Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

4. janúar 2001 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Rannsóknar- og nýsköpunarhús við Háskólann á Akureyri, 09.01.01

Valgerður Sverrisdóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra

Ávarp á kynningarfundi um byggingu rannsóknar- og nýsköpunarhúss við Háskólann á Akureyri 9. janúar 2001


Ágæti fundarstjóri og gestir:
Efling Háskólans á Akureyri er eitt brýnasta hagsmunamál byggðaþróunar hér á Norðurlandi og raunar landsbyggðarinnar allrar. Háskólinn hefur fært nýjan kraft í atvinnuþróun og styrkt búsetu.

Sérstakt gleðiefni er að atvinnulífið hefur komið auga á mikilvægi Háskólans á Akureyri og þann mannauð sem hér er að finna. Í þessu sambandi er skemmst að minnast samnings Háskólans við Íslenska erfðagreiningu, um samvinnu við uppbyggingu upplýsingatæknideildar við skólann, sem ráðgert er að taki til starfa á komandi haustmisseri. Sennilega er þessi samningur ein mikilvægasta viðbótin við háskólastarfið hér, síðan skólinn tók til starfa haustið 1987.

Sérstaða skólans felst fyrst og fremst í því að hann hefur allt frá upphafi lagt áherslu á hagnýtt nám eins og sjávarútvegs- og rekstarfræðinám. Efling skólans er því stór þáttur í nýsköpun atvinnulífsins og styrkingar landsbyggðarinnar og tengist með þeim hætti veigamiklum verkefnum iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis. Stofnanir þess, einkum Byggðastofnun, Orkustofnun og Iðntæknistofnun hafa einnig metið það svo að aukin tengsl við skólann hafi mikla þýðingu fyrir starsemi þeirra.

Á grundvelli þess gerði iðnaðarráðuneytið og Byggðastofnun samning við skólann í ágúst sl. um Byggðarannsóknarstofnun Íslands, sem er rannsókna- og fræðslustofnun, sem m.a. er ætlað að treysta þekkingu á búsetu og byggðamálum.

Áður hefur Orkustofnun gert samning við Háskólann um eflingu kennslu á háskólastigi á sviði orkumála og náttúruvísinda, og að starfrækt verði útibú frá Orkustofnun í tengslum við skólann. Þá er ákvæði í samningnum um að kanna möguleika á að orkufyrirtæki og aðrir fjármagni "prófessorsstöðu" sem styrki tengsl rannsókna við kennslu og atvinnustarfsemi á sviði orkumála. Sé vel á málum haldið getur náið samstarf Orkustofnunar og Háskólans á Akureyri opnað mikla möguleika á því að tvinna saman grunnrannsóknir á orkumálum og jarðfræði Íslands, þjónustu við orkuiðnaðinn, kennslu í orkufræðum og náttúrurvísindum á Akureyri.

Eitt af markmiðum Iðntæknistofnunar er að efla samstarfið við skólann. Í því sambandi er miðað að því, að efla rannsóknir og vöruþróun á sviði framleiðslu- og matvælatækni. Áhersla er lögð á samstarf við framleiðslufyrirtæki á sviði iðnaðar og matvælavinnslu. Iðntæknistofnun stefnir að því að efla samstarfið við Matvælasetur Háskólans á Akureyri.

Góðir fundarmenn,
Rekstur rannsókna- og nýsköpunarhússins sem hér er til umfjöllunar er rökrétt framhald af þeirri þróun sem hefur orðið við skólann á undanförnum árum.
Langþráð markmið er nú í sjónmáli. Það sem er að gerast hér í dag sannfærir mig um það að Akureyri á alla möguleika á að verða raunverulegt mótvægi við Reykjavíkursvæðið ef vel verður á málum haldið.

Ég flyt að lokum kveðju landbúnaðarráðherra, sem því miður gat ekki verið með okkur.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum