Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

8. júní 2001 InnviðaráðuneytiðSturla Böðvarsson, samgönguráðherra 1999-2007

Samgönguráðherra ávarpar TorNuuRek í Perlunni

Vörusýningin TorNuuRek, kennd við Þórshöfn, Nuuk og Reykjavík, var opnuð með pompi og prakt í Perlunni í gær. Ávarp samgönguráðherra við það tækifæri fer hér á eftir.

Ráðherrar, kæru gestir! - Ministre, ærede gæster!


Samstarf á milli Færeyja, Grænlands og Íslands hefur aukist hröðum skrefum undanfarin ár. Það er ekki síst að þakka drífandi einstaklingum sem séð hafa tækifæri í því að líta til okkar næstu nágranna þegar leitað hefur verið markaða fyrir vörur og þjónustu.
Við íslendingar erum þakklátir fyrir að eiga góða granna bæði í austri og vestri.
Þjóðirnar eru um margt líkar en að þó ekki það einsleitar að ein þjóð geti ekki lært af annarri. Hér á TORNUUREK getum við íslendingar kynnst því sem færeyst og grænlenskt atvinnulíf hefur að bjóða og íslensk fyrirtæki haf góða aðstöðu til þess að kynna framleiðslu sína.
Á sýningu eins og þessari má kynnast fyrritækjum sem fást við margskonar framleiðslu og þjónustu. Eins og við er að búast tengjast mörg þeirra sjávarútvegi enda í hafinu sú auðlind sem allar þjóðirnar treysta mikið á. Fyrirtæki tengd flutningum og samgöngum eru hér einnig enda geta allir verið sammála því að án traustra samgöngukosta gangi þetta þriggja landa samstarf ekki upp.
Það hafa verið blikur á lofti í samgöngum á milli Íslands og Grænlands. Og ef vel ætti að vera þyrfti að fljúga oftar á milli Íslands og Færeyja. Mikill metnaður er í öllum löndunum að stórefla ferðaþjónustuna innan Vest-Norden og því hafa margir lýst áhyggjum sínum af þeirri þróun sem leiðir til færri ferða og minni flutninga og um leið minni tekjum af ferðamönnum.
Auðvitað verðum við að treysta á kraft og útsjónarsemi þeirra sem stunda rekstur flugfélaganna og þeirra sem sjá sér hag í viðskiptum milli landanna. En stjórnvöld landanna verða auðvitað að stuðla því að flugið styrkist eftir þeim leiðum sem stjórnvöld hafa og færar eru.
Vonandi sjáum við þó fram á þá tíma að samskiptin á milli landanna og þar með flutningar verði nægilega miklir til þess að flugfélög blómstri ekki síður en önnur fyrirtæki sem starfa á okkar sameiginlega markaði Færeyja, Grænlands og Íslands.
Ég fagna því hversu sýningin ber vott um mikla bjarsýni og hér í Perlunni er á ferðinni mjög svo frambærilegt framtak.
Sýnendum og öðrum þeim sem að undirbúningi sýningarinnar hafa komið óska ég innilega til hamingju. Megi gestir okkar eiga góða júnídaga á Íslandi.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum