Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

11. október 2001 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Ávarp á Orkuþingi, 11.10.2001

Valgerður Sverrisdóttir
iðnaðar- og viðskiptaráðherra



Ávarp á Orkuþingi
11.-13. okt. 2001


Ágætu Orkuþingsfulltrúar
Ég vil byrja á því að þakka Samorku fyrir að hafa haft frumkvæði að undirbúningi og skipulagi þessa þriðja orkuþings. Ég fagna sérstaklega hinni miklu þátttöku, sem sýnir augljóslega að full þörf var á að halda þing sem þetta, dagskráin er mikil og fjölbreytt og býður upp á efni á nánast öllum sviðum orkumála.

Þjóðfélag okkar hefur breyst ótrúlega á þeirri öld sem nýlega er liðin og hagur almennings hefur snúist frá örbirgð til allsnægta á fáum áratugum. Hinar öru framfarir sem urðu á Íslandi á síðari hluta 20. aldar má að verulegu leyti rekja til hagkvæmrar nýtingar þjóðarinnar á náttúrulegum auðlindum sínum, bæði gjöfulum fiskimiðum og endurnýjanlegum orkulindum. Mikil tækniþróun, þekking og reynsla á nýtingu auðlindanna var einnig forsenda þeirra bættu lífskjara sem hér hafa orðið á síðustu áratugum og við munum væntanlega búa að áfram á nýrri öld.

Einn af þeim grunnþáttum sem nútímasamfélag byggist á í vaxandi mæli er öruggt og hagkvæmt raforkukerfi. Rafvæðing landsins, utan stærstu þéttbýlisstaða, hófst ekki að marki fyrr en komið var fram á fimmta áratug aldarinnar. Með hinu mikla átaki við rafvæðingu landsins á árunum 1950-1965 var lyft grettistaki til atvinnuuppbyggingar um allt land bæði til sjávar og sveita og á þeim tíma var rafvæðing landsins forgangsverkefni hverrar ríkisstjórnar. Á árunum 1974-1984 var nýtt framfaraspor stigið með byggingu byggðalínu sem stuðlað hefur að hagkvæmni í rekstri raforkukerfisins og jafnað aðgengi og verðlagningu raforku til allra landsmanna.

Á svipuðum tíma lyftum við einnig grettistaki í uppbyggingu hitaveitna um land allt í kjölfar mikilla olíuverðshækkana. Þessi mikla uppbygging hefur góðu heilli leitt til þess að hlutur olíu í húshitun landsmanna á síðustu áratugum hefur nánast horfið. Í dag njóta um 86% landsmanna hitunar frá jarðvarma, um 12% frá rafhitun en aðeins um 2% nota olíuhitun. Aukin nýting jarðhitans hefur haft mikil áhrif á lífskjör okkar Íslendinga auk margháttaðra þæginda, sem erfitt er að meta til efnislegs hagnaðar eða ábata. Sparnaður við að nýta jarðhita til húshitunar miðað við að flytja inn olíu í þeim tilgangi nemur í dag milljörðum króna á ári og er þá ekki meðtalinn hagnaður við raforkuframleiðslu, iðnaðarframleiðslu eða ylrækt.
Við skulum eigi að síður hafa í huga að nauðsynlegt er að halda jafnvægi í nýtingu jarðhitasvæðanna þar eð hér er ekki um ótæmandi auðlind að ræða, þó að hún teljist endurnýjanleg með nýtingu í takt við endurnýjun jarðhitageymisins. Sjálfbæra orkunýtingu og aukna orkunýtni er afar mikilvægt að hafa í huga við vinnslu háhitasvæða landsins í framtíðinni. Þar bíða spennandi verkefni.. Aukin orkunýtni er ofarlega í umræðu erlendis og er almennt talin í dag mikilvægur þáttur í umhverfisstefnu hverrar þjóðar. Í því efni getum við Íslendingar lagt lóð á vogarskálar ef rétt er á málum haldið í framtíðinni.

Þá er rétt að benda á að við höfum ekki enn rannsakað til fullnustu þá möguleika sem við kunnum að eiga á nýtingu jarðhita-auðlindarinnar. Umfangsmiklar rannsóknir eru nú hafnar á nýtingu hveraörvera og iðnaðarráðuneytið hefur veitt tveimur fyrirtækjum leyfi til rannsókna og hagnýtingar á hveraörverum og erfðaefnum þeirra á allt að 30 afmörkuðum svæðum. Fyrir örfáum árum hvarflaði varla að nokkrum manni hér á landi að í örveruflóru hveravatnsins væri að finna mikilvæga auðlind fyrir líftækniiðnaðinn, sem miklar vonir eru bundnar við í dag.

Það sem við höfum áorkað á sviði jarðhitarannsókna og nýtingar hefur vakið athygli erlendis og sívaxandi áhugi er á auknu samstarfi við Ísland á því sviði. Sem dæmi um þetta get ég nefnt að á síðustu 4 mánuðum hefur iðnaðarráðuneytinu borist erindi frá erlendum stjórnvöldum um að koma á formlegu samstarfi og samvinnu um nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa og er þá einkum horft til jarðhitans. Samstarfssamningar hafa nú þegar verið gerðir við stjórnvöld í Ungverjalandi, Kaliforníu og Grænlandi um samstarf á sviði jarðhitarannsókna og nýtingar. Þess er vænst að þeir samningar geti fært ráðgjafa- og orkufyrirtækjum hér á landi hagstæða samninga þar sem reynsla þessara aðila og þekking nýtist. Það er því afar brýnt að efla og auka þá einstæðu þekkingu og reynslu er við búum yfir í vinnslu jarðhitans í náinni framtíð.

Á því sviði hefur ýmislegt gerst á síðustu mánuðum. Nýlega var stofnað fyrirtækið Enex hf. sem er í eigu helstu orkufyrirtækja og orkuráðgjafa landsins auk ríkisins. Tilgangur þessa fyrirtækis er að stunda orkurannsóknir og rekstur orkufyrirtækja á erlendri grund. Um tveggja áratuga skeið höfum við Íslendingar af vanmætti reynt að koma á framfæri erlendis tækniþekkingu okkar, en oftar en ekki hefur lítið orðið af fýsilegum verkefnum sökum fjárskorts og smæðar þeirra fyrirtækja er hlut áttu að máli. Með stofnun hins nýja fyrirtækis opnast vonandi nýir möguleikar á komandi árum fyrir íslensk orkufyrirtæki og sérfræðinga að afla sér verkefna erlendis, bæði við rannsóknir, hönnun, framkvæmdir og jafnvel rekstur jarðhitamannvirkja. Það er mikilvægt að hafa í huga að með staðfestingu á Kyoto-bókuninni munu fjölmörg ríki þurfa að nýta sér alla möguleika sem þau hafa til að draga úr losun hefðbundins kolefniseldsneytis og því mun augljóslega verða mikil aukning á jarðhitanotkun í heiminum á næsta áratug. Þetta tækifæri þurfum við Íslendingar að nýta okkur.

Eins og ég gat um hér að framan er afar brýnt að halda áfram að nýta orkulindir okkar til að tryggja áframhaldandi hagsæld hér á landi í framtíðinni. Ekki verður séð að það verði gert á næstu árum öðru vísi en með aukinni sölu til stóriðju, aðrir kostir virðast þar ekki í sjónmáli. Uppbygging stóriðju hér á landi hófst eins og kunnugt er á árunum 1966-1976 með byggingu álversins í Straumsvík og Járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga en vegna ýmissa ytri aðstæðna varð hægari vöxtur á þeirri uppbyggingu en menn höfðu vænst allt fram til ársins 1995. Eins og kunnugt er hefur áhugi og eftirspurn erlendra aðila eftir raforku til stóriðju aukist mjög á síðustu 6 árum og lítur nú svo út að áhugi sé á að stórauka núverandi álframleiðslu hér á landi á næstu 10-11 árum. Hér á ég við byggingu 420.000 tonna álvers á Reyðarfirði, stækkun Norðuráls á Grundartanga um 150.000 tonn og stækkun á álveri ÍSAL um 200.000 tonn. Þessar áætlanir eru vitaskuld háðar því að við höfum möguleika á að virkja næga raforku á samkeppnisfæru verði á þessu tímabili. Því er nauðsynlegt að efla rannsóknir og undirbúning nýrra virkjana á næstu árum til að geta mætt þessari eftirspurn.

Hér kemur eflaust flestum í hug hin mikla umræða um umhverfismál virkjana, sem áberandi hefur verið á undanförnum misserum. Eins og kunnugt er verða nýjar virkjanir í dag ekki reistar nema að undangengnu mati á umhverfisáhrifum. Kröfur sem gerðar eru til rannsókna vegna matsvinnunnar hafa stóraukist og þessi rannsóknarkostnaður er orðinn verulega íþyngjandi fyrir framkvæmdaraðila þar eð sú óvissa er alltaf fyrir hendi að ekki verði fallist á viðkomandi framkvæmd í úrskurði stjórnvalda um niðurstöður matsins.
Mikilvægt er því að hafa heildarsýn yfir helstu umhverfisþætti einstakra virkjunarkosta eins snemma og unnt er til að draga úr þeirri áhættu. Vinna við gerð rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma, sem hófst árið 1999, er mikilvæg í þessu skyni. Markmið áætlunarinnar er að leggja mat á og flokka virkjunarkosti til raforkuframleiðslu meðal annars með tilliti til orkugetu, hagkvæmni og annars þjóðhagslegs gildis, meta og flokka áhrif þeirra á náttúrufar, náttúru- og menningarminjar svo og á hagsmuni allra aðila. Stór hópur sérfræðinga hefur komið hér að verki og hefur vinnu við það miðað eðlilega, en fyrsta hluta verkefnisins á að ljúka á árinu 2002.

Gerð rammaáætlunar er gríðarlega stórt og mikilvægt verkefni fyrir framtíðarnýtingu á orkulindum landsins. Ráðist hefur verið í viðamiklar grunnrannsóknir á hugsanlegum virkjunarsvæðum og ljóst er að verkefnið mun bæði auka þekkingu okkar og skilning á náttúrufari landsins og jafnframt auðvelda mönnum val nýrra virkjunarkosta. Þess er því vænst að Rammaáætlun muni leiða til þess að aukin sátt náist um skynsamlega nýtingu orkulinda okkar í framtíðinni án þess að ganga óhóflega á náttúrulegt umhverfi eða aðra landnýtingu.

Núverandi skipan raforkumála er orðin 35-40 ára og allar aðstæður í samfélagi okkar í dag eru gjörbreyttar miðað við þann tíma er við hófum markvissa raforkunýtingu hér á landi. Þó svo að skipulag raforkumála hafi að mörgu leyti reynst gott, raforkukerfið sé tæknilega vel úr garði gert og öruggt er nauðsynlegt orðið að endurskoða lagaumhverfi þess. Viðhorf nánast allra þjóða heims í orkumálum hafa breyst á síðustu árum, orkuumhverfi okkar á liðnum áratugum hefur breyst, svo og viðhorf manna um tilhögun og rekstur raforkufyrirtækja. Allt þetta kallar óhjákvæmilega á breytingar. Við breytingar á orkulöggjöfinni er rétt að horfa til reynslunnar í mörgum nágrannaríkjum okkar en þar eru menn samdóma um að vel hafi til tekist þegar á heildina sé litið. Víða hefur fengist nokkur reynsla á samkeppni í raforkugeiranum, sem hefur leitt til hagræðingar og sparnaðar í rekstri raforkufyrirtækja, en misjafnt er hversu vel hefur tekist að lækka raforkuverð til almennings.
Á síðastliðnum vetri var frumvarp til nýrra raforkulaga kynnt á Alþingi og tekur það til allra helstu atriða sem fjallað er um í tilskipun Evrópusambandsins. Stefnt er að því að leggja raforkulagafrumvarpið fram í byrjun nóvember n.k. og afgreiða þarf frumvarpið fyrir næsta vor þar eð ákvæði tilskipunar Evrópusambandsins mun taka gildi hér á landi 1. júlí 2002.

Megintillögur þær sem felast í frumvarpinu miða að því að skapa forsendur fyrir samkeppi í vinnslu og sölu raforku og er með því verið að stíga stórt skref til breytinga á raforkuumhverfi hér á landi. Við getum ekki og megum ekki taka of stór skref sem ekki verða tekin til baka. Við verðum hins vegar að skapa lagalegar forsendur fyrir samkeppni í vinnslu og sölu raforku.
Um raforkuflutning og dreifingu gilda önnur lögmál. Almennt er viðurkennt að flutningur og dreifing raforku sé náttúruleg einokun. Eitt fyrirtæki, sem ráðherra mun tilnefna, á að annast alla flutningsstarfsemi og bera ábyrgð á uppbyggingu kerfisins sem á að tryggja öryggi og hagkvæmni í flutningum. Eðlilegast væri að þau fyrirtæki sem í dag eiga flutningsnetið eigi kost á að leggja til flutningsmannvirki sín sem eignarhlut í hinu nýja flutningsfyrirtæki.
Þá er gert ráð fyrir að ráðherra veiti dreifiveitum einkaleyfi til dreifingar á tilgreindum svæðum, en miðað er við að núverandi dreifiaðilar haldi rétti sínum til dreifingar áfram.

Síðastliðið sumar og í haust kynnti iðnaðarnefnd Alþingis raforkulagafrumvarpið fyrir fjölmörgum hagsmunaaðilum og hélt sérstakan fund með þeim aðilum þar sem ýmsar athugasemdir og ábendingar komu fram. Jafnframt hafa athugasemdir við frumvarpið borist frá ýmsum öðrum aðilum, sem löggjöfin snertir. Allar fram komnar athugasemdir hafa verið til skoðunar í iðnaðarráðuneytinu undanfarnar vikur og verða nokkrar breytingar gerðar á fyrra frumvarpi þegar það verður lagt fram að nýju þar sem reynt verður eftir föngum að taka tillit til athugasemda.

Um leið og ný raforkulög taka gildi er nauðsynlegt að gera breytingar á öðrum lögum er tengjast raforkurannsóknum og framleiðslu. Gera þarf breytingar á lögum um rannsóknir á auðlindum í jörðu, en áformað er að þau lög muni fjalla almennt um rannsóknir á orkulindum. Vinna er jafnframt hafin við endurskoðun vatnalaganna frá 1923, sem tímabært var orðið að endurskoða. Breyta þarf lögum um Landsvirkjun og stefnt er að nýrri lagasetningu fyrir Orkustofnun, Rafmagnsveitur ríkisins, og setningu sérlaga um hitaveitur.

Hér á þessu orkuþingi verður fjallað nánar um frumvarp til nýrra raforkulaga sem enn er til kynningar og ekki hefur endanlega verið lagt fram á Alþingi. Ég tel því ekki ástæðu til að fjalla nánar um það í máli mínu.

Á undanförnum árum hefur þróun tækni við að nota vetni sem orkubera aukist hratt. Þar höfum við Íslendingar komið nokkuð við sögu. Fyrirtækið Íslensk NýOrka var stofnað á árinu 1999 og er tilgangur félagsins m.a. að rannsaka og þróa vetnistækni til notkunar í samgöngutækjum. Félagið, ásamt fleiri aðilum, hefur nýlega hafið rannsóknarverkefni á notkun vetnis í almenningsfarartækjum, og hefur ríkisstjórnin samþykkt að leggja verulegar fjárhæðir til verkefnisins á næstu þremur árum. Félagið hefur einnig í hyggju að rannsaka notkun vetnis í samgöngum á sjó.

Afar mikilvægt er að Íslendingar taki þátt í þeirri öru þróun í notkun hreinna orkugjafa og orkubera í stað notkunar hefðbundinna brennsluefna. Þátttaka okkar mun beina sjónum annarra ríkja að hinni hreinu ímynd Íslands í vaxandi mæli. Við þurfum að hafa í huga að 3/4 af innfluttu eldsneyti fer til samgangna og skipaflotans, og losun gróðurhúsalofttegunda af þessum sökum er í dag um 2/3 af heildarlosun landsins. Hér er því um verðugt framtíðarverkefni að ræða. Takist okkur að nýta hreinar orkulindir þjóðarinnar á hagkvæman hátt til að framleiða með einum eða öðrum hætti orkubera í stað olíueldsneytis yrði staða Íslands meðal þjóða heims einstök. Mjög vaxandi áhugi er erlendis á þessu máli. Um síðustu helgi komu hingað til lands í boði iðnaðarráðuneytisins þingmenn frá Evrópuþinginu og starfsmenn Orkustofnunar Evrópu. Tilgangur heimsóknarinnar var að kynnast orkumálum hér á landi og framtíðaráætlanir vegna vetnisverkefnisins, en Evrópusambandið styrkir það verkefni eins og kunnugt er. Hér var um að ræða aðila er ráða miklu um ákvarðanir og fjárveitingar til orkurannsókna og þróunarmála innan sambandsins og því er þess að vænta að heimsókn þessara aðila muni styrkja og auka samstarf Íslendinga og Evrópusambandsins á næstu árum.

Samningur Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar frá 1992 og Kyoto-bókunin við hann er vissulega einn veigamesti þáttur í orkustefnu okkar eins og annarra iðnríkja. Við erum hins vegar í annarri stöðu en flest önnur iðnríki varðandi endurnýjanlegar orkuauðlindir og höfum ónýtta möguleika á því sviði. Hér á ég við hið svokallaða íslenska ákvæði í Kyoto-bókuninni er varðaði nýtingu endurnýjanlegra og hreinna orkulinda til iðnaðarframleiðslu í litlum samfélögum. Vel hefur tekist til með að sannfæra þjóðríki heims um kosti þess að nota hreinar og endurnýjanlegar orkulindir fyrir álframleiðslu, sem er í sjálfu sér mjög umhverfisvænn iðnaður. Gangi þetta eftir getum við Íslendingar litið björtum augum til næsta áratugar varðandi möguleika okkar á nýtingu orkulinda landsins. Við eigum hins vegar eftir að sjá þetta sérákvæði endanlega samþykkt, en á fundi aðildarríkjanna í Bonn í júlí s.l. var þetta mál afgreitt sem eitt tíu mála er umræða um telst vera lokið án ágreinings og verður það væntanlega endanlega samþykkt á fundi aðildarríkjanna í Marokkó í nóvember n.k.

Eins og mönnum er kunnugt er hugsanlegt að nýtanlegar olíu- eða gaslindir kunni að leynast á íslenskum hafsvæðum og er þar einkum litið til Jan Mayen og Hatton-Rockall-svæðanna en einnig til setlagadældar úti fyrir Norðurlandi. Á síðastliðnum árum hafa stjórnvöld unnið markvisst að því að efla rannsóknir á þessu sviði, skapa grundvöll fyrir auðlindakönnun af hálfu einkafyrirtækja og tryggja hafréttarlega hagsmuni okkar.
Iðnaðarráðuneytið hefur kostað ýmsar rannsóknir á setlögunum fyrir Norðurlandi, þ.m.t. athuganir á uppstreymi olíugass í Öxarfirði og úrvinnslu dýptarmælinga og boranir í Tjörneslögin.

Áhugi erlendra olíufyrirtækja á olíu- og gasleit á íslenskum hafsvæðum var hvati til þess að sett voru lög um olíu- og gasleit í mars s.l. Með lögunum var settur nútímalegur rammi um starfsemi af þessu tagi, sem hvetur til fjárfestingar einkafyrirtækja í olíuleit. Fyrsta leitarleyfið hefur verið veitt til mælinga á suðurhluta Jan Mayen-hryggjar næstu þrjú árin. Vísbendingar eru einnig um vaxandi áhuga erlendra fyrirtækja á olíuleit á Hatton Rockall-svæðinu, en hafréttarleg staða þess er óljós.
Ríkisstjórnin hefur nýverið samþykkt umfangsmikla verk- og kostnaðaráætlun um mælingar á landgrunninu í þeim tilgangi að tryggja tilkall okkar til sem víðáttumestra landgrunnssvæða. Verkefnið mun m.a. styrkja mjög stöðu okkar í samningaviðræðum um skiptingu Hatton Rockall-svæðisins. Hér er um merkar frumrannsóknir að ræða, sem væntanlega munu vara langan tíma uns við sjáum marktækar niðurstöður þeirra og eðlilegt er að vara við bjartsýni manna á árangri þeirra. En ,,Föðurland vort hálft er hafið" og okkur ber að rannsaka auðlindir innan okkar lögsögu og á landgrunni okkar eftir því sem efni og ástæður leyfa.

Ágætu orkuþingsfulltrúar.
Orkustefna okkar íslendinga mun í nánustu framtíð mótast af áframhaldandi nýtingu orkulindanna, en einnig í sívaxandi mæli af nýjum straumum í skipulagi orkumála og orkuumhverfis. Rannsóknir og þekking á orkuauðlindum okkar munu skipa aukinn sess í framtíðinni ásamt alþjóðlegu samstarfi og samvinnu á nýtingu sjálfbærra orkulinda og orkubera.
Nýlega höfum við Íslendingar verið minntir á að sjávarafli í hafinu umhverfis landið er takmarkaður og sveiflukenndur. Þetta sýnir að ætlum við að byggja velferð þjóðarinnar á nýrri öld á varanlegum grunni ber okkur að nýta allar auðlindir til lands og sjávar á sjálfbæran hátt í eins ríkum mæli og unnt er. Verum minnug þess að orkulind er ekki auðlind fyrr en virkjuð verður. "Orka til heilla" voru einkunnarorð síðasta Orkuþings árið 1991 og má með sanni segja að þau orð hafi ræst á þeim áratug sem síðan er liðinn. Væntingar okkar í byrjun nýrrar aldar eru þær sömu og forfeðra okkar fyrir einni öld, sem núlifandi kynslóð hefur borið gæfu til að nýta í verulegum mæli á síðustu 50 árum. Boðskapur forfeðra okkar var svo sannarlega ekki skýjaborgir eins og við nú þekkjum. Megi þær hugsjónir, sem þessir upphafsmenn íslensks athafnalífs vöktu og nú eru að rætast, lengi lifa fram á nýja öld.
Ég óska fulltrúum á Orkuþingi 2001 allra heilla í starfi og megi árangur Orkuþings 2001 verða landi og þjóð til gæfu.

Ég þakka áheyrnina.


Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum