Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

23. febrúar 2001 MatvælaráðuneytiðGuðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra 1999-2007

Ávarp á aðalfundi Landssambands fiskeldis- og hafbeitarstöðva um málefni fiskeldis á Íslandi 23. febrúar 2001

Ávarp Guðna Ágústssonar landbúnaðarráðherra
á aðalfundi Landssambands fiskeldis- og hafbeitarstöðva
um málefni fiskeldis á Íslandi
23. febrúar 2001


Góðir ráðstefnugestir!

Á undanförnum mánuðum hefur áhugi manna á sjókvíaeldi á laxi aukist verulega. Landbúnaðarráðuneytinu og embætti Veiðimálastjóra hafa borist fjöldi umsókna um leyfi til reksturs slíkra stöðva. Samtals nema þessar umsóknir um 30 þúsund tonna framleiðslu. Ársframleiðsla á eldislaxi er nú um 3 þúsund, þannig að ef þessi áform um framleiðsluaukningu verða að veruleika, yrði um tíföldun á framleiðslumagni að ræða. Ljóst er að ekki er hægt að verða við öllum þessum beiðnum. Bæði er að seiðaframleiðslan er ekki nægjanleg fyrir alla þessa framleiðslu á eldislaxi og svo ekki síður hitt að ég tel ástæðu til að fara varlega og skoða vel þá reynslu sem við öðlumst með því eldi sem fljótlega hefst við Austfirði.

Laxeldi hér á landi byggir alfarið á stofnum sem fyrst voru fluttir til landsins 1984. ISNO - fyrirtækið flutti fyrst inn erfðaefni af norska Mowi-stofninum, en lax af þeim stofni hefur verið í eldi í Lóni í Kelduhverfi. Fiskeldisfélagið Íslandslax við Grindavík flutti einnig inn norskan lax af Bolaks-kyni. Þessir norsku laxastofnar eru í raun uppistaðan í því erfðaefni sem Stofnfiskur hf. hefur verið að framrækta á undanförnum árum. Með stofnun Stofnfisks tók ríkisvaldið ákvörðun um framræktun og notkun norskra laxastofna hér á landi. Það kemur því í sjálfu sér ekki á óvart þó að framkvæmdamenn vilji nota þessa stofna til eldis hér á landi. Þessir stofnar sem eru í framræktun hjá Stofnfiski eru taldir þeir heilbrigðustu sem völ er á í dag, enda eru hrogn af þessum stofnum eftirsótt í fiskeldi erlendis.

Veiðiréttareigendur og aðrir sem hafa hagsmuni af laxveiðum í ám hafa miklar áhyggjur af þróun fiskeldismála. Óttast þeir að of hröð uppbygging í fiskeldi muni geta leitt til slysa sem skaðað geti hina villtu laxastofna. Þá óttast þeir ekki síður að eldislaxinn er af norskum uppruna og því mjög ólíkur þeim íslenska. Síðastliðið haust var skipuð nefnd sem fjallar um sambýli villtra laxa og eldislax. Nefndin hefur ekki skilað formlegum tillögum en hún hefur farið vel yfir flesta þætti í þessu sambýli. Nefndarmenn hafa ólíkan bakgrunn og e.t.v. ólík viðhorf til eldis í fjörðum landsins. En um eitt eru þeir sammála. Það þarf að fara varlega og gæta að því að ofbjóða ekki náttúrunni.

Ég hef nýlega mælt fyrir frumvarpi til laga um breytingar á lögum nr. 76/1970 um lax- og silungsveiði. Ljóst er að löggjöf um fiskeldi hefur lengi verið ábótavant hér á landi. Núgildandi löggjöf um þennan málaflokk er fábrotin og gefur stjórnvöldum ekki nægilegt svigrúm til að hafa afgerandi áhrif á mótun og starfsemi atvinnugreinarinnar. Í löggjöfina vantar ýmis ákvæði sem eðlilegt og nauðsynlegt má telja að þar sé að finna. Með frumvarpinu er leitast við að setja fram skýrari reglur um starfsemi fiskeldis og styrkja og treysta þau ákvæði laganna sem ætlað er að sporna gegn aukinni hættu á fisksjúkdómum, óæskilegri blöndun laxastofna og öðrum vistfræðilegum vandamálum. Það er von mín að frumvarpið muni einnig verða til að styrkja og treysta starfsemi fiskeldis hér á landi og þann rekstargrunn sem það býr við. Jafnframt er það von mín að frumvarpið muni stuðla að því að lægja þær öldur sem hafa staðið um þessa atvinnugrein og verða til farsældar fyrir starfsemi fiskeldis og nýtingu villtra laxastofna hér á landi í framtíðinni.

Embætti veiðimálastjóra hefur nú lokið við að móta rekstrarleyfi vegna fiskeldis í Berufirði og Mjóafirði. Þau rekstrarleyfi eru unnin í góðri samvinnu við fyrirtækin sem þau fá og samtök eldismanna. Í þeim leyfum eru ákvæði sem skylda fyrirtækin til umhverfisvöktunar og ýmissa rannsókna á líffræðilegum þáttum sem tengjast vistkerfum í nágreni kvíanna. Ég er ánægður með viðbrögð greinarinnar við kröfum um varfærni. Ég get einnig upplýst hér að ég er jákvæður gagnvart því að veita tímabundið tilraunaleyfi til fiskeldis í Vestmannaeyjum.

Ég hef margoft sagt að ég ætli að fara varlega við uppbyggingu fiskeldis. Það kemur ekki til greina að vera með eldi þar sem veiðiáin kyssir fjörðinn. Hvorki mér né ykkur er heimilt að gerast of djarftækir til íslenskrar náttúru. Við verðum að sameinast um að byggja upp þekkingu og skilning á áhrifum sambýlis eldis og viltrar náttúru. Þess vegna hef ég ákveðið að gefa út reglugerð í næstu viku þar sem ákveðin svæði kringum landið verða skilgreind sem svæði þar sem kvíaeldi verður ekki leyft.

Af orðum mínum hér að framan má öllum ljóst vera að ég tel heillavænlegast að fiskeldið taki verulegt mið af náttúrulegum aðstæðum. Ég skil fiskeldismenn þannig að þeir séu mér sammála. Ég fagna því.

Ég segi þessa ráðstefnu setta.


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum