Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

22. september 2000 MatvælaráðuneytiðGuðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra 1999-2007

Ávarp á ráðstefnu NASF - Norðurlax Laxárfélagsins "Villtur lax í brennidepli" haldin á Akureyri 22. september 2000

Ávarp Guðna Ágústssonar landbúnaðarráðherra
á ráðstefnu NASF - Norðurlax Laxárfélagsins
"Villtur lax í brennidepli"
haldin á Akureyri 22. september 2000




Ráðstefnustjórar, góðir ráðstefnugestir.

Það er hverjum atvinnuvegi, hverju málefni, hverri hugsjón nauðsyn að hafa sterka boðbera. Boðbera sem hvergi hlífa sér í því að efla, vernda og kynna málefnið og ekki síður þá sýn sem þeir hafa til framtíðar.

Þú átt að vernda og verja
þótt virðist það ekki fært
allt sem er hug þínum heilagt
og hjarta þínu kært.

Villti laxinn er svo heppinn að hafa slíka fylgismenn. Þess vegna erum við hér í dag til að ræða þá framtíð sem við viljum búa honum og þeirri umgjörð sem hann hefur haft. Verndarsjóður villtra laxastofna undir stjórn Orra Vigfússonar hefur á undanförnum árum vaxið og dafnað og nú er svo komið að hann getur og hefur hervæðst í mörgun löndum. Liðsmennirnir eru ekki vopnaðir bareflum og stingjum heldur sameiginlegri ósk um framtíð þessa glæsilega fiskjar. Þetta er her sem í krafti áhugans hefur haft áhrif á ráðamenn víða um heim, hefur breytt áherslum í nýtingu og hefur áhrif á umgengni mannsins við náttúruna. Það er ekki síst vegna þessa afls sem við erum samankomin hér í dag og það er ekki ónýtt að vita af þessum styrka bandamanni.

Það er ljóst að mannvistin hefur gríðarleg áhrif á náttúruna. Við þurfum ekki annað en að líta á eigið land og sjá þar hina miklu breytingu. Við lesum í Landnámabók um hver ásýnd landsins var þegar fyrstu mennirnir komu. Við lesum einnig um fiskgengd í ám og vötnum. Við vitum að breytingin hefur orðið mikil. Ég hef séð línurit sem sýna heildarveiði á Norður Atlandshafslaxi. Þessu línuriti verður ugglaust brugðið á loft hér í dag. Breytingin er ógnvænleg. En sem betur fer hefur breytingin verið miklu minni hjá okkur Íslendingum en þar er sýnt. Við höfum verið farsælli í að stjórna okkar veiðum eða kannski búið að því hversu strjálbýlt landið er. Samt höfum við auðvitað haft mikil áhrif með því að breyta vatnsbúskap með framræslu, virkjunum, vegagerð og ýmsu öðru sem til "framfara þótti" í eina tíð en telst nú til náttúruslysa. Allt orkar tvímælis eins og sagt var á Rangárvöllum forðum.

En vegna þessara breytinga er auðvitað rétt að staldra við, líta yfir farinn veg og sjá hvað betur hefði mátt fara. "Laxinn í brennidepli" er einmitt tækifæri til þess og á sama hátt tækifæri til að kortleggja framtíðina sem ýmsum finnst uggvænleg.

Vonlaust getur það verið
þótt vörn þín sé djörf og traust
En afrek í ósigrum lífsins
er aldrei tilgangslaust.

Ég sagði hér áðan að við Íslendingar hefðum ekki lent í jafn slæmum málum og ýmsir af nágrönnum okkar og samstarfsmönnum. Við höfum lengi haft öfluga löggjöf um veiðarnar og ræktunina. Við höfum fyrir löngu hætt veiðum í sjó. Við höfum fyrir löngu byggt upp öflugt félagskerfi sem heldur utanum veiðarnar og nýtinguna. Við höfum haft öflugan stuðning í sérfræðingum og stofnunum, jafnvel þó eitthvað af þeirra störfum orki tvímælis á þekkingarstiku nútímans. Og við höfum hér á landi óskoraðan eignarrétt landeiganda á veiðirétti. Ég tel að þennan eignarrétt verði að vernda því hann sé líklegastur til að skila bestri nýtingu. En við megum ekki gleyma okkur því lögin þurfa á hverjum tíma að falla að þörfum greinarinnar. Nú liggur fyrir að endurskoða þessi lög og mun ég kalla eftir tillögum margra í því starfi. Rétt er hins vegar að komi fram að ég er hrifinn af heildarmyndinni. Öflug löggjöf er áhrifamesta hjálpartæki þess er vill laxinum vel.

Veiði í ám og vötnum er aðdráttarafl og afþreying sem skilar milljörðum í þjóðarbú íslendinga, auðlind sem á sér trygga viðskiftavini sem elska landið, auðlind sem er máttarstólpi í að halda uppi búsetu í dreifðri byggð.

Íslendingar hafa lengi lifað á því sem landið gefur og þeim aðstæðum sem náttúran bíður upp á. Nú sjá menn aukna möguleika í því að nýta hafið í kringum landið til fiskeldis. Við búum að biturri reynslu frá seinni hluta nýliðinnar aldar þegar stórhuga einstaklingar lögðu allt sitt undir og töpuðu. Í þá daga notuðum við stofna úr íslenskum ám í kvíaeldið en eftir á að hyggja buðum við náttúrunni upp í dans sem enginn sómi var að. Við getum huggað okkur við að sá dans fór heldur skár en Hrunadansinn forðum en hættan var fyrir hendi. En fiskeldið lifði áfram og þá ekki síst fyrir þær sakir að á árinu 1975 og aftur á árunum 1983-4 fluttum við til landsins hrogn úr norkum laxastofnum. Þessir stofnar hafa síðan verið notaðir í eldi í strandeldisstöðvum og eldið sjálft gengið vel. Þessum stofnum hefur verið fylgt eftir af krafti og þeir kynbættir áfram af íslenskum sérfræðingum. Það að hafa eldið upp á landi kallar á meiri kostnað og því hafa nú komið fram hugmyndir og óskir um að flytja eldið út í kvíar að hluta eða öllu leyti.

Það er ekki ofsögum sagt að þessar hugmyndir hafa vakið sterk viðbrögð. Menn vísa ýmist í bitra reynslu fortíðar eða glæstan atvinnuveg Norðmanna. Landbúnaðarráðuneytið fer bæði með veiðar á villtum laxi og eldi. Það er því mitt hlutverk að reyna að vinna eins vel úr þessari stöðu og mér er unnt. Ég hlusta vel þegar eldismenn útskýra fyrir mér þá möguleika sem í eldinu eru. Dreifðar byggðir landsins kalla á nýsköpun. En ég hef líka látið hafa eftir mér að náttúran eigi að njóta vafans og við það stend ég. "Gamli netveiðihundurinn" eins og ég nefndi sjálfan mig í einhverju viðtali, þekkir allar þær tilfinningar sem tengjast velheppnaðri veiðiferð og verður ekki sá einstaklingur sem leggur þær niður.

Til að vinna úr þessu máli hef ég þegar gert tvennt. Ég hef heimilað tveggja ára tilraun með skiptieldi í Stakksfirði undir Vogastapa. Þar verður heimilt að fara með 500 gr. til 1000 gr. fisk út í kvíar gegn því að honum hafi öllum verið slátrað í desember. Ég hef skipað sérstaka nefnd til að fylgjast með þessari tilraun og gefa mér reglulega skýrslu um framkvæmdina. Það segja mér sérfræðingar sem ég trúi að það að setja fiskinn út þetta stóran minnki verulega líkur á því að hann lifi af ef hann sleppur út úr kvíum.

Í annan stað hef ég skipað hóp undir forystu aðstoðarmanns míns Sveinbjörns Eyjólfssonar til að kanna áhrif fiskeldis á villta náttúru, lagalega umgjörð fiskeldis og mögulega staðsetningu fiskeldis. Þessi hópur er að hefja störf og ég bind miklar vonir við að hann vinni vel og fari í saumana á þessu máli í heild sinni. Það hvarlar ekki að mér að kvíaeldi eigi að fara ofaní þá firði sem kyssa ósa dýrmætu veiðiánna en er einhver millileið fær, eru einhverjir firðir sem henta undir kvíaeldi og eru um leið hættulitlir fyrir veiðiárnar? Þetta verða okkar færustu menn að meta. Hitt verður svo pólitísk ákvörðun ef slík leyfi verða gefin.

Þegar ég heyrði fyrst af þessum hugmyndum um fiskeldi var mér skapi næst að segja strax nei. En þá var mér bent á að við höfum alið norskan lax í sjó í 25 ár og það í töluverðu nábýli við íslenskar laxveiðiár. Við Rifós í Kelduhverfi hefur norksur lax verið í kvíum og það er vitað til þess að hann hafi sloppið út. Ég hef aldrei heyrt af árekstrum villtrar náttúru og þeirra laxa en kannski hefur það aldrei verið rannsakað. Ég hef hugsað mér að fara þess á leit við Veiðimálastofnun að hún kanni genamengi þessa stofns og beri saman við stofnana í nálægum ám. Kannski getur sú könnum svarað mörgun spurningum sem nú brenna á okkur.

Ég vitnaði hér í upphafi í landnámabók og þá breytingu sem orðið hefur. Ef við lítum hér út um gluggan sjáum við að öll mannanna verk eru ekki svo slæm. Eyjafjörðurinn er blómlegt hérað og Akureyri er einn fallegasti bær landsins, skógi vaxinn og hér er blómaangan. Við skulum því fara með gát og virða hvers annars rétt. Við eigum yndislegt land Íslendingar, ég virði baráttu ykkar og trú á málstaðinn. Enn er okkar verkefni sem fyrrum, það er ævarandi eins og skáldið sagði:

Starfið er margt, en eitt er bræðrabandið
boðorðið, hvar sem þér í fylking standið
hvernig sem stríðið þá og þá er blandið
það er ; að elska, byggja og treysta á landið

Um leið og ég vil þakka fyrir boð á þessa ráðstefnu óska ég þess að allir velunnarar villta laxsins megi um ókomin ár eiga dýrðardaga við íslensk veiðivötn





Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum