Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

15. mars 2001 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Ávarp á Málþingi Háskóla Íslands, 13.03.2001

Valgerður Sverrisdóttir,
iðnaðar- og viðskiptaráðherra

Ávarp á Málþingi Háskóla Íslands
13. mars 2001

Undanfarin ár hafa átt sér stað miklar skipulagsbreytingar í raforkumálum víða um heim. Hin gamalgrónu viðhorf voru að raforkumarkaðurinn væri sérstakur og hann þarfnaðist verndar. Þau byggðu á því að ekki mætti taka áhættu varðandi afhendingaröryggi og nauðsyn þess að tryggja öllum notendum raforku. Síðustu ár hafa hins vegar markaðsviðhorf verið að ryðja sér til rúms á þessu sviði. Sú skoðun er nú ríkjandi að fylgja beri meginreglum um markaðsbúskap í viðskiptum með raforku ekkert síður en á öðrum mörkuðum. Raforka hafi að vísu ýmsa séreiginleika en eigi samt að meðhöndlast á sama hátt og aðrir orkugjafar. Skipulag einokunar hafi leitt til óhagkvæmni og ósveigjanleika í rekstri, fjárfestingum og verðlagningu.

Á þessum forsendum hafa mörg ríki aflétt einokun í vinnslu raforku og komið á frelsi í viðskiptum, í mismiklum mæli þó. Til að tryggja forsendur samkeppni hafa verið gerðar kröfur um að skilja í sundur náttúrulega einkasöluþætti raforkukerfisins, þ.e. flutning og dreifingu, frá þeim þáttum þar sem samkeppni verður við komið, þ.e. vinnslu og sölu. Í flestum ríkjum er samhliða stefnt að því að fá einkafjármagn inn í raforkugeirann sem almennt hefur verið í höndum hins opinbera.

Reynsla ríkja af markaðsvæðingu hefur víðast hvar verið mjög góð og er því eðlilegt að spyrja hvort sömu sjónarmið eigi ekki við hér og annars staðar.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar frá því að raforkulög voru sett hér á landi árið 1946. Setning laganna markaði tímamót í rafvæðingu landsins. Með þeim fékk ríkið einkarétt á að virkja og reka raforkuver og tók jafnframt að sér dreifingu raforkunnar á þeim svæðum þar sem ekki voru til staðar rafveitur í eigu sveitarfélaga.

Önnur straumhvörf í raforkumálum urðu á sjöunda áratugnum með stórefldri nýtingu orkulindanna til uppbyggingar orkufreks iðnaðar og heildarendurskoðunar á skipan raforkumála. Við þessa endurskoðun voru raforkulögin felld úr gildi með setningu orkulaga, sem enn eru í gildi, jafnframt því sem Landsvirkjun var stofnuð með lögum frá Alþingi.

Frá lokum áttunda áratugarins og fram til ársins 1997 urðu litlar breytingar á stórnotkun en þá hófst nýtt uppbyggingarskeið stóriðju hér á landi með 90% aukningu raforkunotkunar stóriðjufyrirtækja . Þetta hefur kallað á mikla aukningu í raforkuvinnslu.

Það skipulag raforkumála sem við höfum búið við hefur hingað til að mörgu leyti reynst vel. Raforkukerfið stendur á traustum grunni, er tæknilega mjög gott og notendur búa við mikið afhendingaröryggi. Þá má nefna að raforkunotkun er mjög mikil á íbúa hér á landi og bendir flest til þess að Íslendingar verði með mestu raforkunotkun á íbúa á heimsvísu árið 2001. Skiptir þar hlutfallslega mikil notkun stóriðjufyrirtækja mestu. Raforkuverð er vel viðunandi samanborið við nágrannalönd þrátt fyrir að landið sé fámennt og strjálbýlt. Þá er hlutur endurnýjanlegrar orku hærri en í öðrum löndum og loftmengun vegna orkuvinnslu er óveruleg.

Þrátt fyrir góðan árangur er endurskipulagning markaðarins óhjákvæmileg. Þróun í nágrannalöndum okkar hefur áhrif á hér á landi þar sem Ísland er skuldbundið samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið til að innleiða í löggjöf sína tilskipun Evrópusambandsins um innri markað raforku. Tímamörk í því sambandi eru 1. júlí 2002. Þá er sjálfsagt að færa sér í nyt reynslu annarra ríkja sem hefur gefið góða raun þó auðvitað verði jafnframt að taka mið af aðstæðum.

Markaðsvæðing raforkukerfisins á Íslandi hefur verið í undirbúningi nokkur síðastliðin ár og er nú komið að tímamótum í þeim efnum. Á næstunni mun ríkisstjórnin leggja fram á Alþingi frumvarp til nýrra raforkulaga. Málið er afskaplega flókið og snertir á mörgum þáttum enda er raforka vara sem er nauðsynleg fyrir allar starfsemi í þjóðfélaginu. Meginmarkmið skipulagsbreytinganna er að stuðla að þjóðhagslega hagkvæmri nýtingu orkulindanna. Í því sambandi er vert að hafa í huga að hagkvæm orkuframleiðsla styrkir samkeppnisstöðu almenns atvinnulífs á Íslandi gagnvart öðrum löndum.

Hornsteinar áðurnefndrar tilskipunar eru afnám einkaréttar starfandi orkufyrirtækja, m.a. aðskilnaður vinnslu, flutnings, dreifingar og sölu og tilgreint lágmarksfrelsi í viðskiptum með raforku. Samkvæmt tilskipuninni geta ríki valið á milli útboðs og leyfisveitinga þegar ný orkuver eru reist. Skilyrði sem til grundvallar liggja skulu vera gagnsæ, birt opinberlega og mega ekki mismuna umsækjendum.

Endurskipulagningin hér á landi verður að fullnægja þeim lágmarkskröfum sem settar eru í tilskipuninni. Þá verður að byggja á þeim grunni sem við búum við og velja skynsamlegustu leiðirnar sem þjóna best markmiðum um hagkvæmni kerfisins. Íslenska raforkukerfið er lítið og ótengt öðrum kerfum og því er erfiðara að koma hér á fullnægjandi samkeppni en í flestum öðrum löndum. Þá eru markaðslegar forsendur þar sem eitt fyrirtæki er langstærst staðreynd. Engu að síður er engin ástæða er til að ætla að samkeppni geti ekki þrifist þegar til lengri tíma er litið. Til að svo megi verða þarf að skapa forsendur fyrir samkeppni. Aflétta verður sérstökum skyldum og afnema forréttindi hjá vinnslu og sölufyrirtækjum og tryggja á allan hátt jafnræði í þessum rekstri. Í því sambandi verður, eins og fram hefur komið, að skilja milli samkeppnis og einokunarþátta. Með því að skapa réttar forsendur eiga markaðsöflin að tryggja að ráðist sé í nægilega raforkuvinnslu. Ef markmið um hagkvæmni raforkukerfisins eiga að nást þarf að tryggja að einokunarfyrirtæki starfi sem mest í samræmi við lögmála á frjálsum markaði. Til að svo megi verða þarf að gera ákveðnar hagræðingarkröfur til þeirra og hafa möguleika á að bera saman árangur í rekstri. Ákveðið verðlagseftirlit er óhjákvæmilegt.

Því miður er ekki unnt á þessu stigi að fara með nákvæmari hætti í þær skipulagsbreytingar sem framundan eru en þess er ekki langt að bíða. Vil ég nota tækifærið til að þakka fyrir þetta ágæta framtak og vona ég að það hvetji til frekari faglegrar umræðu um þessi mál á næstunni.
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum