Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

24. apríl 1999 MatvælaráðuneytiðFinnur Ingólfsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 1996-1999

Ávarp á Grundartanga vegna Norðuráls

Dear Mr. Ken Peterson.

This day is full of good feelings, - a day when a dream comes true. It is not only important for you. - It is also important for the Icelandic people in general - and for me personally. From the very beginning I have been convinced that I would have the opportunity to celibrate this occation with you. - And now that has come true.

Ágætu hátíðargestir.

Í dag fögnum við þeim merka áfanga að fyrsti hluti álvers Norðuráls hér á Grundartanga er kominn í fullan rekstur. Það er ánægjulegt að líta yfir farinn veg og sjá að allt hefur þetta gengið eins og best varð á kosið. Þáttur Kens sjálfs er eðlilega mestur í þessu öllu saman en auk þess getum við Íslendingar unað vel við okkar hlut.

Stax í upphafi tókst mikið og gott samstarf milli allra sem að málinu komu. Fyrst voru það samningarnir um orkuverðið og hin ýmsu ytri skilyrði málsins. Komu þá kostir smæðar samfélags okkar greinilega ljós. Kostir þess að boðleiðir voru stuttar og greiðar - og að með samhentu átaki var unnt að yfirstíga hvern vanda sem að garði bar. Byggingarframkvæmdirnar sem fylgdu í kjölfarið tókust mjög vel og vakti það athygli langt út fyrir landssteinana hversu hratt og vel var unnið að byggingu verksmiðjunnar.

Allar framkvæmdir er tengjast byggingu verksmiðjunnar er mikilsverður vitnisburður um íslenskt hugvit og verkkunnáttu og jafnframt staðfesting á því hversu vel var að verki staðið við allan undirbúning verksins. Ég er þess fullviss að undirbúningurinn og framkvæmdirnar hér á Grundartanga hafa reynst mikil lyftistöng fyrir okkur - langt út fyrir raðir þeirra fjölmörgu sem með beinum hætti komu að verkum hér.

En sagan er rétt að hefjast - væntanlega er langur og farsæll starfsferill framundan. Þá eins og hingað til eru hagsmunir verksmiðjunnar nátengdir hagsmunir okkar Íslendinga, ekki aðeins þeirra okkar sem hér starfa heldur einnig hinna sem engin afskipti hafa af gangi mála hér. Með þessari 60 þúsund tonna framleiðslu af áli mun útflutningur þjóðarbúsins vaxa um 6,8 milljarða króna á ári. Beinar og óbeinar tekjur af starfseminni verða auk þess miklar. Sem dæmi má taka að með tilkomu þessa álvers og stækkun verksmiðju Ísal í Straumsvík hefur rafmagnsframleiðsla Landsvirkjunar aukist um tæp 50%. - Mikilvægt er að við gleymum því ekki að ein helsta ástæða þess að okkur tókst að vinna okkur upp úr áralangri og þungbærri efnahagskreppu má rekja til þessara framkvæmda, byggingu virkjananna og orkusölunni sem þeim tengjast. Af þeim leiddi stórkostlegar umbreytingar í íslensku efnahagslífi þar sem þungbærri vörn var snúið í kröftuga sókn.

Þrátt fyrir óumdeilanlegan ávinning af orkufrekum iðnaði fyrir þjóðarbúið hafa sumar orku- og stóriðjuframkvæmdir fengið heldur kaldar kveðjur frá ýmsum sem fjarri þeim standa. Vissulega er ábyrg umræða um nýtingu orkulindanna, uppbygging orkufreks iðnaðar og tengsl þeirra framkvæmda við umhverfi okkar af hinu góða. Lykillinn að farsælum lyktum slíkrar umræðu hlýtur þó alltaf að vera að hún sé málefnaleg og að litið sé á umfjöllunarefnið á heildstæðan hátt út frá heildarhagsmunum þjóðarinnar allrar.

Það er ótækt að stilla atvinnukostum sífell upp andstætt hvor öðrum og fullyrða að eitt sé gott og annað vont. Umræðan má ekki snúast um að - annað hvort verði hér á landi byggður upp orkufrekur iðnaður eða t.d. ferðaþjónusta. Í þeirri umræðu hafa ýmsir hafnað skynsamlegri nýtingu orkulindanna - til aukinnar hagsældar - á forsendum algjörrar friðunar. Slíkur hugsunarháttur ber vott um skammsýni.

Í þeim tilgangi að ná utanum hin mismunandi sjónarmið þessarar flóknu umræðu og í þeirri von að einhver samstaða geti myndast um nýtingu orkuauðlindanna hef ég hrint af stað undirbúningi að gerð rammaáætlunar til langs tíma um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Áætlunin á að vera í samræmi við samhæfða stefnu í umhverfis-, orku-, iðnaðar-, og efnahagsmálum.

Þetta verkefni hefur fengið yfirskriftina :

Maður - nýting - náttúra;
rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma.

Eins og af yfirskriftinni má ráða verður lagt mat á hina ýmsu virkjunarkosti, m.a. út frá hagkvæmni þeirra og þjóðhagslegu gildi, - jafnframt því að meta áhrif þeirra á náttúrufar og menningarminjar. Áætluninni er ætlað að leggja grunn að forgangsröðun virkjunarkosta með tilliti til þarfa þjóðfélagsins, atvinnuþróunar, og varðveislu náttúrugæða.

Ágætu samkomugestir.

Senn líður að því að ég læt af störfum sem iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Á því fjögurra ára tímabili sem brátt rennur sitt skeið á enda hafa ýmsir eftirminnilegir atburðið orðið er tengjast starfsvettvangi mínum. Um suma hefur ríkt kyrrð og sátt en um aðra hefur gustað nokkuð. Eins og við er að búast eru það þeir umdeildari sem yfirleitt hafa mesta þýðingu og gera mestar kröfur til þess að viðunandi árangur náist. Í þeim flokki er umræðan um orku- og stóriðjumál.

Ljóst er að framundan er tími nýrra viðhorfa. Þau viðhorf geta þróast til ýmissa átta og fer það að nokkru leyti eftir því hver á heldur. Ég leyfi mér þó að vona að mál þróist í átt að víðtækari skilningi á hinu órjúfanlega samspili umhverfisvendar, atvinnuþróunar og búsetu í landinu öllu. - Mergur málsins er nefnilega sá - að eitt verður ekki án annars.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum