Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

15. apríl 1999 MatvælaráðuneytiðFinnur Ingólfsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 1996-1999

Ávarp hjá Axis húsgögnum


Ágætu samkomugestir.

Eftir að hafa lítillega kynnt mér 64 ára sögu þessa rótgróna fyrirtækis komst ég að þeirri niðurstöðu að það sem sennilega einkennir feril Axis umfram annað megi fella í eitt orð, - þ.e.- þrautseigja.

Ástæða þessarar niðurstöðu minnar er sú, að þrátt fyrir að á löngum ferli sínum hafi fyrirtækið gengið í gegnum bæði súrt og sætt hefur því ætíð tekist að halda sjó - og rétta sig af - þrátt fyrir að stundum hafi hressilega gefið á. Þar hefur árvekni og eljusemi stjórnendanna vafalítið ráðið úrslitum - þótt vissulega vinnist engir sigrar í rekstri fyrirtækja án góðra starfsmanna.

Axel Eyjólfsson, sem var fyrstur í röð þeirra þriggja kynslóða sem að rekstri þessa fyrirtækis hafa komið, var frumkvöðull í íslenskum húsgagna- og innréttingaiðnaði. Eftirstríðsárin voru ár nýrra tíma, aukins kaupmáttar og nýrra framleiðsluhátta. Í anda þeirra umbreytinga hóf Axel framleiðslu fataskápa og var fyrstur til að hefja framleiðslu á stöðluðum fataskápum hér á landi. Þar með var framtíð þessa fyrirtækis mörkuð, enda hefur sú framleiðsla verið kjölfesta starfseminnar allt fram á þennan dag - þótt framleiðslan sé nú fjölbreyttari en áður var.

Á þeim tíma sem liðinn er hefur margt breyst. Af þeim breytingum ber einna hæst að vernd innlends framleiðsluiðnaðar hefur verið afnumin og erum við nú orðin hluti af 375 milljóna innri markaði Evrópu. Þrátt fyrir að frelsinu hafi ótvírætt fylgt margvíslegir góðir kostir er engu að síður ljóst að aukið frelsi í milliríkjaviðskiptum hefur leitt til þess að inn á hinn örsmáa og viðkvæma markað okkar hafa flætt margvísleg og misgóð húsgögn og innréttingar frá erlendum framleiðendum.

Í sjálfu sér er það allnokkuð afrek að hafa staðist þá samkeppni. Mörgum íslenskum fyrirtækjum tókst það ekki. Til að lágmarka skaðann hefur ekki ósjaldan verið gripið til þess ráðs að breyta rekstrinum til samræmis - úr framleiðslufyrirtæki - í umboðssölu fyrir hina sterkari erlendu samkeppnisaðila. Það áfellist þeim enginn fyrir það, - þannig eru leikreglur samkeppninnar.

Reyndin er líka sú að hin stóru fjölþjóðlegu fyrirtæki sem selja á alþjóðlegum markaði njóta stærðar sinnar umfram þá smærri á ýmsan hátt. Þau njóta, m.a. magnsins í innkaupum og vélvæðingu - og geta jafnað út sveiflur á markaði, en húsgögn og innréttingar eru umfram flest annað næmar fyrir sveiflum efnahagslífsins og kaupmætti einstaklinga og fyrirtækja. Lítið íslenskt fyrirtæki sem býr við smáan einleitan markað á ekki kost á sambærilegum kjörum og markaðsaðlögun.

Þrátt fyrir þetta er staðreyndin sú að Axis hefur slegið í gegn á erlendum markaði - og gerði það með mjög svo eftirminnilegum hætti. Axis náði á sínum tíma góðri fótfestu í Bretlandi og Bandaríkjunum og fleiri löndum með húsgagnalínuna Maxis. Vandamálið var þá ekki smæð markaðarins, heldur stærð hans. Þrátt fyrir að þessi útrás hafi verið ýmsum þyrnum stráð er ég fullviss um að þar fékkst mikilvæg reynsla sem fyrirtækið býr enn að.

Það er mér fagnaðarefni að Axis er ekki að bugast undan hinni erlendu samkeppni. Þvert á móti hafa forráðamenn Axis og starfsmenn fyrirtækisins blásið til nýrrar sóknar til að styrkja stöðu fyrirtækisins í húsgagnaframleiðslu. Sú fjárfesting sem fyrirtækið hefur ráðist í er nauðsynlegur þáttur í þeirri sókn og það er mér sönn ánægja að vera þátttakandi í þeirri athöfn er þessi afkastamikla plötusög er tekin í notkun.

Hinn bætti vélarkostur mun gera fyrirtækinu kleift að auka afköst og lækka einingarkostnað, en um leið að auka gæði framleiðslunnar. Aukin framleiðni og meiri gæði eru sennilega þeir tveir lykilþættir sem mestu máli skipta á sífellt kröfuharðari markaði. Á það ber einnig að líta að velgengni íslenskra framleiðslufyrirtækja mun væntanlega fyrst og fremst byggjast á gæðum og kröfuhörðum neytendum.

Ég vil óska eigendum og öllum starfsmönnum Axis innilega til hamingju með þetta glæsilega framleiðslutæki. Ég er fullviss um að það, - ásamt þrautseigju stjórnendanna og starfsmanna mun styrkja stöðu Axis í röð þeirra fremstu sem framleiða gæðavöru á kröfuhörðum samkeppnismarkaði.

Takk fyrir.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum