Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

9. apríl 1999 MatvælaráðuneytiðFinnur Ingólfsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 1996-1999

Ávarp á stofnfundi Félags kvenna í atvinnurekstri, 9. apríl 1999.

|

Fundarstjóri, ágætu stofnfélagar og aðrir gestir,

Konur reka aðeins 18% íslenskra fyrirtækja sem verður að teljast lágt hlutfall, sérstaklega með tilliti til þess að atvinnuþátttaka kvenna er meiri á Íslandi en víðast hvar annars staðar og ekki síður í ljósi þess að sennilega eru konur betri stjórnendur en karlar.

Í starfi mínu sem iðnaðar- og viðskiptaráðherra hef ég lagt megináherslu á að styrkja stoðir atvinnulífsins. Það hefur m.a. verið gert með eftirfarandi hætti:

Í fyrsta lagi með því að nýta náttúruauðlindir og orku með skynsamlegum hætti í sátt við náttúruna og komandi kynslóðir.

Í öðru lagi með breyttu skipulagi á fjármagsnmarkaði þar sem fjárfestingarlánasjóðum atvinnulífsins var fækkað og þeir sameinaðir í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins og Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins.

Og í þriðja lagi með aukinni áherslu á vaxtarbrodda atvinnulífsins á sviði þekkingariðnaðar og afþreyingariðnaðar eins og kvikmyndir og tónlist.

Þá hefur af minni hálfu verið lögð rík áherslu á breytingar í starfi Iðntæknistofnunar í þá átt að hún fái víðtækt og þverfaglegt leiðsagnar- og ráðgjafarhlutverk við atvinulífið og einstaklinga og þá sérstaklega lítil og meðalstór fyrirtæki. Þau eru hér, líkt og annars staðar í Evrópu, grundvöllur efnahagslífsins. Meira en 98% evrópskra fyrirtækja falla í þann flokk og eru íslensk fyrirtæki engin undantekning. En einmitt í þessum fyrirtækjum verður mesta verðmætasköpunin, helstu nýjungarnar og flest störfin. Fyrirtæki kvenna sem karla á Íslandi eru í öllum greinum atvinnurekstrar og af öllum stærðum en fyrirtæki kvenna eru þó hlutfallslega flest á sviði verslunar og þjónustu.

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti hefur stutt lítil og meðalstór fyrirtæki sérstaklega með rekstri "Átaks til atvinnusköpunar" en þar sameinast stuðningsaðgerðir ráðuneytisins við atvinnulífið. Með Átakinu hafa verið kostuð mörg hundruð stuðningsverkefna og m.a. studdar áhugaverðar hugmyndir frumkvöðla. Þá starfar Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins einkum á frumstigi fjárfestingar og nýtist vel þeim er þurfa á slíku að halda.

Í samkeppnislöndum Íslands er víða lögð mikil áhersla á að auka veg kvenna í fyrirtækjarekstri og stjórnun. Sérstaða "kvennafyrirtækja" er almennt viðurkennd og algengt er að skipulagðar séu sérstakar stuðningsaðgerðir sem taka mið af þörfum þeirra. Þá hafa rannsóknir sýnt að fyrirtæki þar sem konur eru við stjórn, eru oftar en ekki betur rekin en þau sem karlar stýra, auk þess sem sjaldgæfara er að þau fari í þrot en þau sem rekin eru af körlum. Á þessu er atvinnulífið smám saman að átta sig og sumir hafa tekið svo djúpt í árinni að segja að í náinni framtíð verði konur í meirihluta stjórnenda í atvinnulífinu.

Í janúar 1997 skipaði ég nefnd sem fékk það hlutverk að meta þörf fyrir sérstakar stuðningsaðgerðir sem tækju mið af þörfum kvenna í atvinnurekstri. Nefndin lauk störfum í nóvember 1998 og var það niðurstaða hennar að stuðnings sé þörf. Meginforsendan fyrir mati nefndarinnar var sú, að hlutur kvenna í eigin atvinnurekstri sé í engu samræmi við mikla þátttöku kvenna í atvinnulífinu og að stuðningur sem leiði til fjölgunar fyrirtækja kvenna og aukinnar þátttöku þeirra í atvinnurekstri, treysti stöðu íslensks atvinnu- og efnahagslífs.

Í starfi nefndarinnar var sérstaklega leitað upplýsinga um það með hvaða hætti ýmsar samkeppnisþjóðir okkar standa að stuðningi við konur í atvinnurekstri. Einkum er áberandi hversu vel hefur tekist til við þær aðgerðir í Kanada og Bandaríkjunum. Tillögur nefndarinnar taka mið af þeim aðgerðum. Þær eru einkum tvenns konar.

· Annars vegar að komið verði á fót þjónustu- og upplýsingamiðstöð fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki, þar sem hlut kvenna væri sérstakur gaumur gefinn.
· Hins vegar lagði nefndin til að stofnað yrði félag eða "tengslanet" kvenatvinnurekenda, með stuðningi stjórnvalda, sem hefði það að meginmarkmiði að efla samvinnu og samstöðu þeirra m.a. með það fyrir augum að þær verði áhugaverður markhópur fyrir banka og lánastofnanir.

Fyrir tveimur vikum tók til starfa á Iðntæknistofnun þjónustumiðstöð frumkvöðla og fyrirtækja, sem hlotið hefur nafnið IMPRA. IMPRA leggur, þó hún sé öllum opin, sérstaka áherslu á að veita konum sem hyggja á atvinnurekstur aðstoð við stofnun fyrirtækja. Einnig geta þær konur sem eru í atvinnurekstri fengið leiðsögn varðandi framtíðarmöguleika fyrirtækja sinna. Það er afar mikilvægt að við styðjum konur við að stíga fyrstu skrefin í rekstri sínum og sú þjónusta sem hér lýst er sett fram til þess.

Í ljósi niðurstaðna og tillagna fyrrgreindar nefndar skipaði ég starfshóp í byrjun janúar 1999, sem hafa skyldi forgöngu um stofnun félags kvenna í atvinnurekstri. Það félag er að verða að veruleika hér í dag. Ráðuneyti mitt mun létta undir rekstri félagsins fyrstu árin með starfsmanni hjá IMPRU sem sjá mun um útgáfu fréttabréfa, uppfæra félagatal, innheimta félagsgjöld og aðstoða við rekstur félagsins.

Ágætu athafnakonur,
Mannaauðurinn er ein mikilvægasta stoð nýsköpunar atvinnulífs og efnahagslegra framfara. Eins og áður segir er hlutur kvenna í eigi atvinnurekstri ekki sem skyldi. Með stofnun Félags kvenna í atvinnurekstri vænti ég nokkurra breytinga á því enda byggist framtíð okkar á samstilltu átaki okkar allra, - jafnt karla og kvenna.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum