Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

25. ágúst 2000 MatvælaráðuneytiðGuðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra 1999-2007

Ávarp á aðalfundi skógræktarfélags Íslands á Akureyri 25.-27. ágúst 2000

Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands
haldinn á Akureyri 25.-27. ágúst 2000

Ávarp landbúnaðarráðherra
Guðna Ágústssonar



Formaður Skógræktarfélags Íslands, góðir aðalfundarfulltrúar og gestir.

Það er ánægjulegt að vera hér í Eyjafirði á fallegum síðsumarsmorgni og ávarpa skógræktarfólk.

Ekki er langt síðan ég var hér staddur í viðlíka erindum, er ég ávarpaði ráðstefnuna "Ásýnd Eyjafjarðar" sem haldin var í tilefni 70 ára afmælis Skógræktarfélags Eyfirðinga. Við það tækifæri tók ég mér í munn erindi úr kvæðinu "Sigling inn Eyjafjörð" eftir skáldið góða, Davíð Stefánsson frá Fagraskógi.
        Loks eftir langan dag
        lít ég þig, helga jörð.
        Seiddur um sólarlag
        sigli ég inn Eyjafjörð.
        Ennþá á óskastund
        opnaðist faðmur hans.
        Berast um sólgyllt Sund
        söngvar og geisladans.
Já; það má halda því fram, að um þessar mundir berist frá skógræktarfólki háværir söngvar. Það fagnar nýju árþúsundi með einbeittum vilja og kraftmiklu starfi.
Aldrei í sögu landsins hefur verið horft til jafn viðamikilla og fjölbreyttra verkefna í skógrækt og nú.
Aldrei hefur svo miklu fjármagni verið varið til þessa málaflokks og aldrei hefur þjóðin verið eins samstíga í að græða landið skógi. Þetta á við hvort heldur litið er til opinberra aðila, félagasamtaka, fyrirtækja eða einstaklinga.
Þessi barátta skógræktarmanna hefur staðið í langan tíma en er nú að skila árangri.

Guðmundur Guðmundson, skólaskáld, orti svo til þjóðarinnar:
        Vormenn Íslands yðar bíða
        eyðiflákar, heiðarlönd.
        Komið grænum skógi að skríða
        skiður berar, sendna strönd.
        Huldar landsins verndarvættir
        vonarglaðar stíga dans,
        eins og mjúkir hrynji hættir
        heilsa börnum vorhugans.
Í ljóðinu kallar skáldið á vormenn Íslands út til verka. Kallar þá til að rækta landið að nýju, jaft berar skriður og sendna strönd sem eyðifláka og heiðarlönd. Hvarvetna blasti við þörfin til að græða það land sem hafði fóstrað þjóðina í gegnum myrkar aldir og harðindaár. Nú var tíminn kominn til að endurgjalda lífgjöfina.
Brugðist var við kalli, ekki aðeins þessu sem ég vitnaði í, heldur frá svo fjölmörgum öðrum sem vildu vekja þjóðina til dáða og vitundar um mátt sinn og framtíð. Meðal þeirra sem öxluðu amboð sín og skinn og gengu út í sólskinið voru áhugamenn um skógrækt. Sannarlega voru þeir í hópi vormanna Íslands, - og eru enn.

Það rúma ár sem ég hef gengt starfi landbúnaðarráðherra hefur verið mér á margan hátt lærdómsríkt. Fjölmörg verkefni af ólíkum málaflokkum hafa komið upp á borð til mín sem ég hef þurft að setja mig inn í og taka ákvarðanir um. Þau hafa verið misskemmtileg, eins og gengur, en flest veitt mér ánægju.
Meðal þeirra eru þau verkefni sem snúa að skógrækt. Sá málaflokkur hefur verið einkar mikið til umræðu enda margra tímamóta að minnast. Skógrækt ríkisins minntist á síðasta ári 100 ára starfsemi sinnar með mörgum hætti, m.a. með fjölsóttri ráðstefnu. Einstaka skógræktarfélög hafa átt merkisafmæli og Skógræktarfélag Íslands fagnar á þessu ári 70 ára afmæli sínu.

Þá kom í minn hlut að setja formlega á stað þrjú ný landshlutabundin skógræktarverkefni og sömuleiðis hef ég tekið þátt í fundum á vegum nýrra landssamtaka skógareigenda. Þessi tilefni hafa gefið mér tækifæri til að ávarpa skógræktarfólk óg sömuleiðis að ræða skógræktarmálin með ítarlegum hætti

Í ræðu sem ég flutti á Þingvöllum í sumar, er Skógræktarfélag Íslands fagnaði 70 ára afmæli sínu, lét ég í ljós þann vilja minn að skógræktarfélögum í landinu yrði gefinn kostur á ríkisjörðum til skógræktar. Sá vilji minn stendur óbreyttur. Nú er það svo að nær allar ríkisjarðir eru á einn eða annan máta bundnar samningum. Þeir hafa sitt upphaf en jafnframt endi og þá er hægt að taka ráðstöfun viðkomandi jarðar til skoðunar.

Í mínum huga væri ekki úr vegi að miða við að skógræktarfélögin ættu, eða hefðu til umráða jörð í hverjum landsfjórðungi. Í ljósi þessa er mikilsvert að fyrir liggi óskir skógræktarfélaganna um ákveðnar jarðir, landssvæði eða spildur, svo auðveldara sé að verða við væntingum þeirra.

Skógrækt á Íslandi stendur á tímamótum. Liðinn er tími efasemda og barátta einstaklinga við að sanna að hér sé hægt að rækta skóg. Nú er tekist á við þennan málaflokk af alvöru sem miðar meðal annars að því að skógrækt búgrein, sem skili þeim sem hana stunda lífvænlegum arði. Stefnt er að viðarframleiðslu í stórum stíl en jafnframt, - og það vil ég leggja áherslu á, - jafnframt er markmiðið að bæta almenn búsetuskilyrði, fegra landið, græða það og hefta rof.
Öll markmiðin eiga rétt á sér en að sjálfsögðu þarf einnig að taka tillit til fleiri sjónarmiða. Þannig þarf að gera sér grein fyrir þeim breytingum sem skógurinn hefur í för með sér og vera viðbúin þeim.
Ekki verður bæði sleppt og haldið. Skógurinn mun breyta ásýnd landsins en jafnframt auka fjölbreytni þess og arðsemi. Á sama tíma munum við tapa, eða breyta þeirri mynd sem við höfum fyrir augunum í dag af viðkomandi landsvæði. Skógræktarmenn hafa með þrautseigju og baráttu áorkað því að ný, öflug atvinnugrein er að líta dagsins ljós.
Skógrækt með tilheyrandi ræktun og úrvinnslu mun styrkja byggðir þessa lands. Um hana þarf að ríkja sátt þannig að markmiðin náist.

Ég geri mér grein fyrir kraftmiklu starfi skógræktarfélaganna um allt land, þar sem félagsmennirnir skipta þúsundum og einnig því mikla samræmingar- og stjórnunarstarfi sem innt er af hendi hjá Skógræktarfélagi Íslands.

Þótt starf skógræktarfélaganna sé að nokkru leyti öðruvísi en starf hinna opinberu skógræktarverkefna, er megintilgangurinn hinn sami, að rækta skóg. Að starfi þeirra koma ótal einstaklingar sem langflestir stunda sína eigin skógrækt í litlum eða stórum mæli, hvort heldur það er heima við hús og sumarbústaði eða á öðrum landsvæðum sem þeir hafa yfir að ráða. Þar fá hinar mismunandi plöntur að njóta sín og fjölbreytnin er allsráðandi. Slíkir unaðsreitir eru víða um land og marga þeirra hefur náttúran sjálf séð um að skapa.
Um einn slíkan orti Steingrímur Thorsteinsson í ljóðinu "Systkinin á Berjamó".
      Ó hvað jörðin angar hér
      einir, þekur grund og víðir.
      Lyngið þétta lautu skrýðir,
      móðurfold á borðin ber.
      Hér er, systir, sæla nóg,
      sætur ilmur heiðargrasa.
      Sjáðu blárra berja klasa,
      sólarvarma, svarta kló.

Ágæta skógræktarfólk.

Megi starf ykkar blómgast og blessast og megi starfsemi skógræktarfélaganna og Skógræktarfélags Íslands dafna um ókomna tíð.
Lifið heil.




Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum