Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

12. maí 2000 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Ársfundur Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga, 12. 05.00-

Valgerður Sverrisdóttir
iðnaðar- og viðskiptaráðherra



Ávarp á ársfundi Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga
12. maí 2000

Góðir fundarmenn,
Ég vil byrja á því að þakka atvinnuþróunarfélagingu fyrir að bjóða mér til fundarins hér í dag.
Frá því að við í iðnaðarráðuneytinu tókum við byggðamálunum um síðustu áramót þá höfum við verið að velta því fyrir okkur með hvaða hætti hægt sé að nýta sem best þá fjármuni og mannafla sem ríkið ráðstafar til atvinnuþróunarstarfsemi í víðum skilningi þess orðs. Það fyrirkomulag sem við búum við í þessum efnum er að stofni frá árinu 1985 þegar lög voru fyrst sett um starfsemi Byggðastofnunar. Talverðar breytingar voru þó gerðar á lögunum um Byggðastofnun í tengslum við flutning á yfirstjórn stofnunarinnar frá forsætisráðuneyti til iðnaðarráðuneytis um síðustu áramót. Í dag undirritaði ég síðan nýja reglugerð um starfsemi stofnunarinnar en það er síðan hlutverk stofnunarinnar og stjórnar hennar að aðlaga starfsemina að hinni breyttu lagaumgjörð.

Með hinum nýju lögum er lögð mikil áhersla á að Byggðastofnun hafi frumkvæði að því að auka samstarf sitt við allt stoðkerfi atvinnulífsins og að stofnunin taki virkan þátt í að þjóna þörfum þeirra fjölmörgu sem til hennar leita. Ég er þeirrar skoðunar að allt of mikið af kröftum Byggðastofnunar hafi fyrr á árum farið í að sinna lánamálum.

Starfsemi stofnunar eins og Byggðastofnunar þarf í raun að vera í stöðugri endurskoðun og við eigum að vera opinn fyrir því að gera breytingar ef við teljum að þær geti betur þjónað kröfum nútímans. Miklar breytingar hafa verið gerðar á skipan þessara mála í löndunum í kringum okkur. Nægir í því sambandi að nefna Noreg en þar voru gerðar umtalsverðar skipulagsbreytingar sem komu til framkvæmda í upphafi árs 1993. Breytingarnar í Noregi fólu það m.a. í sér að fjármunir sem áður voru nýttir til atvinnuþróunastarfsemi á vegum einstakra ráðuneyta voru fluttir undir einn hatt. Þannig var í raun safnað á einn stað öllu því fé sem norska ríkið ver til atvinnuþróunarstarfsemi þar í landi. Þeir sem óska eftir þjónustu þurfa því einungis að fara á einn stað en ekki á marga - eins og tíðkast hér hjá okkur. Þetta fyrirkomulag getur – ef rétt er á málum haldið - tryggt betri þjónustu og yfirsýn varðandi þær ráðstafanir sem í boði eru.

Starfssvæði Atvinnu- og byggðaþróunarsjóðs Noregs er allt landið og allar atvinnugreinar. Noregi hefur verið skipt upp í þrjú svæði með tilliti til byggðastyrkja. Á þessum svæðum geta fjárfestingarstyrkir til stofnunar fyrirtækja numið frá 15 til 50% af fjárfestingarkostnaði en hlutfallið fer eftir því á hvaða landsvæði fyrirtækið er stofnað og stærð þess. Hæstu styrkirnir eru í Norður-Noregi. Hið almenna skilyrði fyrir veitingu styrks er að stofnun fyrirtækisins sé þjóðhagslega hagkvæm og að rekstrargrundvöllur sé tryggur eftir að tekið hefur verið tillit til aðstoðar sjóðsins. Áherslan í styrkveitingum á síðustu árum hefur verið að færast yfir í fjárfestingar í mannauði í stað fjárfestinga í framleiðslutækjum. Styrkir eru veittir til stofnunar fyrirtækja, vöruþróunar, hagnýtingu rannsókna, stjórnunar og stefnumótunar.

Ég er ekki að segja frá þessu - hér og nú - vegna þess að ég telji endilega að við eigum að taka upp þetta norska kerfi. Ég vil hins vegar vekja athygli á nauðsyn þess að við lítum í kringum okkur og hugleiðum hvort eitthvert annað fyrirkomulag henti betur en það sem við höfum í dag. Ég tel að við þurfum að skoða alla þessa hluti vel og ég mun beita mér fyrir að það verði gert. Á fyrsta ársfundi Byggðastofnunar sem haldinn verður á Akureyri þann 7. júní n.k. gefst okkur vonandi tækifæri til að taka þessi mál til umfjöllunar.

Í ráðuneytinu er unnið að því að framfylgja þingsályktun um stefnu í byggðamálum 1999-2001. Ég hef haldið fund með forstöðumönnum allra stofnana sem starfa á vegum iðnaðar- og viðskiptaráðuneyta og brýnt fyrir þeim mikilvægi þess að flytja verkefni verkefni út á land. Mér er kunnugt um að fleiri ráðuneyti hafa gert hið sama. Þá stóð ráðuneytið fyrir fjölmennum fundi með forstöðumönnum ríkisstofnana og ráðuneyta þann 4. maí sl. þar sem fjallað var um verkefni á sviði gagna- og fjarvinnslu á landsbyggðinni. Fundurinn var afar vel heppnaður og bind ég vonir við að hann muni skila árangri varðandi fjölgun opinberra starfa á landsbyggðinni.

Sú mikla áhersla sem lögð er á fjölgun opinberra starfa og verkefna í byggðaáætluninni þarf ekki að koma ykkur á óvart sem til þekkja á landsbyggðinni. Hér eru náttúrulega að verða miklar breytingar í atvinnuháttum sem stafa af mikilli hagræðingu í sjávarútvegi annars vegar og rekstrarvanda í landbúnaði hins vegar. Þá eru blikur á lofti í ferðmálum og samkeppnisgreinum vegna þeirra miklu hækkana sem orðið hafa á raungengi krónunnar á síðustu mánuðum og misserum. Margt fólk á landsbyggðinni býr því við óöryggi í atvinnumálum og gerir kröfu um réttlátari skiptingu starfa og verkefna sem kostuð eru með opinberu fé. Þá er gríðarlega mikilvægt að reyna að stuðla að fjölbreyttari atvinnustarfsemi á landsbyggðinni en það er frumforsenda fyrir því að okkur takist að snúa við þeirri þróun búferlaflutninga sem við höfum séð á síðustu árum. Ýmislegt jákvætt er þó að gerast þessa dagana. Við höfum t.d. séð að einkafyrirtæki eru í auknum mæli að nýta sér upplýsingatæknina til að láta vinna verkefni á landsbyggðinni. Opinberar stofnanir og fyrirtæki í eigu ríkisins hafa líka verið að gera svipaða hluti og ég fullyrði að mun meira muni gerast í þessum málum á næstu vikum.

Ég vil nefna nokkur atriði sem unnið er að á vettvangi ráðuneytisins og snerta atvinnua- og búsetumál á landsbyggðinni:

· Unnið er að því að koma starfsemi á vegum frumkvölaseturs Iðntæknistofnunar (IMPRU) út á land. Má gera ráð fyrir að fyrsta IMPRU setrið á landbyggðinni verði sett upp í tengslum við Atvinnurþróunarfélag Eyjafjarðar á næstunni.

· Stofnuð hefur verið viðræðunefnd iðnaðarráðuneytisins og Akureyrarbæjar til að kanna kosti þess að sameina rekstur RARIK og Orkuveitan Akureyrar. Í sumar verður unnið að hagkvæmniathugun á því að sameina fyrirtækin þar sem m.a. verður gert ráð fyrir að aðalstöðvar sameinaðs fyrirtækis verði á Akureyri.

· Hvað varðar fjarvinnslumálin þá erum við í samstarfi við Byggðastofnun og Iðntæknistofnun að vinna að því að skilgreina verkefni á sviði fjarvinnslu sem gætu hentað til vinnslu úti á landi. Alls verða 10 verkefni tekin til athugunar.

· Unnið að gerð viljayfirlýsingar varðandi byggingu álvers við Reyðarfjörð og má búast við að niðurstaða liggi fyrir síðar í þessum mánuði. Teknar hafa verið ákvarðanir um sérstak átak í vegamálum á Austurlandi vegna virkjana og álversbyggingar.

· Málefni Kílsiliðjunnar við Mývant hafa eins og oft áður verið til umfjöllunar að undanförnu. Við bíðum nú niðurstöðu Skipulagsstjóra varðandi mat á umhverfisáhrifum í tenglsum við endurnýjun á starfsleyfi fyrirtækisins. Ljóst er að taka þarf pólitíska ákvörðun um framtíð verksmiðjunnar á þessu ári.

Þetta svæði sem við erum á í dag hefur marga góða kosti. Við höfum mikla orku sem er einungis að hluta nýtt í dag. Enn á eftir að rannsaka nokkur svæði hér sem þykja álitleg varðandi orku. Allt hér í kring eru staðið sem ferðamenn sækjast eftir að heimsækja. Áfram verður haldið með endurbætur á veginum fyrir Tjörnes og verður honum lokið 2003. Þá var nú í vikunni ákveðið að verja 150 millj. kr. til lagningar nýs vegar að Dettifossi.

Ég vil að lokum þakka fyrir að fá tækifæri til að ávarpa fund ykkar hér í dag og vona að vinna ykkar skili góðum árangri til hagsbóta fyrir atvinnu- og búsetuþróun á þessu landssvæði. Ég vona að ég geti átt sem best samstarf við atvinnuþróunarfélagið.



Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum