Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

6. apríl 2000 MatvælaráðuneytiðGuðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra 1999-2007

Framsöguræða landbúnaðarráðherra um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 99/1993 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum með síðari breytingum 6. apríl 2000.

Framsöguræða landbúnaðarráðherra
um
frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 99/1993 um framleiðslu,
verðlagningu og sölu á búvörum með síðari breytingum 6. apríl 2000.




Hæstvirtur forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga sem mun það hafa í för með sér breytingar á lögum nr. 99/1993 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum með síðari breytingum.

Frumvarp þetta til laga um breytingu á lögum nr. 99/1993 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum er lagt fram í þeim tilgangi að lögfesta nauðsynlegar breytingar á lögunum vegna ákvæða í samningi um framleiðslu sauðfjárafurða milli landbúnaðarráðherra f.h. ríkisstjórnar Íslands og Bændasamtaka Íslands sem undirritaður var 11. mars 2000. Samningurinn er að verulegu leyti samhljóða eldri samningum um sama efni en felur einnig í sér nokkrar breytingar.

Landbúnaðarráðherra hófst handa síðastliðið vor um að leggja drög að gerð nýs samnings um framleiðslu sauðfjárafurða í samræmi við ákvæði 30. gr. laga nr. 99/1993 en núverandi samningur um framleiðslu sauðfjárafurða gildir til ársloka 2000. Hófust þá óformlegar viðræður við Bændasamtök Íslands. Hinn 17. ágúst 2000 skipaði landbúnaðarráðherra nefnd til viðræðna við Bændasamtök Íslands um gerð nýs samnings. Í nefndinni áttu sæti fimm fulltrúar frá landbúnaðarráðuneyti, fjármálaráðuneyti og Byggðastofnun undir forystu Sveinbjörns Eyjólfssonar, aðstoðarmanns landbúnaðarráðherra. Formlegt starf nefndarinnar hófst þegar í ágúst með viðræðum við Bændasamtökin en af þeirra hálfu tóku fimm bændur þátt í samningagerðinni undir forustu Ara Teitssonar, formanns Bændasamtaka Íslands.

Þegar í upphafi viðræðnanna var ljóst að gera þyrfti nokkrar breytingar á gildandi búvörusamningi enda þótt margt hefði tekist vel í framkvæmd hans og náðst hafi jafnvægi milli framleiðslu og afsetningu afurða. Mjög lítil framþróun hafði hins vegar orðið innan greinarinnar og eru lífskjör sauðfjárbænda víðast hvar bág eins og kemur fram í áliti nefndar dags. 7. október 1998, lífskjaranefndarinnar svonefndu, sem landbúnaðarráðherra skipaði í mars 1997 til að gera úttekt á lífskjörum bænda. Almennt er talið að vandi sauðfjárræktarinnar liggi í því að einingarnar séu of litlar, og nýting fastafjármuna og vinnuafls þar af leiðandi ekki næg og möguleikar til þess að afla tekna utan bús víða takmarkaðir. Eftir tekjuleysi undanfarinna ára eru margir sauðfjárbændur nú í þeirri aðstöðu að vilja eða þurfa að hætta búskap. Bændur og stjórnvöld hafa á liðnum árum reynt að stuðla að því að stækka sauðfjárbúin og hefur það m.a. verið gert með stuðningi ríkisins við bændur sem hætta vildu búskap samkvæmt ákvæðum í tveimur síðustu búvörusamningum, l991 og1995. Í hinum nýja sauðfjársamningi eru fjölmörg sóknarfæri fyrir bændur sem vilja halda áfram búskap og bæta afkomu sína og þar er einnig komið verulega til móts við þá bændur sem vilja hætta búskap. Þar er um að ræða tilboð ríkisins um kaup á greiðslumarki til þeirra sem vilja hætta og heimild til að framselja greiðslumark sem gefin verður frjáls á síðar á samningstímanum.

Samningsaðilar hafa í starfi sínu haft ítarlegt samráð við ýmsa aðila, m.a. Hagþjónustu landbúnaðarins og Byggðastofnun, svo og Rannsóknastofnun landbúnaðarins og Landgræðslu ríkisins varðandi landnýtingarþátt gæðastýringarkerfis þess sem ætlunin er að taka upp.

Hæstvirtur forseti. Ég mun nú víkja að efnisatriðum hins nýja samnings um framleiðslu sauðfjárafurða og gera sérstaka grein fyrir þeim breytingum sem hann hefur að geyma miðað við það framleiðslustjórnunarkerfi sauðfjárræktar sem nú gildir.

Samningur sá sem nú liggur fyrir nær yfir tímabilið 2001-2007. Um efni hans vísast til fylgiskjals I með frumvarpi þessu. Samningurinn er að nokkru leyti samhljóða sauðfjárhluta samnings sömu aðila um stefnumörkun í mjólkurframleiðslu og sauðfjárrækt sem undirritaður var 11. mars 1991 með breytingum sem gerðar voru á honum með samningi um sauðfjárframleiðslu sem undirritaður var 1. október 1995.

Í markmiðum samningsins kemur fram að styrkja skuli sauðfjárrækt sem atvinnugrein og bæta afkomu sauðfjárbænda. Skilyrði eru sköpuð til að ná fram aukinni hagræðingu í sauðfjárrækt, að sauðfjárrækt verði í samræmi við umhverfisvernd, landkosti og æskileg landnýtingarsjónarmið, að halda skuli jafnvægi milli framleiðslu og sölu sauðfjárafurða og að efla beri fagmennsku, þekkingu og þróun í sauðfjárrækt.

Þessum markmiðum hyggjast samningsaðilar ná með því að beina stuðningi í ríkari mæli að gæðastýrðri framleiðslu, viðhalda því kerfi sem gildir um útflutning sauðfjárafurða, efla rannsóknir, kennslu, leiðbeiningar og þróun greinarinnar, vinna að sátt um mat á landnýtingu og aðstoð við þá bændur sem vilja hætta sauðfjárframleiðslu.

Samkvæmt samningnum og frumvarpi þessu verður greiðslumark áfram bundið við lögbýli. Beingreiðslur verða áfram greiddar óháð framleiðslu. Framleiðsla og afurðauppgjör verður áfram óháð greiðslumarki lögbýlis. Á fyrsta ári gildistíma nýs samnings verður ásetningshlutfall 0.6, eins og verið hefur, þ.e. til þess að fá fullar beingreiðslur þarf sauðfjárbóndi að eiga að minnsta kosti 60 vetrarfóðraðar kindur fyrir hver 100 ærgildi greiðslumarks. Nái ásetningur ekki þeirri tölu skerðast beingreiðslur hlutfallslega. Að loknu þessu fyrsta ári samningstímans skal endurskoða ásetningshlutfallið árlega. Öllum sauðfjárframleiðendum er áfram heimilt að koma með til förgunar alla framleiðslu sína án takmarkana. Allir sauðfjárframleiðendur taka þátt í útflutningi í sama hlutfalli og áður. Undanþegnir útflutningsuppgjöri eru eins og áður þeir bændur sem hafa 0,7 vetrarfóðraðar kindur eða minna á hvert ærgildi greiðslumarks en það hlutfall tekur breytingum í samræmi við breytingar á sölu kindakjöts innan lands. Þeir bændur sem framleiða samkvæmt 0.7 ásetningsreglunni eru skuldbundnir til að leggja aðeins inn afurðir þess fjár, ef þeir vilja komast hjá skerðingu. Þá getur landbúnaðarráðherra eins og áður ákveðið að kjöt af sauðfé sem slátrað er á ákveðnum tímabilum utan haustsláturtíðar verði einnig undanþegið útflutningsuppgjöri. Verðlagning sauðfjárafurða verður frjáls og bændur semja sjálfir við sláturleyfishafa um verð fyrir framleiðslu sína.

Frá og með 1. janúar 2001 verða heildarbeingeiðslur til sauðfjárbænda 1.740 milljónir króna og skiptast hlutfallslega eins milli lögbýla og beingreiðslur gerðu árið 2000. Beingreiðslur taka breytingum til samræmis við uppkaup ríkisins á greiðslumarki og einnig, frá árinu 2003, til samræmis við álagsgreiðslur á gæðastýrða framleiðslu. Gerð er nánari grein fyrir því í hinum nýja samningi og fylgiskjölum með honum, sbr. fylgiskjal I með frumvarpi þessu.

Heimilt verður að framselja greiðslumark sauðfjárafurða eftir að ríkissjóður hefur keypt upp 45.000 ærgildi en eigi síðar en 1. janúar 2004. Eins og áður segir hefur slíkt framsal verið óheimilt frá árinu 1995. Að margra áliti hefur það staðið í vegi fyrir hagræðingu í greininni, m.a. hjá bændum með blandaðan búrekstur, að ekki hefur verið heimilt að framselja greiðslumark í sauðfé milli manna. Þeir sem stóðu að gerð sauðfjársamningsins töldu því óhjákvæmilegt að heimila slíkt framsal aftur og er með því stefnt að því að skapa aukið rými til hagræðingar innan greinarinnar. Í frumvarpinu er gert er ráð fyrir að framsal greiðslumarks milli lögbýla taki gildi 1. janúar ár hvert og nýr aðili taki beingreiðslur frá þeim tíma. Þetta síðastnefnda er einnig nýmæli en ekki hafa verið bein ákvæði í lögum um gildistíma slíks framsals áður.

Sérstakar jöfnunargreiðslur verða greiddar þeim framleiðendum sem nýlega hafa byrjað sauðfjárrækt, hafa haft miklar og vaxandi afurðir eftir hverja á eða hafa stækkað bú sín á undanförnum árum. Frekari skilyrði eru sett í frumvarpinu fyrir því að hljóta slíkar jöfnunargreiðslur en gert er ráð fyrir að landbúnaðarráðherra setji nánari reglur um framkvæmd þessa ákvæðis í reglugerð. Jöfnunargreiðslur geta að hámarki numið 100 kr. á hvert kg dilkakjöts. Gert er ráð fyrir að varið verði um 60 millj. kr. á ári til jöfnunargreiðslna. Jöfnunargreiðslur verða ekki uppkeyptar eða framseldar. Með jöfnunargreiðslum þessum er verið að koma til móts við framsæknasta hluta stéttarinnar, þ.e. þá sauðfjárbændur sem náð hafa bestum árangri í búrekstri sínum og þá sem nýlega hafa byrjað búskap. Mjög mikilvægt er fyrir framgang greinarinnar að þessir aðilar fái hvatningu til að halda áfram á sömu braut.

Greiddar verða sérstakar álagsgreiðslur á gæðastýrða sauðfjárframleiðslu, þ.e. afurðir sem framleiddar hafa verið eftir kröfum um skilgreindan framleiðsluferil, hollustu og umhverfisvernd. Álagsgreiðslur greiðast fyrir tiltekna gæðaflokka dilkakjöts eftir ákvörðun landbúnaðarráðherra og að fengnum tillögum framkvæmdanefndar búvörusamninga. Álagsgreiðslur þessar hefjast árið 2003 og nema fyrsta árið 12.5% og hækka síðan árlega til loka samningstímans og verða þær þá orðnar 22.5% af beingreiðslum. Beingreiðslur til þeirra sem ekki taka þátt í gæðastýringunni lækka að sama skapi. Auk þess verða álagsgreiðslurnar fjármagnaðar með svokölluðu uppkaupaálagi, þ.e. hluta af þeim fjármunum sem beingreiðslur lækka um vegna uppkaupa ríkissjóðs á greiðslumarki.

Með upptöku gæðastýringarkerfis eins og þess sem hér er stefnt að hefur verið náð mjög merkum áfanga. Í gæðastýringarkerfinu er landnýtingarþátturinn án efa einn sá mikilvægasti en með því er stefnt að því að sauðfjárframleiðsla verði á næstu árum og áratugum stunduð í sátt við landið. Með upptöku gæðastýringarkerfis eins og þess sem hér um ræðir er því stigið mikilvægt skref í þá átt að skapa nauðsynlega sátt um nýtigu landsins. Þar verður þó að hafa í huga að ágangur sauðfjár er aðeins einn þáttur þess máls. Sauðfé hefur fækkað mikið, en þáttur hrossa og gæsa, svo eitthvað sé nefnt, hefur farið vaxandi. Ljóst er að mikið starf er framundan á þessu sviði og árangurinn skilar sér ekki á skömmum tíma.

Gæði íslenskrar sauðfjárframleiðslu eru mjög mikil en með gæðastýringarkerfi þessu er ætlunin að treysta enn betur og staðfesta þá gæðaímynd sem íslensk sauðfjárframleiðsla hefur.

Jafnframt er gæðastýringarkerfið leið til þess að tryggja betri rekstur innan greinarinnar.

Ljóst er að ef gæðastýringarkerfið verður að veruleika fá þeir bændur sem taka þátt í því álag á beingreiðslur og þar með hærri greiðslur en aðrir og ætti það að vera öllum hvatning til að gerast þátttakendur og stuðla þannig að því að sauðfjárframleiðsla verði í æ ríkari mæli gæðastýrð og vistvæn.

Í fjölmiðlum og víðar hafa komið fram hugmyndir um að gæðastýringin feli í sér mismunun á milli bænda og þar með brot á jafnræðisreglu stjórnarskrár lýðveldisins Íslands. Í samantekt um gæðastýrða sauðfjárrækt sem fylgir hinum nýja sauðfjársamningi og er hluti fylgiskjals I með frumvarpi þessu koma fram upplýsingar um hvernig háttað verði stjórnun, ábyrgð, undirbúningi, framkvæmd, eftirliti og tilgangi gæðastýringar í sauðfjárrækt. Gæðastýringin tekur til landnota, einstaklingsmerkinga sauðfjár, kynbótaskýrsluhalds, gæðadagbókar, búfjáreftirlits, lyfjaeftirlits, áburðarnotkunar og fóðrunar. Gert er ráð fyrir að í gæðahandbók komi fram hvaða grunnkröfur (lágmarkskröfur) aðilar þurfa að uppfylla og að þær megi herða, auka eða breyta eftir því sem árangur næst. Um nánari útlistun á fyrirkomulagi gæðastýringarkerfisins vísa ég til fylgiskjals I með frumvarpi þessu. Eins og gæðastýringarkerfið er sett upp er stefnt að því, að við ákvörðun um hverjir geti orðið aðilar að gæðastýringu í sauðfjárrækt og þar með fengið álag á beingreiðslur samkvæmt hinum nýja sauðfjársamningi verði byggt á hlutlægum og fyrirfram ákveðnum mælikvarða, þannig að allir sauðfjárbændur eigi þess jafnan kost að uppfylla þau skilyrði sem þar eru sett og jafna möguleika á að verða aðilar að gæðastýringunni. Hins vegar má gera ráð fyrir að einhver hluti sauðfjárbænda sé ekki tilbúinn að leggja á sig þá viðbótarvinnu sem þetta útheimtir en það er alfarið þeirra val ef þeir kjósa að standa utan við gæðastýringarkerfið. Það er því ekki rétt sem sumir halda fram, að gæðastýringarkerfið feli í sér mismunun milli bænda sem brjóti gegn jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.

Þá felur hinn nýi sauðfjársamningur í sér verulega aðstoð ríkisins við þá sauðfjárbændur sem hætta vilja búskap.

Ríkissjóði er í frumvarpinu veitt heimild til uppkaupa á greiðslumarki eftir nánari ákvæðum sem ráðherra setur í reglugerð. Beingreiðslum sem svara til fyrstu 25.000 ærgildanna sem ríkið kaupir skal varið til að greiða álag á framleitt dilkakjöt fyrstu tvö árin en eftir það verða þær eins og áður segir nýttar til greiðslu álags á gæðastýrða framleiðslu. Framkvæmdanefnd búvörusamninga getur ákveðið að uppkaupum verði hætt þegar keypt hafa verið 45.000 ærgildi. Gert er ráð fyrir að varið verði um 990 milljónum króna til uppkaupanna.

Í hinum nýja sauðfjársamningi er samið um framlög til eflingar fagmennsku innan greinarinnar að fjárhæð 35 milljónir króna á ári. Fé þetta verður nýtt til að styðja kennslu, rannsóknir, leiðbeiningar og þróun í greininni og til stuðnings átaksverkefnum á sauðfjársvæðum. Gert er ráð fyrir að uppbygging gæðastýringar verði studd af þessum lið. Þá er í sauðfjársamningnum ennfremur samið um framlög ríkissjóðs til þróunar- og þjónustukostnaðar að fjárhæð 235 milljónir króna á ári og framlög til niðurgreiðslna á ull að fjárhæð 220 milljónir króna á ári. Um er að ræða hliðstæðar greiðslur og bændur fá samkvæmt núgildandi sauðfjársamningi.

Endurskoðunarákvæði er í hinum nýja sauðfjársamningi. Að þremur árum liðnum skulu samningsaðilar samkvæmt því gera úttekt á framkvæmd samningsins með tilliti til markmiða hans. Skal sérstaklega hugað að því hvernig til hefur tekist við undirbúning og framkvæmd gæðastýringar og endurskoðað hve stór hluti skuli greiddur út á gæðastýrða framleiðslu.

Að lokum eru í frumvarpinu gerðar nokkrar leiðréttingar á tilvitnunum í önnur lög sem breyst hafa á undanförnum árum. Ákvæði þessi varða ekki framkvæmd nýs sauðfjársamnings og tel ég ekki ástæðu til að gera þessar breytingar að umræðuefni hér.

Á fylgiskjali II með frumvarpi þessu er að finna kostnaðarumsögn fjármálaráðuneytisins um frumvarpið og læt ég nægja að vísa þangað.

Ég vil að öðru leyti vísa til greinargerðar þeirrar er fylgir frumvarpinu og athugasemda með frumvarpinu.

Hæstvirtur forseti.

Ég hefi nú gert grein fyrir meginefni frumvarpsins og um leið hins nýja sauðfjársamnings milli ríkisins og bænda. Hér er um viðkvæmt mál að ræða sem snertir hagsmuni mjög margra og skiptir jafnframt sköpum varðandi búsetu og afkomu fólks í hinum dreifðu byggðum landsins. Eðlilegt er að sitt sýnist hverjum þegar um svo viðkvæmt mál er að ræða, en að mínum dómi hefur með þessum samningi tekist að opna sauðfjárræktinni leið inn í framtíðina. Samningur þessi gerir þeim sem kjósa að hætta sauðfjárframleiðslu kleift að skapa sér verðmæti úr þeim eignum sem þeir eiga í greiðslumarki sínu og hasla sér völl á nýjum vettvangi. Fyrir þá sem áfram kjósa að starfa í greininni skapar samningurinn rekstraröryggi til næstu 7 ára og opnar þeim jafnframt leið til þess að treysta stöðu sína. Ég legg hins vegar áherslu á að ávinnungur hvers og eins bónda er fyrst og fremst undir hans eigin framtaki kominn og að hann verður fyrst og fremst sóttur inn á við í aukinni hagræðingu og bættum rekstri. Fyrir samfélagið í heild er þessi samningur fjárfesting í framtíð landbúnaðar og sterkari byggð; fjárfesting í auknum gæðum framleiðslunnar, betri rekstri og aukinni arðsemi greinarinnar í heild og síðast en ekki síst fjárfesting í umhverfisvænni búgrein.

Hæstvirtur forseti

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umræðu og hv. landbúnaðarnefndar.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum