Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

23. apríl 1999 MatvælaráðuneytiðFinnur Ingólfsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 1996-1999

Ávarp á samráðsfundi Landsvirkjunar 23. apríl 1999.



Ágætu fundarmenn.
Gleðilegt sumar!
I.
Margt hefur borið til tíðinda hjá Landsvirkjun frá síðasta samráðsfundi. Halldór Jónatansson hefur látið af störfum hjá fyrirtækinu eftir að hafa starfað við það allt frá stofnun, fyrst sem skifstofustjóri og síðast sem forstjóri. Hann hefur því tekið virkan þátt í þeim gífurlegu breytingum sem hafa orðið í orkumálum síðasta aldarþriðjunginn. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka honum fyrir samstarfið um leið og ég býð nýjan forstjóra, Friðrik Sophusson velkominn til þessa krefjandi starfs.

Landsvirkjun hefur staðið í miklum framkvæmdum til að mæta aukinni orkuþörf, einkum vegna Norðuráls og Íslenska járnblendifélagsins og frekari framkvædir eru í undirbúningi. Undir þinglok setti Alþingi tvenn lög sem skipta fyrirtækið miklu.

Annars vegar var lögunum um raforkuver breytt, þannig að nú er heimilt að veita Landsvirkjun leyfi til virkunar Tungnaár bæði við Vatnsfell og Búðarháls og fyrir jarðgufuvirkjun í Bjarnarflagi. Áður en virkjunarleyfin verða gefin út þarf m.a. að fara fram mat á umhverfisáhrifum framkvæmdanna. Hvað Vatnfellsvirkjun varðar er því mati lokið og Skipulagsstofnun hefur samþykkt framkvæmdina við mat á umhverfisáhrifum.

Hins vegar var Landsvirkjunarlögunum breytt þannig að nú er fyrirtækinu heimilt að stofna og eiga hlut í innlendum fyrirtækjum sem annast rannsóknar- og þróunarverkefni enda séu þau ekki í samkeppni við önnur fyrirtæki á almennum markaði hér á landi. Jafnframt má Landsvirkjun eiga aðild að fyrirtækjum sem annast framleiðslu, flutning, dreifingu og sölu á orku. Þessi lög skapa ný sóknarfæri til að nýta þá þekkingu sem Landsvirkjun býr yfir í þágu fyrirtækisins og þjóðfélagsins.
II.
En það er ekki bara hjá Landsvirkjun sem árið hefur verið viðburðarríkt. Ný lög hafa verið sett um rannsóknir og nýtingu auðlinda í jörðu, en þau lög taka m.a. til jarðhita og við þinglok setti Alþingi ný lög um Orkusjóð. Og á næstu árum má vænta ennfrekari breytinga á orkulögum.

Markmið með breytingunum á skipan orkumála á að vera að koma á markaðsbúskap í viðskiptum með raforku um leið og stuðlað verði að þjóðhagslega hagkvæmri nýtingu orkulindanna.
Nýlega kynnti ráðuneytið drög að frumvarpi til raforkulaga sem unnið var að á nýliðnum vetri. Frumvarpsdrögin taka mið af niðurstöðum nefndar um skipan orkumála sem skilaði niðurstöðum sínum í október árið 1996. Þau byggja einnig á umræðum á Alþingi um þingsályktunartillögu sem lögð var fram á þinginu í lok árs 1997 og nefndaráliti meirihluta iðnaðarnefndar um tillöguna.

Hugmynd mín með því að kynna frumvarpið nú er að fyrirhugaðar breytingar fái sem vandaðasta umfjöllun. Ég hef því óskað eftir ábendingum um það sem betur mætti fara í umræddum drögum fyrir lok aprílmánaðar með það fyrir augum að láta vinna að þeim í sumar. Þannig gæti iðnaðarráðherra – hver sem það verður – lagt fram í haust á Alþingi frumvarp um þetta efni sem hefur fengið ítarlega og vandaða skoðun.

Í drögunum er gert ráð fyrir að draga úr hlutverki ríkisins meðal annars í sambandi við ákvarðanir í orkuframkvæmdum. Hlutverk Alþingis og ráðherra verður að setja skýrar og gagnsæjar reglur fyrir starfsemina og móta stefnu um nýtingu orkulindanna. Framkvæmdavaldið þarf að hafa eðlilegt eftirlit með því að reglum sé fylgt. Jafnframt má ætla að ríkið muni reka meginflutningskerfið.

Hér gefst ekki tími til að kynna efni frumvarpsdraganna nánar en ljóst er að áður en ný skipan verður ákveðin þarf að ræða og greina ýmis álitamál nánar. Dæmi um slík álitamál eru: Hvernig verður hægt að tryggja samkeppni í vinnslu og sölu? Og með hvaða hætti drögum við út skuldbindingum orkufyrirtækjanna gagnvart viðskiptamönnum sínum, án þess að skapa óöryggi varðandi afhendingu orku?

Forsenda samkeppni er að skilja á milli vinnslu, flutnings, dreifingar og sölu á rafmagni. Tryggja verður rétt bæði þeirra sem vinna og kaupa rafmagn að flutnings- og dreifikerfunum. Ella verður samkeppni ekki komið á. Flutningskerfið gegnir lykilhlutverki í því sambandi. Þess vegna skipaði ég á síðastliðnu hausti nefnd til að fjalla um flutningskerfið. Starf þeirrar nefndar er þýðingarmikið fyrir framhald málsins. Hún fjallar um mörg þýðingarmikil álitamál. Svo sem: Hvar skilið verði milli flutningskerfisins og dreifikerfisins? Hvernig eigi að tryggja vinnsluaðilum og kaupendum aðgang að flutningskerfinu? Niðurstöður nefndarinnar og ákvarðanir sem taka þarf þegar þær liggja fyrir munu að verulegu leyti marka framhaldið.

Nefndarstarfinu hefur miðað vel áfram. Reiknað er með að nefndin skili tillögum sínum fyrir sumarið. Þetta er mikilvægt því skoða þarf frumvarp til raforkulaga og flutningskerfið í samhengi.
III.
Í síðusta mánuði var hafin vinna við rammaáætlun til langs tíma um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Kveðið er á um þetta verkefni í framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í umhverfismálum. Í henni segir m.a. að áætlunin skuli vera í samræmi við samhæfða stefnu í umhverfis-, orku-, iðnaðar- og efnahagsmálum og að í henni skuli sérstaklega fjallað um verndargildi einstakra svæða.

Unnið var að undirbúningi áætlunarinnar í samvinnu við umhverfisráðuneytið. Þess er vænst að þetta starf geti stuðlað að almennri sátt um sambýli manns og náttúru við nýtingu auðlindanna. Kjörorð verkefnisins er því: Maður - Nýting - Náttúra. Rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma.

Markmið áætlunarinnar er að leggja mat á og flokka virkjunarkosti, jafnt jarðhita og vatnsafls, með tilliti til orkugetu, hagkvæmni og annars þjóðhagslegs gildis, samhliða því að skilgreina, meta og flokka áhrif þeirra á náttúrufar, náttúru- og menningarminjar svo og hagsmuni þeirra sem nýta þessi svæði.

Með verkefninu verður lagður grundvöllur að forgangsröðun virkjunarkosta með tilliti til þarfa þjóðfélagsins hvað varðar atvinnustarfsemi, varðveislu náttúrugæða, styrkingu landsbyggðar og hagsmuna allra þeirra sem nýta þessi sömu gæði. Allt þetta verður gert með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.

Í samráði við umhverfisráðherra var skipuð fimmtán manna verkefnisstjórn undir forustu Sveinbjörns Björnssonar, fyrrverandi rektor Háskóla Íslands, til að stýra verkinu.

Nauðsynleg forsenda þess að verkefnið skili þeim árangri sem að er stefnt er að það njóti trausts í samfélaginu. Því er mikilvægt að koma á öflugu samráði við hagsmunaaðila og almenning um allt land meðan unnið er að því.

Mikilvægt er að sú gríðarleg þekking á orkulindunum og reynsla af nýtingu þeirra sem Landvirkjun og starfsmenn hennar búa yfir nýtist við gerð áætlunarinnar.
IV.
Í fjárlögum yfirstandandi árs voru fjárveitingar til niðurgreiðslu á raforku til hitunar íbúðarhúsnæðis auknar um rúmlega 100 milljónir króna. Með hliðsjón af því voru niðurgreiðslur hækkaðar frá og með 1. janúar sl. úr 44.100 krónum í 53.100 krónur á íbúð á ári, miðað við 30.000 kWst. notkun á ári.

Með hækkun niðurgreiðslna ríkissjóðs lækkaði hitunarkostnaður meðalnotandans hjá Rafmagnsveitum ríkisins úr 78.306 krónum á ári í tæplega 68.840 krónur, eða rúmlega 12%. Árlegur kostnaður fjölskyldu sem býr á orkuveitusvæði Rafmagnsveitna ríkisins væri rúmlega 151 þúsund ef ekki kæmu til niðurgreiðslur ríkissjóðs, afsláttur orkufyrirtækjanna og endurgreiðslna á hluta af virðisaukaskatti. Notandinn greiðir eins og áður sagði tæplega 69 þúsund krónur eða rúmlega 45%.

Rafhitunarkostnaður hefur gjarna verið borinn saman við hitunarkostnað hjá Hitaveitu Reykjavíkur (nú Orkuveitu Reykjavíkur). Við lok síðasta áratugar og fram á miðjan þennan var hlutfallið milli Rafmagnsveitnanna og Hitaveitu Reykjavíkur um 2,2, þ.e. hvað Rarik var dýrara. Nú er það komið niður í 1,62 og hefur ekki verið lægra. Það hefur því náðst verulegur árangur í að lækka og jafna orkuverð á síðustu árum.

En við getum gert enn betur. Í mars skipaði ég verkefnisstjórn í svokölluðu orkusparnaðarátaki. Því verkefni er ætlað að kynna húseigendum, sem nota óvenju mikla raforku til húshitunar, leiðir til að lækka húshitunarkostnað með orkusparnaði og ná þannig enn að lækka rafmagnsreikninginn.

Ágætu gestir
Ég vil að lokum þakka stjórn Landsvirkjunar, forstjórum og starfsmönnum fyrirtækisins gott og ánægjulegt samstarf á viðburðarríku ári.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum