Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

2. maí 1998 MatvælaráðuneytiðFinnur Ingólfsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 1996-1999

Ávarp við lagningu hornsteins að Nesjavallarvirkjun

 

 

I.
Góðir gestir.

Stóriðjuframkvæmdir sem unnið er að um þessar mundir kalla á mikla aukningu í raforkuvinnslu. Álver Norðuráls og stækkun ÍSALs og Járnblendiverksmiðjunnar auka raforkuvinnsluna um rúmlega 50% milli áranna 1995 og 2000. Raforkan frá Nesjavallarvirkjun er mjög mikilvægur hlekkur í langri keðju raforkuframkvæmda sem ráðast þurfti í til að mæta orkuþörf iðjuveranna. Virkjunin er einn áfangi á leið okkar til aukinnar nýtingar orkulindanna og betri lífskjara þjóðarinnar. Þess vegna er lagning hornsteins að Nesjavallarvirkjun mikil gleðistund.
En það er ekki síður gleðilegt að sjá hversu vel hefur tekist til við framkvæmdir hér að Nesjavöllum. Þrátt fyrir unnið hafi verið undir mikilli tímapressu við að reisa þessa virkjun hefur kostnaður verið um 800 milljónum undir áætlun. Arðsemi virkjunarinnar hækkar úr 7,6% í 9% vegna þessa. Allir þeir sem að virkjun þessari hafa staðið eiga því þakkir skildar fyrir það hversu vel hefur tekist til.
Ekki má heldur gleyma því að meiri arðsemi virkjunarinnar og hagstæður samningur Reykjavíkurborgar og Landsvirkjunar um Nesjavallarvirkjun mun koma öllum Reykvíkingum til góða með enn lægra raforkuverði í framtíðinni. Á síðustu fjórum árum hefur raunlækkun raforkuverðs í Reykjavík verið um 5%. Raforkuverð mun fara enn lækkandi. Þannig hafa eigendur Landsvirkjunar sett fyrirtækinu skýrt markmið um 2-3% árlega raunlækkun raforkuverðs á árunum 2001-2010. Raforkuverð gæti því hæglega orðið þriðjungi lægra árið 2010 en það var árið 1995.
II.
Ég er ekki í nokkrum vafa um það að aukin nýting orkulindanna til stóriðju á síðustu misserum er ein helsta forsenda þess að okkur hefur tekist að snúa vörn í sókn í atvinnumálum, auka hagvöxt og fjárfestingu og skapa þannig skilyrði til bættra lífskjara. Þetta birtist meðal annars í því að kaupmáttur heimilanna hefur aukist um nálega 20% frá árinu 1995.
Þessu þarf að fylgja eftir. Framkvæmdir við orkuver og þegar umsamda stóriðju sem hófst í lok árs 1995 munu halda áfram fram á árið 2000. Ef ekki kemur til ný erlend fjárfesting á sviði orkufreks iðnaðar að þessum framkvæmdum loknum er hætt við að mjög dragi úr hagvexti. Til að koma í veg fyrir að það ástand skapist er þegar farið að huga að næstu skrefum í nýtingu orkulindanna eins og kunnugt er.
Nokkur verkefna bera þar hæst. Áhugi Norðuráls á því að stækka verksmiðju sína um 30 þúsund tonn er þekktur og líklegt að ákvörðun um stækkun verði tekin fljótlega eftir að sá áfangi verksmiðjunnar sem nú er á lokastigi verður kominn í fullan rekstur. Íslensk stjórnvöld og Landsvirkjun eru í samvinnu við Hydro Aluminum að kanna möguleika á að reisa álver og orkuver hér á landi. Með kaupum ástralska fyrirtækisins Australian Magnesium Investment í þessum mánuði á 40% hlut í Íslenska magnesíumfélaginu hefur magnesíumverkefnið góðan liðsstyrk en félagið vinnur sem kunnugt er að undirbúningi magnesíumverksmiðju á Reykjanesi. Auk þessa hafa minni iðjukostir verið til skoðunar af ýmsum aðilum, svo sem verksmiðja til framleiðslu á polyoli og slípiefnum.
Það eru því mörg járn í eldinum enda nauðsynlegt því stóriðjuverkefni eiga langan meðgöngutíma. Þó nauðsynlegt sé að horfa til framtíðar skulum við í dag gleðjast yfir þeim merka áfanga sem bygging Nesjavallarvirkjunar óneitanlega er.

Ég þakka fyrir.


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum