Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

3. júlí 2001 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Ávarp á ársfundi Byggðastofnunar, 03.07.2001

Valgerður Sverrisdóttir
iðnaðar- og viðskiptaráðherra

Ávarp á ársfundi Byggðastofnunar
á Selfossi, 3. júlí 2001


Eins og vel er kunnugt hafa Íslendingar þurft að glíma við mikla fólksflutninga af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins á síðustu áratugum. Enda þótt flutningar úr dreifbýli í þéttbýli séu vel þekktir í flestum nágrannalöndum okkar þá hafa þeir verið hlutfallslega meiri hér á landi en í flestum öðrum löndum og hafa þeir einkennst af mikilli útþenslu byggðar á aðeins einu svæði landsins, Reykjavík og nágrenni. Á allra síðustu árum hefur mikill uppgangur á höfuðborgarsvæðinu enn frekar hvatt fólk utan af landi til að taka sig upp og setjast að á suð-vesturhorninu.

Ljóst er að það er ekki í valdi hins opinbera að koma í veg fyrir að fólksflutningar milli byggðarlaga eigi sér stað, enda væri það hvorki æskilegt frá sjónarmiði einstaklinga né þjóðfélagsins í heild. Það er hluti af grundvallarfrelsi hvers manns að geta ákveðið hvar hann á heima, og sveigjanleiki í búsetu fólks er þjóðfélaginu nauðsynlegur til að geta brugðist við breytilegum aðstæðum. Á hinn bóginn blandast fáum hugur um að mikil búseturöskun á skömmum tíma, eða jafnvel eyðing byggðar á stórum svæðum, hefur mikla menningarlega og efnahagslega ókosti í för með sér bæði fyrir einstaklinga og þjóðfélag. Það er því skylda hins opinbera að stýra þróuninni eins og kostur er á þann veg að þróttmikil byggð geti þrifist í öllum hlutum landsins. Að þessu marki miðar stefna stjórnvalda í byggðamálum.

Í núgildandi byggðaáætlun er að ýmsu leyti að finna skýrari stefnumörkun en áður hefur tíðkast í þessum málaflokki hér á landi. Þar er að finna nokkuð skýrar tillögur um aðgerðir sem skipt er í fjóra flokka. Í fyrsta lagi eru aðgerðir sem stuðla eiga að nýsköpun í atvinnulífinu. Í öðru lagi eru aðgerðir á sviði menntunar og menningar. Í þriðja lagi eru aðgerðir til jöfnunar lífskjara og bættrar samkeppnisstöðu, og loks aðgerðir um bætta umgengni við landið. Af skýrslu Byggðastofnunar um framkvæmd gildandi byggðaáætlunar er ljóst að framvæmd hennar hefur í ýmsum liðum tekist vel. Má þar til dæmis nefna uppbyggingu fjarkennslu og símenntunarstöðva og aukna jöfnun náms- og húshitunarkostnaðar. Auk þessa hefur umtalsverðum fjárhæðum verið veitt til eignarhaldsfélaga og atvinnuþróunarfélögin hafa einnig fengið aukið fjármagn. Þrátt fyrir þennan og annan árangur sem náðst hefur við framkvæmd gildandi byggðaáætlunar er ljóst að mun betur þarf að gera eigi að nást viðunandi árangur við framkvæmd byggðastefnu á Íslandi.

Nú er hafin vinna við mótun nýrrar byggðaáætlunar sem gilda mun árin 2002-2006 og markast sú vinna að verulegu leyti af öðrum vinnubrögðum en áður hafa þekkst við slíka stefnumótun hér á landi. Skipuð hefur verið sex manna verkefnisstjórn, undir forsæti Páls Skúlasonar háskólarektors, sem hefur það hlutverk að gera tillögu til ráðherra um stefnumörkun nýrrar byggðaáætlunar. Þá hafa verið skipaðir þrír starfshópar sem falið er að fjalla um afmörkuð viðfangsefni, en þau eru atvinnumál, alþjóðasamvinna og fjarskipta- og upplýsingatækni. Munu tillögur þessara hópa nýtast verkefnisstjórninni beint við stefnumótunarvinnu sína. Lögð er áhersla á að með tillögum verkefnisstjórnarinnar fylgi framkvæmdaáætlun þar sem fram komi hver beri ábyrgð á framkvæmd einstakra verkefna. Einnig verði gerð áætlun um kostnað og tímasetningu aðgerða.

Sú leið sem nú er valin við mótun byggðaáætlunar felur í sér nýja hugsun. Sú hugsun byggist á því að kalla til samstarfs fólk úr atvinnulífi og menningarlífi víðs vegar um land, auk sérfræðinga í byggðamálum og á fleiri sviðum. Það hefur komið æ betur í ljós á undanförnum árum að byggðamál eru margþætt og að nauðsynlegt er að nálgast þau úr mörgum og ólíkum áttum. Því er nauðsynlegt að fá fólk með ólíka þekkingu og reynslu til að samræma hugmyndir sínar og krafta í þeim tilgangi að skapa sem árangursríkastar lausnir.

Auk þeirra þriggja sviða sem fjallað verður um í sérstökum starfshópum getur verkefnisstjórnin sett fram tillögur um aðgerðir í öðrum málaflokkum, sem hún telur nauðsynlegar til að bæta almenn búsetuskilyrði á landsbyggðinni. Það er nú orðið löngu ljóst að ef mikið ójafnvægi ríkir í búsetuskilyrðum milli höfuðborgarsvæðis og landsbyggðar næst ekki umtalsverður árangur í byggðaþróunaraðgerðum. Ég vil nefna menntamál sérstaklega í þessu sambandi. Leita verður allra leiða til að efla aðgang landsbyggðarfólks að menntun hvort sem um er að ræða framhaldsskólamenntun, verkmenntun, háskólamenntun eða símenntun. Framtíð byggðarlaga mun í sívaxandi mæli ráðast af þeim menntunarmöguleikum sem þau geta boðið börnum og fullorðnum, og einnig þeim búsetuskilyrðum sem þau geta búið ungu og menntuðu fólki. Menntað fólk er sá þjóðfélagshópur sem drífa mun áfram nýsköpun í atvinnulífi og öðrum sviðum samfélagsins á þeirri öld sem nú er nýhafin. Allar raunhæfar byggðaþróunaraðgerðir hljóta því að miðast við kröfu fólks um menntun og þörf samfélagsins fyrir menntað fólk á öllum sviðum þess.

Verkefnisstjórninni er ætlað að huga sérstaklega að aðkomu sveitarfélaga að byggðaáætlun. Víða erlendis eru sveitarfélög mun virkari þátttakendur í mótun og framkvæmd byggðastefnu en tíðkast hér á landi. Um leið og sveitarfélög stækka og eflast hér á landi er aukin ástæða til að huga að virkari þátttöku þeirra á þessum vettvangi. Nýlega hefur nefnd á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga skilað tillögum í byggðamálum. Ástæða er til að fagna þeim sérstaklega og þær koma án efa að góðum notum í þeirri vinnu sem nú fer fram við mótun nýrrar byggðastefnu.

Góðir aðalfundarmenn. Eins og fram kom í máli mínu í upphafi hafa búferlaflutningar úr dreifbýli í þéttbýli verið meiri hérlendis en víðast hvar annars staðar. Nú er svo komið að hlutfallslega mjög fáir Íslendingar búa í dreifbýli eða á minni þéttbýlisstöðum. Þess eru dæmi að byggðarlaga sé ógnað vegna fólksfækkunar. Gagnvart þessum aðstæðum er mikilvægt að þjóðin fyllist ekki bölsýni á framtíð landsbyggðarinnar. Þess sjást líka merki að þau gildi sem landsbyggðin ein getur boðið upp á séu meira metin og er það vel. Ef við berum gæfu til að leggja saman krafta okkar þá er hægt að tryggja blómlega búsetu í öllum landshlutum. Þjóðin er ríkari hvort sem litið er til efnahagslegra eða menningarlegra forsendna með því móti. Við höfum heldur ekki efni á því að samfélög og einstaklingar búi við aðstæður sem koma í veg fyrir að þeir nýti hæfileika sína og sköpunarmátt til fullnustu. Það er því sameiginlegt markmið okkar allra að vel takist til við mótun og framkvæmd byggðastefnu á Íslandi. Allir landshlutar verða að vinna saman að þessu marki. Eina leiðin er að þeir nýti styrkleika hvers annars og bæti upp veikleikana með öflugu samstarfi sín á milli og samstarfi við stjórnvöld. Það er trú mín að við Íslendingar berum gæfu til að ná því markmiði að styrkja byggð og bæta mannlíf í landinu öllu á komandi árum.

Ég vil að lokum þakka starfsfólki og stjórn Byggðastofnunar fyrir ágætt samstarf á liðnu starfsári. Þá vil ég sérstaklega þakka þeim starfsmönnum - sem ekki gátu þegið boð um áframhaldandi störf hjá stofnuninni eftir að hún flutti á Sauðárkrók - fyrir störf sín og óska þeim farsældar á nýjum vettvangi. Ég býð nýjan forstjóra Theódór Bjarnason velkominn til starfa um leið og ég þakka Guðmundi Malmquist fráfarandi forstjóra fyrir áratuga þjónustu við Byggðastofnun og – Framkvæmdastofnun ríkisins. Ég bind vonir við að vel takist til við ráðningu nýrra starfsmanna og er sannfærð um að þess verði ekki langt að bíða að stofnunin hafi náð að slípast með nýju fólki í nýju umhverfi, landsmönnum öllum til heilla.
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum