Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

17. ágúst 2000 MatvælaráðuneytiðGuðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra 1999-2007

Ávarp á fundi norrænna matvælaráðherra haldinn á Svalbarða 13. - 17. ágúst 2000

    Ávarp Guðna Ágústssonar landbúnaðarráðherra
    á fundi norrænna matvælaráðherra
    haldinn á Svalbarða 13. - 17. ágúst 2000



    Fundarstjóri, fundarmenn.

    Ég mun flytja ræðu mína á mínu móðurmáli, okkar gömlu norrænu tungu.


    Í upphafi vil ég fara nokkrum orðum um heilbrigðisástand búfjár og öryggi matvæla á Íslandi á undanförnum árum. Það þarf ekki að lýsa því að lega landsins og fjarlægð frá öðrum löndum hafa stuðlað að góðu heilbrigðisástandi búfjár eftir síðustu heimstyrjöld. Meðan á dvöl erlendra herja stóð var nauðsynlegt að flytja mikið magn matvæla til landsins og það var eins og við manninn mælt að nýir búfjársjúkdómar brutust út. Það tókst að utrýma þeim á nokkrum árum eftir að bannað var að nota matarleifar frá hernum nema þær væru soðnar. Afleiðingar þessa ástands situr í okkur Íslendingum og því viljum við gjarnan fá að ráða hvaða matvæli við neytum og hvaðan við flytjum þau inn.

    Breytingar sem hafa verið gerðar á alþjóðasamningum á undanförnum árum til þess að opna markaði fyrir landbúnaðarafurðir eiga kannske ekki alltaf upp á pallborðið hjá okkur af fyrrgreindum ástæðum. Vissulega eru í þessum samningum ákvæði um að virða skuli gott heilbrigðisástand og stuðla að bættri heilsu manna og dýra hverrar þjóðar og því skuli ekki stofna í hættu með viðskiptum en það getur oft verið erfitt að standa á móti sterkum og óvægnum kaupsýslumönnum þegar á hólminn er komið. Hér er rétt að geta þess að við Íslendingar erum stórir innflytjendur á matvælum þar sem um 50 % af allri orku í matvælum er innflutt og eru ekki margar þjóðir sem eru í jafn ríkum mæli undir þá kvöð settar.

    Því er ekki að leyna að með auknum verksmiðjubúskap höfum við orðið fyrir áföllum vegna mengunar salmonellu og kamfýlubakter í matvælum. Á áttunda áratugnum komu upp allmörg tilfelli matarsýkinga sem rekja mátti til salmonellu í kjúklingum en brugðist var gegn þessum vágesti af hörku. Fyrir utan að meðferð fóðurs var bætt, umgengisvenjur hertar og menguðum afurðum eytt, keypti ríkið upp alifuglabú þar sem erfitt reyndist að ráða niðurlögum smitsins. Matareitrunum af völdum salmonella í kjúklingum eru í dag sjaldgæfar og þau tilfelli sem uppkoma eru af ókunnum orsökum. Af þeim sökum hefur verið gerð áætlum um að könnuð verði tíðni salmonella í öðrum búfjártegundum og í sjófugli á Suðurlandi en þar hefur salmonella helst stungið sér niður á síðustu misserum.

    Á síðastliðnu ári varð mikil aukning í matarsýkingum af völdum kamfýlubakter og er talið að það hafi verið að heimiluð var sala á ófrosnum kjúklingum en þar til fyrir þrem til fjórum árum var eingöngu heimilt að selja frosna kjúklinga. Með þverfaglegu átaki heilbrigðisyfirvalda var gerð úttekt á fóðri, drykkjarvatni og umhvefisaðstæðum á kjúklingabúum og settar ákveðnar reglur í framhaldi af niðurstöðum sem þar fengust. Í sumar hefur sá ánægjulegi árangur náðst að fjöldi veikindatilfella hefur náðst niður á sama eða lægra stig en var í fyrrasumar.

    Annar þáttur sem við höfum áhyggjur af og deilum með nágrannaþjóðum okkar er notkun vaxtarhormóna í kjötframleiðslu, BST í mjólkurframleiðslu og notkun fúkalyfja í dýrafóður nema í lækningaskyni. Notkun þessara efna hefur aldrei verið leyfð í íslenskum landbúnaði. En megin vandamálið er hvernig er hægt að tryggja að afurðir framleiddar með hjálp þessara efna berist ekki inn á markað þar sem notkun þessara hjálparefna er bönnuð. Þetta er vandamál okkar allra og við því verðum við að bregaðst með einum eða öðrum hætti.

    Heilbrigð sál í heilbrigðum líkama var sagt í gamla daga og eins er sagt í dag heilbrigð dýr skapa örugg matvæli.

    Eftirlitið þarf því að taka jafnt til þess sem dýrið lætur ofan í sig eins og alls aðbúnaðar í uppvexti og á framleiðslustigi. Í nýgerðum búvörusamningi eru ákvæði um gæðastýringu á frumframleiðslunni þar sem ríkið leggur til ákveðna fjárhæð til að koma henni af stað. Þar er m.a. tekið á merkingum svo að rekjanleiki verði tryggður.

    Nauðsynlegt er að ábyrgð framleiðenda og vinnsluaðila verði aukin með því að innra eftirlit verði styrkt. Í þeim efnum verður hið opinbera að stuðla að því að innra eftirlitið verði sniðið betur að hverri tegund framleiðslu eða vinnslu svoað þeim verði ekki íþyngt og kröfurnar meiri en þykja nauðsynlegar. Komi í ljós að innra eftirlitið tryggi framleiðsluöryggi getur eftirlitsaðilinn umbunað viðkomandi með færri skoðunum og lægri kostnaði.

    Á undanförnum árum má segja að neytandinn hafi tekið sér húsbóndavald hvað varðar kröfur um öryggi matvæla. Í lífrænni framleiðslu, eins og búfjárframleiðsla, er ekki hægt að veita 100 % tryggingu fyrir að öll matvæli unnin úr búfjárafurðum séu örugg þegar þau eftir misjafnlega langa leið koma inn á borð neytenda. Slíkt er aðeins falskt öryggi. Því er nauðsynlegt að neytendur taki á sig ákveðna ábyrgð hvernig skal meðhöndla viðkvæm matvæli og að bregðast við hættum sem þeim getur fylgt. Hinu opinbera er skylt að uppfræða neytendur og veita þeim gott aðgengi að upplýsingum varðandi þessi atriði. Og síðast en ekki síst að við allan undirbúning nýrra reglna verði þær kynntar bæði framleiðendum og neytendum á sannfærandi hátt með hreinskilnum tjáskiptum sem auðvelt er að koma við á þessari öld upplýsingaflæðisins.

    Opinbert matvælaeftirlit hefur orðið fyrir mörgum áföllum á síðari árum sem öllum hér inni er kunnugt um. Því er nú mikið rætt um hvernig bæta má og tryggja trúverðugleika þess á ný. Við teljum mikilvægt að allt matvælaeftirlit sé á einni hendi til að tryggja lóðrétta stjórn eftirlitsins sem er alfarið á höndum ríkisins til að koma í veg fyrir skörun og byggja upp þverfaglega þekkingu sem kemur fram með samstilltu átaki. Slík stofnun verður að vera og á að vera það sjálfstæð og gagnsæ að hagsmunagæsla og mismunun yrði lágmörkuð.

    Það hefur verið áhugavert að fylgjast með þeim breytingum sem gerðar hafa verið víða um lönd á síðustu tveimur arum og við höfum verið að vinna að endurskoðun eftirlitsins með slíkar breytingar í huga. Með þetta í huga styðjum við þær breytingar sem kynntar hafa verið í sambandi við þennan fund um samþéttingu stofnana undir Norrænu ráðherranefndinni.

    Sífellt berast okkur fréttir af aukinni útbreiðslu sjúkdóma til nýrra svæða eins og svínapest í Bretlandi, BSE í Danmörku og Noregi, illvígar E coli tegundir skjóta upp kollinum o.s.frv. Stöðugt áreiti af völdum innflutnings lifandi dýra og búfjárafurða krefst sífelldrar árvekni eftirlitsaðila og útgjalda til rannsókna og í sumum tilfellum róttækra ráðstafana eins og niðurskurðar og bótagreiðslna til útrýmingar innfluttra sjúkdóma. Því er það mikilvægt að lönd með svipað heilbrigðisástand búfjár og búfjárafurða standi saman um samræmdar aðgerðir til þess að tryggja núverandi ástand og þróun til að betrumbæta það ennfrekar.

    Nú fer í hönd ný samninglota Íslands og Evrópubandalagsins varðandi undanþágur varaðndi heilbrigðisreglur í Viðauka I í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.

    Það er von okkar að niðurstöður endurskoðunarinnar muni leiða til þess að núverandi heilbrigðisástandi dýra og afurða verði ekki stefnt í hættu heldur að nýr samningur tryggi áframhaldandi öryggi gagnvart því að nýir sjúkdómar eða smitefni berist til landsins. Þetta er nefnt hér og sú von að við Íslendingar getum leitað til ykkar um aðstoð og reitt okkur á stuðning ykkar í þessum efnum.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum