Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

12. mars 1999 MatvælaráðuneytiðFinnur Ingólfsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 1996-1999

Ávarp á aðalfundi Samorku, 12. mars 1999.

 



Á aðalfundi Samorku fyrir ári fjallaði ég um nýtingu orkulindanna til atvinnuuppbyggingar, aðgerðir til að lækka hitunarkostnað og hugmyndir að breyttri skipan raforkumála. Margt hefur gerst í þessum málum á árinu og mun ég drepa á nokkur þessara mála, sem og önnur verkefni sem varðar veitufyrirtækin í landinu miklu.

Síðastliðið sumar voru sett lög um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Markmið laganna er að setja samræmdar reglur um nýtingu auðlinda í jörðu, hvar sem þær er að finna. Með lögunum er stjórnssýsla vegna rannsókna og nýtingar auðlindanna samræmd og stefnt að því að meðferð mála verði í einu samfelldu ferli, þar sem þess er gætt að öll viðkomandi stjórnvöld komi að.

Lögin taka til auðlinda í landi, í botni vatnsfalla og stöðuvatna og í sjárvarbotni innan netlaga. Meðal auðlinda í þessu sambandi eru bæði jarðhiti og grunnvatn. Í lögunum er fjallað um eignarrétt að auðlindunum, sem og um rannsóknir, leit og nýtingu auðlindanna. Samkvæmt lögunum fylgir eignarréttur að auðlindum eignarlöndum, en í þjóðlendum eru þær eign ríkisins.

Lögin heimila iðnaðarráðherra að láta rannsaka og leita að auðlindum í jörðu hvar sem er á landinu og gefa út rannsóknarleyfi í því skyni og skiptir ekki máli hvort um er að ræða eignarland eða ekki. Þá er nýting auðlinda úr jörðu háð leyfi iðnaðarráðherra hvort sem það er til nýtingar auðlinda í eignarlöndum eða þjóðlendum og hefur landeigandi ekki forgang að nýtingarleyfi í eignarlandi sínu. Með lögunum er þannig gerður skýr greinarmunur á eign að auðlindunum og rétti til að nýta þær. Það er gert meðal annars til að eigendur geti ekki komið í veg fyrir þjóðhagslega skynsamlega nýtingu auðlindanna.

Í lögunum er kveðið á um að sveitarfélög hafi forgang til nýtingarleyfa vegna jarðhita og grunnvatns innan marka sveitarfélagsins vegna hita- og vatnsveitna sem þar eru reknar. Mikilvægt er að forráðamenn orkufyrirtækja og vatnsveitna kynni sér þessi lög vel, því þau hafa mikla þýðingu fyrir starfsemi fyrirtækjanna.

Í þessari viku hefur Alþingi sett ný lög og breytt eldri lögum um orkumál. Í fyrsta lagi var lögum um raforkuver breytt og er nú iðnaðarráðherra heimilt að veita Landsvirkjun leyfi til virkja vatn sem veitt er um Vatnsfellsveitu úr Þórisvatni í Krókslón, til virkjunar á ármótum Köldukvíslar og Tungnaár við Búðarháls og til jarðvarmavirkjunar í Bjarnarflagi. Nauðsynlegt var að afla þessara heimilda vegna yfirstandandi samningaviðræðna Landsvirkjuna um aukna orkusölu meðal annars til Norðuráls.

Með lögunum verður iðnaðarráðherra ennfremur heimilt að veita Rafmagnsveitum ríkisins í félagi með aðilum í Skagafirði leyfi til að reisa og reka virkjun Héraðsvatna við Villinganes, en frá 1982 hefur sú heimild verið bundin við Landsvirkjun. Þessi breyting tengist þeirri stefnumótum sem ég gerði að umtalsefni á síðasta aðalfundi Samorku.

Alþingi samþykkti einnig breytingar á Orkulögum og lögum um Landsvirkjun. Tilgangur þeirra breytinga var að heimila Rafmagnsveitum ríkisins og Landsvirkjun að stofna og eiga hlut í fyrirtækjum sem takast á hendur rannsóknar- og þróunarverkefni, eða framleiðslu, flutning, dreifingu eða sölu orku. Með þessum breytingum geta Rafmagnsveiturnar t.d. stofnað hlutafélag um Villinganesvirkjun með aðilum í Skagafirði og Landsvirkjun gerst aðili að Vistorku hf. Tekið skal fram að fyrirtækjunum verður ekki heimilt að taka að sér ráðgjöf eða verktöku í samkeppni við önnur fyrirtæki á almennum markaði hér á landi.

Síðast en ekki síst ber að telja að sett hafa verið sérstök lög um Orkusjóð. Með lögunum fær sjóðurinn nokkuð breytt hlutverk. Þannig verður heimilt að fjármagna yfirlits- og undirbúningsrannsóknir á orkulindum landsins samkvæmt áætlun sem sjóðurinn á að gera á grundvelli rannsóknaáætlunar frá Orkustofnun. Stjórn sjóðsins, Orkuráði, er breytt og sterk tengsl sjóðsins og Orkustofnunar rofin. Orkumálastjóri verður ekki framkvæmdastjóri sjóðsins eins og verið hefur, enda myndi það leiða til hagsmunaárekstra eftir þær breytingar sem gerðar hafa verið á hlutverki sjóðsins. Í lögunum er ennfremur kveðið með skýrari hætti á um að ef ráðist er í orkuframkvæmdir sem undirbúnar hafa verið með fé ríkisins, þar með töldu fé Orkusjóðs, skuli framkvæmaraðili endurgreiða þann kostnað við veitingu virkjunar- eða nýtingarleyfa.

Í þessari viku var hafin vinna við rammaáætlun til langs tíma um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Kveðið er á um þetta verkefni í framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í umhverfismálum. Í henni segir m.a. að áætlunin skuli vera í samræmi við samhæfða stefnu í umhverfis-, orku-, iðnaðar- og efnahagsmálum og að í henni skuli sérstaklega fjallað um verndargildi einstakra svæða. Unnið hefur verið að undirbúningi áætlunarinnar undanfarna mánuði í samvinnu við umhverfisráðuneytið og Orkustofnun. Verkefnið er skipulagt undir kjörorðinu: Maður - Nýting - Náttúra. Rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma.

Markmið áætlunarinnar er að leggja mat á og flokka virkjunarkosti, með tilliti til orkugetu, hagkvæmni og annars þjóðhagslegs gildis, samhliða því að skilgreina, meta og flokka áhrif þeirra á náttúrufar, náttúru- og menningarminjar svo og hagsmuni þeirra sem nýta þessi svæði. Allt þetta verður gert með sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Ég vonast til þess að góð samvinna takist við alla aðila sem að málinu koma og að við getum skapað nauðsynlega sátt sem gerir okkur í senn kleyft að nýta orkulindirnar, aðrar auðlindir landsins og vernda náttúruperlur þess. Ég vil nota þetta tækifæri til að hvetja orkufyrirtækin til að taka virkan þátt í verkefninu og leggja því til þá miklu þekkingu sem þau og starfsmenn þeirra búa yfir.

Þessi mál, þó ólík séu, tengjast endurskoðun á skipan orkumála sem unnið hefur verið að undanfarin ár. Breytingar á Orkusjóði eiga að leiða til skilvirkari undirbúnings nýrra virkjana, og aðgreiningar á hlutverki ríkisvaldsins og orkufyrirtækjanna í því efni. Jafnframt er þess vænst að þær tryggi Orkusjóði tekjur sem geti með tímanum staðið undir verulegum hluta af kostnaði ríkissjóðs við forathuganir á virkjunarkostum bæði vatnsafls og jarðhita.

Orkusjóður verður væntanlega einnig sterkur fjárhagslegur bakhjarl vegna vinnu við rammaáætlunina. Rammaáætlunin á að auðvelda breytingar á skipan raforkumála, því flokkun virkjanakosta á að draga úr hættu á að við göngum of nærri hinu náttúrulega umhverfi um leið og áhætta fyrirtækja sem hyggja á nýtingu orkulindanna minnkar.

Heimild orkufyrirtækjanna til að taka þátt í hlutafélögum um orkuverkefni, þar sem þekking þeirra, reynsla og búnaður nýtist, er í samræmi við aukna ábyrgð sem fyrirtækin þurfa að axla í framtíðinni eftir að markaðsbúskap hefur verið komið á í viðskiptum með rafmagn. Þátttaka fyrirtækjanna í hlutafélögum er einnig í samræmi við áherslur um að draga úr lánsþörf og ábyrgð hins opinbera vegna nýrra fjárfestinga.

Í næstu viku verða hagsmunaðilum kynnt drög að frumvarpi til raforkulaga sem unnið hefur verið að í vetur. Auk fulltrúa raforkufyrirtæja verður boðið til fundarins fulltrúum atvinnurekenda, launþega, sveitarfélaga, ráðuneyta, Alþingis og nokkurra stofnana. Frumvarpsdrögin taka mið af niðurstöðum nefndar um skipan orkumála sem skilaði niðurstöðum sínum í október árið 1996. Þau byggja einnig á umræðum á Alþingi um þingsályktunartillögu sem lögð var fram á þinginu í lok árs 1997 og nefndaráliti meirihluta iðnaðarnefndar um tillöguna.

Þrátt fyrir að skipulag raforkumála, sem hefur að stofni til verið óbreytt síðasta aldarþriðjunginn, hafi gefist vel til að byggja upp greinina, fylgja því ýmsir annmarkar og vandamál. Nefna má:

· Að í lögum um Landsvirkjun eru lagðar miklar skyldur á fyrirtækið án þess að það hafi einkarétt til orkuvinnslu eða orkuflutnings.
· Að í gjaldskrá Landsvirkjunar er ekki greint milli vinnslu og flutnings á rafmagninu. Sama á við um gjaldskrár annarra orkufyrirtækja.
· Að sumar rafveitur telja sig geta lækka kostnað við orkuöflun með því að virkja. Þá bera þær raunar gjarnan saman kostnað við stöðvarvegg virkjunar og gjaldskrá Landsvirkjunar, en hún felur í sér bæði orkuvinnslu og flutning orkunnar.
· Að ekki er skilið á milli samkeppnisþátta í starfsemi orkufyrirtækjanna, þ.e. vinnslu og sölu, og starfsemi sem nýtur einkaréttar, þ.e. flutnings og dreifingar.

Markmið með breytingunum er að koma á markaðsbúskap í viðskiptum með raforku um leið og stuðlað er að þjóðhagslega hagkvæmri nýtingu orkulindanna. Breytingarnar þurfa að stuðla að öflugra atvinnulífi og styrkingu byggðar í landinu um leið og tekið verði tillit til umhverfisverndarsjónarmiða og hefðbundinna landnytja. Með þeim verður stefnt að því að draga úr opinberum rekstri, tryggja gagnsæja verðmyndun og stuðla að lækkun orkuverðs. Stefnt er að því að auka skilvirkni í starfseminni og laða nýtt fjármagn til greinarinnar. Að endingu ber að nefna að einnig þarf að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar. Rétt er þó að taka fram að þær eru ekki og eiga ekki að vera drifkrafturinn í breytingunum og ljóst er að á mörgum sviðum ganga fyrirliggjandi drög lengra í átt til markaðsbúskapar en t.d. tilskipun Evrópusambandsins um innri markað á sviði raforku.

Í drögunum er gert ráð fyrir að draga úr hlutverki ríkisins meðal annars í sambandi við ákvarðanir í orkuframkvæmdum. Hlutverk Alþingis og ráðherra verður að setja skýrar og gagnsæjar reglur fyrir starfsemina og móta stefnu um nýtingu orkulindanna. Framkvæmdavaldið þarf að hafa eftirlit með því að reglum sé fylgt. Jafnframt má ætla að ríkið muni reka meginflutningskerfið.

Forsenda samkeppni er að skilja á milli vinnslu, flutnings, dreifingar og sölu á rafmagni. Tryggja verður rétt bæði þeirra sem vinna og kaupa rafmagn að flutnings- og dreifikerfunum. Ella verður samkeppni ekki komið á.

Hér gefst ekki tími til að kynna efni frumvarpsdraganna nánar. Ljóst er að áður en ný skipan verður ákveðin þarf að ræða og greina ýmis álitamál nánar. Meðal álitaefna má nefna, hvaða skref þarf að stíga, hvenær er rétt að stíga þau og hve stór eiga þau að vera? Hvernig tryggjum við nauðsynlegt jafnvægi í samkeppni, þ.e.a.s. samkeppni í vinnslu og sölu? Með hvaða hætti afnemum við skuldbindingar orkufyrirtækjanna gagnvart viðskiptamönnum sínum? Hvernig verður farið með kostnað og skuldbindingar sem fyrirtækin bera nú og koma til með að þurfa að standa undir þó svo að einkaréttur þeirra falli niður? Hvernig verður eftirliti sinnt með skilvirkum hætti? Svo mætti áfram spyrja.

Eins og mörgum ykkar er kunnugt um var sl. haust skipuð nefnd til að fjalla um flutningskerfið. Starf þeirrar nefndar er þýðingarmikið fyrir framhald málsins. Hún fjallar um mörg þýðingarmikil álitamál. Svo sem: Hvar skilið verði milli flutningskerfisins og dreifikerfisins? Hvernig eigi að tryggja vinnsluaðilum og kaupendum aðgang að flutningskerfinu? Niðurstöður nefndarinnar og ákvarðanir sem taka þarf þegar þær liggja fyrir munu að verulegu leyti marka framhaldið, því flutningskerfið er lykillinn að því að það takist að ná þeim markmiðum sem að er stefnt.

Ég vil að lokum þakka Samorku og orkufyrirtækjunum gott samstarf á árinu með von um að nýtt skipulag orkumála muni leiða til enn skilvirkari starfsemi orkufyritækja í landinu.




Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum