Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

6. september 2001 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Ávarp við opnun sýningarinnar Heimilið og Islandica 2001, 6.09.2001

Valgerður Sverrisdóttir,
iðnaðar- og viðskiptaráðherra:

Opnun sýningarinnar Heimilið og ISLANDICA 2001
6. september 2001 í Laugardalshöll.


Ágætu gestir!

Ég vil bjóða ykkur öll velkomin hingað á sýningarnar Heimilið og ISLANDICA 2001. Með þessum tveimur sýningum sem slegið hefur verið saman hefur þráðurinn frá fyrri heimilissýningum aftur verið upp tekinn og auk þess er nú í fyrsta skipti haldin hestavörusýning á Íslandi. Eins og þið sjáið er hér mikið úrval af ýmiss konar vörum og búnaði sem tengist íslenska hestinum auk hestsins sjálfs sem óhjákvæmilega leikur hér stórt hlutverk. Hér gefst því almenningi einstakt tækifæri til að rifja upp gömul kynni og stofna til nýrra við þennan bjargvætt og tryggðavin þjóðarinnar í blíðu og stríðu frá fyrstu tíð, því að það hefur hann sannarlega verið.

Þá er hér til sýnis mikið úrval af flestu sem við kemur heimilinu og mjög ánægjulegt að heimilissýningin skuli nú hafa verið endurvakin. Á áttunda og níunda áratugnum skipuðu heimilissýningarnar sérstakan sess meðal þjóðarinnar og nutu mikilla vinsælda. Í ljósi þess að nær 60 þúsund Íslendingar flytja búferlum á ári hverju er full þörf á að halda sýningu þar sem nálgast má á einum stað hvers konar vörur og þjónustu sem tengist heimilunum. Við Íslendingar höfum alltaf lagt mikla rækt við heimilin okkar og má vera að kaldur og dimmur vetur eigi sinn þátt í því. Það er flestum eðlilegt að vilja búa sem best um sig og eiga skjól á góðu heimili. Heimilið er vígi mitt - "my home is my castle" - segja Bretar. "Heima er best", segjum við. Það er von mín að heimilissýningin geti orðið mörgum til leiðbeiningar sem langar að fegra og bæta hús sín og híbýli og auka ánægjuna af heimilislífinu. Fyrirtækið RSN hefur haft veg og vanda af því að hefja merki heimilissýninganna á ný með því að koma upp þessari sýningu og hefur staðið vel að verki.

Vel fer á því að tengja þessar tvær sýningar, Heimilið og ISLANDICA 2001, jafn nátengdur og hesturinn hefur verið landsmönnum og heimilum þeirra. Allt frá landnámsöld var saga íslenska hestsins samofin sögu þeirra sem hér áttu heima. Hann bar þá um byggðir og óbyggðir í öllum veðrum og þjónaði þeim með ýmsu móti. Á gæðinginn var lagt þegar mikið lá við eða mikið stóð til og fólk vildi létta sér upp, áburðarjálkurinn var notaður til aðdrátta og flutninga, dráttarklárnum beitt fyrir plóg og herfi. Þannig átti hesturinn forðum drjúgan þátt í því að halda lífinu í landsmönnum í bókstaflegum skilningi. En hann var ekki aðeins þarfasti þjónninn, heldur skipaði hann líka sérstakan sess í vitund þeirra og forfeðra þeirra. Um það mætti nefna mörg dæmi úr bókmenntum okkar fram á þennan dag. Í trú og hugarheimi forfeðra okkar var hesturinn stundum eins konar goðkynjuð vera eins og sjá má í eddukvæðum og fornsögum. Og hann var sífelld skáldskaparuppspretta og létti mörgum lífið og lundina. Því lýsti Einar Benediktsson þannig í "Fákum":

"Það er stormur og frelsi í faxins hvin,
sem fellir af brjóstinu dægursins ok."

Í sama kvæði standa þessar línur:

"Og knapinn á hestbaki er kóngur um stund,
kórónulaus á hann ríki og álfur."

Allir sem njóta útilífs og hestamennsku - og þeir eru margir - geta tekið undir þessi orð. Gleðin og ánægjan af samskiptum manns og hests er söm við sig þótt aðstæður þjóðarinnar hafi breyst og þarfasti þjónninn hafi verið leystur undan erfiðustu verkunum að miklu leyti. Því vinsælli hefur íslenski hesturinn orðið, ekki aðeins hjá Íslendingum á öllum aldri, heldur einnig meðal útlendinga, eins og nýlegar fréttir af heimsmóti hans bera vitni ásamt mörgu öðru. Það er ekki síst ánægjuleg staðreynd hve mikill áhugi ríkir á hestinum og öllu sem hann varðar hjá ungu kynslóðinni og þeim útlendingum sem ýmist koma hingað sem ferðamenn eða kynnast honum á erlendri grund. Hrossarækt er sem fyrr þáttur íslensks landbúnaðar og stunduð hér með góðum árangri og margfeldisáhrifin leyna sér ekki eins og meðal annars má sjá af þeim vörum og þjónustu sem hér er kynnt og tengist hestum og hestamennsku. Þannig skiptir íslenski hesturinn, þetta smávaxna og fótvissa hrossakyn með alla sína sérstöku eiginleika, máli í atvinnusköpun okkar og efnahagslífi.

Forsaga ISLANDICA 2001 er sú að í lok árs 1998 samþykkti ríkisstjórnin að fela þáverandi iðnaðar- og viðskipðtaráðherra, Finni Ingólfssyni, að skipa nefnd sem í voru fulltrúar iðnaðar-, samgöngu- og landbúnaðarráðuneyta, til að skipuleggja, kynna og standa að alþjóðlegri hestavörusýningu sem fékk heitið ISLANDICA 2001. Á slíkri sýningu koma saman margir þeir þræðir sem tengjast hestamennskunni og má þar nefna viðskiptasjónarmið margra í ferðaþjónustunni, framleiðslu varnings sem tengist hestamennsku og ræktun og starf hrossabænda. Nefndin tók til starfa í árslok 1998. Formaður hennar var Einar Bollason, en framkvæmdastjóri sýningarinnar Fannar Jónasson. Nú erum við hér saman komin til að sjá árangurinn af starfi nefndarinnar.

Hér á flötinni fyrir framan er tívolí sem við getum kynnt okkur betur nú á eftir og í Skautahöllinni er bryddað upp á nýstárlegum hestasýningum. Þar ber hæst hinn svokallaða "Hestagaldur". Á sýningunni sem fengið hefur það heiti leiða saman hesta sína í orðsins fyllstu merkingu helstu knapar landsins ásamt þekktum leikhúslistamönnum og tónlistarmönnum. Jafnframt stendur ISLANDICA 2001 ásamt Handverki og hönnun fyrir samkeppni um gripi tengda íslenska hestinum. Þá býðst börnum á öllum aldri tækifæri til að skoða undraheim Harry Potters.


Eins og ég drap á var ákveðið að efna til samkeppni um besta nytjahlutinn og fallegasta hlutinn sem tengist íslenska hestinum. Margir fallegir hlutir bárust í keppnina og átti dómnefndin úr vöndu að ráða. Verðlaun fyrir besta nytjahlutinn hlýtur Arndís Jóhannsdóttir söðlasmiður, fyrir hnakktösku úr kálfsskinni. Harpa Kristjánsdóttir gull- og silfursmiður fær verðlaunin fyrir fallegasta gripinn, sem er keyri, unnið úr silfri og múgarit steini frá Snæfellsnesi. Bæði verðlaunin eru í boði Landsbanka Íslands.
Ég vil biðja þær Arndísi og Hörpu að ganga hér upp á sviðið til að veita verðlaunum viðtöku.

Ágætu gestir!

Ég lýsi hér með stórsýninguna "Heimilið og ISLANDICA 2001" opna.
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum