Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

2. júní 2001 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Ávarp við skólaslit Viðskiptaháskólans á Bifröst, 02.06.01

Valgerður Sverrisdóttir
iðnaðar- og viðskiptaráðherra.


Ávarp við skólaslit Viðskiptaháskólans á Bifröst
2. júní 2001.

I.
Góðir útskriftarnemar og aðrir hátíðargestir. Það er mér mikil ánægja að fá tækifæri til að afhenda fyrstu viðskiptafræðingum sem útskrifast frá Viðskiptaháskólanum skírteini sín og ávarpa ykkur hátíðargesti hér í dag. Það voru svo sannarlega gleðileg tíðindi fyrir alla sem að háskólanum koma þegar Alþingi samþykkti á vorþingi lagabreytingu sem jafnar aðstöðu Viðskiptaháskólans á Bifröst og Háskóla Íslands til að útskrifa viðskiptafræðinga. Viðskiptaháskólinn á Bifröst er síðan ekkert að tvínóna við hlutina og útskriftar fyrstu viðskiptafræðingana strax degi eftir gildistöku laganna.
II.
Ég á ljúfar minningar frá Bifröst þó að aldrei hafi ég setið þar á skólabekk. Ég fékk hins vegar tækifæri til að sitja í skólanefnd Samvinnuháskólans á skemmtilegum uppbyggingartíma í lífi hins unga háskóla á fyrri hluta síðasta áratugar og var reyndar formaður um tíma. Það fór mikill tími í að aðlaga hinn nýja skóla að nýjum tímum í menntamálum og breyttum viðskiptaháttum í atvinnulífinu. Sú breyting hefur tekist afar vel og skilað góðu fólki með ferskar hugmyndir inn í atvinnulífið.

Tengsl atvinnulífs og háskóla eru sífellt að verða sterkari. Slík tenging er nauðsynleg til að stuðla að nýsköpun og öflugri frumkvöðlamenningu og þar með eflingu langtímahagvaxtar. Háskólar eiga ekki bara að ala upp embættismenn heldur einnig að örva sköpunargleði nemenda og fá þá til að innleiða nýjungar í atvinnulífinu og auka framleiðni. Hér má í dæmaskyni nefna tvö svið sem standa hjarta mínu nærri sem ráðherra iðnaðar- og viðskiptamála.

Sem dæmi um fræðasvið vísinda og tækni sem hefur náð fótfestu með undraverðum hætti er líftækni. Sú þróun sem varð með líftæknirannsóknir Iðntæknistofnunar eru um margt einkennandi fyrir þessa þróun. Eftir áralangar rannsóknir á hitakærum örverum rann sú stund upp fyrir um tveimur árum að þessum rannsóknum var best tryggð framtíð með því að stofna um þær fyrirtæki, leita eftir einkafjármagni og gefa því sjálfstætt líf í ólgusjó frjálsa markaðarins. Þannig varð fyrirtækið Prokaria til.

Annað dæmi um svið sem hefur blómstrað á undanförnum árum er fjármagnsmarkaðurinn. Í raun má halda því fram að hagvöxtur síðustu fimm ára hefði verið mun minni ef breytingar á fjármagnsmarkaðnum hefðu ekki verið jafn örar og raun ber vitni. Ekki er að efa það að margir viðskiptafræðingar frá Bifröst munu hasla sér völl á þessu sviði nú að loknu námi.
III.
Góðir hátíðargestir. Þó að Viðskiptaháskólinn sé nýr af nálinni á skólastarf á Bifröst sér langa og merka sögu. Samvinnuskólinn lagði höfuðáherslu á að efla meðal nemenda sinna vitund og vilja til framtaks og framfara, bæði eina sér og í samvinnu við aðra. Nemendur skólans komu því ekki einungis til starfa hjá samvinnuhreyfingunni heldur stofnuðu mjög margir þeirra til sjálfstæðs rekstrar á sviði viðskipta, framleiðslu og þjónustu.

Alllöngu eftir að Háskóli Íslands hóf kennslu í viðskiptafræðum fóru verslunarskólarnir að dragast aftur úr, þar á meðal Samvinnuskólinn. Hann varð ekki lengur fær um að sinna kalli tímans og varð ófullnægjandi fyrir stjórnendur í sífellt stærri og flóknari viðskiptaheimi. Það var því mikið gæfuspor þegar ákveðið var að færa hann upp á háskólastig, þó að sumir, og þar á meðal ég, sakni þess að hann skyldu ekki lengur treysta sér til að kenna sig við samvinnu. En fyrst og síðast er það innihaldið sig skiptir máli. Frá þeim tíma að skólinn varð háskóli hefur hann stöðugt sótt í sig veðrið og stendur nú í flestum greinum jafnfætis eða framar öðrum skólum á sama stigi. Ein af meginástæðum fyrir velgegni skólans tel ég vera þá ríku áherslu sem lögð er á að búa nemendur undir að starfa sjálfstætt, beita hugviti sínu og framtaki til þess að leiða í atvinnulífinu.

Þetta kemur sér vel þegar tengslin við landsbyggina eru höfð í huga. Það er alkunna að á þeim árum þegar háskólanám er stundað verða til fjölþætt tengsl, fjölskyldutengsl og tengsl við vinnustaði. Mörgum háskólamanninum hefur því verið markaður bás þegar námi lýkur, heimili hans og vinnustaður skal vera í nágrenni háskólans. Þetta hefur verið ógæfa landsbyggðarinnar þar sem þessi tengsl verða oftast við suðvesturhorn landsins, þó að Háskólinn á Akureyri bæti mjög um. Lítil slík tengsl verða til við Viðskiptaháskólann á Bifröst. Að loknu námi þaðan dreifast menn til starfa, ekkert síður til starfa úti á landi heldur en á höfuðborgarsvæðinu, þó að margir leiti að sjálfsögðu þangað, ekki síst á þeim árum þegar umsvif eru þar mikil.
IV.
Góðir hátíðargestir. Ég vil að endingu ítreka þakkir mínar fyrir að vera boðið að taka þátt í þessari athöfn. Ég óska fyrstu viðskiptafræðingunum sem útskrifast frá Viðskiptaháskólanum á Bifröst og aðstandendum þeirra innilega til hamingju með áfangann. Megi ykkur farnast vel í leik og starfi, íslensku þjóðinni til heilla.





Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum