Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

30. apríl 2001 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Ávarp á ráðherrafundi ESB um innri markaðinn 26.04.2001

Valgerður Sverrisdóttir,
iðnaðar- og viðskiptaráðherra

Ráðherraráð ESB- Innri markaðsmál
Lundi, 27. apríl 2001

Innlegg
iðnaðar– og viðskiptaráðherra
Íslandi

I INNGANGUR

Eitt af grundvallarsjónarmiðum í hefðbundinni neytendapólitík er að neytandinn sé veikari aðilinn í [samnings] sambandinu við framleiðendur vöru og þjónustu. Út frá þessari grunnforsendu hefur verið gripið til ýmissa aðgerða sem miða að því að jafna stöðuna milli neytandans og mótaðila hans á markaðnum. Þessar aðgerðir eru lagafyrirmæli, betri aðgangur að upplýsingum, vörumerkingar, aukin neytendafræðsla, o.s.frv. sem hefur leitt til þess að byggst hefur upp umfangsmikið efnissvið nútímalegrar neytendaverndar eins og við þekkjum hana í dag. Að baki eru því ýmsir merkir bautasteinar á sviði neytendaverndar sem munu hjálpa okkur að ákveða í sameiningu hvernig eigi að haga stefnumótun á þessu mikilvæga sviði á 21. öldinni. Á meðal þessara bautasteina eru m.a. ýmsar aðgerðir sem ráðherraráð ESB hefur samþykkt sem lágmarkssamræmingu á sviði neytendaverndar s.s. að því er varðar fjarsölusamninga, ábyrgð á seldum hlut og ábyrgðaryfirlýsingar í því sambandi, - svo einungis séu nefnd fá og nýleg dæmi. Tilmæli um meginreglur sem gilda skuli um úrskurðaraðila sem vinna að lausn deilumála utan dómstóla svo og hið mikilvæga uppbyggingarstarf sem nú á sér stað á Evrópska tengslanetinu fyrir úrskurðarnefndir (EEJ-net) eru einnig góð dæmi um það sem náðst hefur fram með evrópskri samvinnu í sambandi við sölu á vöru og þjónustu milli ríkja. Allar þessar aðgerðir leggja grunn að vernd neytenda á hinum sameiginlega innri markaði og munu stuðla verulega að því hann starfi rétt og eðlilega. Til þess að unnt verði að gera markaðina enn árangursríkari og reka skilvirka markaðspólitík þá er hinsvegar nauðsynlegt að auka samspil milli neytendapólitíkur og annarra sviða svo sem samkeppnis-, iðnaðar- og innri markaðspólitíkur.

Tilgangurinn með þessu innleggi er að það megi vera til þess fallið að efla umræður um framtíðarstefnumótun í þágu hagsmuna evrópskra neytenda og vonandi með nokkrum nýjum hugmyndum og tillögum.

II STAÐA NEYTANDA Á MARKAÐNUM

Á undaförnum árum hefur hin nýja tækni farið sem sviptivindur um innlenda markaði sem og milli landamæra einstakra ríkja og alþjóðlega. Hún hefur hrint af stað miklum breytingum á markaðstorginu og mun áframhaldandi breyta viðskiptaháttum verulega og sambandinu milli neytenda og framleiðenda vöru og þjónustu. Hún hefur og mun auka mjög aðgengi neytenda að fjölbreyttu úrvali af vörum og þjónustu og styðja við verðsamkeppnina. Hin nýja tækni og hagnýting hennar mun gera framleiðendum vöru og þjónustu kleift að aðlaga þær í auknum mæli að einstaklingsbundnum þörfum neytandans og verða hvati að sérsniðnum fjöldaframleiðsluháttum. Ef litið er til þessarar þróunar þá er margt sem bendir til þess að hin nýja tækni almennt séð muni á margan hátt styrkja stöðu neytandans. Hin nýju og auknu samskipti ættu að leiða til mun nánari tengsla og tvíhliða samspils milli neytandans og seljenda vöru og þjónustu. Af þessum sökum má búast við að framleiðendur á vörum og þjónustu muni í sífellt vaxandi mæli aðlaga framleiðslu sína að óskum neytenda í því skyni að halda markaðshlutdeild sinni og samkeppnisfærni.

III HIÐ NÝJA HAGKERFI - NÝ "MARKAÐSPÓLITÍK"

Hið nýja hagkerfi þar sem að tölvur og ný tækni leika sífellt stærra hlutverk mun án vafa hafa áhrif á ýmis hefðbundin pólitísk svið til að mynda neytenda,- samkeppnis, - iðnaðar, - og innri markaðspólitík. Aukin nálgun og samspil milli þessara málefnasviða sýnist því vera óhjákvæmileg. Við getum jafnvel átt von á því að það muni leiða til þess að nýtt pólitískt svið myndist: þ.e. markaðspólitík, eins og kemur fram í nýlegri skýrslu "Neytendamál í ESB", danska ríkisútgáfan, Danmörk, apríl 2000. sem danska ríkisstjórnin lagði fram hér í ráðherraráði ESB á síðast liðnu ári. Danmörk er ekki einungis eitt af okkar góðu grannríkjum heldur náinn samstarfsaðili á vettvangi Norrænu ráðherranefndarinnar sem og á vettvangi Evrópska efnahagssvæðisins. Á Íslandi höfum við sérstaklega fagnað þessu frumkvæði og munu margar þeirra hugmynda sem þar eru kynntar verða til þess að stuðla að náð verði sameiginlegu markmiði allra þeirra ríkja sem aðild eiga að hinum sameiginlega innri markaði, nefnilega að tryggja ríka neytendavernd á Evrópska efnahagssvæðinu. Einkum og sérílagi viljum við leggja út af þeirri sýn sem þar er að finna og sem gæti leitt af "auknu samspili milli neytenda – og samkeppnispólitíkur"sem og öðrum nátengdum pólistískum sviðum.

Meginsjónarhorn markaðspólitíkur mun verða með hvaða hætti sé unnt að tryggja betri og skilvirkari markaði þar sem hagur neytenda og neytendavernd eru lykilþættir á hlutaðeigandi markaði.

Þess konar pólitík er til þess fallin að tryggja nánari og virkari umræður milli hinna mismunandi pólitísku sviða. Þessi aðferðarfræði myndi hafa þau áhrif að mikilvæg neytendamál yrðu skoðuð þverfaglega eða lárétt, og veita öllum hlutaðeigandi hagsmunaðilum aðgang og tækifæri á að hafa áhrif á framtíðarstefnumótun fyrir innri markaðinn. Í skýrslu dönsku ríkisstjórnarinnar segir: "Fyrirtækin sem munu sigra í framtíðinni mun verða þau fyrirtæki sem geta framleitt vörur og þjónustu sem fullnægir kröfum neytenda að því er varðar verð, gæði, siðferði, umhverfið, dýravernd, o.s.frv.".

Árið 1994 fékk Ísland ásamt öðrum EFTA EES-ríkjum það tækifæri að vera þátttakandi í því verkefni aðildarríkja ESB að koma á fót sameiginlegum innri markaði. Það er engum vafa undirorpið að afnám ýmissa lagahindrana og betra aðgengi að mörkuðum hefur verið hagkvæmt fyrir alla þátttakendur, þ.e. bæði neytendur og viðskiptalífið.

Framundan á 21. öldinni eru mörg mikilvæg mál sem þarf að taka á og sem varða bæði neytendur og viðskiptalífið. Mörg þessara mála munu krefjast pólitískra aðgerða bæði á vettvangi ESB sem og á heimavelli í aðildarríkjunum. Í því felst því mikil áskorun að okkur takist að koma málum þannig fyrir í þessum málaflokkum að þau verði rædd í mun breiðara samstarfi milli þessara mismunandi pólitísku sviða heldur en gert hefur verið hingað til. Til dæmis um óumdeilanlega hagsmuni af þessu tagi og sem mjög eru í umræðunni nú er að eðlilegt væri að mun nánari samvinna og virk skoðanaskipti fari fram milli framleiðanda matvæla og neytenda sem telja má að séu tveir megin hagsmunahóparnir í sambandi við öryggi matvæla.

Aukin tiltrú neytenda fæst aðeins með því að fram fari gagnkvæm upplýsingaskipti, virk þátttaka og gagnkvæmur skilningur aðila á því að jafnvægi hagsmuna verður að vera tryggt þegar taka á ákvarðanir. Hin nýja tækni, nýjar markaðsaðferðir og mikill vöxtur rafrænna viðskipta mun gera nánari samvinnu nauðsynlega svo og gera kröfu um að skoðanskipti aukist milli hinna ýmsu pólitísku sviða svo að unnt verði að leggja grunn að hinu nýja markaðstorgi framtíðarinnar.

IV LEIÐIN ÁFRAM – NOKKRAR TILLÖGUR

Í dag stöndum við á mörkum nýrra aldar sem eru ávallt merk kaflaskil en með hliðsjón af því sem hér á undan hefur verið rakið í I til III hluta þessa innleggs míns þá má auðveldlega sjá að nú eru einnig að verða merk kaflaskil að því er varðar hegðun (atferli) fyrirtækja og neytenda. Hratt en örugglega eru þessir markaðsaðilar að aðlaga sig að þeim nýju tækifærum og tilboðum sem ný tækni og margvíslegar lagaúrbætur hafa verið að skapa markaðinum. Að minni hyggju þá ætti það einnig að leiða til þess að stjórnmálamenn og opinberar stjórnsýslustofnanir eigi einnig að aðlaga sig að hinu nýja og breytta umhverfi og tryggja að þau pólitísku svið sem skipta máli varðandi markaðspólitík taki mið hvort af öðru og taki fyllilega tillit til þessa nýja sjónarhorns markaðsaðilanna, þ.e.a.s. fyrirtækjanna og neytendanna.

Á grundvelli "acquis" um margvísleg grundvallarréttindi neytenda ættum við nú að færa okkur skrefinu áfram og tryggja skilvirkari viðræður og skoðanaskipti milli hinna ólíku pólitísku sviða sem þó tengjast hvort öðru vegna sameiginlegra hagsmuna sem allir beinast að neytandanum og neytendapólitík. Það mun tryggja fínstillingu og tryggja að sjónarhorn aðila beinist að því sem máli skiptir og leiða til þess að við fáum skilvirkari Innri markaðs pólitík. Hið sameiginlega markmið þessara ólíku pólitísku sviða (þ.e. neytendamála, samkeppnis, iðnaðar eða viðskiptapólitíkur) er að stuðla að því að Innri markaðurinn virki rétt, jafnt fyrir neytendur sem og fyrirtækin. Aðeins með opinskáinni umræðu og skoðanaskiptum með "þverfaglegum" hætti verður unnt að ná fram þessu sameiginlega markmiði.

Samruni Ráðherrráðs ESB um innri markaðinn, neytendamál og túrisma, í eitt Ráðherrarráð um Innri markað er að minni hyggju mikilvægt skref í þessa átt. Til að tryggja enn betur áhrif þeirrar breytingar kynni einnig að vera rétt að gera enn frekari breytingar á stjórnsýslunni til þess að stuðla megi að skilvirkum skoðanaskiptum milli neytenda og fyrirtækja um hvernig að leiðin áfram skuli vörðuð í átt að góðum viðskiptaháttum í sama anda og þau fyrirtæki sem talin eru að verði "sigurvegarar" morgundagsins eru nú þegar að gera. Vissulega getum við reiknað með því að neytendamál muni með sama hætti og umhverfismál verða æ sýnilegri í öllum geirum er varða viðskiptalífið og snerta markaðspólitík með einum eða öðrum hætti. Hagsmunir neytenda að því er varðar innri markaðinn verða að vera viðurkenndir í allri opinberri stjórnsýslu sem skiptir máli fyrir innri markaðinn og verða ein af eðlilegum byggingareiningum við framtíðaruppbyggingu og þróun innri markaðspólitíkurinnar. Til þess að unnt verði að ná árangri og gera sameiginlegan innri markað að veruleika þá verður að flétta inn sjónarhorn neytenda. Það mun aðeins leiða til betri skilnings og sanna að Innri markaðurinn er gagnlegur jafnt fyrir neytendur sem og fyrirtækin og það gæti einnig jafnað nokkuð þann (viðskipta)halla sem oft hefur verið á milli neytendapólitíkur og annarra pólitískra sviða.
Að lokum mætti undirstrika nokkra punkta fyrir þessa samantekt um sameiginlega Markaðspólitík:
· Hin nýja tölvtækni gerir kleift og eykur að fyrirtækin sérsníði vörur og þjónustu og þar með leggja sífellt meiri áherslu á sjónarhorn neytandans (viðskiptamannsins)
· Sterkur sameiginlegur innri markaður verður að byggja á náinni samvinnu og samræmingu milli sjónarmiða neytenda annars vegar og fyrirtækja hins vegar
· Markaðspólitík verði samnefnari fyrir traust neytenda og skilvirkan sameiginlegan innri markað þar sem að sjónarmið neytenda verði samþætt á öðrum póltískum sviðum sem skipta máli svo að innri markaðurinn virki sem best.
· Stjórnsýsla og aðrar skipulagsheildir sem starfræktar eru verða að styðja við þessa nýju framtíðarsýn um skilvirka markaðspólitík og tryggja að neytendamál verði hægt að fjalla um á þverfaglegan hátt.
· Sérhæfðum neytendadeildum sem starfa innan stjórnsýslunnar sé falið að hafa yfirsýn, viðhalda og leggja fram sérfræðilega þekkingu um grunndvallar réttindi og meginreglur neytendaverndar.
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum