Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

21. apríl 1999 MatvælaráðuneytiðFinnur Ingólfsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 1996-1999

ÍSAL afhendir styrki til rannsóknaverkefna á sviði umhverfismála og rannsókna á náttúru landsins.




Ágætu samkomugestir.

Almennt er þess að vænta að öll málefnaleg umræða sé til nokkurs gagns. Þó hefur, á seinustu misserum, borið við að umræðan um stóriðju og nýtingu orkulinda landsins hafi verið heldur neikvæð og einhliða.

Fram hjá því verður vissulega ekki litið að virkjun fallvatnanna breytir ásýnd öræfanna og rekstur stórra iðjuvera er ekki án áhrifa á umhverfið. Engu að síður má ekki gleyma grundvallaratriði málsins - sem er að við - íbúar þessa lands- byggjum afkomu okkar fyrst og fremst á nýtingu auðlinda þess jafnt til lands og sjávar. Þær auðlindir, sem staðið hafa undir efnahagslegum-, félagslegum- og ekkert síður umhverfislegum framförum seinustu ára eru umfram annað orkulindirnar - og farsæl hagnýting okkar á orku fallvatnanna og jarðhitans.

Einnig fer sú umræða lágt að framleiðsla áls er í raun umhverfisvæn - þótt með óbeinum hætti sé. Þetta byggist m.a. á því að hin síðari ár hefur notkun áls í bifreiðar og önnur farartæki, svo sem sporvagna og járnbrautarlestir aukist. Við það léttast þau með tilheyrandi sparnaði á eldsneyti og minni mengun andrúmsloftsins. Álframleiðsla til notkunar í bílaiðnaði er því dæmi um jákvæða iðnaðarframleiðslu með tilliti til umhverfisáhrifa. Sérstaða íslenskrar álframleiðslu, umfram það sem er víðast annarsstaðar, liggur í því að íslenskt ál er framleitt með vatns- og jarðvarmaorku sem er vistvænasta orkan sem mannkyninu stendur til boða.

Mikilvægt er að hafa hugfast að umhverfisvernd og iðnaður eru ekki andstæðar stærðir - og í samræmi við það hafa fyrirtæki í auknum mæli beint augum að mikilvægi umhverfisstjórnunar fyrir reksturinn. ISAL hefur verið í fararbroddi íslenskra fyrirtækja í umhverfisvernd og er fyrsta og eina fyrirtækið í landinu sem komið hefur á fót umhverfisstjórnunarkerfi sem hlotið hefur viðurkenningu alþjóðlegs vottunarfyrirtækis. ISAL kynnti nýlega, að það ætlaði að verja á þessu ári um 500 milljónum króna til þess að bæta búnað til mengunarvarna. Þessi ráðstöfun er hluti af þriggja ára framkvæmdaáætlun sem nær bæði til ytra umhverfis fyrirtækisins og þeirra starfsmanna sem í verksmiðjunni vinna. Fyrirtækið sýnir með þessu að það fylgist með kröfum tímans um stöðugar endurbætur.

Þær kröfur eru einnig lagðar á stjórnvöld og við því verður að bregðast á jákvæðan hátt. Í samræmi við það hef ég hrint af stað undirbúningi að gerð rammaáætlunar til langs tíma um nýtingu vatnsafls og jarðvarma undir yfirskriftinni:

Maður - nýting - náttúra.
Eins og af yfirskriftinni má ráða verður lagt mat á hina ýmsu virkjunarkosti, m.a. út frá hagkvæmni þeirra og þjóðhagslegu gildi, - jafnframt því að meta áhrif þeirra á náttúrufar og menningarminjar. Áætluninni er ætlað að leggja grunn að forgangsröðun virkjunarkosta með tilliti til þarfa þjóðfélagsins, atvinnuþróunar, og varðveislu náttúrugæða.

Rannsóknir á náttúru landsins eru nauðsynlegar til þess að afla okkur þekkingar - - enda er þekkingin forsenda þess að geta betur spáð hvernig náttúran bregst við athöfnum okkar. Þekking á eðli náttúrunnar og samspili hennar og athafna okkar mannanna á að gera okkur mögulegt að varðveita verðmæta náttúru landsins eins og best verður á kosið og gerir okkur mögulegt að skila henni í betra ástandi til afkomenda okkar.

Ágætu samkomugestir.

ISAL hefur um nokkurt skeið styrkt rannsóknir á náttúru landsins. Það mun vera í samræmi við markmið félagsins í umhverfismálum og hluti af umhverfisstjórnunarkerfi þess. Ég tel stuðning við slíka rannsóknarstarfsemi öðrum til eftirbreytni og vona að rannsóknirnar nýtist til góðs. Ég vil að lokum óska styrkþegunum til hamingju - og óska þeim velfarnaðar í störfum sínum á komandi árum.


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum