Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

15. mars 2001 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Ræða við undirritun samninga um Frumkvöðlasetur, 02.03.2001

Valgerður Sverrisdóttir,
iðnaðar- og viðskiptaráðhera

Ávarp
í tilefni af undirskrift samkomulags
um rekstur Frumkvöðlaseturs Norðurlands.

Ágætu samkomugestir.
Nú er sú stund loks að renna upp að við staðfestum samkomulag um rekstur Frumkvöðlaseturs Norðurlands. Málið hefur átt sér langan aðdraganda en ekki verður annað séð en að hugmyndin hafi þroskast vel á meðgöngutímanum.

Að baki hugmyndar um frumkvöðlasetur liggur sú einfalda staðreynd að vísindaleg og tæknileg þekking dugir ekki ein og sér til að skapa nýjar söluhæfar vörur eða þjónustu. Bilið á milli hugvitsmanna annars vegar, - þar sem þekkingin verður til, og markaðarins, hins vegar, - þar sem afrakstur þekkingarinnar skapast, hefur því miður oft reynst of breitt. Það hefur til skamms tíma bæði skort markvissa miðlun þekkingar til frumkvöðla og einnig skort áhættufjármagn til að kosta þróun hugmynda þeirra allt til loka.

Á síðustu árum hefur þó orðið mikil breyting á þessu ytra umhverfi nýsköpunar. Fjármagnsmarkaðurinn hefur á skömmum tíma tekið stakkaskiptum og aðgengi fyrirtækja að áhættufjármagni hefur breyst til samræmis við það. Fyrir um áratug voru virkir áhættufjárfestar teljandi á fingrum annarar handar. Frumstigum nýsköpunar var ekki vel sinnt og veð í steinsteypu var í flestum tilfellum lykilatriði. Breytingar fjármagnsmarkaðarins hafa ekki hvað síst haft áhrif á framboð á áhættufé og leikreglur þess markaðar. Með tilkomu Nýsköpunarsjóðs í ársbyrjun 1998 kom fram nýtt fjármagn - og jafnframt varð til vísir að samkeppni um fjárfestingarverkefni.

Önnur mikilvæg breyting varð með nýjum áherslum í starfsemi Iðntæknistofnunar þar sem stuðningur við nýsköpun atvinnulífsins var endurskoðaður frá grunni. Í kjölfar þess var IMPRA - þjónustumiðstöð fyrirtækja og frumkvöðla - sett á laggirnar til þess að sinna leiðsagnarhlutverki fyrir nýsköpun.

IMPRA er miðstöð þekkingar og leiðsagnar fyrir frumkvöðla og lítil og meðalstór fyrirtæki. Þar eru á einum stað upplýsingar um hvaðeina sem frumkvöðla vanhagar um að vita.

Starfsemin hefur að leiðarljósi að þjóna öllum atvinnugreinum hvort heldur er á sviði iðnaðar, sjávarútvegs, þjónustu eða annarra greina íslensks atvinnulífs. Með þessari þjónustu er unnið að því að brúa bilið á milli þess að viðskiptahugmynd kviknar og þess að til verði söluhæfrar vörur. Einn veigamesti þátturinn í þessari þjónustu Impru er rekstur frumkvöðlaseturs sem byggir á sömu hugmyndum og Frumkvöðlasetur Norðurlands sem hér verður fest í sessi í dag.

Sú ánægjulega þróun hefur orðið með Frumkvöðlasetur Norðurlands að einkafjármagnið hefur gert sig gildandi með einkar áhrifamiklum hætti. Stærsti eignaraðilinn verður félag í eigu KEA og Sparisjóðs Svarfdæla, en eignarhaldsfélagið Tækifæri hf. verður annar stór eignaraðili. Auk þessara einkafjárfesta koma að verkefninu Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins, Byggðastofnun, Atvinnuþróunafélag Eyjafjarðar, Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga, Iðntæknistofnun, Háskólinn á Akureyri að ógleymdu iðnaðarráðuneytnu.

Hlutverk Háskólans, stofnanana og atvinnuþróunarfélaganna verður fyrst og fremst að leggja til þekkingu, reynslu og þjónustu sem er nauðsynleg til að starfsemi frumkvöðlasetursins gangi vel.

Góðir gestir.
Við, aðstandendur frumkvöðlasetur Norðurlands, munum hér á eftir með undirskrift skuldbinda okkur til að tryggja rekstur Frumkvöðlaseturs Norðurlands næstu fimm árin - en til lengri tíma litið er stefnt að því að félagið geti staðið á eigin fótum.

Framundan er vandasöm ferð þar sem að mörgu er að hyggja til að verkefnið takist. Ég hef litið svo á að rekstur Frumkvöðlasetur Norðurlands sé, fyrst um sinn að minnsta kosti, tilraunaverkefni sem, ef vel tekst til, gæti orðið fyrirmynd að svipaðri starfsemi víðar á landinu. Ljóst er að atvinnulífið á landsbyggðinni þarfnast nýrra atvinnutækifæra sem byggja umfram annað á þekkingu og frumkvæði heimamanna. Frumkvöðlasetrið er til þess fallið að gera slíkt mögulegt.

Frumkvöðlasetrinu fylgja mínar innilegustu óskir um velfarnað á komandi árum.

Takk fyrir.
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum