Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

10. október 2001 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Ávarp á ársfundi Samtaka sveitarfélaga á köldum svæðum, 10.10.2001

Valgerður Sverrisdóttir
iðnaðar- og viðskiptaráðherra


Ársfundur Samtaka sveitarfélaga á köldum svæðum
10. október 2001

Góðir fundarmenn
Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir að breyta skuli skipulagi orkumála þannig að samkeppni verði innleidd til að auka hagkvæmni og lækka orkuverð. Um leið verði unnið að jöfnun orkuverðs og gæði þjónustunnar aukin. Þá verði áfram unnið að þróun og rannsóknum á sviði umhverfisvænna orkugjafa, svo sem vetnis. Haldið verði áfram uppbyggingu orkufreks iðnaðar og leitað samstarfs við erlenda jafnt sem innlenda fjárfesta um fjármögnun.

Að öllum þessum verkefnum er nú unnið í ráðuneytinu.
Eins og kunnugt var sl. vor lagt fram til kynningar á Alþingi frumvarp til nýrra raforkulaga. Það felur í sér heildarendurskoðun á löggjöf um vinnslu, flutning, dreifingu og sölu raforku. Meginefni þess felst í að skilja sundur eðlilega einkasöluþætti raforkukerfisins, flutning og dreifingu, og þá þætti þar sem samkeppni verður við komið, sem er vinnsla og sala raforku. Málið hefur verið til umfjöllunar hjá iðnaðarnefnd þingsins og hefur nefndin leitað umsagna hjá fjölmörgum aðilum. Frumvarpið hefur nú hlotið ítarlega kynningu og fjölmargar umsagnir hafa borist. Nú er unnið að því að yfirfara frumvarpið með hliðsjón af innsendum umsögnum og þeim umræðum sem fram hafa farið um efni þess. Að þeirri yfirferð lokinni verður það lagt fram á Aþingi að nýju, en gert er ráð fyrir að það verði í byrjun næsta mánaðar.
Um síðustu helgi var hér á ferð fjölmenn sendinefnd á vegum Evrópuþingsins til að kynna sér þau verkefni sem við höfum verið að vinna að á sviði nýorku. Þar ber hæst þau vetnis verkefni sem unnið er að í samvinnu við evrópsk fyrirtæki m.a. í bílaiðnaði. Ég held að mér sé óhætt að segja að hinir erlendu gestir voru mjög ánægðir með heimsókn sína hingað til lands. Þau tengsl sem sköpuðust með þessari heimsókn eru okkur mjög verðmæt og geta opnað dyr að enn frekari samstarfsverkefnum milli Íslands og Evrópusambandsins á þessu sviði.
Frá árinu 1999 hafa verið veittir styrkir til stofnunar eða stækkunar sjö hitaveitna samtals að fjárhæð um 220 milljónir kr. Þessir styrkir eru í samræmi við gildandi þingsályktun í byggðamálum sem Alþingi samþykkti í mars 1999. Hluti styrksins fer til að lækka stofnkostnað viðkomandi hitaveitu en hluti rennur beint til íbúðareigenda sem þurfa að leggja í kostnaðarsamar breytingar á hitakerfi húsa sinna.
Jarðhitaleitarátak á köldum svæðum hefur verið starfrækt frá árinu 1998 í samvinnu iðnaðarráðuneytis, Byggðastofnunar og Orkusjóðs. Markmiðið er að finna nýtanlegan jarðhita til húshitunar á svæðum þar sem jarðhiti er ekkert eða lítið þekktur. Leit hefur lokið á nokkrum stöðum með góðum árangri. Þar má nefna Drangsnes, Dalabyggð, Hjalteyri, Bæjarhrepp og Eyja- og Miklaholtshrepp. Þá er enn unnið að því að sannreyna hvort vænlegir virkjunarkostir finnist á Austfjörðum og víðar. Gert er ráð fyrir að jarðhitaleitarátakið standi a.m.k. fram til ársins 2002.
Niðurgreiðslur á raforku til hitunar íbúðarhúsnæðis hafa verið auknar verulega á síðustu árum og námu alls um 760 milljónum króna á síðasta ári. Í samræmi við hækkun fjárveitinga í þetta verkefni þá hefur þakinu verið lyft og er nú miðað við 50.000 kWh (kílóvattsstunda) ársnotkun. Reiknað hefur verið út að árlegur kostnaður fjölskyldu sem notar 30.000 kWh á ári og býr á orkuveitusvæði RARIK væri rúmlega 156 þúsund kr. ef ekki kæmi til niðurgreiðslur ríkissjóðs, afsláttur orkufyrirtækjanna og endurgreiðsla á hluta af virðisaukaskatti. Kostnaðurinn er hins vegar 67.000 kr. og notandinn greiðir því um 43% af fullu verði. Notandi með 50.000 kWh mundi aftur á móti greiða 248 þúsund kr. ef þessar aðgerðir væru ekki til staðar í stað 101 þúsund kr. eða 41% af fullu verði.
Í ráðuneytinu er nú verið að semja lagafrumvarp um jöfnun húshitunarkostnaðar. Með frumvarpinu er fyrst og fremst verið að setja almennar lagareglur um þá framkvæmd sem verið hefur á undanförnum árum. Hins vegar þykir nauðsynlegt að binda þá framkvæmd í lög þannig að meira öryggis gæti varðandi framkvæmd niðurgreiðsla. Í tengslum við þessa frumvarpssmíði verður jafnframt hugað að því hvernig hægt verði að koma við olíustyrkjum til húshitunar þar sem rafmagnshitunar verður ekki við komið. Markmið þeirra styrkja væri að jafna hitunarkostnað þeirra sem þurfa að nota olíu til hitunar til að hann verði svipaður og við rafhitun húsnæðis. Hér yrðu þó eingöngu um að ræða íbúðarhús þar sem tengingu við samtengt raforkukerfi landsins verður ekki við komið.
Góðir fundarmenn

Ég vil þakka félaginu fyrir gott samstarf við ráðuneytið á undanförnum árum og óska félaginu heilla í áframhaldandi starfi sínu.
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum