Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

27. október 2000 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Verkefnið "konur til forystu og jafnara námsval kynjanna", HÍ, 26.10.00 -

Valgerður Sverrisdóttir,
iðnaðar- og viðskiptaráðherra


Kynningarfundur um verkefnið
"konur til forystu og jafnara námsval kynjanna,"
haldið í Háskóla Íslands 26.10.2000


Fundarstjóri, ágætu gestir,

Það er mér sérstök ánægja að ávarpa þennan kynningarfund um verkefnið "konur til forystu og jafnara námsval kynjanna." Eitt af meginmarkmiðum mínum sem iðnaðar- og viðskiptaráðherra er að vinna að framgangi nýsköpunar og atvinnuþróunar hér á landi. Þrátt fyrir að fyrirtæki og einstaklingar séu augljóslega drifkraftur þeirrar þróunar verður ekki fram hjá því litið að ábyrgð hins opinbera er engu að síður talsverð í mótun ytri umgjarðar málsins.

Ástæða þess að ráðuneyti mitt sá sér hag í því að taka þátt í verkefninu er tvíþætt. Annars vegar að auka hlut kvenna í atvinnurekstri og hins vegar að hvetja fleiri stúlkur til náms í greinum upplýsingatækninnar. Stuðningur sem leiðir til fjölgunar kvenna í upplýsingatækniiðnaðinum og aukinnar þátttöku þeirra í atvinnurekstri, treystir stöðu íslensks atvinnu- og efnahagslífs.

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti hefur beitt sér fyrir aukinni þátttöku kvenna í atvinnurekstri. Könnun nefndar sem starfaði á vegum iðnaðar- og viðskiptaráðuneyta frá 1997 til 1998 og fjallaði um atvinnurekstur kvenna, leiddi í ljós að konur reka einungis 18% íslenskra fyrirtækja. Í nýlegri könnun Aflvaka eru konur einungis 16% atvinnurekenda. Atvinnuþátttaka kvenna er meiri á Íslandi en víðast hvar annars staðar og verður þetta því að teljast lágt hlutfall.

Þrátt fyrir að konurnar sem tóku þátt í könnun nefndarinnar á vegum iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis væru almennt sammála um að þær hafi minna sjálfstraust til þess að stofna og reka eigin fyrirtæki og séu tregari til að sækja um styrki en karlar hafa rannsóknir leitt í ljós að fyrirtæki þar sem konur eru við stjórn fara síður í þrot en þau sem rekin eru af körlum. Þetta eru mjög athyglisverðar niðurstöður og sýna að með aukinni þekkingu á atvinnurekstri eigi konur mikla möguleika í framtíðinni.

Impra, þjónustumiðstöð fumkvöðla og fyrirtækja tók til starfa á Iðntæknistofunun á sl. ári. Impra veitir upplýsingar um stofnun og rekstur fyrirtækja. Í vor mun Impra standa fyrir námskeiði um stofnun fyrirtækja og gerð viðskiptaáætlana fyrir kvennemendur sem eru að ljúka námi við Háskóla Íslands. Þar verður farið í grundvallaratriði sem varðar stofnun fyrirtækis, þ.e. sölu- og markaðsmál, fjárhags- og viðskiptaáætlanir, form fyrirtækja og skattamál. Ég vil hvetja alla þá kvennemendur sem hafa hug á atvinnurekstri að kynna sér þetta námskeið.

Eitt markmið verkefnisins sem við erum að kynna hér í dag er að jafna hlutdeild kynjanna í þekkingar- og upplýsingasamfélagi nýrrar aldar. Sem iðnaðar- og viðskiptaráðherra fer ég með málefni upplýsingatækni-iðnaðar og tel ég það mjög mikilvægt að bæði kynin komi að mótun og uppbyggingu þessa iðnaðar. Með aukinni þátttöku kvenna í upplýsingatækni-iðnaðinum og mótun upplýsingasamfélagsins verða fyrirmyndir fyrir komandi kynslóðir sýnilegri. Upplýsingatækni-iðnaðurinn eða UT-iðnaðurinn, er orðinn ein framsæknasta atvinnugreinin á Íslandi með þúsundir vel launaðra starfa. Á árinu 1999 störfuðu 4500 manns við UT-iðnaðinn sem er 12,5 % aukning frá árinu áður. Ljóst er að þessi iðnaður er í örum vexti og kallar á aukið vinnuafl á næstu árum. Er það von mín að með þessu átaksverkefni sem við erum að ýta úr vör hér í dag, muni konur taka þátt í ríkara mæli en áður, í mótun upplýsingasamfélags framtíðarinnar en þær eru einungis 20% þátttakenda í dag.

Takk fyrir.
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum