Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

22. mars 1999 MatvælaráðuneytiðFinnur Ingólfsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 1996-1999

Ávarp á aðalfundi Landsbankans, 22. mars 1999.

|

I.


Góðir aðalfundargestir.

Árið 1998 var viðburðarríkt í sögu Landsbankans. Bankinn skilaði bestu rekstrarafkomu frá upphafi. Bankinn tók formlega til starfa sem hlutafélag, nýtt hlutafé var selt til rúmlega 12 þúsund aðila og hann var skráður á Verðbréfaþing Íslands. Verðbréfaþingið mun verða hinn harði húsbóndi stjórnenda og starfsfólks bankans því nýir eigendur munu gera ríkar kröfur um arð.

Á vordögum 1998 sögðu allir þrír bankastjórar bankans upp störfum, af mismunandi ástæðum þó, þegar skýrsla ríkisendurskoðanda um laxveiðikostnað Landsbankans lá fyrir. Í kjölfar þess var einn nýr bankastjóri ráðinn og stjórnskipulagi bankans breytt.

Allt þetta umrót leiddi til þess að bankinn var mikið í þjóðmálaumræðunni. Landsbankinn stóðst prófið með sínu trausta starfsfólki og stjórnendum og stendur mun sterkari eftir. Með breytingum á bankanum hefur verið búið í haginn fyrir framtíðina.

Landsbankinn jók umsvif sín á flestum sviðum á árinu 1998. Efnahagsreikningur bankans stækkaði um 26,8% á árinu. Landsbankinn, eins og önnur fjármálafyrirtæki, þurfa að huga vel að gæðum útlána við þær aðstæður sem nú ríkja. Við erum nú nálægt toppi hagsveiflunnar eftir langvinnt hagvaxtarskeið.

Þó spár Þjóðhagsstofnunar og alþjóðastofnana bendi eindregið í þá átt að Íslendingar geti vænst áframhaldandi hagsældar á næstu árum, og núverandi hagvaxtarskeið verði því hið lengsta í sögunni, sýnir reynslan erlendis frá að bankar þurfa að fara að öllu með gát þegar hagvaxtarskeið hefur staðið jafn lengi yfir og nú.


II.

Þróunin á vestrænum bankamarkaði hefur verið geysilega ör á þessum áratug. Aukin samkeppni, alþjóðavæðing, opnun hólfa á milli einstakra tegunda fjármálafyrirtækja, lægri vaxtamunur og aukið framboð af nýrri þjónustu hefur verið einkennandi fyrir markaðinn. Ekkert lát virðist vera á þessari þróun. Bankar búa sig undir enn harðari samkeppni með samruna og yfirtökum.

Íslendingar þurfa að fylgjast grannt með þessari þróun því samanburður við kennitölur erlendra banka er hérlendum bönkum enn að flestu leyti óhagstæður. Vaxtamunur er hærri hér á landi en í löndunum í kringum okkur og kostnaður sem hlutfall af tekjum hærri, þó mikil lækkun hafi orðið á þessum hlutföllum á undanförnum misserum.

Íslenskir bankar sækja nú fram af fullum krafti eftir langt stöðnunarskeið. Hagnaður og arðsemi hefur aukist. Þjónusta banka hefur batnað auk þess sem þeir hasla sér nú völl á sífellt fleiri sviðum, ekki bara hér á landi heldur einnig erlendis. Það hafa orðið ánægjulegri umskipti á íslenskum bankamarkaði á sl. fjórum árum en bjartsýnustu menn þorðu að vona.


III.

Landsbankinn fór fyrstur hinna þriggja banka í eigu ríkisins í útboð í september síðastliðnum. Áhugi landsmanna á kaupum í bankanum var gríðarlegur og sýndi að stefna ríkisstjórnarinnar í bankamálum var skynsamleg. Jafnframt var þátttakan í útboðinu mikil traustsyfirlýsing við bankann. Bankinn var síðan tekinn til skráningar á Verðbréfaþingi Íslands. Gengi á hlutabréfum í bankanum hefur hækkað um rúmlega 30% á Verðbréfaþingi síðan hann var tekinn til skráningar sem sýnir enn og aftur að fjárfestar hafa trú á bankanum.

Ákvörðun um sölu hlutafjár í Landsbankanum bíður þeirrar ríkisstjórnar sem við tekur eftir kosningar í maí. Heimildir eru ekki fyrir hendi til að selja hlutafé ríkisins í bankanum. Ekkert liggur fyrir um hvernig að sölu hlutafjárins verður staðið, þegar sú heimild fæst, nema sú samþykkt ríkisstjórnar, sem ég staðfesti með yfirlýsingu í tengslum við sölu hlutafjárins rétt fyrir áramót, að tryggt yrði að eigi síðar en 1. júní árið 2000 yrði meira en 25% af heildarhlutafé Landsbankans í dreifðri eignaraðild í samræmi við reglur Verðbréfaþings Íslands.

Ég vil að lokum óska bankaráði Landsbankans, bankastjóra og öðrum starfsmönnum til hamingju með góðan rekstrarárangur á síðasta ári og óska þeim velfarnaðar í störfum í framtíðinni. Ég þakka fyrir.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum