Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

6. mars 2001 MatvælaráðuneytiðGuðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra 1999-2007

Setningarávarp á Búnaðarþingi 2001

Setningarávarp
Guðna Ágústssonar landbúnaðarráðherra
á Búnaðarþingi 2001



        Dagur er risinn, öld af öld er borin
        aldarsól ný er send að skapa vorin
        Árdegið kallar, áfram liggja sporin
        Enn er ei vorri framtíð stakkur skorinn

Að undanförnu hef ég farið um landið og boðað til funda um framtíð landbúnaðarins undir yfirskriftinni "Árdegið kallar, áfram liggja sporin". Ég hef haldið 8 fundi á landsbyggðinni og í gærkvöld var glæsilegur fundur hér í Reykjavík. Á þessum fundum hef ég farið yfir þá sýn sem ég á til handa íslenskum landbúnaði á nýrri öld. Undantekningalaust hefur mæting verið góð og bændur ófeimnir við að ræða dægurmál og framtíð. Auðvitað sýnist sitt hverjum en ég lít á það sem eitt af hlutverkum mínum að blása anda í brjóst bænda, auka bjartsýni þeirra og vitund um að þjóðin stendur með þeim. Ég fer ekki um landið með bölmóð heldur von og vissu um að íslenskur landbúnaður á mikið hlutverk í framtíðinni. Þessu hefur verið vel tekið og ég finn vaxandi kraft og þor. Bændur hafa þörf til að koma saman og ræða sín mál, bæði sín á milli og við stjórnmálamenn. Bændur hafa líka þörf fyrir að koma saman og gleðjast, draga sig út úr amstri dagsins og halda hátíð. Ég hef verið á mörgum slíkum á síðasta ári. Þar sem bændur koma saman og minna á verk sín og vörur beinist athyglin að þeirra góða starfi. Upp í hugann kemur glæsilegt landsmót hestamanna sem haldið var hér í Reykjavík í sumar. Þangað komu þúsundir áhorfenda, þar af stór hluti útlendingar. Samhliða var haldin búvörusýning í Laugardalshöllinni þar sem kynntar voru afurðir landbúnaðarins. Hvoru tveggja tókst mjög vel og var góð kynning fyrir landbúnaðinn. Ég leyfi mér að minna á glæsilegan dag sunnlenskra bænda, kýr 2000. Um og yfir 1000 manns mættu á kúasýningu í Ölfushöllinni. Hverjum hefði dottið það í hug? Með góðu skipulagi og auglýsingu varð sunnlenskur landbúnaður miðdepill dægurmálaumræðunnar í fáeina daga, verðlaun veitt og menn voru glaðir. Jákvæð umræða er mjög mikilvæg og oftar en ekki geta bændur sjálfir haft áhrif á að svo sé.

Vegna þess að mér finnst nauðsynlegt að minnt sé á landbúnaðinn með jákvæðum hætti, hann eigi sína föstu daga í fréttunum, þá verð ég að lýsa vonbrigðum mínum með þá breytingu að setning Búnaðaþings hafi verið færð og henni breytt. Undanfarin ár hefur setning þess verið glæsileg athöfn. Hálfur sunnudagur hefur verið undir, ræðuhöld, tónlist, menning og verðlaun fyrir vel unnin störf. Við setninguna voru margir sem annars höfðu lítið af bændum að segja. Þeim líkaði vel að mæta á bændahátíð í Reykjavík. Ég minni á fundinn sem við áttum hér í gærkveld. Troðfullt hús af fólki sem telur sig hluta af landbúnaðinum og vill mæta. Það fólk gat það á sunnudegi og var velkomið. Áhrif þess dags fóru víða og voru jákvæð. Ég skil vel þörf Bændasamtaka Íslands á að draga saman og spara, nýta vel þá fjármuni sem þeim er trúað fyrir, en ég efast um þá ráðstöfun að breyta verulega þeirri hátíð sem hér var orðin.

Hvarvetna um hinn vestræna heim hefur umræða um landbúnaðarmál verið að breytast. Stjórnmálamönnum, bændum og öðrum þeim sem með skipulag og stefnumótun fara er löngu orðið ljóst að sífelld framleiðnikrafa og kall eftir ódýrari vörum gengur ekki upp. Kemur þar margt til. Í fyrsta lagi vil ég nefna að bændur eru starfsmenn náttúrunnar, reka fyrirtæki í náttúrunni, nýta gögn hennar og gæði og bera þess vegna ábyrgð á að ekki sé gengið of nærri henni. Í annan stað vil ég nefna að bændur bera ábyrgð á því búfé sem þeir halda hverju sinni. Þegar dýrafjöldinn er orðinn slíkur að hvert þeirra fær sekúndur af tíma bóndans getur margt farið að gefa sig. Og í þriðja lagi vil ég nefna afrakstur hinna tveggja fyrrnefndu atriða, það eru afurðirnar. Bregðist bóndinn náttúrunni eða búfénu er hætt við að afurðinar svari ekki þeim kröfum sem til þeirra eru gerðar. Þetta er auðvitað að gerast í allt of mörgum löndum heimsins í dag. Mér líður ekki vel þegar ég sé angist í augum evrópskra bænda, kvöldum af afleiðingum kúariðu, gin og klaufaveiki og þó kannski fyrst og fremst kerfi sem gengur ekki upp. Þeir geta ekki sinnt sínu starfi af þeirri samviskusemi sem þeir helst kjósa. Þeir eru þrælar kerfisins. Þetta vil ég ekki sjá gerast hér á Íslandi. Hér vil ég áfram sjá stolta stétt manna og kvenna sem bera höfuðið hátt þegar þau láta frá sér afurðir sínar. Þannig tel ég einnig best tryggt það jákvæða viðhorf sem landbúnaðurinn íslenski mætir hvarvetna.

Umræðan hefur því í auknum máli horfið að hinu fjölþætta hlutverki landbúnaðarins. Ekki bara matvælaframleiðslunni, heldur náttúrunni, menningunni, sögunni, lífinu í landinu. Ég vil taka þátt í þessari umræðu. Ég vil að fulltrúar íslensks landbúnaðar taki þátt í þessari umræðu. Ég vil að rödd okkar heyrist víða, ekki bara hér á landi heldur hvar sem við getur komið því við. Í þessum efnum eigum við mikið að gefa. Hvaða þjóð er ríkari en við í þessum efnum? En hér verða hlutirnir að gerast hratt. Við þurfum að móta stefnuna, kynna hana og framfylgja. En þetta má ekki bara verða stefnan mín. Þetta verður að vera stefna okkar allra sem hér erum og stefna allrar þjóðarinnar. Ég hef það hlutverk að vera í brúnni og stjórna för en ég þarf mikið lið með mér, heilan her allra þeirra er meta lífið í landinu og vilja sjá það blómgast áfram.

Ég sé hið fjölbreytta hlutverk landbúnaðairns sem okkar bestu leið til að bæta afkomu bænda. Afkoma þeirra sem við landbúnað vinna er slök að meðaltali og það sem er kannski enn verra er að hún er mjög misjöfn eftir búgreinum. Auðvitað er það svo að það eru of margir að framleiða of lítið. 2500 beingreiðsluhafar í sauðfjárrækt voru alltof margir. 320 þeirra hafa nú selt rétt sinn í þeim uppkaupum sem nú standa og trúlega fylgja fleiri á eftir. Við þurfum að vinna grunn að öðrum viðfangsefnum fyrir þetta fólk. Að því vinn ég og breytt tækni og betri samgöngur "tölvuhraðbrautin" vinna með okkur í þeim efnum. Víst finnst sumum "okkur þröngur stakkur skorinn" en "áfram liggja sporin" og við megum ekki gefast upp.

Ég hef áður sagt í þessum stól að nautgriparæktin fer fyrir íslenskum landbúnaði. Mér líkar margt mjög vel sem þar er að gerast. Þangað sækir ungt og kraftmikið fólk sem gerir ríkar kröfur til sjálfs síns og þeirra sem með þeim vinna. Fjölskyldubúið er enn sú eining sem framleiðslan byggir á og verður vonandi áfram. Ég mun ekkert það gera sem breytir því. En ég hef áhyggjur af fjármálum greinarinnar. Mér geðjast ekki þau kvótakaup sem fram fara og tel að þessi aðferð kynslóðaskipta í sveitum gangi ekki upp. Að greiða yfir 200 kr. fyrir aðgang að markaði og stuðning ríkisins getur breyst í martröð þeirra sem nú eiga þann draum að gerast þátttakendur í íslenskum landbúnaði. Kerfið er gallað en það er bundið í samningi ríkis og bænda til ársins 2005. Ég mun ekki breyta þessu kerfi einhliða en ég er tilbúin til samráðs við bændur um breytingar ef þeir óska.

Mér finnst það skref sem tekið var í nýjum samningi um framleiðslu sauðfjárafurða, að greiða hluta stuðnings ríkisins út á framleiðsluferli, gæðastýringu, vera góð framtíðarsýn. Gæðastýring sem tekur á öllu framleiðsluferlinu og nýtingu aðfanga og náttúrunnar er ferli sem allur búskapur framtíðarinnar mun byggja á. Það er auðvitað rétt að endurtaka það hér að þessi hugmynd kom frá bændum sjálfum en var ekki krafa ríkisins. Mér líkar vel að vinna með mönnum sem gera ekki bara kröfur til annarra. Í þessari gæðastýringu gera bændur verulega kröfur til sjálfra sín. En þeirra kröfum verður svarað með betri afkomu og ánægðari neytendum.

Gæðastýringin er líka mikilvægt tækifæri fyrir stoðgreinar landbúnaðarins. Búfræðslan, ráðgjafaþjónustan og rannsóknirnar fá nú áður óþekkt tækifæri til að vinna með bændum alveg frá upphafi ferilsins. Nú ári eftir að skrifað var undir samninginn eru námskeið fyrir bændur að hefjast, tilraunaverkefni er þegar hafið í Norður-Þingeyjarsýslu og undirbúningur stofnana er allstaðar í gangi. Auðvitað finnst mér að undirbúningurinn hefði mátt ganga hraðar því tíminn flýgur frá okkur en ég trúi því að allir endar verði frágengnir áður en ferlið hefst.

Af einu hef ég þó sýnu mestar áhyggjur en það er mat á landnýtingu. Mér hefur verið það ljóst um langan tíma að beitarnýting sumra afrétta er ekki með þeim hætti sem vera ætti hjá vel upplýstri þjóð. Nýtingin er ekki alls staðar með þeim hætti að teljast sjálfbær, gróður sé í jafnvægi eða framför. Þess vegna taldi ég það mjög mikilvægt að semja sérstaklega í sauðfjársamningnum um þennan þátt. Ég taldi líka mikilvægt að hafa bæði Rannsóknastofnun landbúnaðarins og Landgræðslu ríkisins með í þessu ferli. Þess vegna var samhliða samningi um framleiðsluna skrifað undir sérstaka viljayfirlýsingu varðandi landnýtingu. Ísland ber glögg merki 1100 ára mannvistar. Nú höfum við tækifæri til að snúa þessari þróun við. Við eigum að hefja þann viðsnúning á litlum skrefum, í sátt við bændur. Einungis þannig náum við árangri. Nú verða stofnanir landbúnaðarins að leggja fram sanngjarnt kerfi landnýtingar sem tekur þátt í þessum viðsnúningi og þá fyrst tryggjum við árangur í framtíðinni. Ég hef sagt áður og get sagt enn að ég er ekki sá landbúnaðarráðherra sem leggur niður sauðfjárrækt í landinu en ég vil sjá breytingar, raunhæfar til framtíðar.

Nú fyrir nokkrum dögum var ég á fjölmennum fundi á Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri. Þar var ég spurður að því hvort ég væri því fylgjandi að gerðar yrðu auknar kröfur til þeirra er stunda landbúnað. Ég játti því. Landbúnaður er flókið ferli margra ólíkra þátta þar sem bóndinn verður að vera sérfróður um marga hluti. Í þeim efnum getur orðið of dýrkeypt að læra af reynslunni. Ég vil skoða það að gerð verði krafa um búfræðimenntun eða námskeið í búfræðum samhliða annarri menntun. Helst af öllu vildi ég þó sjá það gerast að búfræðinámið væri svo gefandi að engum dytti í hug að fara í búskap án menntunar. Á sunnudagskvöldið gafst mér kostur á að heimsækja Hótel og veitingaskólann í Kópavogi. Það er glæsilegur skóli, vel búinn tækjum og megnugur til að mennta fólk til að vinna greinum sínum vel. Mér var boðið til veislu þar sem meistarakokkar sáu um matreiðslu og gerðu það vel. Nemendur þessa skóla eru samstarfsmenn landbúnaðarins, tilbúnir og boðnir til að kynna ykkar glæsilegu vörur. En eru þeir ekki fyrst og fremst svona góðir vegna þeirrar menntunar sem þeira hafa hlotið, vegna þeirrar leiðsagnar sem þeir fá hjá þrautreyndum vel lesnum meisturum? Er þetta eitthvað öðruvísi í landbúnaðinum? Ég held ekki. Því verður það eitt af forgangsverkefnum mínum að efla búfræðsluna.

Í gegnum tíðina hefur útflutningur landbúnaðarvara verið mikilvægur hluti landbúnaðarins. Ég hef hvatt til þess að við séum á hverjum tíma vakandi fyrir þeim möguleikum sem kunna að gefast. Margir hafa bent á að við þær aðstæður sem nú eru í heiminum hljóti að finnast markaður sem bæði vilji okkar vörur og kalli á þær. Okkar vörumerki eru gæði og hreinleiki í vörum sem neytendur geta treyst. Ég vil vinna með bændum og afurðastöðvum að átaksverkefni um útflutning landbúnaðarvara. En átakið verður að byggjast á skynsemi og samstarfi allra hagsmunaaðila. Ég sé mörg tækifæri en þeim er auðvelt að spilla af þeim sem ekki vilja taka á sig ábyrgð heldur einungis hirða afrakstur annarra. Ég er viljugur til að vinna því fylgi í ríkisstjórn að taka vel á með bændum í markaðssetningu erlendis ef þeir vilja koma sameinaðir í það samstarf. Það er vísasta leiðin til að ná árangri. Ég vil minna á verkefnið "Iceland naturally". Þar á landbúnaðurinn fulltrúa og þar er verið að vinna vel. Mikið starf í Bandaríkjunum í tengsum við Landafundanefnd hefur vakið verðskuldaða athygli. Víkingaskipið Íslendingur er talandi dæmi um vel heppnað átak og okkar er að fylgja því eftir.

Miklar breytingar hafa orðið á starfi Landgræðslu ríkisins og Skógræktar ríkisins á síðustu árum. Verkefni þessara stofnan hafa verið einkavædd í jákvæðustu merkingu þess orðs. Bændur, helstu vörslumenn landsins, hafa verið kallaðir til starfa og ábyrgðar. Verkefnin eru mikil og ég er ekki í neinum vafa um að framtíð landbúnaðar er falin í landvörslu og uppbyggingu landgæða. Yfir 500 bændur græða landið í samstarfi við landgræðsluna og fjölmargir bændur í öllum landshlutum eru þátttakendur í landshlutabundnum skógræktarverkefnum. Áhuginn er mikill og hann skal virkja. Eldhugar fá sjaldnast notið verka sinna og það má lengi bíða eftir árangrinum. En næsta kynslóð tekur við betra landi og sporgöngumanna bíður að byggja upp margskonar atvinnurekstur í kringum það átak sem nú er hafið. Ég er ekki í nokkrum vafa að hér er byggt til framtíðar og vextir af því fjármagni sem til uppbyggingarinnar fara verða gefandi. Mörg fyrirtæki og félög hafa látið til sín taka í þessum málaflokki. Áhugi almennings er gífurlegur. Við verðum að efla samstarfið og hvetja sem flesta til dáða. Sem lið í því hef ég fengið þá hugmynd að framlög til skógræktar og landgræðslu verði undanþegin skatti. Það er gífurleg þörf fyrir fjármagn og ef þetta er leið til að auka það er þess virði að skoða hugmyndina betur.

Annað verkefni skylt er mér hugleikið. Það er átaksverkefnið Fegurri sveitir. Það var eitt af mínum fyrstu verkum í stól landbúnaðarráðherra að óska eftir samstarfi við ýmsa aðila um að fegra sveitirnar. Ég vil að ónýtu húsin hverfi, fjarlægja vélaruslið, taka niður girðingarnar, mála og snyrta. Þessu átaki var vel tekið á síðasta ári og það mun halda áfram. Hreinleika og gæðum afurðanna verður að fylgja eftir með snyrtimennsku í hvívetna. Það er ekki sannfærandi að kynna gæðastýringu ef ásýndin er ekki í lagi. Fyrir svo utan hitt hvað ferðalangurinn verður glaðari að ferðast um þar sem náttúran nýtur sín og mannvistin verður ekki til að taka athyglina frá því sem mestu máli skiptir – heilnæmri náttúru í fegurri sveitum.

Ég hef mikla trú á framtíð íslensks landbúnaðar. Ég hef mikla trú á íslensku bændafólki. Auðvitað á íslenskur landbúnaður sín vandamál en þau verður hann að leysa. Ég hef sagt á fundum með bændum undanfarnar vikur að þeir verði að efla innri samstöðu. Félagskerfið þarf að styrkja og það þarf að enduróma vilja bænda. Hver búgrein þarf sitt félag, hvert svæði sitt samband. Sameiginlega byggja þessar heildir Bændasamtök Íslands sem sterkasta meið þeirrar eikur sem landbúnaðurinn myndar. Brestur í samstöðunni veikir fyrst og fremst landbúnaðinn. Það vil ég ekki sjá gerast. Um leið og ég óska Búnaðarþingi góðra starfa, bíð ég fram krafta mína og landbúnaðarráðuneytisins til að byggja upp til framtíðar fyrir sterkan og framsækinn landbúnað.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum