Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

14. september 2001 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Ávarp við afhendingu íslensku safnaverðlaunanna, 13.09.2001 -

Valgerður Sverrisdóttir,
iðnaðar- og viðskiptaráðherra

Ávarp við afhendingu Íslensku safnaverðlaunanna
á Húsavík 13. september 2001


Ágætu gestir!

Tilefni þess að við erum hér saman komin er afhending Íslensku safnaverðlaunanna 2001 í tengslum við Farskóla íslenskra safnmanna sem nú er haldinn hér á Húsavík.

Verðlaunin sem hlotið hafa þetta heiti voru veitt í fyrsta sinn í fyrrasumar. Þá hlaut þau Síldarminjasafnið á Siglufirði, en markmiðið með þeim er að efla metnað íslenskra safna og hvetja þau til þess að kynna menningararf þjóðarinnar á framsækinn og áhugaverðan hátt. Að Íslensku safnaverðlaununum standa Íslandsdeild ICOM og Félag íslenskra safnmanna, en stjórnir þess og Íslandsdeildarinnar skipuðu fólk í dómnefnd og hafa mótað þær reglur sem fylgt er við val verðlaunaþega og veitingu verðlaunanna. Þau koma hverju sinni í hlut eins safns sem faglega þykir hafa skarað fram úr með einhverjum hætti og ber því að líta á verðlaunin sem sérstaka viðurkenningu fyrir gagnlegt og vel unnið safnastarf.

Þegar verðlaunin voru veitt í fyrsta skipti á síðasta ári að frumkvæði fyrrnefndra samtaka og Síldarminjasafnið varð fyrir valinu var það mál þeirra sem hnútum voru kunnugir að vel hefði til tekist og sú viðurkenning hefði verið verðskulduð. Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, afhenti verðlaunin við sérstaka athöfn á Bessastöðum. Nú hefur verið ákveðið að láta ekki þá verðlaunaveitingu sem hófst árið 2000 niður falla, en þá sem nú var afhendingin einn liðurinn á dagskrá Farskóla íslenskra safnmanna.

Einn þeirra, Jón Helgason prófessor, sem lengst af ævi sinnar var forstöðumaður Árnasafns í Kaupmannahöfn, hefur í kvæði sínu, "Til höfundar Hungurvöku", lýst vanda og vegsemd þess sem starfar að safnvörslu og ávöxtun menningararfsins. Hann ávarpar óþekktan höfund þessa forna rits með eftirfarandi orðum:

"Það féll í hlut minn að hyggja um sinn
að handaverkunum þínum,
mér fannst sem ættir þú arfinn þinn
undir trúnaði mínum."

Hvaða safnamaður getur ekki tekið undir þetta með Jóni og þá líka framhaldið þar sem hann lætur sig dreyma um að sér auðnist að leggja sitt af mörkum til þess að rannsaka safnkostinn og bregða á hann nýju ljósi? Hlýtur það ekki að vera metnaðarmál allra góðra safnamanna?

Það gildir um allar byggðir landsins að "hver einn bær á sína sögu" og víða eru góð söfn af ýmsu tagi sem varðveita gamlan og nýjan þjóðararf og gera okkur læs á líf og landshætti fyrr og nú. Því ber að fagna þeirri stefnu sem mörkuð hefur verið við veitingu Íslensku safnaverðlaunanna, að gera hvorki mun á söfnunum eftir því hvar þau eru né hvers eðlis. Þess vegna koma öll söfn á landinu til greina þegar þessi viðurkenning er veitt, hvort sem það eru minja- og byggðasöfn, listasöfn, náttúrugripasöfn eða önnur sérsöfn. Það ber bæði vitni um skynsemi og víðsýni, jafnar aðstöðu byggða og safna og gerir þeim kleift að minna á sig og sérstöðu sína.

Vel fer á því að farskóli safnmanna skuli að þessu sinni vera hér á Húsavík. Þingeyjarsýslur hafa löngum verið sögurík héruð og margir staðir þar frægir fyrir fegurð eða sérkennilegt náttúrufar. Ég minni aðeins á að hingað komu Garðar og Náttfari, hér stóð fyrrum vagga samvinnuhreyfingar og hér varð sérstök alþýðuvakning í mennta- og þjóðfélagsmálum sem hafði áhrif miklu víðar á 19. og 20 öld. Söfn Þingeyinga voru og eru mörg og myndarleg - bæði söfnin hér á Húsavík, bókasafn bóndans í Leirhöfn, bæir og minjar í Laufási og á Grenjaðarstað og loks þau nýjustu, bíla- og búvélasafnið í Ystafelli og Safnasafnið á Svalbarðsströnd. Allt myndar þetta verðugan ramma um Farskóla íslenskra safnmanna.

Íslensku safnaverðlaunin má veita hvort heldur sem er fyrir starfsemi safns í heild sinni eða einstaka þætti hennar. Sá háttur var hafður á að þessu sinni að félagsmönnum beggja félaganna sem að verðlaununum standa var gefinn kostur á að benda á söfn sem þeim þóttu verðlauna verð og bárust 9 tilnefningar. Dómnefndin var þó ekki bundin af þeim, en í henni sátu tveir fulltrúar Íslandsdeildar ICOM, Kristín G. Guðnadóttir og Lilja Árnadóttir, og tveir frá FÍS, Sigurjón B. Hafsteinsson og Sigrún Ásta Jónsdóttir, auk oddamanns, Ingu Láru Baldvinsdóttur, sem skipuð var sameiginlega af báðum félögum.

Dómnefndin samþykkti einróma að veita fræðsludeild Listasafns Reykjavíkur Íslensku safnaverðlaunin árið 2001, en deildin hefur haldið uppi listfræðslu fyrir almenning af fagmennsku og verið í fararbroddi íslenskra safna að því er uppeldishlutverk þeirra varðar. Safnfræðsla hefur verið þáttur í starfsemi listasafnsins í áratug og í meginatriðum tvíþætt: annars vegar fræðsla fyrir almenna safngesti, hins vegar fyrir skólanema.

Safnfræðslan fyrir almenning, sem á að stuðla að því að gera myndlistina aðgengilega og áhugaverða fyrir sem flesta, er í höndum myndlistarmanna og safnkennara sem veita gestum leiðsögn á sýningum safnsins og svara spurningum. Einnig getur hún verið fólgin í leikjum og þrautum fyrir foreldra og börn og sérstakan heiður á safnið skilið fyrir að hafa sniðið safnfræðslu að þörfum heyrnar- og sjónskertra.

Með hinum þættinum í safnfræðslu Listasafns Reykjavíkur, fyrir skólanema frá leikskólastigi til háskólastigs, vill fræðsludeildin efla þekkingu þeirra, gagnrýni og sjálfstætt mat á myndlist og vitund þeirra um menningararfleifð og menningarsögu ásamt fræðslu um íslenska byggingarlist. Safnfræðslan byggist á nánum tengslum við skólana og á verkefnum nemenda og sérstök áhersla er lögð á að kynna einkasöfn listasafnsins, þ.e. söfn verka eftir Kjarval, Ásmund Sveinsson og Erró.

Ágætu gestir!

Ég vil að lokum nota þetta tækifæri til að óska fræðsludeild Listasafns Reykjavíkur til hamingju með verðskuldaða viðurkenningu fyrir vel unnið starf og þakka aðstandendum Íslensku safnaverðlaunanna fyrir framtak þeirra og frumkvæði.
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum