Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

6. júní 2000 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Stofnun líftæknifyrirtækisins Prokaria, 06.06.00

Valgerður Sverrisdóttir
iðnaðar- og viðskiptaráðherra

Ávarp
í tilefni af stofnun líftæknifyrirtækisins Prokaria.
á Grand Hótel 6. júní 2000


Ágætu samkomugestir,

Örar framfarir í vísindum og tækni eru að gjörbreyta atvinnulífi okkar. Nú hafa skapast störf á fagsviðum sem engan óraði fyrir að gætu orðið til fyrir fáeinum árum. Nýting heita vatnsins til upphitunar húsa og síðar til raforkuframleiðslu þóttu næg undur í sjálfu sér - þótt ekki væri spáð í örverur sem í vatninu kynnu að leynast og gætu orðið uppspretta aukinna verðmæta. Flestum hefur auk þess trúlega fundist að örverur væru fremur ófrýnilegur félagsskapur sem lítill fögnuður fylgdi.

Annað hefur nú komið í ljós og hefur ný þekking í líftæknivísindum opnað augu okkar fyrir atvinnutækifærum sem áður voru okkur algerlega hulin. Það eru tækifæri sem byggja á menntun og mannauði og eru til þess fallin að standa undir vellaunuðum og eftirsóttum störfum. Þessi erfðafræðilega þekking kom engan veginn af sjálfu sér heldur var hún afrakstur rannsókna Iðntæknistofnunar á hitakærum örverum sem stóðu yfir í meira en áratug.

Eflaust hefðu þessar rannsóknir getað tekið skemmri tíma og gefið okkur meira samkeppnisforskot en varð, - ef fjármagn til að kosta þær hefði verið auðfengnara hér innanlands. Því miður er það svo að skilningur á gildi vísindarannsókna hefur mátt vera meiri. Þannig er langt í frá að menn átti sig almennt á því að bein tengsl eru á milli vísindalegra og tæknilegra framfara annars vegar og efnahagslegra og félagslegra framfara hinsvegar. Þó ber að hafa í huga að nokkrar breytingar hafa orðið á þessu því framlög Íslendinga til rannsókna og þróunar hefur vaxið jafnt og þétt ár frá ári. Þannig hafa framlög til rannsókna- og þróunarmála aukist um fjórðung á seinustu fimm árum og eru nú komin yfir 2% af vergri landsframleiðslu, en voru rúmlega 1,5% árið 1995. Sé litið yfir allan áratuginn er talið að aukning útgjalda til rannsókna og þróunarmála hafi flest ár verið á bilinu 10 til 15% á ári.

Það sem er hvað ánægjulegast við þessa þróun er hversu stórum hlut útgjaldanna var varið til rannsókna og þróunar hjá fyrirtækjum landsins. Íslensk fyrirtæki hafa mjög sótt í sig veðrið hin síðari ár og lætur nærri að íslensk fyrirtæki fjármagni nú vel yfir 40% allra útgjalda til rannókna- og þróunar. Það er vissulega eðlilegt að hlutur einkafyrirtækja vaxi jafnt og þétt enda hafa aðstæður á fjármagnsmarkaði gert það auðveldara en áður. Einnig er ástæðulaust að ríkið stundi rannsóknarvinnu sem almenni markaðurinn vill og getur sinnt jafnvel og betur.


Sennilega er saga þessa fyrirtækis - PROKARIA - eitt gleggsta dæmið um slagkraft einkafjármagnsins þar sem skynsemisrök og arðsemismat er látið ráða ferðinni og því kostað til sem þarf til að ná viðunandi árangri. Þessi vinnubrögð þurfa opinberir aðilar að taka upp því að skilningur fjárveitingavaldsins á árangurslíkum rannsókna eða arðsemi þeirra er varla fyrir hendi nema í algerum undantekningartilfellum.

Mér er það fullljóst að ekki eru allir sammála um að einkafjármagn kosti rannsóknir sem unnar eru innan vébanda ríkisins, - en í raun er því ekkert til fyrirstöðu sé rétt staðið að því frá upphafi og réttur allra tryggður á viðunandi hátt. T.d. gæti verið um það að ræða að opinberar rannsóknarstofur og einkafjárfestar stofnuðu með sér félag um viðskiptahugmynd sem fyrst og fremst fæli í sér rannsóknir sem leitt gætu til einkaleyfa eða stofnunar nýrra félaga á grundvelli niðurstaðna rannsóknanna. Hugmyndir að nýjum og framsæknum afurðum verða til innan veggja opinberra rannsóknastofnana en því miður munu dæmi um að þær verði ekki að veruleika vegna þess að ekki er til nægilegt þolinmótt fjármagn frá ríkissjóði til að bera uppi viðeigandi rannsóknastarfsemi.


Ágætu samkomugestir,
Það er mér sérstakt ánægjuefni að fá tækifæri til að vera hér í dag þegar líftæknifyrirtækið Prokaria er kynnt fyrir almenningi. Það er mér ekki síst ánægjuefni fyrir þær sakir að fyrirtækið á upphaf sitt að rekja til starfsemi sem um árabil var stunduð innan veggja Iðntæknistofnunar en hefur um nær tveggja ára skeið verið sjálfstætt fyrirtæki - Íslenskar hveraörverur. Það er mér einnig ánægjuefni að sjá hvernig opinberar rannsóknir hafa fengið byr undir báða vængi og eflst svo um munar til nýrrar sóknar og nýrra sigra í öðru rekstrarumhverfi.

Ég óska líftæknifyrirtækinu Prokaria velfarnaðar og aðstandendum þess til hamingju með þennan merka áfanga.

Takk fyrir.
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum