Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

6. september 2000 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Opnun nethátíðar Símey, Akureyri, 06.09.00

Valgerður Sverrisdóttir,
iðnaðar- og viðskiptaráðherra


Ávarp við opun nethátíðar Símenntunarmiðstöðvar Eyjafjarðar
á Akureyri
6. september 2000


Ágætu gestir:
Fyrir fáeinum árum var Internetið flestum lokuð bók. Orð á borð við: "Margmiðlun" og "sýndarveruleiki" hljómuðu í eyrum flestra frekar sérkennilega en var fyrir suma lítið annað en táknorð einhverskonar fáránleika sem væri þeim óviðkomandi.

Á undraskömmum tíma hefur þetta breyst og framfarir síðustu ára í upplýsinga- og fjarskiptatækni láta nú varla nokkurn Íslending ósnertan. Margir töldu að þessar breytingar myndu síður varða almenning hér á landi en víða erlendis . Nú er aftur á móti komið í ljós að þannig er það ekki. Með upplýsingatækninni kom verkefni til að glíma við sem henta íslensku athafnafólki hvaðanæfa úr þjóðfélaginu.

Á upphafsárum Netsins hefði enginn spáð því að áður en áratugurinn væri á enda yrði notkun Netsins og farsíma á Íslandi sú mesta í heiminum. Sú er þó raunin. Þótt þetta sé frekar óvenjuleg staða þá er hún ótvírætt mjög ánægjuleg því hún gefur til kynna að möguleikar til að efla okkur á sviði mennta- og menningarmála svo og á sviði félagslegra- og efnahagslegra framfara eru einkar góðir.

Internetið er ótvírætt eitt mikilvirkasta tækið sem íslensk þjóð hefur um langan tíma fengið aðgang að. Það mun bæði efla stöðu okkkar inn á við og út á við gagnvart öðrum þjóðum. Með notkun þess gefst almenningi kostur á aðgangi að hverskonar upplýsingum sem það annars ætti erfitt með að nálgast. Það styrkir búsetu víðsvegar um land með því að gefa kost á fjarnámi og fjarvinnslu og með því að ýmiskonar þjónusta eflist t.d. með fjarlækningum. Staða þjóðarinnar styrkist einnig út á við m.a. vegna þess að fjarlægðirnar við helstu viðskiptaþjóðir okkar minnka og frjálst flæði upplýsinga og rafræn viðskipti um Netið munu nýtast okkur hlutfallslega betur en mörgum stærri þjóðum sem við eigum í samkeppni við.

Vika símenntunar sem nú stendur yfir er mér mikið ánægjuefni. Einkum vegna þess að menntun er undirstaða allra framfara í nútíma þjóðfélagi. Menntun í upphafi starfsferils dugir nú skemur en áður og hefur mikilvægi símenntunarinnar því vaxið að sama skapi. Í því sambandi er þáttur Netsins mikilvægur og fer hraðvaxandi. En allir þeir möguleikar sem okkur standa til boða með notkun Netsins eru til lítils gagns og ánægju ef við höfum ekki þekkingu til að hagnýa okkur möguleikana. Vika símenntunar og sú nethátíð sem nú er opnuð eru mikilvægur þáttur í því að vekja almenning til meðvitundar um margbreytileg not Netsins og vonandi til að veita þeim sem lengra eru komnir nýja sýn inn í undraveröld þess.

Góðir samkomugestir, ég óska Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar "Símey" velfarnaðar í störfum sínum og óska aðstandendum hennar til hamingju með frumkvæðið. Með þessum orðum er nethátíðin sett - takk fyrir.




Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum