Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

2. apríl 1998 MatvælaráðuneytiðFinnur Ingólfsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 1996-1999

Ræða á ársfundi Verðbréfaþings Íslands, 2. apríl 1998.

 


Ágætu ársfundargestir!
Einn mikilvægasti þáttur í uppbyggingu og vexti fjölbreyttrar atvinnustarfsemi er greiður aðgangur atvinnufyrirtækja að áhættu- og lánsfé. Brýnast í þessu efni er greiður aðgangur að hlutafé sérstaklega til að efla nýsköpun og vöxt í litlum og meðalstórum fyrirtækjunum. Þetta hefur verið eitt af meginmarkmiðum stjórnvalda við endurskipulagningu og þróun íslensks fjármagnsmarkaðar á liðnum misserum.
Hér hefur Verðbréfaþing Íslands lykilhlutverki að gegna og það er mér því sérstök ánægja að fá tækifæri til að ávarpa þennan ársfund.

Efnahagsstefnan – styrkleikar og veikleikar í íslensku efnahagslífi
Alþjóðastofnanir hafa undanfarið lofað þann góða árangur sem náðst hefur á sviði efnahagsmála meðal annars vegna endurskipulagningar á fjármagnsmarkaði og aukinnar erlendrar fjárfestingar. Hækkandi lánshæfismat íslenska ríkisins ber efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar gott vitni.

Styrkleikar
Hin viðamikla árlega athugun um samkeppnishæfni þjóða, World Competiveness Report, sýnir að staða okkar er að styrkjast. Á síðasta ári lentum við í 21. sæti af 46 þjóðum og hækkuðum um fjögur sæti frá árinu á undan. Í ljós kemur að efnhagslegur styrkur þjóðarinnar er mikill. Innviðir þjóðfélagsins eru traustir enda mannauður með því besta sem gerist. Þetta kemur væntanlega ekki á óvart.
Íslenskt efnhagslíf hefur tekið algerum stakkaskiptum á undanförnum árum. Aukið viðskiptafrelsi, frjálsir fjármagnsflutningar, lág verðbólga samfara miklum hagvexti, vaxandi fjárfesting, lækkandi vextir og jafnvægi í ríkisbúskapnum eru allt atriði sem bera vitni um að efnahagslegur styrkur þjóðarinnar er mikill um þessar mundir. Það sem meira er um vert; við sjáum fram á að búa við hagstætt umhverfi næstu árin og tækifæri er til þess að skapa enn betri grunn fyrir komandi kynslóðir. Við þurfum að byggja upp nýjar stoðir í efnhagslífinu, auka samkeppni, greiða niður erlendar skuldir og auka sparnað þjóðarinnar.

Veikleikar
Til að auka styrk okkar Íslendinga er nauðsynlegt að skoða þá þætti í atvinnu- og efnahagslífinu sem að mati alþjóðlegra stofnana þarf helst að bæta úr, en þau atriði eru:
að auka fjölbreytni á fjármagnsmarkaðnum
að efla samkeppni á öllum sviðum
að auka alþjóðavæðingu efnahagslífsins og
treysta vísinda- og tæknistarf.
Á síðustu misserum hafa verið gerðar róttækar breytingar á þessum sviðum sem munu án efa bæta samkeppnisstöðu okkar og leggja grunn að enn frekari efnhagslegum framförum í landinu. Hér vil ég þó sérstaklega gera að umtalsefni málefni fjármagnsmarkaðarins og aukna alþjóðavæðingu í íslensku viðskiptalífi.

Fjármagnsmarkaður
Miklar umbætur hafa orðið á fjármagnsmarkaði á allra síðustu missserum.
Með hlutafélagavæðingu ríkisbankanna og sameiningu fjögurra fjárfestingarlánasjóða í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins h.f. og Nýsköpunarsjóð urðu tímamót. Þessum breytingum hafði verið beðið eftir í áratug.
Þessar skipulagsbreytingar á fjármagnsmarkaði voru endanlega staðfestar á fyrstu reglulegu aðalfundum Landsbanka Íslands h.f., Búnaðarbanka Íslands h.f. og Fjárfestingarbanka atvinnulífsins h.f., sem allir voru haldnir í síðasta mánuði. Á aðalfundi félaganna voru stofnreikningar staðfestir og ákvarðanir kynntar um að félögin yrðu öll skráð á Verðbréfaþingi Íslands á þessu ári.
Endurskipulagning á fjármagnsmarkaðnum og ákvörðun um að hinir þrír nýstofnuðu hlutafélagabankar verði skráðir á hlutabréfamarkaði mun hafa veruleg áhrif á hlutabréfamarkaðinn. Miðað við áætlað markaðsvirði hlutafjár þessara aðila, gæti skráning þess, aukið markaðsverðmæti skráðra félaga um allt að fimmtung. Þetta myndi einnig þrefalda markaðsvirði fjármálafyrirtækja sem standa almenningi til boða á Verðbréfaþingi Íslands og myndi vera til þess fallið að dýpka þennan markað frá því sem nú er.

Alþjóðavæðing íslensks viðskiptalífs
Annar þáttur sem styrkja þarf er alþjóðavæðing atvinnustarfseminnar. Hér skiptir sköpum að erlend fjárfesting er að aukast, bæði í atvinnurekstri og í verðbréfaviðskiptum. Mikill árangur hefur orðið af markaðsstarfi á sviði stóriðju. Þá er hugað markvisst að aukinni erlendri fjárfestingu á öðrum sviðum. Árangurinn af undirbúningsstarfi stjórnvalda er þegar farinn að skila sér í nýjum fjárfestingum.
Hin hliðin á alþjóðavæðingunni er aukinn útflutningur og fjárfestingar Íslendinga erlendis. Erlendar rannsóknir sýna að margfeldisáhrif af fjárfestingu erlendis á innlent atvinnulíf geti verið um 3.5 falt og því er mikilvægt að greiða fyrir þeim. Þar hafa stjórnvöld beitt sér fyrir margvíslegum aðgerðum.

Í fyrsta lagi er Nýsköpunarsjóðnum ætlað stórt hlutverk við fjárfestingar íslenskra aðila erlendis en það er eitt af þremur meginverkefnum sjóðsins.

Í öðru lagi tekur viðskiptaráðuneytið þátt fyrir Íslands hönd í samningaviðræðum OECD um fjölþjóðlegan fjárfestingarsáttmála sem mun sérstaklega koma litlum og meðalstórum fyrirtækjum sem hyggja á landvinninga erlendis til góða.

Í þriðja lagi hefur ríkisstjórnin ákveðið að endurskoða skattamál íslenskra fyrirtækja. Fyrir Alþingi liggur frumvarp sem mun meðal annars auðvelda heimflutning hagnaðar og koma í veg fyrir tvísköttun á arði. Það tel ég að sé lykilatriði varðandi fjárfestingar innlendra aðila erlendis.

Aukin fjárfesting innlendra aðila erlendis krefst í flestum tilvikum styrkingar á eiginfjárstöðu viðkomandi félags. Skilvirkur og öflugur hlutabréfamarkaður er í því sambandi mikilvægur þáttur til að greiða fyrir alþjóðavæðingu íslensks atvinnulífs.

Ný löggjöf um starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða
Hér á undan hef ég rætt nokkuð um samkeppnisstöðu Íslands og með hvaða hætti ríkisstjórnin hefur beitt sér til að styrkja efnahagslífið.
Ég er ekki í nokkrum vafa um það að sú starfsemi sem fram fer hjá Verðbréfaþingi Íslands hafi miklu hlutverki að gegna til þess að unnt sé að skjóta enn styrkari stoðum undir atvinnulífið í landinu. Á undanförnum árum hefur sést þess glöggt merki að íslensk atvinnufyrirtæki líta æ meir til hlutabréfamarkaðarins og þeirra möguleika sem þar bjóðast til öflunar á auknu eigin fé.

Aukin samkeppni og einn innri markaður í Evrópu
Hinn sameiginlegi innri markaður í Evrópu hefur haft hér áhrif. Íslenskum fyrirtækjum gefast nú aukin tækifæri erlendis. Jafnframt eykst samkeppni á öllum sviðum, einnig á sviði fjármálaþjónustu.
Í nágrannaríkjum okkar hefur samkeppni aukist á undanförnum árum í viðskiptum á hlutabréfamörkuðum svo og öðrum hlutum verðbréfamarkaðarins. Til þess að vera betur í stakk búin til þess að mæta harðnandi samkeppni hafa ýmis ríki ákveðið að afnema einkarétt kauphalla á því að skrá og stunda viðskipti með skráningarhæf verðbréf. Meginaflvaki að afnámi einkaréttar hefur því verið að auka samkeppnislegt aðhald með starfseminni og útrýma reglum sem kunna að hamla virkri samkeppni og frjálsum viðskiptum á verðbréfamarkaðnum. Auk þess er brýnt að rýmka starfsheimildir kauphalla til þess að þær fái betur staðist hina alþjóðlegu samkeppni.

Afnám einkaréttar
Þegar breytt var gildandi lögum um Verðbréfaþing Íslands árið 1996 ákvað Alþingi að stefnt skyldi að því að afnema einkarétt Verðbréfaþings Íslands af verðbréfaþingsstarfsemi eigi síðar en við árslok 1997.
Á grundvelli þessarar stefnumörkunar á Alþingi skipaði ég nefnd sem skilaði á síðast liðnu hausti frumvarpi til laga um starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða. Á næstunni mun Alþingi væntanlega afgreiða frumvarp þetta sem lög frá Alþingi

Nýmæli í löggjöf - skipulegur tilboðsmarkaður og yfirtökutilboð
Auk þess að afnema einkarétt af verðbréfaþingsstarfsemi þá er í frumvarpinu að finna nokkur mikilvæg nýmæli.
Í fyrsta lagi er kveðið þar sérstaklega á um starfsemi skipulegra tilboðsmarkaða þar sem viðskipti fara fram með verðbréf sem ekki hafa verið opinberlega skráð í kauphöll. Nauðsynlegt er að til séu viðurkenndir markaðir þar sem stunduð eru viðskipti með verðbréf sem lúta öðrum og vægari kröfum en gerðar eru í kauphöll.
Slíkir markaðir eru nauðsynlegir fyrir smærri fyrirtæki svo og fyrir þau fyrirtæki sem vegna sérstakra aðstæðna telja sér ekki fært að leita eftir opinberri skráningu í kauphöll.
Eins og ég gat um í upphafi þá tel ég mikilvægt að litlum og meðalstórum fyrirtækjum séu skapaðir betri möguleikar á að afla hlutafjár á markaði. Til lengri tíma litið þá mun þetta verða til þess fallið að styrkja nýsköpun og atvinnuuppbyggingu í landinu. Samkvæmt frumvarpinu og í samræmi við þá stefnumörkun að rýmka skuli starfsheimildir samhliða afnámi einkaréttar á starfsemi Verðbréfaþingsins þá verður því heimilt að starfrækja skipulegan tilboðsmarkað til viðbótar við þá starfsemi sem fellur undir starfsemi kauphallar.

Í öðru lagi er gerð tillaga um að lögfesta hér á landi í fyrsta sinn ákvæði um yfirtökutilboð í félagi sem hefur verið opinberlega skráð í kauphöll. Í mörg ár hefur verið rætt um nauðsyn þess að hér á landi skuli sett ákvæði í lög um þetta efni. Þannig ályktaði Alþingi árið 1992 að nauðsynlegt væri að setja reglur þar um. Það er því ánægjulegt að nú verði lögleidd hér á landi ákvæði sem vernda minnihluta hluthafa í skráðum félögum. Lagt er til að um yfirtökutilboð gildi skýrar reglur meðal annars um hvenær skylt er að gera öðrum hluthöfum tilboð um að kaupa hlut þeirra í félagi þar sem einn aðili hefur eignast meirihluta hlutafjár eða stjórnar félaginu á annan hátt.

Í þriðja lagi er að finna ákvæði í frumvarpinu sem skjóta styrkari stoðum undir starfsemi Verðbréfaþingsins, eða kauphallarinnar. Þetta á m.a. við um upplýsingaskyldu útgefenda verðbréfa sem tekin hafa verið til skráningar í kauphöll. Það er afar mikilvægt til þess að treysta viðskipti og verðmyndun í kauphöll, að skýrar reglur gildi um upplýsingagjöf fyrirtækja og miðlun þeirra til markaðarins. Skýrari reglur eru settar um rétt og skyldu stjórnar kauphallar til þess að hafa eftirlit með þeim viðskiptum sem eiga sér stað á vettvangi hennar, svo og um réttindi og skyldur markaðsaðilanna.

Ný lög um starfsemi kauphalla og skipulega tilboðsmarkaði munu skapa traustan grundvöll fyrir skipulögðum verðbréfaviðskiptum hér á landi þar sem fylgt er sömu meginreglum og gilda um þessi efni hjá nágrannaríkjum okkar.
Ég tel mikilvægt að byggð verði upp öflug íslensk kauphöll þar sem fullnægjandi sérhæfing á sér stað í viðskiptum með innlend verðbréf og önnur þau bréf sem markaðurinn telur nauðsynlegt hverju sinni. Því er brýnt að gott samkomulag takist um stofnun hlutafélags um starfsemi kauphallar á grundvelli hinna nýju laga. Stefna ber að því að hið nýja félag taki til starfa eigi síðar en 1. júlí 1999.

Góðir fundargestir
Mörg verkefni hafa verið unnin á síðustu misserum til þess að efla og tryggja samkeppnisstöðu þeirra sem starfa á fjármagnsmarkaði. Þjóðhagsleg nauðsyn á áreiðanlegu fjármálakerfi er óumdeilanleg. Jafnframt verður að vera tryggt að skipulag þess sé með þeim hætti að það styðji við uppbyggingu og nýsköpun í atvinnulífinu. Framundan bíða því mörg verkefni að hrinda þessari stefnu í framkvæmd og eins og ég gat um í upphafi þá hefur Verðbréfaþing Íslands þar veigamiklu hlutverki að gegna.

Ég þakka áheyrnina.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum