Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

27. júní 2001 MatvælaráðuneytiðGuðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra 1999-2007

Ræða nr. 1 á norrænum sumarfundi 2001, fiskeldi o.fl.

Ávarp Guðna Ágústssonar landbúnaðarráðherra

á norrænum ráðherrafundi 27. júní 2001


Það er þekkt vandamál að nútíma landbúnaður hefur veruleg áhrif á næsta umhverfi sitt, ekki síst vatn. Útskolun köfnunarefnis og fosfórs frá landbúnaði er alþekkt og undanfarin ár hefur verið unnið markvisst að því að minnka þetta tap með jákvæðum árangri. Samt er það svo að alls ekki hefur náðst nógu góður árangur við að minnka mengun grunnvatns og áa.. Á Íslandi hefur þetta ekki verið álitið vandamál hvað varðar okkar hefðbundna búskap, enda er einungis um einn hundraðshluti landsins ræktaður.

Það er fyrst með tilkomu fiskeldis að við höfum þurft að hafa áhyggjur af þessari tegund mengunar í landbúnaði.

Frá því fyrst var byrjað var að stunda fiskeldi á Íslandi hefur mest áhersla verið lögð á eldi í kerjum á landi, þó svo að nú sé að vakna áhugi á að hefja kvíaeldi hér við landi. Fiskeldi í kerjum býður upp á ýmsa mjög góða kosti umfram aðrar eldisaðferðir. Með því að ala fiskinn í kerjum er hægt að nýta jarðhita við fiskeldi, en það er einmitt ein sérstaða Íslands að hafa aðgang að jarðhita sem nýta má til þess að hita eldisvatn. Með eldi í kerjum má halda umhverfisáhrifum fiskeldis í lágmarki. Nánast er hægt að útiloka möguleika á því að fiskar sleppi úr eldisstöðvum og geti þannig blandast villtum fiski. Einnig býður þessi aðferð upp á að eldisvatnið sé hreinsað áður en því er sleppt aftur út í náttúruna þannig að minni úrgangur er losaður í sjóinn. Með kerjaeldi má endurnýta vatn og draga þannig úr vatnsþörf og frárennsli fiskeldisstöðvanna. Þannig býður kerjaeldi upp á vistvænni nálgun við fiskeldi en aðrar aðferðir.

Á undanförnum árum hafa Íslendingar lagt umtalsverða fjármuni í rannsókna- og þróunarvinnu tengda kerjaeldi. Þessar rannsóknir hafa skilað góðum árangri og m.a. gerbreytt rekstrarforsendum laxeldisstöðva á landi. Íslendingar búa nú yfir umtalsverðri reynslu og sérfræðiþekkingu á þessu sviði - sérstaklega hvað varðar eldi í stórum eldiseiningum.

Tækni við það að hreinsa og endurnýta vatn til fiskeldis fleygir ört fram. Innan Evrópusambandsins hefur verið mikill áhugi á því að efla þessa tegund eldis, ekki síst vegna þess hve umhverfisáhrifin eru takmörkuð. Íslendingar hafa leitt rannsókna- og þróunarverkefni á þessu sviði í samstarfi við aðrar Evrópuþjóðir. Þessi verkefni hafa verið unnin að frumkvæði fiskeldisfyrirtækisins Máka sem ráðgerir að reisa stóra eldisstöð á Norðurlandi, þar sem alinn verður hlýsjávarfiskurinn barri. Með því að endurnýta eldisvatnið og nota jarðhita til upphitunar er hægt að viðhalda kjörhita barra 20-25 °C á einu snjóþyngsta svæði á Íslandi. Með þessari endurnýtingartækni verða umhverfisáhrif af fiskeldisstöðinni hverfandi miðað við umfang framleiðslunnar.

Eldisstöðin verður sú stærsta af sinni gerð í heiminum og áætlað er að hún geti framleitt allt að 1000 tonn af barra á ári. Það eru íslenskir fjárfestar, sem standa að baki fyrirtækinu. Fyrirtækið horfir til þess að geta aukið framleiðslu enn frekar í framtíðinni. allar athuganir benda til að hér sé um arðbæra fjárfestingu að ræða, sem standist samanburð við aðrar atvinnugreinar.

Kostnaður við rannsóknir og þróunarvinnu við undirbúning á byggingu stöðvarinnar er að stærstum hluta greiddur af sjóðum Evrópusambandsins. Um er að ræða samstarf fyrirtækja, skóla- og rannsóknastofnana á Íslandi og Frakklandi. Hægt er að beita þessari tækni á aðrar fiskitegundir og gert er ráð fyrir því að þessi þekking verði flutt út í framtíðinni. Í því sambandi er í undirbúningi stofnun alþjóðlegs ráðgjafafyrirtækis með þátttöku allra samstarfsaðilanna.

Það er enginn vafi á því að við uppbyggingu á sjálfbæru fiskeldi verður í framtíðinni litið til kerjaeldis og sérstaklega endurnýtingarkerfa. Tæknin býður upp á að halda uppi mjög mikilli framleiðslu án teljandi umhverfisáhrifa. Áhrif á vistkerfi eru hverfandi og litlar líkur eru á því að eldið skaði líffræðilegan fjölbreytileika.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum