Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

16. apríl 1999 MatvælaráðuneytiðFinnur Ingólfsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 1996-1999

Ávarp á Byggingadögum 1999



Ágætu samkomugestir.

Byggingadagar Samtaka iðnaðarins fara senn að verða jafn árvissir atburðir og vorkoman. Það sem vorið og byggingadagarnir eiga auk þess sameiginlegt er að hvoru tveggja fylgir fyrirheit um nýjan og ferskan vöxt. Byggingadagarnir eru nefnilega ekki aðeins forvitnileg sýning, - sem í sjálfu sér er full gott og gilt, - heldur gerist það á byggingadögum að fagmönnum jafnt og almenningi, húsbyggjendum og húseigendum gefst kostur á að fræðast um það nýjasta, besta og hagkvæmasta á sviði byggingarmála.

Mikilvægi þess er augljóst út frá þeirri staðreynd að lífssparnaður flestra okkar er að meginstofni til bundinn í húseignum okkar, - húseignum sem við höfum eytt vænum hluta af blómaskeiði lífs okkar til að koma upp. Framfarir í byggingariðnaði hafa því veigameiri þýðingu en í fljótu bragði virðist og hafa mun víðtækari áhrif.

Þessi staðreynd verður enn ljósari sé hún skoðuð í stærra samhengi. Þá kemur í ljós að um 80 % af þjóðarauði okkar Íslendinga er bundinn í byggingum og um 60 % af árlegri fjárfestingu er í mannvirkjagerð. Út frá þessu ætti engum að leynast að hverskonar byggingarstarfsemi hefur geysimikil áhrif á lífskjör okkar.

Sama er trúlega uppi á teningnum fyrir flestar aðrar norðlægar þjóðir. Það sem gerir stöðu okkar þó frábrugðna þeim er að hér á landi eru ríkjandi mjög svo sérstakar landfræðilegar- og veðurfarslegar aðstæður sem eru erfiðari viðureignar en á flestum öðrum byggðum bólum í heiminum.

Þessi lítt eftirsótta sérstaða Íslands hefur gert það að verkum að byggingarrannsóknir og tækniþróun í byggingariðnaði hefur sérstaklega mikla þýðingu hér á landi. Við búum ekki við þann lúxus flestra annarra Evrópulanda að geta með tiltölulega auðveldum hætti nýtt okkur niðurstöður rannsókna og hagnýta reynslu nágrannaþjóðanna.

Einn mætur byggingamaður orðaði það svo að fyrir Ísland dygði ekkert minna en bestu erlendu lausnirnar - en þær væru þó yfirleitt frekar haldlitlar án verulegra endurbóta.

Ég dreg þetta fram hér til þess að undirstrika mikilvægi þess að við þurfum stöðugt að vera vakandi um endurbætur í íslenskum byggingariðnaði, - endurbætur sem byggja á íslenskum forsendum. Þess ber þó að gæta að ekki er nóg að þróa nýjar lausnir, hvorki hjá hinu opinbera né hjá einkaaðilum ef þær ná ekki augum og eyrum væntanlegra notenda. Byggingadagar gegna mikilvægu hlutverki í þessu tilliti enda er viðskiptahópurinn stærri og margbreytilegri en í flestum öðrum tilfellum.

Á byggingardögum er nýbyggingar jafnt og viðhald bygginga til umfjöllunar. Viðhaldið hefur stöðugt verið að fá meiri og meiri athygli enda líður brátt að því að viðhald bygginga verði engu umfangsminni þáttur byggingarstarfseminnar en nýbyggingarnar sjálfar. Þetta mun valda breytingum á byggingariðnaðinum sem atvinnugrein, þar sem verksvið, efnisnotkun og verklag þarf að taka mið af breyttu hlutverki.

Viðhald bygginga hefur fengið stóraukna þýðingu fyrir húseigendur því skaði aðgerðar- og þekkingarleysis verður ekki borinn af neinum öðrum en þeim sjálfum. Það er mér því ánægjuefni að sjá að á byggingardögunum gefst húseigendum gott tækifæri til að gera sér grein fyrir ýmsum valkostum varðandi viðhald húsa, hvernig því verður best fyrir komið og fá upplýsingar um kostnað þess.

Ágætu samkomugestir,
Byggingadagar Samtaka iðnaðarins eru nú haldnir sjötta árið í röð. Byggingadagar hafa fengið verðskuldaða athygli og síaukna aðsókn.
Ég vil óska Samtökum iðnaðarins, sýnendum öllum og þeim fjölmörgu sem að þessum atburði standa til hamingju með framtakið.


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum