Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

7. desember 1999 MatvælaráðuneytiðGuðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra 1999-2007

Ræða á aðalfundi sauðfjárbænda 1999

Aðalfundur sauðfjárbænda 1999


Það hefur löngum verið sagt að sauðkindin hafi gert manninum það mögulegt að byggja Ísland ekki síst þegar aðstæður voru sem verstar.

Þessi staðreynd tengir sauðkindina og manninn órjúfanlegum böndum.

Þau bönd eru söguleg og menningarleg og ef marka má frásögnina af Bjarti í Sumarhúsum, hans lífsgildum, þá veitti hún ekki síður félagslegt samneyti og innblástur í dagsins önn.

Nú þegar breytt þjóðfélag setur önnur gildi ofar sauðkindinni má þessi sögulegi þáttur ekki gleymast.

Nýr samningur um framleiðslu sauðfjárafurða er nú í vinnslu. Ég get ekki fjallað um efni hans hér á þessum fundi en það er ljóst að mikið er undir að vel takist til. Ég ræddi þessi mál í ríkisstjórn í morgun og þar voru menn sammála um að ljúka samningsgerðinni sem allra fyrst. Þá geta bændur á grundvelli hans gert sínar framtíðaráætlanir.

Sauðfjárræktin sem seigasti hlekkur byggðakeðjunnar má ekki veikjast meira en orðið er því þá gisnar byggðin með þeim afleiðingum sem við þekkjum víða. Það má hins vegar aldrei gerast að sauðfjárræktin verði látin borga byggðastefnuna. Þá gengur sauðfjárræktin handjárnuð ti þeirrar samkeppni sem framundan er.

Markmið með nýjum sauðfjársamningi verða að vera skýr. Helsta markmiðið verður að vera að treysta sauðfjárræktina sem atvinnugrein. Aðeins þannig getur hún fætt, klætt og sinnt þörfum þeirra er hana stunda. Fólkið í sveitinni gerir sömu kröfur til lífsins og aðrir landsmenn fyrir sig og sín börn. Fátækt og atvinnuleysi eru hverri atvinnugrein hættuleg.

Í þeim útreikningum sem gerðir hafa verið á liðnum árum sést svo ekki verður um vilst að afkoma sauðfjárbænda er ekki ásættanleg. En þessir útreikningar sýna líka að hún er afar misjöfn milli bænda. Í þeim mun liggur auðlind sem rétt er að nýta.

Ef í tengslum við nýjan samning verður hægt að auka skilning bænda á þeim þáttum sem ráða afkomunni þá getum við unnið stóra sigra. Gæðastýrð íslensk sauðfjárrækt með t.t. allra þátta er framtíðarsýn sem vekur vonir. Vonir um betri tíð og framleiðslu í öndvegi.

Sauðfjárræktin getur ekki gengið óstudd til móts við nýja öld. Ríkisvaldið er hér eftir sem hingað til ákveðið í að létta undir í þeirri baráttu sem framundan er.

Beinn stuðningur við eina grein á kjötmarkaði getur auðvitað orkað tvímælis en sú vernd sem öðrum búgreinum er sköpuð, mæld í PSE, er hærri. Þess vegan er ekki aðeins réttlætanlegt heldur beinlínis nauðsynlegt að létta undir með þeirri búgrein er mest innlend aðföng notar.

Eitt er að ákveða að styðja við sauðfjárræktina. Annað er að skipta stuðningnum milli þeirra sem hans njóta. Nú bíður það samninganefnda ríkis og bænda að finna þann flöt. Þeirra hlutverk er ekki öfundsvert.

Ég get ekki fjallað um þetta atriði frekar en vil þó segja að lokum. Ég tek ekki undir með þeim er segja að það geti verið liður í að styrkja sauðfjárræktina að láta þá sem eftir verða kaupa sér ríkisstuðning. Grein sem hefur verið jafn tekjulaus og sauðfjárræktin, hefur ekki þá getu sem þarf til að takast á við markaðsöflin eins og þau lýsa sér í kvótakaupum. Þá vísa ég bæði í kvótakaup í mjólkurframleiðslu og fiskveiðum. Gætum þess að greiðslumark í mjólk veitir rétt til að setja framleiðslu á markað og kvóti í sjávarútvegi veitir rétt til veiða. Sambærilegir þættir eru ekki til staðar í sauðfjárrækt. Þar er stuðningurinn ekki framleiðslutengdur, né heldur veitir hann rétt á markaði. Það eru tvær leiðir til. Annarsvegar sala milli bænda og hins vegar uppkaup ríkisins. Í Danmörku, landi sem setur 75 % framleiðslu sinnar á heimsmarkað, þar kostar mjólkurlíterinn 35-40 kr. Hér á landi kostar hann 185 kr. eða meira. Hvaða sögu segir þetta dæmi.

Á undanförnum árum hefur verið útbúið kerfi sem viðheldur jafnvægi á kindakjötsmarkaði. Sameiginleg ábyrgð framleiðenda á útflutningi tryggir að á hverjum tíma er öll framleiðsla seld.

Sátt virðist ríkja um þetta fyrirkomulag og hafa allir þeir aðilar sem um málið fjalla lagt til að ekki verði hreyft við þessu kerfi.

Í nefnd er ég skipaði, sem gjarnan er kennt við formann hennar Einar Odd Kristjánsson alþingismann og fjallaði um útflutning á kindakjöti eru gerðar ýmsar tillögur til hagsbóta fyrir útflutning. Þar vegur þyngst að þeir leggja ekki til breytingar á kerfinu en vilja styrkja það og byggja upp. Tillögur nefndarinnar byggja m.a. á því að veita styrki til markaðssetningar, styðja við lífræna framleiðslu til útflutnings og að styrkja flutning á sláturfé. Þá er lagt til að þeir samningar sem Ísland á aðild að og snerta útflutning á dilkakjöti verði endurskoðaðir þannig að auðveldara verði að flytja út.

Hér er á ferðinni stórt mál. Það er ljóst að ef tekst að styrkja markaði fyrir íslenskt gæðakjöt þá á íslenskur landbúnaður möguleika. Þeir eru ekki stórir á mælikvarða heimsins en duga okkur vel ef rétt er á haldið.

Þá kom fram í fyrrnefndu nefndaráliti nauðsyn þess að hagræða á öllum stigum. Við höfum séð það í ýmsum þáttum okkar ágæta mannlífs að hagræðing leysir ekki allan vanda, en sóun má ekki vera innbyggð í kerfið.

Ágætu sauðfjárbændur. Ég hef nú farið víða en ég hef enn ekki minnst á þann þátt sem mest hefur breyst í seinni tíð og á eftir að hafa meiri áhrif á sauðfjárræktina en nokkuð annað.

Þessi þáttur er almenningsálitið. Ég skynja það þannig að íslensk þjóð sé stolt að sínum bændum og styðji landbúnaðarstefnuna sem m.a. felst í stuðningi við sauðfjárrækt. Borgarbúinn skynjar að landið er dýrmætara ef þar býr fólk.

En það má ekki mikið gerast til að sú sátt hverfi. Sá þáttur sem er helst líklegur til að verða til þess er landnýting. Aukin umhverfisvitund almennings og önnur gildi en áður kalla á breytta og enn betri landnýtingu.

Almenningur er nú betur upplýstur um umhverfi sitt og gerir kröfur um að fá að njóta þess á sinn hátt. Aukin ásókn í land, nýting til uppgræðslu og skógræktar kallar á aðra sýn. Þessa sýn verða bændur að skynja. Og bændur eiga auðvelt með það því hver les landið betur en sá sem þar starfar og hefur alist upp með því. Þetta gera þeir og taka að sér ný og stór verkefni í ferðaþjónustu og á sviði skógræktar

Þessi breytta sýn gefur bændum stór tækifæri. Tækifæri til að sinna þörf þéttbýlisbúans og tækifæri til að taka þátt í endurheimt landsgæða.

Ef íslensk sauðfjárrækt tileinkar sér gæðastýringu allra þátta framleiðslunnar og ef íslenskir sauðfjárbændur bera gæfu til að taka þátt í þeirri vakningu sem nú er, þá er framtíðin björt.

Að endingu óska ég fundinum heilla í störfum sínum.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum