Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

28. ágúst 2000 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Ársþing Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, 26.08.00

Valgerður Sverrisdóttir
iðnaðar- og viðskiptaráðherra


Ársþing Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra
26. ágúst 2000


Góðir fundarmenn,

Það er mér sönn ánægja að ávarpa ársþing Samtaka sveitarfélaga í Norðurlandi vestra. Af dagskrá fundarins má ráða að þróun byggðamála og aðgerðir í atvinnumálum eru ofarlega í huga sveitarstjórnarmanna á þessu svæði eins og víðast á landsbyggðinni. Í gær mun m.a. hafa verið fjallað um það hvernig til hefur tekist hjá öðrum þjóðum í atvinnu- og byggðamálum. Ég tel að við getum ýmislegt lært af reynslu annarra og að við eigum að vera opin fyrir nýjum hugmyndum. Á ársfundi Byggðastofnunar sem haldinn var á Akureyri í vor var m.a. tekið til umfjöllunar aðgerðir Norðmanna á sviði atvinnuþróunar á landsbyggðinni. Þar kom margt athyglisvert fram og ljóst að Norðmenn beita viðamiklum aðgerðum til að skapa ný atvinnutækifæri í hinum dreifðu byggðum. Sama á við hjá ríkjum Evrópusambandsins en á vegum sambandsins er miklum fjármunum varið til að þróa einstök svæði.

Mun fleiri eru nú farnir að sjá og skilja að hin mikla fólksfjölgun á höfuðborgarsvæðinu á kostnað landsbyggðarinnar er bæði óheillavænleg og óhagkvæm. Ég tel að flestir landmenn vilji að bærilegt jafnvægi sé í byggð landsins en til þess að við náum því marki þá þarf að reka öfluga og skynsama byggðastefnu. Slík stefna þarf að byggja á langtímasjónamiðum þó svo að vissulega geti komið upp aðstæður á einstökum svæðum sem bregðast þarf við með skjótum hætti.

Forystumenn í sveitarstjórnarmálum á höfuðborgarsvæðinu hafa vakið athygli á þeim mikla kostnaði sem er samfara mikilli fjölgun íbúa á höfuðborgarsvæðinu á skömmum tíma. Á sama tíma eru tekjur sveitarfélaga á landsbyggðinni að dragast saman vegna fækkunar íbúa. Það er því orðið sameiginlegt hagsmunamál sveitarfélaganna að snúa þessari þróun við. Ég vænti þess að sveitarstjórnarmenn haldi áfram að ræða með hvaða hætti þeir geti í samvinnu við ríki og atvinnulíf stuðlað að því að snúa þessari þróun við.

Í stefnuáætlun Alþingis og ríkisstjórnar í byggðamálum er lögð mikil áhersla á fjölgun opinberra starfa á landsbyggðinni. Ég held því fram að því markmiði sé hægt að ná. Í fyrsta lagi með því að flytja einstök verkefni sem unnin eru í opinberum stofnunum á höfuðborgarsvæðinu til einkaaðila eða annarra opinberra aðila sem starfa á landsbyggðinni. Þetta er m.a. hægt að gera með því að nýta upplýsingatæknina til hins ýtrasta eins og berlega kom fram á fundi sem ég hélt með forstöðumönnum opinberra stofnana þann 4. maí sl. Í öðru lagi með því að staðsetja nýja starfsemi hins opinbera utan höfðuborgarsvæðisins. Í þriðja lagi er hægt að flytja starfandi stofnanir og fyrirtæki í eigu hins opinbera. Það hefur verið gert með góðum árangri og nægir í því sambandi að nefna Landmælingar Íslands sem voru fluttar á Akranes og Lánasjóð landbúnaðarins sem tók til starfa á Selfossi sl. vor.

Ég mun sem ráðherra byggðamála fylgja fast eftir að þessari stefnumörkun Alþingis verði framfylgt. Í því skyni hef ég m.a. fengið ráðgjafafyrirtæki til að yfirfara starfsemi allra stofnana sem starfa á vegum minna ráðuneyta og kanna hagkvæmni þess að flytja starfsemi á þeirra vegum út á land. Niðurstaða þessarar vinnu mun liggja fyrir í haust. Þessi vinna er í fullu samræmi við þær áherslur sem settar eru fram í stefnumótandi byggðaáætlun Alþingis en þar segir að hvert ráðuneyti eigi að leggja fram tillögur varðandi fjölgun opinberra starfa á landsbyggðinni. Þegar þessari hagkvæmniúttekt er lokið mun ég kynna niðurstöðuna jafnframt því sem ég mun leggja fram áætlun minna ráðuneyta um fjölgun opinberra starfa á landsbyggðinni.

Eins og kunnugt er þá hefur þegar verið tekin ákvörðun um að flytja höfðustöðvar Byggðastofnunar á Sauðárkrók og Jafnréttisstofu til Akureyrar. Þá eru viðræður í gangi á milli iðnaðarráðuneytisins og Akureyrarbæjar um hugsanlega sameiningu RARIK og Orkuveitna Akureyrarbæjar. Í þeim viðræðum verður jafnframt lagt mat á hagkvæmni þess að staðsetja höfðustöðvar RARIK á Akureyri.

Sú mikla áhersla sem lögð er á fjölgun opinberra starfa og verkefna í byggðaáætluninni þarf ekki að koma neinum hér inni á óvart. Við sjáum að það eru að verða miklar breytingar í atvinnuháttum sem stafa af mikilli hagræðingu í sjávarútvegi annars vegar og rekstrarvanda í landbúnaði hins vegar. Margt fólk á landsbyggðinni býr því við óöryggi í atvinnumálum og gerir kröfu um réttlátari skiptingu starfa og verkefna sem kostuð eru með opinberu fé. Þá er gríðarlega mikilvægt að reyna að stuðla að fjölbreyttari atvinnustarfsemi á landsbyggðinni en það er frumforsenda fyrir því að okkur takist að snúa við þeirri þróun búferlaflutninga sem við höfum séð á síðustu árum. Ýmislegt jákvætt er þó að gerast þessa dagana. Við höfum t.d. séð að einkafyrirtæki eru í auknum mæli að nýta sér upplýsingatæknina til að láta vinna verkefni á landsbyggðinni. Að undanförnu hefur mikið verið rætt um tregðu hjá hinu opinbera til að nýta sér upplýsingatæknina til að vinna opinber verkefni á landsbyggðinni. Miklar væntingar voru bundnar við skýrslu sem Iðntæknistofnun vann fyrir forsætisráðuneytið og Byggðastofnun sl. haust. Á næstu dögum mun ég kynna í ríkisstjórn viðskiptaáætlanir fyrir þrjú fjarvinnsluverkefni. Hvort þessi verkefni verða að veruleika eða ekki ræðst af viðbrögðum þeirra fagráðuneyta sem í hlut eiga.

Það er sameiginlegt verkefni landsmanna að ná auknu jafnvægi í byggð landsins. Til að svo megi takast þá tel ég brýnasta verkefnið vera að auka fjölbreytni atvinnulífsins á landsbyggðinni þannig að ungt fólk hafi áhuga á að flytja þangað búferlum. Byggðastefnan á ekki að snúast um það að koma í veg fyrir að fólk flytji frá einum stað til annars. Byggðastefna á að snúast um það að skapa aðstæður þannig að fólk hafi áhuga á að búa á landsbyggðinni. Um þessar mundir tel ég brýnast að höfða til ungs menntafólks. Landsbyggðin þarf á slíku fólki að halda til að byggja upp ný atvinnutækifæri. Það er eina leiðin til þess að landsbyggðarfólk geti tekið fullan þátt í þeim miklu þjóðfélagsbreytingum sem eru að verða. Við erum að ganga inn í þekkingaröld og við getum búist við að breytingarnar verði enn hraðari á næstu 10 árum en þær hafa verið á síðustu 10 árum. Í þessu felast ógnir og tækifæri fyrir landsbyggðina sem nauðsynlegt er að greina eins og kostur er.

Ég tel nauðsynlegt að í tengslum við breytingar á staðsetningu Byggðastofnunar fari fram umræður og stefnumótun um það með hvaða hætti kraftar stofnunarinnar verði sem best nýttir til atvinnuuppbyggingar á landsbyggðinni. Í þeirri umræðu þarf að hafa í huga að það fjármagna sem stofnunin hefur til ráðstöfunar er takmarkað og því þarf að nýta það eins vel og kostur er. Við þurfum því að spyrja okkur áleitinna spurninga.

Ég held að flestir geti verið sammála um að við munum sjá fyrir okkur áframhaldandi fækkun á störfum í sjávarútvegi á næstu árum – sérstaklega þó í fiskvinnslu. Við getum því ekki treyst á að frekari uppbygging í sjávarútvegi geti tekið við öllu því nýja vinnuafli sem við viljum að setjist að á landsbyggðinni. Það er líklegra að ungt fólk muni í vaxandi mæli sækjast eftir annarskonar störfum en þeim sem eru meginuppistaða í avinnulífinu á landsbyggðinni. Við þufum að huga að þessu og til hvaða aðgerða hægt er að grípa sem að gagni geta komið í þessum efnum. Ég tel að við mótun næstu áætlunar Alþingis í byggðamálum þurfi sérstaklega að huga að þessu. Mér er þó jafnljóst og öllum hér inni að það eru engar töfralausnir til í þessum efnum frekar en öðrum.

Við þurfum að huga að því hvort rétt sé að fela atvinnuþróunarfélögunum stærra hlutverk en nú er. Gætum við t.d. látið atvinnuþróunarfélögin búa til verkefni sem henta þeirra starfsvæðum og tryggt þeim fjármuni til að framfylgja þeim - ef þau þykja álitleg og falla að stefnumörkun stofnunarinnar? Getum við stuðlað að meiri sérhæfingu á milli atvinnuþróunarfélaganna? Er hægt að fá þeim ný verkefni og svo mætti lengi telja.

Í desember sl. skilaði Rannsóknarráð ríkissins skýrslu til menntamálaráðherra sem ber heitið "Samstarf til sóknar". Í skýrslunni er að finna tillögur um samvinnu á milli rannsóknastofnana og háskóla. Eins og fram kemur í skýrslunni er núverandi skipulag á rannsóknarstarfsemi atvinnuveganna meira og minna frá 7. áratugnum. Ég hef sagt það áður að hið opinbera þarf af og til að endurskoða starfsemi stofnana sem starfa á þess vegum. Stofnanir eru settar á fót og síðan líða í mörgum tilvikum mörg ár án þess að hugað sé að hlutverki þeirra í nýju umhverfi.

Í skýrslu Rannsóknarráðs er sett fram hugmynd um að koma á fót sérstökum byggðasetrum þar sem m.a. starfsmenn rannsóknarstofnana og háskóla hefðu starfsaðstöðu. Þetta er að mörgu leyti athyglisverð tillaga sem þarf að skoða nánar m.a. í tengslum við enduskoðun byggðaáætlunar. Í þeirri vinnu þurfum við þó að hafa í huga að aðstæður eru mismunandi og mikilvægt að einstök svæði hafi eitthvað um það að segja hvernig yrði þá staðið að uppsetningu slíkra byggðasetra. Grundvallaratriðið er þó það að við þurfum að stuðla að yfirfærslu þekkingar til landbyggðarinnar því eins og ég sagði áðan þá þurfa að koma til nýjar atvinnugreinar ef okkur á að takast að fá ungt fólk til starfa á landsbyggðinni í auknum mæli.

Af og til koma fram hugmyndir um að hið opinbera eigi að standa fyrir því að leggja niður ákveðnar byggðir. Þá er væntanlega átt við að fólki verði greiddur styrkur til þess að flytja frá viðkomandi byggðarlagi. Að mínu mati eru slíkar aðgerðir dæmdar til að mistakast og hafa hvergi skilað árangri svo ég viti. Við verðum hins vegar að gera okkur grein fyrir því að það er einfaldlega ekki hægt að bjóða uppá sömu þjónustu að hálfu hins opinbera á öllum stöðum á landinu. Þetta á m.a. við í mennta- og heilbrigðismálum. Við þurfum því að forgangsraða hér eins og á öllum þeim sviðum þar sem við erum að ráðstafa opinberu fé.

Ég hef sagt og margir fleiri að við þurfum að efla byggðakjarna. Með því á ég við að það þurfi að skilgreina hversu mikla opinbera þjónustu við ætlum að byggja upp á tilteknum stöðum á landinu. Hér þarf að vera um langtímastefnumörkun að ræða þannig að fólk viti við hverju megi búast. Í þessum efnum sem öðrum þá eru kröfur fólks mismiklar. Sumir sækjast eftir því að búa í minni byggðarlögum þrátt fyrir að ekki sé hægt að vera með alla þá þjónustu sem er að finna í stærri byggðarlögum. Aðrir sækjast eftir sem bestri þjónustu og vilja því búa á stöðum sem geta boðið uppá þjónustu í samræmi við væntingar sínar. Við eigum því alls ekki að dæma byggðarlög úr leik með opinberum ákvörðunum. Þvert á móti eigum við að hafa frelsi í þessum málum sem öðrum en á sama tíma þurfum við að vera raunsæ varðandi það hvað hægt er að bjóða upp á af opinberri þjónustu.

Umræðan um byggðamál hefur að mínu viti almennt verið of neikvæð. Ég er þó ekki frá því að hún hafi örlítið breyst á síðstu mánuðum í þá átt að það sé ýmislegt jákvætt að gerast á landsbyggðinni. Við verðum að gera okkur grein fyrir því að þegar litið er til þróunar í norðlægum löndum þá er hið eðlilega að fólkið flytji suður á bóginn, flytji til bæjanna. Það þarf því aðgerðir til að sporna við þessari þróun. Það eru þessar aðgerðir sem kallast byggðastefna og aðgerðir í byggðamálum.

Við eigum gott land þar sem við höfum byggt upp samfélagsþjónustu sem er víðast hvar fullkomlega sambærileg við það sem gerist hjá öðrum þjóðum og í mörgum tilfellum miklu betri. Lífið á landsbyggðinni býður upp á margt sem við verðum að halda til haga og telja til verðmæta.

Ég hef trú á því að það sé hægt að ná árangri í byggðamálum. Það er með það að leiðarljósi sem við höfum starfað í iðnaðarráðuneytinu þessa mánuði sem liðnir eru frá því að málaflokkurinn kom í ráðuneytið fyrir átta mánuðum síðan. Sama dag og sú sem hér stendur.

Ég vil taka það fram að iðnaðarráðuneytið hefur ekki ákvörðunarvald í málefnum annarra ráðuneyta, þó svo að um málefni sé að ræða sem í raun eru byggðamál. Þannig eru okkur settar ákveðnar skorður í okkar starfi.

Góðir fundargestir
Ég vil að lokum þakka fyrir að fá tækifæri til að ávarpa þetta ársþing og óska þingfulltrúum farsældar í mikilvægum störfum.
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum