Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

10. mars 2000 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Aðalfundur Samorku 10.03.00

Valgerður Sverrisdóttir,
iðnaðar- og viðskiptaráðherra

Ávarp á aðalfundi Samorku
10. mars 2000.

Ágætir fundarmenn.

Mér er það sönn ánægja að fá tækifæri til að ávarpa þennan aðalfund Samorku. Orkumálin eru mikilvægur málaflokkur í iðnaðarráðuneytinu, harða pakkanum eins og ég kallaði hann þegar ég tók við um síðustu áramót. En eins títt er um harða pakka hefur innihaldið bæði verið mjúkt og spennandi. Það eru fjölmörg áhugaverð og krefjandi viðfangsefni sem bíða okkar nú við árþúsundamót, nýskipan orkumála í landinu er þar ofarlega á blaði.

Tuttugasta öldin hefur fært okkur meiri framfarir en allar fyrri aldir Íslandssögunnar samanlagt. Breytingarnar hafa stöðugt verið með vaxandi hraða og þær hafa fært þjóðinni mikil og stöðugt ný tækifæri - en um leið verið nokkur ógnun við hefðbundnar venjur og rótgróin gildi.

Með auknu frelsi og tækifærum fólks til athafna og fjárfestinga við lok síðustu aldar fór vegur þjóðarinnar vaxandi. Guðmundur Jónsson sagnfræðingur hefur í nýrri bók er nefnist Hagvöxtur og iðnvæðing - þróun landsframleiðslu á Íslandi 1870 - 1945, leitt rök að því að eðlilegt sé að miða upphaf iðnvæðingar á Íslandi við þá gerbreytingu í formgerð atvinnulífsins sem varð á níunda áratug 19. aldar þegar þéttbýlismyndunin fór á skrið með flutningi vinnuafls frá landbúnaði til sjávarútvegs og annarra atvinnugreina í bæjum.

Afleiðing þessara þjóðlífsbreytinga var hraðari vöxtur landsframleiðslu hér á landi en almennt gerðist í Evrópu. Þetta leiddi til þess, að á undraskömmum tíma tókst okkur að ná sama framleiðslustigi og svipuðum lífskjörum og í nágrannalöndum okkar.
II.
Hinn öri hagvöxtur sem verið hefur á Íslandi á 20. öldinni á að verulegu leyti rætur í nýtingu á náttúrulegum auðlindum þjóðarinnar, bæði gjöfulum fiskimiðum og orkulindum. Beislun orkulindanna hefur líka átt drjúgan þátt í að bæta lífsgæði okkar sem í landinu búum. Við upphaf aldarinnar biðu bæði vatnsaflið og jarðvarminn þess að verða þær auðlindir sem yrðu grundvöllur betra lífs þjóðarinnar. Á þeim tíma sóttum við innlenda orku í mó og tað, en framsýnir menn voru farnir að líta til nýtingar vatnsorkunnar og jarðvarmans sem undirstöðu framfara og bættra kjara í landinu. Nú hundrað árum síðar vitum við að þessir menn höfðu rétt fyrir sér, jafnframt því sem við vitum að allar forsendur eru til orkulindirnar geti skapað fleiri sóknarfæri fyrir íslenskt þjóðfélag á nýrri öld.

Umræða um nýtingu orkulindanna hefur í seinni tíð því miður oft verið á heldur neikvæðum nótum. Ef til vill höfum við gleymt fortíðinni. Við eigum t.d. erfitt með að gera okkur grein fyrir þeirri byltingu sem varð í bæjum landsins á fyrri hluta aldarinnar og í sveitum landsins með rafvæðingunni sem hófst um miðja öldina. Það er af sem áður var þegar bændur og búalið flögguðu þegar rafmagnsstaurarnir voru reistir og langþráð rafmagn var á næsta leyti. Nú virðast sum okkar vilja rafmagnið en ekki mannvirkin sem þarf til að framleiða það og koma því til okkar. Sömuleiðis er erfitt að skilja hvernig lífið var þegar ekki dugði að skrúfa frá krananum til að fá heitt vatn hvað þá þegar þurfti að sækja kalt vatn um langan veg.

Það var stór áfangi í nýtingu jarðvarmans þegar héraðsskólarnir að Laugum, Laugarvatni, Reykjum og Reykholti voru reistir á 3. og 4. áratugunum. Jarðhiti réð því hvar þessir skólar voru reistir og þeir ásamt þeim hverfum og sundlaugum sem við þá risu voru hitaðir með heitu vatni. Skólarnir voru snar þáttur í að efla menntun þjóðarinnar og þar kynntust margir þeim gæðum sem jarðhitinn hefur uppá að bjóða. Stofnun hitaveitu í Reykjavík og á mörgum þéttbýlisstöum í landinu hefur aukið velsæld og skapað þá hreinu ímynd sem landið hefur.

Þegar rætt er um umhverfisáhrif orkuvinnslunnar þurfum við að skoða málið í samhengi bæði við þau lífsgæði sem beislun orkulindanna hefur fært okkur sem og að heita vatnið og rafmagið hefur leyst af hólmi eða komið í veg fyrir brennslu kola eða olíu og mengun sem henni fylgir. Við þurfum í sameinginu að kynna þjóðinni og erlendum ferðamönnum sem sækja okkur heim hversu vel hefur tekist til í nýtingu orkulindanna. Hér eigum við samleið.
III.
Sú skipan orkumála sem komið var á hér á landi á sjöunda áratugnum hefur um margt reynst okkur vel. Flestar hitaveiturnar eru orðnar stöndug fyrirtæki sem bjóða orku til hitunar á lægra verði en þekkist í öðrum iðnríkjum. Raforkukerfið stendur á traustum grunni, það er tæknilega mjög gott og notendur búa við mikið afhendingaröryggi. Atvinnulíf á Akureyri lamast ekki þó ístruflanir verði í Laxá svo dæmi sé tekið. Staða orkumála er því allt önnur nú en fyrir aldarþriðjungi.

Á undanförnum árum hefur eins og ykkur er kunnugt um verið unnið að endurskoðun á skipan þessara mála. Sú endurskoðun byggir að sjálfsögðu á fenginni reynslu af þeirri skipan sem að flestu leyti hefur gefist okkur vel. Endurskoðunin þarf að taka mið af þekkingu, rannsóknum og reynslu annarra þjóða af þeim breytingum sem orðið hafa í greininni á undanförnum áratug eða svo. Hún þarf líka að taka mið af sérstöðu okkar í þessu efni, m.a. þeirri staðreynd að við eigum miklar endurnýjanlegar okulindir sem ekki hafa verið nýttar nema að litlu leyti. Ný skipan þarf að stuðla að því að við höldum áfram að nýta orkulindirnar með skilvirkum hætti um leið og við virkjum markaðsöflin til að auka hagkvæmi í orkubúskapnum.

Hefðbundin viðhorf til raforkumála hafa verið að breytast og nú þykir eðlilegt að skilja á milli náttúrulega einkasöluþátta og þátta þar sem samkeppni verður komið við. Þetta þýðir að skilja þarf á milli leiðslubundinna þátta, þ.e. flutnings og dreifingar á raforku annars vegar og vinnslu og sölu á raforku hins vegar. Með því að tryggja eðlilegan aðgang að flutnings- og dreifikerfum raforku samkvæmt gjaldskrá verður unnt að koma á samkeppni í vinnsla og sölu raforku. Undirbúningur að því er hafinn. Í síðasta mánuði lauk starfi nefndar sem forveri minn skipaði til að fjalla um framtíðarskipulag raforkuflutnings á Íslandi. Skýrsla nefndarinnar verður kynnt í næstu viku. Í henni koma fram niðurstöður nefndarinnar auk þess sem þar eru teknar saman upplýsingar sem unnar hafa verið fyrir hana og niðurstöður hennar byggja á. Mér er kunnugt um að nefndin fékk ýmsar upplýsingar frá raforkufyrirtækjunum og átti fundi með fulltrúum þeirra áður en hún skilaði skýrslu sinni og vil ég nota þetta tækifæri til að þakka það. Ég hef óskað eftir því að nefndin kynni fulltrúum fyrirtækjanna skýrsluna og er stefnt að því að sú kynning geti farið fram á að morgni miðvikudags í næstu viku.

Öllum má vera ljóst að breytingar á skipan raforkumála munu taka talsverðan tíma. Þær þarf að vinna í áföngum og endurmeta þarf stöðuna að loknum hverjum áfanga þannig að framvinda málsins verði eins góð og kostur er á - enda mikið í húfi. Meðal annars þarf að gæta vel að þeim víðtæku skyldum sem orkufyrirtækin hafa við notendur. Einnig verður að hafa það í huga, að íslenska raforkukerfið er lítið og ótengt öðrum kerfum, sem torveldar samkeppni.

Í þeim tilgangi að koma á breyttri skipan þessara mála hef ég í hyggju að leggja fyrir yfirstandandi þing til kynningar frumvarp til raforkulaga. Markmið frumvarpsins verður að stuðla að þjóðhagslega hagkvæmri nýtingu orkulinda þjóðarinnar í því skyni að efla atvinnulíf og byggð í landinu að teknu tilliti til umhverfissjónarmiða, varðveislu þjóðminja og hefðbundinna landnytja. Ég vonast til að unnt verði að endurskoða frumvarpið næsta sumar í ljósi umræðu innan þings og utan með það að markmiði að hægt verði að leggja nýtt frumvarp fyrir Alþingi næsta haust og að ný lög verði samþykkt á næsta vetri. Ný lög þurfa að gera starfsemi orkufyrirtækjanna og viðskipti með rafmagn sem skilvirkust, þannig að kostnaður við starfsemina og verð raforku verði eins lágt og kostur er. Ný lög eiga líka að stuðla að því að nýtt fjármagn fáist til greinarinnar, það kallar að sjálsögðu á að við verðum að gera eðlilegar arðkröfur til þess fjármagns sem bundið er í greininni.

Í framhaldi af endurskoðun laga um raforkumál geri ég ráð fyrir að lög um hitaveitur verði endurskoðuð enda eðlilegt að orkufyrirtækin búi við eins lík starfskilyrði og unnt er.

Ég vona að okkur beri gæfu til að breyta skipan orkumála með þeim hætti að við getum nýtt þau sóknarfæri sem orkulindirnar gefa þjóðinni.
IV
Ég vil að lokum ítreka þakkir mínar fyrir að fá tækifæri til að ávarpa fundinn. Ég vonast til að eiga góða samvinnu við Samorku og fyrirtækin sem að samtökunum standa á næstu misserum og árum.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum