit um forgang að nýtingarleyfi í allt að tvö ár að gildistíma rannsóknarleyfis er lokið. Samkvæmt frumvarpinu verður nýting auðlinda í jörðu því háð leyfi ráðherra óháð því hvort um eignarlönd eða þjóðlendur er að ræða.

Í frumvarpinu er ennfremur gert ráð fyrir að Orkustofnun annist eftirlit með leitar- og vinnslusvæðum jarðefna, jarðhitasvæðum og vinnslusvæðum grunnvatns, þegar iðnaðarráðherra hefur veitt leyfi til rannsóknar eða nýtingar. Sömuleiðis að landeigendur sendi Orkustofnun upplýsingar um rannsóknir á þeirra vegum. Gögn um rannsóknir, leit og nýtingu verði varðveittar á Orkustofnun. Með frumvarpinu verða Orkustofnun þannig falin ný verkefni, utan orkusviðsins hvað varðar jarðefni og grunnvatn. Ég vonast til að þetta stuðli að því að orkumálasvið Orkustofnunar eflist.

Eins og ég hef þegar komið inná er mikilvægt að tryggja að ný skipan raforkumála feli í sér nauðsynlegan hvata til rannsókna á orkulindunum og undirbúnings virkjana til þess að mæta aukinni raforkuþörf. Ein leiðin sem til greina kemur í því efni er að fara svipaða leið og farin er í frumvarpinu um auðlindir í jörðu, þ.e. að veita rannsóknar- og leitarleyfi og að leyfishafi fái forgang að nýtingarleyfi ef rannsóknir sýna að um góðan virkjunarkost er að ræða, sem fallist er á að loknu mati á umhverfisáhrifum. Önnur leið gæti verið að veita einkaaðilum, t.d. fjárfestum sem vilja ávaxta fé til langs tíma, leyfi til rannsókna, sem þeir gætu síðar selt þeim sem áhuga hefðu á að nýta sér rannsóknirnar. Óháð því hvaða leið verður farin í þessu efni verður að tryggja nauðsynlegan undirbúning að nýjum virkjunum til þess að við getum haldið áfram að nýta orkulindirnar til atvinnusköpunar.

Ég vil nú víkja nokkrum orðum að rammasamningi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar en aðildarríkjaþing samningsins var sem kunnugt er haldið var í Kyoto í desember síðastliðinn. Í niðurstöðum þingsins er sérstaða Íslands staðfest.

Sérstöðu Íslands má fyrst og fremst rekja til þess mikla árangurs sem náðist á 8. og 9. áratugnum í að nýta jarðhita og vatnsorku í stað olíu. Sá árangur kemur m.a. fram í því að hlutur endurnýjanlegra orklinda í orkubúskapnum er hærri hér en hjá nokkurri annarri þjóð. Hér á landi er hlutur losunar gróðurhúsalofttegunda vegna raforkuvinnslu nánast engin og sama á við um jarðhitann sem notaður er til húshitunar. Orkuvinnslan hér á landi er því hreinni en hjá öðrum þjóðum. Það er fyrst og fremst þess vegna sem Ísland fékk hærri hlutfallstölu fyrir losun í Kyotobókuninni, en önnur iðnríki og ríki Austur-Evrópu. Ég nefni í þessu sambandi að ef einungis er miðað við almenna raforkunotkun á árinu 1995, þ.e. allri stóriðju sleppt, hefði losun okkar verið um 57% hærri ef raforkuvinnsla okkar hefði fylgt sama losun og í Þýskalandi. Sambærileg tala ef miðað er við Danmörku er 68%. Orkustofnun hefur reiknað út að aðgerðir til að draga úr hlut olíu í húshitun á 8. og 9. áratugnum svari til um 40% lækkunar í losun miðað við árið 1990. Þessar tölur lýsa vel sérstöðu okkar. Á orkusviðinu höfum við náð hámarksárangri í að draga úr losun, en á því sviði ætla aðrar þjóðir að ná mestum árangri á næstu árum.

En við höfum líka þá sérstöðu að eiga miklar endurnýjanlegar orkulindir sem hafa einungis verið nýttar að litlu leyti. Viðurkennt er, m.a. í Kyotobókuninni, að mikilvægt sé að hagnýta þessar orkulindir til að sporna gegn hugsanlegum loftslagsbreytingum. Ísland er hins vegar í þeirri einkennilegu stöðu að sú nýting sem er nærtækust, þ.e. til orkufrek stóriðja myndi leiða til aukinna losunar gróðurhúsalofttegunda, vegna efnaferla við sjálfa framleiðsluna. Sú losun á sér að sjálfsögðu stað hvar sem framleiðslan fer fram og því ætti auðvitað að stuðla að því að hún fari fram þar sem endurnýjanlegar orkulindir eru tiltækar og heildarlosun minnst. Annað er rökleysa og andstætt samningnum um lofstlagsbreytingar. Útfærsla á íslenska ákvæðinu sem samþykkt var í Kyoto þarf að tryggja að slík nýting verði ekki takmörkuð. Þetta er eitt mesta hagmunamál íslensku þjóðarinnar um þessar mundir og eitt helsta viðfangsefni stjórnvalda. Við megum ekki setja okkur í heimatilbúna fjötra sem ógna myndu efnahagslegri og félagslegri framþróun þjóðarinnar með ófyrirséðum afleiðingum, enda væri slíkt í andstöðu við markmið rammasamningsins.

Nú er liðið rúmlega ár frá því að starfsemi Orkustofnunar var skipt í rekstrareiningar sem eiga að vera fjárhagslega sjálfstæðar. Tekjur rannsóknasviðsins og vatnamælinga eiga að standa undir öllum kostnaði sem starfseminni er samfara, m.a. með kaupum orkumálasviðs stofnunarinnar á þjónustu. Þessar breytingar voru m.a. gerðar til þess að aðgreina samkeppnisrekstur í starfsemi stofnunarinnar frá öðrum rekstri í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar. Þessi nýskipan er lengra komin á stofnuninni en hjá flestum ríkisstofnunum. Sú reynsla sem fengin er af breytingunni virðist almennt vera góð, þó auðvitað komi eitthvað upp sem betur má fara. Á það hefur verið bent af forráðamönnum stofnunarinnar að á sumum sviðum búi rannsóknasviðið við lakari samkeppnisstöðu en einkafyrirtæki, t.d. í sambandi við endurgreiðslu virðisaukaskatts. Það þarf að lagfæra. Ég vil þakka gott samstarf við stofnunina við að koma þessum skipulagsbreytingum til framkvæmda.

Nú er unnið að gerð árangursstjórnunarsamnings við Orkustofnun eins og aðrar ríkisstofnanir. Í samningnum munu koma fram þær megináherslur sem ráðuneytið hefur í starfsemi stofnunarinnar. Meðal þess sem væntanlega verður lögð aukin áhersla á eru almennar orkubúskaparrannsóknir, upplýsingasöfnun um hagkvæma orkunotkun og útgáfumál. Í því sambandi er ánægjulegt að ritið Orkumál er farið að koma út að nýju. Sömuleiðis verður lögð áhersla á að rannsóknir á orkulindunum miði að nýtingu þeirra til að efla atvinnu og stuðla að nýsköpun. Ennfremur verður stofnuninni væntanlega falið að vinna að endurmati á orkulindum landsins, m.a. með tilliti til umhverfisverndar.

Ég vil að lokum nota þetta tækifæri og þakka starfsmönnum Orkustofnunar fyrir gott og ánægjulegt samstarf á liðnu ári.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum