Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

22. júní 2001 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Ávarp á ráðstefnunni Hugverkavernd - hvert stefnir?, 22.06.2001

    Valgerður Sverrisdóttir,
    iðnaðar- og viðskiptaráðherra


    Ávarp við upphaf ráðstefnunnar: Hugverkavernd - hvert stefnir?
    sem haldin var á Grand Hótel Reykjavík 22. júní 2001
    í tilefni af að 10 ár eru liðin frá stofnun Einkaleyfastofunnar.

    Góðir ráðstefnugestir.

    Málaflokkurinn á dagskrá þessarrar ráðstefnu hefur mikla og vaxandi þýðingu fyrir atvinnustarfsemina og fólkið í landinu.

    Iðnaðarráðuneytið tók við umsýslu einkaleyfa og vörumerkja við stofnun ráðuneytisins 1970. Þá voru umsvifin ekki meiri en svo að starfsemin hvíldi á herðum eins til tveggja manna. Nú er iðnaðarráðuneytið nýbúið að hafa milligöngu um kaup á rúmlega 900 fermetra húsnæði fyrir Einkaleyfastofuna og starfslið stofnunarinnar hefur á þessu ári náð því að verða tveir tugir.

    Ég minni á þetta til að undirstrika hve breytingar síðustu ára eru stórstígar. Nú á tímum eru varla haldnar svo alþjóðlegar ráðstefnur um nýsköpun og atvinnumál að ekki sé talað um mikilvægi hugverkaréttinda á sviði iðnaðar. Og hér á landi hafa samtök í atvinnulífi og aðrir áhugasamir aðilar látið þennan málaflokk til sín taka í vaxandi mæli .

    Aukin þörf á hugverkavernd skýrist ekki síst af þeim breytingum sem orðið hafa í atvinnulífi og milliríkjaviðskiptum í okkar heimshluta með afnámi hvers konar viðskiptahindrana. Þörfin fyrir aukið alþjóðlegt og svæðisbundið samstarf á þessu málasviði hefur vaxið að sama skapi.
    Það hefur ótrúlega margt áunnist á þeim áratug sem liðinn er frá því að Einkaleyfastofan var sett á laggirnar. Í því efni eiga iðnaðarráðuneytið og stofnunin í mörgum tilvikum sameiginlega hlut að máli. Mér koma einkum eftirfarandi atriði í hug:

      Löggjöf okkar um hugverkaréttindi á sviði iðnaðar hefur tekið umtalsverðum breytingum og Ísland hefur gerst aðili að ýmsum alþjóðlegum samningum um hugverkavernd. Þar ber hæst samstarfssáttmála um einkaleyfi - PCT-samninginn - frá 1984 (Patent Cooperation Treaty) og Madridbókunina á sviði vörumerkja frá 1989. Einkaleyfastofan er orðin viðtökustofnun alþjóðlegra umsókna á þessum sviðum. Alþingi samþykkti svo fyrir þinglok á þessu vori þingsályktunartillögu þess efnis að Ísland gerist aðili að Genfarsamningnum frá 1999 um alþjóðlega skráningu hönnunar á sviði iðnaðar.

      Þekking og skilningur á gildi hugverkaréttinda á sviði iðnaðar hefur farið vaxandi hér á landi. Farið er að kenna valgreinar um þetta efni í lagadeild Háskóla Íslands. Það hefur ekki síst aukið áhuga lögfræðinga á málasviðinu og þessi þekking skilar sér til atvinnulífsins, ráðuneyta og stofnana ríkisins með háskólamenntuðu fólki sem kemur þar til starfa.

      Samstarf milli norrænu einkaleyfastofnananna hefur aukist til muna og starf vinnuhópa á þeirra vegum nær nú orðið til allra sviða hugverkaréttinda á sviði iðnaðar, einkaleyfa, vörumerkja og hönnunar.
      Samstarf við Alþjóðahugverkastofnunina, WIPO, hefur einnig styrkst, m.a. vegna hlutverks Einkaleyfastofunnar sem viðtökustofnunar alþjóðlegra einkaleyfis- og vörumerkjaumsókna. Nefna má í því sambandi að starfsmenn Einkaleyfastofunnar sækja í vaxandi mæli námskeið hjá Alþjóðahugverkastofnuninni.

      Ísland hefur skyldum að gegna gagnvart Alþjóðaviðskiptastofnuninni sem vinnur að samræmingu á hugverkavernd í aðildarríkjunum á grundvelli GATT/TRIPS-samningsins.

      Þá hefur samstarf við hérlenda hagsmunaaðila og áhugasamtök eflst til muna.

      Nýtt verndarsvið, hönnunarvernd, kom til sögunnar hér á landi með lögum nr. 48/1993 um hönnunarvernd, sem gengu í gildi1994, og endurskoðuð löggjöf, lög nr. 46/2001 um hönnun, mun öðast gildi 1. október n.k. Þar er meðal nýmæla að gert er ráð fyrir tengslum við alþjóðlegt skráningarkerfi eins og ég gat um áðan.

      Yfirstjórn byggðarmerkja hefur verið færð frá félagsmálaráðuneyti til iðnaðarráðuneytisins og Einkaleyfastofunni verið falið að skrá slík merki.

      Frá því á árinu 1997 hefur lögfræðingur hjá Einkaleyfastofunni tekið þátt í starfi sérfræðingahóps EFTA/ESB á sviði hugverkaréttinda fyrir hönd ráðuneytisins. Á þessum vettvangi eru kynnt viðhorf og áherslur íslenskra stjórnvalda í stærri málum, t.d. líftæknimálum. Í þessu efni, sem og við undirbúning löggjafar um hugverkaréttindi á sviði iðnaðar, er mikilvægt að eiga aðgang að sérþekkingu hjá Einkaleyfastofunni.

    Þótt margt hafi áunnist á sviði hugverkaréttinda á sviði iðnaðar hér á landi á síðustu árum er framþróunin svo ör á þessu sviði að okkur mun ekki skorta verkefni á næstunni. - Ráðuneyti mitt og Einkaleyfastofan þurfa án efa að vinna sameiginlega að ýmsum þessarra verkefna. Flest þeirra snerta íslenskt atvinnulíf með einum eða öðrum hætti - og á ég þá m.a. við iðnað okkar og rannsóknarstarfsemina í landinu. Þessi mál verða því tæpast leyst farsællega nema með víðtæku samstarfi stjórnvalda, fyrirtækja og samtaka í atvinnulífinu. - Ég nefni hér dæmi um nokkur atriði:

      Í fyrsta lagi þyrftu íslenskir aðilar að hagnýta sér einkaleyfakerfið í ríkara mæli en nú gerist. Fjölgun einkaleyfishæfra uppfinninga gæti ýtt undir ný störf í atvinnulífi. - Frá íslenskum fyrirtækjum, einstaklingum og stofnunum í rannsóknargeiranum koma mun færri einkaleyfishæfar uppfinningar - í hlutfalli við fjölda innlagðra umsókna - en gerist í grannlöndum okkar. Þetta kom m.a. fram árið 1999 í áliti nefndar sem iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið fól að kanna þetta efni. Þessi niðurstaða kemur heim og saman við upplýsingar frá Efnahags- og framfarastofnuninni í París - OECD - um fjölda einkaleyfa hér sem hlutfall af landsframleiðslu. Þó erum við frekar í sókn ef litið er á síðasta áratug. - Vinnuhópur, sem ráðuneytið og Einkaleyfastofan standa að, er nú að fara nánar ofan í saumana á þessu máli með það að markmiði að greina ástæðurnar og finna leiðir til úrbóta. - Hugmynda og tillagna frá hópnum er að vænta á næstunni. Varðandi samanburð á milli ríkja má ekki gleyma því að það færist í vöxt að íslenskir aðilar sæki um einkaleyfi í öðrum ríkjum. Sem dæmi um árangur má nefna að 29 einkaleyfi voru veitt íslenskum umsækjendum í Bandaríkjunum á tímabilinu 1995-2000.
      Í öðru lagi þurfum við líta á þá möguleika sem kynnu að felast í tengslum við evrópska einkaleyfakerfið. - Forsvarsmenn Einkaleyfastofunnar hafa tjáð mér að með vaxandi hlutdeild erlendra umsókna hér á landi muni stofnunin að óbreyttu eiga erfitt með að komist yfir að afgreiða umsóknir og veita einkaleyfi innan eðlilegra tímamarka. Varðandi úrræði í þessu efni gæti valið staðið milli tveggja kosta: Annars vegar að fjölga til muna starfsmönnum sem vinna á einkaleyfadeild stofnunarinnar eða - hins vegar - að kanna hvort samstarf við Evrópsku einkaleyfastofnunina (EPO), sem er óháð Evrópusambandinu sem slíku, sé fýsilegur kostur. - Varðandi seinni kostinn hefur Einkaleyfastofan nýlega lagt til við ráðuneytið að vinnuhópi verði falið að gera úttekt á hugsanlegri aðild Ísland að EPC-samningnum (European Patent Convention) frá 1973 sem starfsemi Evrópsku einkaleyfastofnunarinnar hvílir á. Aðild að þessum samningi þýddi í reynd að móttaka og meðferð umræddra umsókna flyttist að verulegu leyti til EPO. Ráðuneytið er nú með þessa tillögu í athugun.

      Í þriðja lagi tel ég að stjórnvöld þurfi að glöggva betur en gert hefur verið afstöðu Íslands til líftæknitilskipunar Evrópusambandsins (ESB). Þessi tilskipun telst "EES-tæk" (eins og sagt er) og aðildarríki ESB áttu að vera búin að lögleiða hana á miðju ári 2000. - Í ljósi hinnar öru þróunar á sviði líftækni (og er þá nærtækt að nefna tilraunir með hagnýtingu erfðaefnis, m.a. erfðabreyttar lífverur) vantar nokkuð á að álitamál, t.d. af siðferðilegum toga, varðandi einkaleyfi á sviði líftækni hafi verið nægilega kynnt og rædd hér á landi. Áður en til hugsanlegrar innleiðingar tilskipunarinnar kemur hér á landi er nauðsynlegt að veita meiri upplýsingar en gert hefur verið um þessi annars flóknu álitamál. - Hér er að sjálfsögðu um mikið hagsmunamál að ræða á komandi tíð.
      Í fjórða og síðasta lagi vil ég geta geta þess að talsverð vinna hefur verið lögð í að kanna hug ýmissa aðila varðandi þörf okkar á löggjöf um réttarstöðu þeirra sem vinna að uppfinningum í þjónustu annarra. Reynsla, sem frændþjóðir okkar á Norðurlöndum hafa miðlað okkur um þessi efni, hefur auðveldað okkur þessa vinnu og þangað munum við án efa sækja fyrirmyndir að hugsanlegri löggjöf um þessi efni.

    Ég vil hér að lokum lýsa yfir ánægju minni með þessa ráðstefnu. Ég vil jafnframt láta í ljós ánægju mína með það samstarf sem ráðuneyti mitt hefur átt við Einkaleyfastofuna á liðnum árum og óska stofnuninni heilla í starfi á komandi tíð.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum