Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

26. maí 2000 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Aðalfundur Félags kvenna í atvinnurekstri 25.03.00

Valgerður Sverrisdóttir
iðnaðar- og viðskiptaráðherra


Ávarp á aðalfundi Félags kvenna í atvinnurekstri
25. maí kl. 17:00


Fundarstjóri, ágætu félagskonur,

Það er mér sérstök ánægja að fá að ávarpa fyrsta aðalfund Félags kvenna í atvinnurekstri. Á einungis ári eru félagskonur orðnar rúmlega 400 og vil ég lýsa yfir ánægju minni með starf félagsins og á stjórnin miklar þakkir skyldar.

Eitt af meginmarkmiðum mínum sem iðnaðar- og viðskiptaráðherra er að vinna að framgangi nýsköpunar og atvinnuþróunar hér á landi. Þrátt fyrir að fyrirtæki og einstaklingar séu augljóslega drifkraftur þeirrar þróunar verður ekki fram hjá því litið að ábyrgð hins opinbera er engu að síður talsverð í mótun ytri umgjarðar málsins. Með nýjum lögum um fæðingar- og foreldraorlof er tekið mjög stórt skref í átt til jafnréttis og ekki síst fyrir konur sem eru í eigin atvinnurekstri. Markmið laga þessara er að gera bæði konum og körlum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf. Þegar lögin eru að fullu komin til framkvæmda eiga konur og karlar sama rétt til fæðingarorlofs hvort heldur þau eru á opinberum eða almennum vinnumarkaði eða sjálfstætt starfandi. Með lögum þessum er því ekki einungis jafnaður réttur kynjanna heldur einnig er réttur starfsmanna á almennum vinnumarkaði gerður jafn rétti starfsmanna hins opinbera.

Ég legg mikla áherslu á stuðning við lítil og meðalstór fyrirtæki. Þau fyrirtæki eru grundvöllur efnahagslífsins en 98% fyrirtækja í Evrópu falla í þennan flokk, þar er mesta verðmætasköpunin, nýsköpunin og flest störfin.

Rannsóknir hafa sýnt að fyrirtæki þar sem konur eru við stjórn fara síður í þrot en þau sem rekin eru af körlum. Stuðningur sem leiðir til fjölgunar fyrirtækja kvenna og aukinnar þátttöku þeirra í atvinnurekstri, treystir því stöðu íslensks atvinnu- og efnahagslífs.

Könnun nefndar á vegum iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis sem var falið að meta þörf fyrir sérstakar stuðningsaðgerðir sem tækju mið af þörfum kvenna í atvinnurekstri leiddi í ljós að konur reka einungis 18% íslenskra fyrirtækja. Atvinnuþátttaka kvenna er meiri á Íslandi en víðast hvar annars staðar og verður þetta því að teljast lágt hlutfall. Konur eru einnig tregari til að sækja um styrki en karlar en ég vil endilega hvetja konur til að kynna sér það framboð af styrkjum sem er í boði. Þá voru konurnar sem tóku þátt í könnuninni almennt sammála um að þær hafi minna sjálfstraust til þess að stofna og reka eigin fyrirtæki en karlar. Hér verður að gera bragabót á og er Félag kvenna í atvinnurekstri mjög góður vettvangur til þess. En stofnun slíks félags var einmitt ein af tillögum fyrrgreindrar nefndar með það að markmiði að gæta hagsmuna og efla samvinnu og samstöðu kvenna í atvinnurekstri. Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið léttir undir rekstri félagsins með stuðningi við IMPRU og er takmarkið að auka hlut kvenna í fyrirtækjarekstri atvinnu- og efnahagslífi til bóta. Er það von mín og vissa að Félag kvenna í atvinnurekstri hvetji konur í ríkara mæli til stofnunar fyrirtækja.

Með því að veita FKA-viðurkenninguna sem frú Hillary Clinton veitti viðtöku þann 10. október sl. er átak gert í því að gera þá aðila sýnilega sem lagt hafa atvinnurekstri kvenna lið eða hafa þeim sérstök uppörvun eða fyrirmynd. Fyrirmyndir eru ungum stúlkum hvatning til dáða og er því nauðsynlegt að fyrirmyndirnar séu sýnilegar. FKA-viðurkenningin er skref í þá átt, vekur athygli á atvinnurekstri kvenna og er málefninu til framdráttar.

Er það sérstaklega ánægjulegt að Félag kvenna í atvinnurekstri skuli færa sér tæknina í nyt til að virkja félagskonur á landsbyggðinni enn frekar. Hér á ég við fjarfundi á Byggðabrúnni. Í hverjum landsfjórðungi er til búnaður sem Byggðastofnun, atvinnuþróunarfélög og fleiri komu upp til að halda mætti sameiginlega fundi í gegnum símalínu. Fundarmenn geta því samtímis verið staddir hvar sem er á landinu, t.d. í Reykjavík, á Akureyri, Ísafirði, Sauðárkróki og Egilsstöðum. Eins og flestum er kunnugt er byggðaþróunin í landinu mér hugleikin og mun fjarvinnsla gegna mikilvægu hlutverki í nánustu framtíð jafnt hjá fyrirtækjum sem og opinberum stofnunum. Konur hafa ekki síður en karlar áhuga á því að nýta sér upplýsingatæknina líkt og úttekt Rannsóknarstofnunar Háskólans á Akureyri á stöðu kvenna í Norðurlandskjördæmi vestra leiddi í ljós. Úttektin var gerð í desember 1998 og taldi mikill meirihluti kvennanna æskilegt að boðið yrði upp á starfstengd námskeið og bar þar hæst tölvunámskeið. Með nýjustu tækni á sviði gagnaflutninga og fjarvinnslu er fátt því til fyrirstöðu að reka ýmis konar starfsemi á landsbyggðinni. Netið opnar því ný tækifæri sem gerir fólki kleift að stunda starf sitt óháð búsetu.

Að lokum vil ég þakka stjórn Félags kvenna í atvinnurekstri og Huldu Halldórsdóttur starfsmanni Impru fyrir að hafa ýtt starfsemi félagsins úr vör af miklum krafti sem mun án efa hvetja fleiri konur til dáða á sviði atvinnureksturs.

Ágætu félagskonur,
Ég er þess fullviss að starf ykkar muni skila góðum árangri til hagsbóta fyrir íslenskt atvinnu- og efnahagslíf.


Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum