Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

24. ágúst 2001 MatvælaráðuneytiðGuðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra 1999-2007

Ávarp við vígslu Hestamiðstöðvar Íslands í Skagafirði 24. ágúst 2001

Ávarp Guðna Ágústssonar landbúnaðarráðherra
við vígslu Hestamiðstöðvar Íslands í Skagafirði
24. ágúst 2001



Ágætu Skagfirðingar, góðir gestir!
Gleðilega hátíð. Til hamingju með húsið mikla, kraft ykkar og dugnað.
Það er stormur og frelsi í faxins hvin
sem fellir af brjóstinu dægursins ok.
Jörðin, hún hlakkar af hófadyn,
sem hverfandi sorg er jóreyksins fok.
Lognmóðan verður að fallandi fljóti
allt flýr að baki í hverfandi róti
hvert spor er sem flug í gegnum foss eða rok
sem slær funa í hjartað og neista úr grjóti.

Hver gat ort svo nema Einar Benediktsson, sem var hálfur Skagfirðingur og elskaði hestinn eins og þið gerið. Innilega til hamingju með ykkar verk hér, þeir sem að þessari byggingu hafa staðið, þeir sem hafa staðið að sókn og afrekum í Skagafirði í kringum íslenska hestinn í aldir, eiga þakkir skilið. Þið Skagfirðingar eigið fallegt hérað og hafið sótt fram með íslenska hestinn.

Mér finnst vel til valið af ykkur að nefna félagið Flugu, þið sem stóðuð að þessari sókn hér og þessari byggingu, ekki vegna hryssunnar frægu, heldur því hvað það er dýrmætt að eiga menn sem fá flugu í höfuðið öðru hvoru? Menn sem þora að horfa framan í tungl hins nýja tíma, sem þora að setja sér markmið; "Rístu í verki, sýndu viljans merki, vilji er allt sem þarf." Það sannast á þessu húsi, á því hestaátaki sem hér er að eiga sér stað, Hestamiðstöð Íslands, að hér eru menn sem þora áfram, menn sem gefa byggðinni gildi, rísa með henni og gera hestinn, þetta lifandi listaverk, að þeim sigurfara sem nú fer um veröldina alla. Ég er nýkominn frá Austurríki þar sem tugir þúsunda manna komu saman til þess að hylla íslenska hestinn. Það er enginn knattspyrnuleikur, ekki einu sinni hér á Sauðárkróki, það er enginn handboltaleikur, það er ekkert sem líkist þeim tilfinningum, þeim fagnaðarlátum, því hrópi, þeim tárum og þeim hlátri sem ríkir í kringum þau mót. Þannig að við eigum stuðningsmenn um alla veröld sem hafa fundið þetta með íslenska hestinn, að hann er að hæfileikum engri skepnu líkur, hann gefur fjölskyldunni hamingjustundir, hann er magnaður kraftur, hann hefur hæfileika sem ekkert hestakyn í veröldinni hefur.

Nafnið á höllinni, Svaðastaðir, er snjallt og tengist merkilegri sögu um íslenska hestsinn og framsýnan bónda, því að það er stundum svo að þegar harðindi dynja yfir eins og móðuharðindin miklu 1783, þá fórust hérumbil öll hross í Skagafirði. Bóndinn á Svaðastöðum gafst ekki upp og hóf mikla ræktun af nýjum krafti og hestakynið breiddist um Skagafjörð, það breiddist um Ísland og þetta kyn fer nú þess vegna um veröldina alla.

Til hamingju Svaðastaðamenn með forfeður ykkar og þeirra miklu verk, þau munu lifa í höndum þúsunda manna sem vilja rækta hestinn. Þessi höll er vel að þessu nafni komin. Það er heiður við þá menn sem svo vel unnu. Það er sagt að Svaðastaðahesturinn hafi fegursta höfuðlag og minni mjög á þann hest sem sagður er af mörgum fegursti hestur í veröldinni, arabíski hesturinn. Við trúum því samt að íslenski hesturinn, þessi mikli snillingur, sé sá fegursti.

Ágætu Skagfirðingar. Ég kom hér á vordögum og hitti hér kempurnar, þá bræður Svein Guðmundsson og Stefán Guðmundsson, og þegar ég kom inn í þessa stóru höll og gekk um hana með þeim, þá sagði ég við þá: "Strákar, er þessi höll farin að skila einhverjum árangri?" Það færðist bros yfir þá báða og samtímis sögðu þeir með barnslegri gleði. "Já, já, hefurðu ekki frétt af því að Tindastóll vann Leiftur á Ólafsfirði í gær?" Þannig er það, að þetta er menningarhús, þetta er ekki bara hús til að íslenski hesturinn nái árangri, heldur líka íþróttafólk og gefur tækifæri til að halda söng- og gleðihátíðir og hér mun margt fara fram í þessu glæsilega húsi ykkar, Skagfirðingar.

Ég vil nota þetta tækifæri og biðja ykkur afsökunar á því sem ég sagði á Heimishátíðinni í vetur, en þá lét ég mér um munn fara að höllin væri svo stór, að hestur sem færi inn að morgni kæmi ekki út fyrr en að kvöldi. Þetta er alrangt, skagfirski hesturinn er miklu betri en þetta.

Ágætu Skagfirðingar. Ég trúi því að Hestamiðstöðin sé mikið verkefni, þetta skagfirska framtak lýsi öðrum, gefi öðrum kraft til að gera það sem þið gerðuð, hvetji sveitarfélög til að koma að slíkum verkefnum. Það er fyrst og fremst ykkar kraftur sem hefur gert það að verkum að þessi mál eru nú í höfn. Ég trúi á verk ykkar, ég trúi á fagmennsku ykkar og ég veit að þið eigið glæsilega hestamenn. Reiðlistin og sá agi sem nú ríkir meðal íslenskra hestamanna er ævintýrið sem skapar okkar mörgu sigra heima og að heiman. Ég flyt ykkur kveðjur ríkisstjórnar Íslands, sem skilur og styður þau miklu verkefni sem hér eru og sér að íslenski hesturinn á mikla sóknartíma framundan.

Til hamingju Skagfirðingar. Þið eruð hamingjumenn á þessu kvöldi. Þið eigið lífsgleðina, sönginn og þetta hús. Notið það ykkur til gagns og hagsbóta. Ég óska ykkur til hamingju.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum