Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

26. febrúar 1999 MatvælaráðuneytiðFinnur Ingólfsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 1996-1999

Ræða á Iðnþingi, 26. febrúar 1999.

 

 

Ísland í fremstu röð.


1. Hagþróun og hugarfar.
Góðir Iðnþingsgestir. Nú við aldahvörf er velsæld meiri á Íslandi og byggð á traustari grunni en nokkru sinni áður á lýðveldistímanum. Síðustu ár hafa verið okkur Íslendingum einstaklega hagstæð. Þar tala hagstærðir sínu máli. Hagvöxtur hefur verið mikill, verðbólga lág, atvinnuleysi nánast útrýmt, skuldir lækkaðar og útgjöld til heilbrigðis-, mennta- og félagsmála stóraukin. Framleiðni í atvinnulífinu hefur aukist hröðum skrefum, erlend fjárfesting margfaldast, kaupmáttur hefur vaxið meira en áður eru dæmi um og ríkissjóður er rekinn með afgangi og lán hans greidd upp í stórum stíl, innanlands sem utan.
Þetta eru ekki nýjar fréttir. Jafnvel mætti kalla þennan söng lofsöng. En hann er ekki bara sunginn af okkur í okkar eigin garði, heldur hvað hæst af alþjóðastofnunum sem bera mikið lof á árangur undangenginna ára í íslensku efnahagslífi. Það er ekki að ófyrirsynju. Hugarfarið hefur breyst. Á því leikur ekki nokkur vafi. Í stað barlóms fyrri ára hleypur nú ungum framtakssömum mönnum og konum kapp í kinn við að byggja upp fyrirtæki í nýjum atvinnugreinum og sækja gjarnan á fjarlæg erlend mið í markaðssókn sinni. Þannig verður útflutningur fjölbreyttari og stoðir atvinnulífsins traustari. Fáum hefði dottið í hug í byrjun þessa áratugar að hámenntaðir íslenskir vísindamenn myndu flytja heim í tugatali til að starfa við erfðatækni, hugbúnaðarfyrirtæki myndu gera risasamninga við erlend stórfyrirtæki og útrás íslenskra fyrirtækja yrði jafn víðtæk og raun ber vitni, svo fátt eitt sé nefnt í sífellt fjölbreyttari flóru íslensks atvinnulífs.
Sá árangur sem nú hefur náðst er lítill í samanburði við þann árangur sem við getum náð á næstu árum auðnist okkur að halda jafnvel á spilunum og vera jafn staðföst við stjórn efnahagsmála og við höfum verið á síðastliðnum fjórum árum. Markmiðið er að Ísland verði í fremstu röð meðal þjóða heims sem búa þegnum sínum bestu lífsgæðin að fjórum árum liðnum. Til að ná því marki þurfum við að ráðast í ýmsar róttækar breytingar á íslensku efnahags- og atvinnulífi þannig að við sjáum nýjar atvinnugreinar vaxa og dafna.
Þar blasa tækifærin við á öllum sviðum fyrir utan þau sóknarfæri sem einnig eru fyrir hendi í hefðbundnum og rótgrónum atvinnugreinum eins og í sjávarútvegi og iðnaði. Hér á eftir vil ég nefna þrjú svið atvinnu- og efnahagslífsins þar sem ég tel að mikil sóknarfæri liggi.

2. Sóknarfæri í atvinnulífinu.

2.1. Rafræn viðskipti
Í upphafi vil ég nefna rafræn viðskipti. Í rafrænum viðskiptum felast nánast óþrjótandi möguleikar fyrir atvinnulífið. Rafræn viðskipti eru að gjörbylta hefðbundnum viðskiptaháttum. Viðteknar viðskiptavenjur breytast, milliliðum fækkar, viðskiptakostnaður minnkar, nánara samband ríkir á milli fyrirtækja og neytenda og nýir markaðir og vörur spretta upp. Hver sá sem hefur aðgang að Netinu getur boðið fram vörur og þjónustu og náð til neytenda hvar sem er í heiminum og með sama hætti getur neytandi keypt vörur og þjónustu á hinu sameiginlega markaðstorgi heimsins óháð tíma og stað.
Talið er að rafræn viðskipti verði helsta uppspretta hagvaxtar þegar ný öld gengur í garð. Rafræn viðskipti skapa ný sóknarfæri fyrir fyrirtæki og neytendur. Tækifæri fyrirtækja felast t.d. í opnum alþjóðlegum markaði, styttri afhendingartíma og minni útgjöldum. Ávinningur neytenda getur t.d. falist í alþjóðlegu vöruvali, skjótri úrlausn á þörfum og lægra verði.
Þrátt fyrir gríðarlegan vöxt rafrænna viðskipta eru enn ljón á veginum sem nauðsynlegt er að stjórnvöld og einkaaðilar fjarlægi í sameiningu. Þannig þarf að skapa traust á viðskiptunum, tryggja öryggi gagna og persónuupplýsinga og neytendavernd.
Að undanförnu hefur verið unnið að stefnumótun um rafræn viðskipti í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytum. Markmiðið með stefnumótuninni er að tryggja að rafræn viðskipti njóti viðurkenningar að lögum þannig að frjór jarðvegur skapist fyrir íslenskt viðskiptalíf til að vera í fararbroddi á þessu sviði. Ég mun nú á næstu vikum kynna aðgerðir sem ráðuneytið hyggst beita sér fyrir til að treysta undirstöður fyrir rafræn viðskipti.

2.2. Upplýsingatækni- og hugbúnaðariðnaður
Annað svið þar sem sóknarfærin eru gríðarleg er upplýsingatækni- og hugbúnaðariðnaður. Við Íslendingar höfum verið duglegir að tileinka okkur þessa nýju tækni og náð umtalsverðum árangri í hugbúnaðariðnaði. Ástæða þess er einkum sú að okkur hefur tekist að finna afmörkuð sérsvið innan upplýsingatækninnar þar sem lítil hugbúnaðarfyrirtæki hafa haslað sér völl með góðum árangri. Í nýlegri viðskiptaferð til Malasíu tók ég eftir því að það voru ekki hvað síst hugbúnaðarfyrirtækin sem vöktu athygli og komu mest á óvart. Flestum reynist þar létt að tengja fiskveiðar við Ísland, - en það þóttu nokkur tíðindi að hér á landi hafði tekist að byggja upp eins öflugt þekkingarsamfélag og raun bar vitni.
Það er flestum nokkuð ljóst að hugbúnaðariðnaðurinn mun á komandi árum verða einn af megin burðarásum atvinnuþróunarinnar og að þar munu skapast fleiri hálaunastörf en víðast annars staðar. Áhrif upplýsingatækninnar munu þó verða miklu víðtækari þar sem rétt notkun hennar mun geta leitt til aukins félagslegs jöfnuðar meðal landsmanna og styrkt búsetu á þeim stöðum sem nú eiga undir högg að sækja. Í þessu tilfelli má til glöggvunar benda á mikilvægi - fjarnáms, - fjarlækninga og - fjarvinnslu. Hina ískyggilegu byggðaþróun sem við höfum staðið frammi fyrir undanfarna áratugi þarf að stöðva og snúa við ef einhver kostur er á því.
Á grundvelli "Framtíðarsýnar ríkisstjórnarinnar um upplýsingasamfélagið" samþykkti ríkisstjórnin nýverið "markáætlun um rannsóknir og þróunarstarf í upplýsingatækni og umhverfismálum". Meðal þess sem þar er tekið á er nýting upplýsingatækninnar til að jafna aðstöðu til búsetu og sporna við byggðaröskun. Annar mikilvægur þáttur áætlunarinnar er að stuðla að kröftugri nýtingu upplýsingatækni innan fyrirtækja í framleiðslu og þjónustu. Tilgangur þess er að hvetja til aukinnar framleiðni í fyrirtækjum landsins, bæta arðsemi þeirra og efla alþjóðlega samkeppishæfni þeirra.
Með markáætluninni er boðið upp á stuðning við verkefni sem eru unnin í samvinnu upplýsingatæknifyrirtækja og framleiðslufyrirtækja í öðrum greinum atvinnulífsins. Ég tel mikilvægt að aðilar Samtaka iðnaðarins kynni sér þessa áætlun, enda eru þeir öðrum líklegri til að geta notið góðs af þeim verkefnum sem þar er boðið upp á.
Annað áhugavert verkefni sem vert er að kynna hér er sameiginleg vefsíða iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis og Samtaka iðnaðarins um íslenskan iðnað sem verið er að vinna að um þessar mundir. Markmiðið með vefnum er að gera skólafólki og almenningi kleift að fræðast um iðnaðinn með nýstárlegum hætti og sýna fram á að kröftugur iðnaður hljóti í vaxandi mæli að vera undirstaða nýrra starfa og betri lífskjara.

2.3. Afþreyingariðnaður
Ég vil í þriðja lagi víkja máli mínu að þeim geira atvinnulífsins sem tilheyrir svokölluðum afþreyingariðnaði. Víða í hinum vestræna heimi skipa greinar sem tilheyra afþreyingariðnaði efstu sæti þegar horft er til verðmæta- og atvinnusköpunar. Best þekktu dæmin um þetta eru ef til vill kvikmyndaiðnaðurinn í Bandaríkjunum og tónlistariðnaðurinn í Bretlandi. Hér á landi hefur hins vegar verið rík tilhneiging til þess að líta á þessar greinar fremur sem menningu eða hreinlega tómstundagaman en minna verið um, að fjallað væri um þær sem fullgildar atvinnugreinar. Eflaust er þar ýmsu um að kenna. Stjórnvöld eiga sinn þátt í því að svo er en það eiga einnig þeir sem þessar greinar stunda.
Við sjáum þess dæmi í samkeppnislöndum okkar að með markvissum aðgerðum stjórnvalda hafa þær vaxið mjög að umfangi. Taka má dæmi af kvikmyndaiðnaði á Írlandi. Í á að giska áratug hafa Írar lagt þunga áherslu á eflingu þessara greina með ótvíræðum árangri. Enginn velkist í vafa um að þaðan hafa komið afbragðsafurðir hvort sem litið er til kvikmynda eða tónlistar. Nýja Sjáland hefur á örfáum árum skapað sér nafn í kvikmyndaheiminum, Svíar eru orðnir með mestu útflutningsþjóðum á sviði tónlistar. Í Kanada voru á síðasta ári framleiddar meira en 100 kvikmyndir í fullri lengd á meðan þær voru 350 í Hollywood. Í öllum tilvikum hafa orðið til fjölmörg vel borguð störf, útflutningstekjur hafa aukist og verðmætin byggjast öll á einni ákveðinni auðlind – mannauðinum.
Ég tel að Íslendingar eigi mikla möguleika á þessu sviði. Við eigum hér ákaflega frjóan jarðveg sem úr sprettur fyrsta flokks fagfólk. Við getum nefnt dæmi eins Björk, Móu, Emilíönu Torrini og Bellatrix, allt tónlistarfólk, raunar konur, sem eru mislangt komnar á sinni þróunarbraut en eiga allar mikla möguleika. Í kvikmyndaiðnaði getur það sama gerst, þar eigum við fjölmarga góða fagmenn sem hafa sýnt og sannað að þeir eiga erindi á alþjóðamarkað. Þar nægir að nefna Íslensku kvikmyndasamsteypuna og Saga film sem dæmi. Á sviði kvikmyndanna eigum við líka einhverja mögnuðustu og fjölbreyttustu náttúrulegu leikmynd sem um getur. Allt eru þetta verðmæti ef rétt er á haldið.
Ég er þeirrar skoðunar að stjórnvöld eigi nú að þora að stíga djarft skref í að efla stuðning við þessar greinar og gera það af myndarskap. Í ráðuneytum mínum hefur á undanförnum árum farið fram mikil vinna með þessum atvinnugreinum og nú er komið að aðgerðum. Við eigum að styðja enn frekar og skipulegar við útflutning íslenskrar tónlistar og við eigum að efla íslenska kvikmyndagerð, ma. með því að laða hingað alþjóðleg kvikmyndafyrirtæki, sem við höfum nú betri tök á en nokkru sinni fyrr. Það mun efla innlend fyrirtæki og fagfólk í greininni.

3. Verkefni næstu fjögurra ára.
Góðir Iðnþingsgestir. Ísland er nú í 5. sæti á lista yfir ríkustu þjóðir heims samkvæmt OECD og í 5. sæti á lista Sameinuðu þjóðanna yfir þær þjóðir heims þar sem lífsgæðin eru mest. Árið 1994 var Ísland hins vegar í 11. sæti á lista OECD. Við höfum því færst upp um sex sæti á síðustu fjórum árum.
Ef rétt er á málum haldið má ná sambærilegum árangri á næstu fjórum árum. Markmiðið á að vera "Ísland í fremstu röð". Hagvöxtur gæti að jafnaði verið um 4-5% á ári á næstu fjórum árum. Í þessu fælist að lífskjör héldu áfram að batna með sama hraða og undanfarin ár og fyrir vikið færðist þjóðin upp listann yfir auðugustu þjóðir heims þar sem önnur lífsgæði eins og öryggi og velferð borgaranna, minni mengun og betri menntun eru lögð að jöfnu við auðinn.
En hvað þurfum við gera til að ná þessu markmiði á næstu fjórum árum?
· Í fyrsta lagi þurfum við að skapa fjölbreyttara atvinnulíf þar sem áhersla er lögð á þekkingariðnað. Þá munu nýjar greinar spretta upp sem byggjast á hugviti og þekkingu. Undir þeim kröfum atvinnulífsins verður menntakerfið að rísa, faglega og fjárhagslega.
· Í öðru lagi þurfum við að auka enn frekar alþjóðavæðingu atvinnulífsins. Þrátt fyrir gríðarlegan vöxt erlendra fjárfestinga og útrásar íslenskra fyrirtækja á undanförnum árum stöndum við þeim þjóðum sem við viljum helst bera okkur saman við langt að baki í alþjóðavæðingu atvinnulífins. Þessu þarf að breyta ef við ætlum okkur að vera í fremstu röð. Við bindum vonir við að frumvarp það um Alþjóðleg viðskiptafélög sem nú liggur fyrir Alþingi verði að lögum og muni vega þungt í aukinni alþjóðavæðingu. En stjórnvöld eiga að gera fleira. Þannig er til dæmis nauðsynlegt að huga betur að skattaumhverfi íslenskra fyrirtækja og starfsmanna erlendis.
· Í þriðja lagi þurfum við að efla samkeppni á öllum sviðum atvinnulífsins. Aukin velsæld á Íslandi byggist að miklu leyti á því að hér starfi öflug fyrirtæki í samkeppnisumhverfi. Á mörgum sviðum er samkeppni hins vegar enn takmörkuð, m.a. í raforkuvinnslu og fjarskiptum. Úr því verður að bæta á næstu fjórum árum. Jafnframt þarf að endurskoða samkeppnislöggjöfina með tilliti til þeirrar öru þróunar sem orðið hefur á atvinnulífinu frá setningu hennar.
· Í fjórða lagi þarf að undirbúa fjármálamarkaðinn fyrir vaxandi alþjóðasamkeppni því fjármálaþjónusta mun í auknum mæli verða veitt yfir landamæri. Íslenska bankakerfið hefur tekið stakkaskiptum á síðustu árum og er nú betur í stakk búið en nokkru sinni áður að takast á við samkeppnina. Fyrir stjórnvöldum liggur því að halda áfram markaðsvæðingu banka og stuðla þannig að enn frekari hagræðingu í bankakerfinu.
En allt er þetta unnið fyrir gýg ef ekki tekst að varðveita efnahagslegan stöðugleika með áframhaldandi styrkri hagstjórn. Brýnt er að á næstu misserum verði ríkissjóður rekinn með myndarlegum afgangi og sparnaður einkageirans aukist. Hvort tveggja stuðlar að meiri þjóðhagslegum sparnaði.
Aðeins með styrkri efnahagsstjórn og metnaðarfullri uppbyggingu atvinnulífs tekst okkur að ná markmiðinu; Að Ísland verði í fremstu röð.
Góðir Iðnþingsgestir. Ég vil að lokum þakka Samtökum iðnaðarins fyrir ánægjulegt samstarf á liðnu ári. Ég þakka fyrir.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum