Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

30. október 1999 MatvælaráðuneytiðGuðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra 1999-2007

Ávarp á ráðstefnu "Framtíðarsýn og stefnumótun í íslensku fiskeldi" haldin 29.- 30. október 1999

Ávarp
Guðna Ágústssonar landbúnaðarráðherra
á ráðst. "Framtíðarsýn og stefnumótun í íslensku fiskeldi"
haldin 29.- 30. október 1999



Ágætu ráðstefnugestir.

Á undanförnum árum hafa erfiðleikar og fjárhagsvandi verið áberandi í umræðunni um fiskeldi hér á landi. Fiskeldisstöðvarnar skiluðu ekki þeirri framleiðslu sem að var stefnt, fyrirtækin urðu mörg gjaldþrota og allt virtist stefna á versta veg. Nú kveður við nokkuð annan tón og fréttir berast af góðum árangri fiskeldisfyrirtækja.

Landbúnaðarráðuneytið hefur á undanförnum árum veitt fiskeldinu mikilvægan stuðning. Ráðuneytið hefur haft forgöngu um uppbyggingu kynbóta fyrir fiskeldið. Stofnfiskur hf. hefur stundað kynbætur á laxi og regnbogasilungi, en Hólaskóli hefur séð um kynbætur fyrir bleikjueldið og erum við í dag forystuþjóð á sviði bleikjueldis.

Það er löngu ljóst að fiskeldi verður ekki stundað hér á landi án þessa kynbótastarfs, því samkeppnin er hörð. Fiskeldið sækir þekkingu sína í miklum mæli til landbúnaðarins, og á ég þar við fóðurfræði og erfðafræði sem að grunni til eru landbúnaðarvísindi. Fiskeldið er landbúnaðinum einnig mikilvægt og má í því sambandi nefna að árleg framleiðsla er um 4 þúsund tonn og útflutningsverðmæti eldisfisks eru um 1 milljarður.

Landbúnaðarráðuneytið hefur veitt nokkrum fiskeldisfyrirtækjum sérstök rekstrarlán og standa vonir til að eitthvert framhald geti orðið á slíkri fyrirgreiðslu. Forsenda fyrir slíkum lánveitingum er þó háð því að eldri lán endurgreiðist í einhverjum mæli.

Áhugi Íslendinga hefur lengi staðið til lax- og silungsveiða. Laxveiði var stunduð af kappi að fornu að því er virðist. Í skjali frá 1325 segir að vatni hafi verið veitt af Gljúfurá í Borgarfirði til að auðvelda veiðina. Andrés Fjeldsted á Hvítárvöllum tók á leigu alla veiði í Gljúfurá á á árunum 1860-70. Um það er ritað: "Hlóð hann stíflu í kvíslina, þar sem hún fellur úr Langá, svo að Gljúfurá nær þornaði. Dró hann svo á hyljina neðar í ánni og gjöreyddi laxinum." Sennilegt er að Snorri Sturluson hafi farið að með svipuðum hætti í Grímsá.

Af Andrési Fjeldsted er sögð eftirfarandi saga: Menn voru að draga á Hólmavaðskvörn í Grímsá og sást að mikill lax var í hylnum. En er drætti var nálega lokið, missti sá, er óð á eftir netinu fótanna og hrópaði á hjálp. En þá kallaði Andrés: "Hugsið um laxinn. Látið skræfuna eiga sig." Ljóst er að laxveiðin hefur á þessum árum verið með mun skemmtilegri hætti en nú gerist.

Fornar norrænar rúnaristur frá sjöttu öld greina frá flutningi á lifandi silungi í fisklaus vötn í Noregi. Þannig hafa menn snemma á öldum hugað að fiskeldi og fiskrækt. Með þessar staðreyndir í huga tel ég að fiskeldið sé komið til að vera. Það á mörg sóknarfæri, við fórum of hratt í upphafi eins og Íslendingum er títt, en í dag grundvallast atvinnugreinin á góðri þekkingu og dýrmætri reynslu.

Ég segi þessa ráðstefnu setta.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum