Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

26. mars 1998 MatvælaráðuneytiðFinnur Ingólfsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 1996-1999

Byggðastefna og nýsköpun, Ráðstefna á Hótel Örk

Finnur Ingólfsson,
iðnaðar- og viðskiptaráðherra


Ágætu ráðstefnugestir.

Eitt af brýnustu viðfangsefnum íslenskra stjórnmála er glíman við flutning fólks af landsbyggðinni. Nátengd þeirri glímu er baráttan fyrir fjölgun starfa, áhugaverðra og vel launaðra starfa á landsbyggðinni og þar með nýsköpun í atvinnulífinu. Því er ekki nema eðlilegt að þessi tvö viðfangsefni séu fléttuð saman á ráðstefnu sem þessari.


I.

Auðvitað eru fjölgun starfa og nýsköpun í atvinnulífinu alls ekki einu atriðin sem hafa þarf í huga þegar rætt er um byggðamál og tilhneigingu landsbyggðarfólks til að flytjast búferlum, setjast að í Reykjavík eða næsta nágrenni hennar. Rannsóknir Byggðastofnunar hafa t.d. sýnt að menntun, þjónusta við íbúana, framboð á ýmis konar menningu og afþreyingu, nálægð við skyldmenni og ýmislegt fleira hefur hér mikil áhrif. Þetta breytir því hins vegar ekki að fjölbreytt atvinnulíf, sem stendur styrkum fótum, er ein þeirra meginstoða sem þurfa að vera til staðar, eigi byggð að þrífast á viðkomandi svæði.

Um leið og ég segi þetta vil ég hins vegar undirstrika að ég tel að tími bjargráða stjórnvalda gagnvart einstökum fyrirtækjum eða byggðarlögum sé liðinn. Ég tel að við þurfum að beita öðrum tækjum og annarri tækni í framtíðinni, til að tryggja byggð í landinu og færi fyrir því ákveðin rök, sem m.a. byggja á rannsóknum Byggðastofnunar. Rannsóknir stofnunarinnar marka raunar nokkur tímamót og eiga að mínu mati þátt í því að umræðan um byggðamál hefur á síðustu mánuðum verið að færast á annað og heillavænlegra stig en áður var.


II.

Meðal þess sem þær hafa sýnt fram á er að íbúar smæstu þéttbýliskjarnanna eru oft ánægðari með búsetu sína en þeir sem búa í miðlungsstórum bæjum. Kröfur hinna síðarnefndu til umhverfisins virðast oft vera meiri en hinna, viðmiðunin eru bæir með mörg þúsund eða jafnvel tugi þúsunda íbúa. Þessi miðlungsstóru sveitarfélög standa hins vegar oft ekki undir væntingum íbúanna og því fer sem fer.

Ég tel að sterkasta vopnið til að snúa þessari þróun við sé uppbygging sterkra byggðakjarna á nokkrum stöðum á landinu. Byggðakjarna sem að minnsta kosti eru á stærð við Akureyri, eða eigum við að segja Eyjafjarðarsvæðið. Byggðakjarna sem hafa um eða yfir 10.000 íbúa og geta þar með risið undir þeim kröfum sem nútímafólk gerir um lífskjör og ýmis konar þjónustu.

Í þessum kjörnum á að vera hægt að veita menntun við hæfi, þar á að vera hægt að viðhalda öflugri heilbrigðisþjónustu, menning og afþreying ýmis konar eiga að geta blómstrað þar og þannig mætti áfram halda. Ein meginforsenda þess að þessir kjarnar geti orðið til og þrifist er hins vegar enn og aftur; fjölbreytt og öflugt atvinnulíf.

Til uppbyggingar atvinnulífsins og nýsköpunar höfum við ýmis tæki, ýmsar stofnanir, félög og fyrirtæki. Ég nefni Byggðastofnun, Iðntæknistofnun, atvinnuþróunarfélög, Iðnþróunar-félög, atvinnuráðgjafa, framfarafélög, ýmis konar sjóði og eignarhaldsfélög. Listinn er ekki tæmandi en gefur vísbendingu um þann fjölda aðila sem eru að sinna verkefninu.


III.

Oft, og það er miður, vinna þessir aðilar hver í sínu horni, vita lítt hver af öðrum og vilja jafnvel ekki vita. Menn halda fast í sitt, kæra sig ekki um að aðrir horfi yfir öxl þeirra og árangurinn er eftir því.

Vissulega má benda á árangursríkt starf hjá öllum þeim aðilum sem ég taldi upp hér að framan en ég er algjörlega sannfærður um að við getum gert miklu betur. Ef stjórnvöld, sveitarfélög og þær stofnanir, félög og fyrirtæki, sem nú eru að sinna málaflokknum, leggðust á eitt með ákveðinni samtengingu, tækju upp mun nánara samstarf en nú er og rynnu jafnvel saman í eitt með tímanum, er ég viss um að við næðum betri árangri.

Nú sé ég, sem betur fer, ýmis teikn á lofti um að breyting kunni að verða hér á. Í farvatninu kunna að vera breytingar á starfsemi Byggðastofnunar sem leiða til þess að starf atvinnu-þróunar--félaga, atvinnuráðgjafa, iðnþróunarfélaga og fleiri slíkra aðila eflist og samstarf þeirra eykst. Ég tel rétt að efla samstarf þessara aðila en einnig Iðntæknistofnunar og er reiðubúinn að beita mér fyrir slíku. Ég vil líka beita mér fyrir mun nánara samstarfi en nú er milli þessara aðila og Markaðsskrifstofu Iðnaðarráðuneytisins og Landsvirkjunar annars vegar en Fjárfestingar-skrifstofu Íslands hins vegar.

Með því að samtengjast, samhæfa krafta sína og skipta með sér verkum með meðvituðum hætti er ég sannfærður um að allir þessir aðilar nytu góðs af. Fyrst og síðast nyti þó atvinnulífið og þar með fólkið í landinu góðs af slíkum breytingum.


IV.

Þegar hugað er að eflingu landsbyggðarinnar og bættum lífsskilyðrum þar tel ég að tvö atriði vegi þyngst á vogarskálunum:
· Í fyrsta lagi öflugt atvinnulíf.
· Og í öðru lagi lækkun orkuverðs.

Í iðnaðarráðuneytinu hefur á kjörtímabilinu verið lagður grunnur að lækkun orkuverðs á landsbyggðinni. Þar ber hæst stefnumörkun um skipulagsbreytingar á orkumarkaði sem í stuttu máli fela einkum tvennt í sér sem lækkað getur orkuverð.
· Í fyrsta lagi stefnumótun eigenda Landsvirkjunar sem gerir ráð fyrir að frá og með árinu 2000 lækki orkuverð fyrirtækisins að raunvirði um 2%-3% á ári í amk. 10 ár eða um 20-30%. Stóraukin erlend fjárfesting í orkufrekum iðnaði undanfarin þrjú ár gerir þetta mögulegt.
· Í öðru lagi stefnumótun sem lögð hefur verið fram á Alþingi og gerir ráð fyrir að smám saman verði opnað fyrir samkeppni í orkuvinnslu og sölu. Með aukinni samkeppni má gera ráð fyrir lækkun orkuverðs til neytenda en orkujöfnun jafnframt tryggð.

Aðrar aðgerðir til lækkunar orkuverðs sem nú er unnið að í ráðuneytinu í samvinnu við Orkustofnun og fleiri eru:
· Í fyrsta lagi sérstakt átak í leit að jarðhita á svæðum sem til þessa hafa verið talin köld og frekari rannsóknir á svæðum þar sem frumrannsóknir gefa tilefni til frekari aðgerða.
· Og í öðru lagi átak sem ætlað er að koma til móts við þá neytendur á köldum svæðum, sem einhverra hluta vegna, s.s. vegna lélegrar einangrunar, vanstillingar hitakerfa eða af öðrum orsökum, bera meiri kostnað af kyndingu en eðlilegt má teljast.

Að orkumálunum frátöldum tel ég atvinnumálin skipta mestu máli við styrkingu landsbyggðarinnar og vík ég þá aftur að uppbyggingu stórra og öflugra byggðakjarna sem boðið geta höfuðborgarsvæðinu byrginn, í jákvæðri merkingu þó.

Þá þróun sem við höfum orðið vitni að á undanförnum árum, og felur í sér stöðugan straum fólks af landsbyggðinni, verður að stöðva. Það verður hins vegar ekki gert með boðvaldsaðgerðum eða hindrunum af nokkru tagi. Það verður einungis gert með því að bæta búsetuskilyrði á landsbyggðinni, sem aftur verður best gert með uppbyggingu sterkra byggðakjarna. Þessir byggðakjarnar verða að skapast á fleiri stöðum en suðvesturhorninu eins og nú er.

Búferlaflutningar fólks úr sveitum og fámennari þéttbýlis-kjörnum til stærri staða eru langt í frá sér íslenskt fyrirbrigði. Það að straumurinn liggi nánast allur í eina átt er hins vegar sérstakt vandamál. Í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við hefur þróunin víðast orðið sú að úr sveitum og smábæjum flyst fólk í nærliggjandi sterka byggðakjarna, þeir styrkast enn frekar og mynda þannig mótvægi við stærstu borgirnar. Þessari stöðu verðum við að ná.


V.

Í ráðuneytum mínum og undirstofnunum þess hefur að undanförnu verið lögð nokkur vinna í það að skilgreina kosti einstakra landssvæða, sérstaklega með tilliti til mögulegrar uppbyggingar iðnaðar sem nýtir orkuauðlindirnar, þ.e. raforkuna og gufuna. Þetta hefur raunar verið gert á fleiri sviðum, s.s. á sviði matvælaiðnaðar.

Í slíkri greiningu er farið ofan í saumana á kostum og göllum viðkomandi landssvæðis og horft til ótal margra ólíkra atriða. Lagt er mat á vinnumarkað, menntun á svæðinu, aðgang að orku, náttúruleg skilyrði, s.s. höfn, möguleika á vatnsöflun, samgöngur og þannig gæti ég haldið áfram. Þetta starf tel ég mjög mikilvægt og legg áherslu á að samstarf á þessu sviði geti komist á sem fyrst.

Á niðurstöðum slíkra greininga má svo byggja áframhaldandi vinnu, hvort sem hún lítur að leit að erlendum fjárfestum inn í starfandi fyrirtæki á svæðinu, uppbyggingu orkufreks iðnaðar, uppbyggingu ferðaþjónustu, jarðefnaiðnaðar, matvælavinnslu, þekkingariðnaðar eða raunar hvers sem er.

Með þessum greiningum má einnig gera sér grein fyrir með hvaða hætti er skynsamlegast að byggja upp þá byggðakjarna sem ég lýsti hér að fram yfir að ég teldi að þyrftu að byggjast upp. Lesa má úr þeim hvaða úrbætur þurfi að gera í samgöngumálum, hvort þurfi og þá hvernig megi, efla menntun á svæðinu, hvort afla megi nægilegrar orku til atvinnuuppbyggingar, með hvaða hætti megi og þurfi að breyta eða bæta samsetningu vinnumarkaðar, og svo framvegis. Allt eru þetta atriði sem eru til þess fallin að styrkja byggðina og hægja á straumnum suður.

Góðir ráðstefnugestir.

Ég tel að við berum öll nokkra ábyrgð á því hvernig til tekst á næstu misserum við uppbyggingu atvinnulífs á landsbyggðinni og nýsköpun þess. Við þurfum að taka höndum saman við það verkefni, það getum við og það eigum við að gera. Heimamenn þurfa að hafa frumkvæði að atvinnuskapandi verkefnum og hafa kjark og dug til að drífa þau áfram en stjórnvöld, hvort sem eru á landsvísu eða í héraði verða að styðja slíka viðleitni með ráðum og dáð.

Í þessu sambandi bendi ég á að barlómur heimamanna og að því er virðist misvel ígrundaðar spár t.d. Byggðastofnunar um búsetuþróun í landinu, geta haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar. Það að spá fyrir um stórkostlegan fólksflótta frá ákveðnum svæðum og nánast eyðingu þeirra í búsetulegum skilningi getur verið stórkostlega varasamt.

Ef Byggðastofnun eða einhver annar hefði t.d. tekið mið af þeirri þróun sem átti sér stað frá árinu 1973 til fyrstu ára níunda áratugarins, þegar heldur fleiri fluttust frá höfuðborgarsvæðinu en til þess og byggt framtíðarspár sínar á þeim staðreyndum, hefði niðurstaðan eflaust orðið sú að enginn byggi þar að einhverjum tíma liðnum. Raunin er allt önnur og því ættum við að varast heimsendaspár í þessu samhengi sem öðru.

Ábyrgð stjórnmálamannanna í þessu efni er hins vegar einnig mjög mikil og þá gildir einu hvort horft er til alþingismanna eða sveitarstjórnarmanna. Aðgerðir okkar skipta miklu máli en við skulum vera minnug þess að það getur líka skipt sköpum hvernig við tölum. Með því að berja sífellt lóminn og kvarta yfir því hvað allt sé nú grámóskulegt, tilbreytingarlítið og óspennandi í héraði en glansandi, lítríkt og fjölbreytt í henni Reykjavík, erum við að hvetja landsbyggðarfólk til að flytjast til höfuðborgarinnar.

Okkar hlutverk er þvert á móti að vekja með íbúunum bjartsýni, hvetja þá til dáða, hrífa þá til samstarfs og hefja nú þegar sókn til betra lífs í landinu öllu.


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum