Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

18. október 2001 InnviðaráðuneytiðSturla Böðvarsson, samgönguráðherra 1999-2007

Ferðamálaráðstefna á Hvolsvelli

Fyrr í dag flutti samgönguráðherra ræðu sína á ferðamálaráðstefnu Ferðamálaráðs Íslands, sem að þessu sinni er haldin á Hvolsvelli.

Ráðstefnustjórar, ágætu ráðstefnugestir.


Mér er það kærkomið tækifæri að fá að ávarpa ráðstefnu Ferðamálaráðs hér á Hvolsvelli í dag. Frá síðustu ferðamálaráðstefnu, á Ísafirði s.l. haust, hefur margt á dagana drifið og ferðaþjónustan hefur verið í miklum vexti. Hryðjuverkin sem framin voru í Bandaríkjunum fyrir rétt rúmum mánuði hafa komið hart niður á ferðaþjónustunni um allan heim. Erum við hér á Íslandi ekki undanskilin. Því er mikilvægt að nota þetta tækifæri til að meta ástandið af yfirvegun og raunsæi og ekki síður til að leggja á ráðin um hvað greinin sjálf og stjórnvöld geti gert til að snúa vörn í sókn. Heimsmyndin hefur vissulega breyst, og það kallar á ný og breyttt vinnubrögð. Það er ekki vafi í mínum huga, að þrátt fyrir þetta áfall mun íslensk ferðaþjónusta nýta sér þau tækifæri sem skapast á næstu misserum og halda áfram þeirri miklu sókn sem hún hefur verið í undanfarin ár.
Það hefur ekki farið fram hjá neinum að flugfélögin eru þau fyrirtæki sem hafa orðið fyrir mestu tjóni í kjölfar atburðanna 11. september. Rekstur margra þeirra hafði verið erfiður fyrir, en almennur samdráttur í flugi hefur haft þau áhrif að fjölmörg flugfélög standa frammi fyrir gífurlegum rekstrarerfiðleikum.
Því miður er það svo að íslensk flugfélög hafa ekki farið varhluta af þessu ástandi. Flugleiðir hafa um árabil haldið uppi öflugu millilandaflugi árið um kring. Stöðug fjölgun áfangastaða og tíðni ferða hefur myndað það samgöngukerfi sem hefur ekki síst orðið grundvöllur þess, að komum erlendra ferðamanna hefur fjölgað jafnt og þétt á undanförnum árum. Það er því mikil hætta á að bein fylgni verði á milli þess að Flugleiðir hafi nú neyðst til að fækka ferðum og að samdráttur verði hjá innlendum ferðaþjónustufyrirtækjum.
Gegn þessari þróun verður að sporna með öllum tiltækum ráðum og óhjákvæmilegt annað en ferðaþjónustan sjálf og stjórnvöld taki höndum saman til að takmarka tjón greinarinnar. Nauðsynlegt er að horfa til þess hvað aðrar þjóðir eru að gera en við búum við meiri sérstöðu vegna landfræðilegrar legu okkar. Því er enn brýnna en ella að grípa til aðgerða sem tryggja stöðuna hvað varðar fjölda áfangastaða og tíðni ferða.
Eitt af þeim atriðum sem nefnd hafa verið til sögunnar eru kynningarmál. Flugleiðir hafa á undanförnum árum haldið uppi mjög öflugu kynningar- og markaðsstarfi um Ísland, sem án efa hefur nýst ferðaþjónustunni í heild. Ég segi ykkur nú, að samgönguráðuneytið mun vinna að nauðsynlegum aðgerðum á þessu sviði í samvinnu við greinina.
Á miðjum síðasta áratug var unnið að umfangsmikilli stefnumótun á sviði ferðaþjónustunnar. Með þeirri vinnu var stefnan mörkuð að undirlagi greinarinnar sjálfrar. Fyrr á þessu ári fól ég Ferðamálaráði að meta hvernig stefnumótuninni hefur verið framfylgt. Sú úttekt liggur nú fyrir og verður ásamt öðrum gögnum grundvöllur að nýrri stefnumótun sem unnin verður að.
Þegar skoðað er hvað stjórnvöld hafa látið framkvæma af þeim fjölmörgu atriðum sem brýn eru talin í stefnumótuninni, sést að mörgum stærstu málunum hefur verið ágætlega sinnt. Gert hefur verið átak í markaðs- og gæðamálum og unnið markvisst að breytingum á rekstrarumhverfi greinarinnar. Enn er unnið að gæða- og öryggismálum vegna afþreyingarfyrirtækja ferðaþjónustunnar og er áætlað að ljúka því starfi í nóvembermánuði. Aðkoma að fjölsóttum ferðamannastöðum hefur verið stórbætt og samkvæmt núgildandi vegaáætlun hefur verið varið meiri fjármunum til uppbyggingar vegakerfisins en áður.
Til að tryggja öruggar flugsamgöngur milli höfuðborgarinnar og landsbyggðarinnar hafa flugleiðir á Norðurlandi og Vestfjörðum verið boðnar út. Ég hef tekið ákvörðun um að flugleiðin milli Reykjavíkur og Hafnar í Hornafirði verði boðin út fyrir næstu áramót. Þangað til verður flug til Hafnar tryggt, með samningi við Flugfélag Íslands. Með því vil ég leggja áherslu á það svæði sem mikilvægan hlekk í íslenskri ferðaþjónustu.
Umfangsmiklum endurbótum er nú að fullu lokið á öllum flugbrautum Reykjavíkurflugvallar. Er þar með aukið til muna öryggi allrar þeirrar umferðar sem um völlinn fer. Unnið er að gerð akstursbrauta, frágangi og fegrun svæðisins, og er stefnt að verklokum á næsta ári. Jafnframt er unnið að undirbúningi að byggingu þjónustu- og samgöngumiðstöðvar við flugvöllinn, en að því verki vinnur nefnd, sem Leifur Magnússon, fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá Flugleiðum, veitir forstöðu. Samgöngumiðstöð þessi mun tengja saman flug og langferðabifreiðar á sama stað, notendum þessarar þjónustu til mikilla hagsbóta.
Mikil vinna hefur farið fram í ráðuneytinu hvað varðar uppstokkun sérleyfa til fólksflutninga á landi. Í fyrsta lagi má nefna að framlög til sérleyfishafa hafa verið tvöfölduð, úr 50 í 100 milljónir króna.
Lögð hefur verið áhersla á sameiningu sérleyfa, til að auka rekstrahæfni fyrirtækjanna. Gerðir hafa verið þjónustusamingar við sérleyfishafa sem verður að teljast mikil bót frá því sem áður var. Þá geri ég ráð fyrir að lagðar verði fram tillögur í vetur um framtíðarfyrirkomulag sérleyfa sem gildi a.mk. til ársins 2005. Þar verði tekið mið af markmiðum væntanlegrar samgönguáætlunar fyrir árin 2003-2014 sem nú er unnið að. Loks er gert ráð fyrir útboði allra sérleyfa árið 2005, eða jafnvel fyrr. Með þessum aðgerðum vil ég tryggja bættar almenningssamgöngur um landið.
Nefnd um rekstrarumhverfi ferðaþjónustunnar, sem ég skipaði á árinu 1999, skilaði niðurstöðum sínum í fyrra. Ég fullyrði að mikið hefur áunnist í aðgerðum til að bæta rekstrarumhverfi greinarinnar í samræmi við tillögur þeirrar nefndar. Beinar aðgerðir stjórnvalda árið 2000 og á þessu ári, hafa leitt til lækkunar á vörugjöldum á bílaleigubíla og vélsleða. Breytingar hafa verið gerðar á virðisaukaskattsreglum, sem hafa þýtt hækkun á endurgreiðsluhlutfalli til veitingahúsa og gert endurnýjun hópferðabíla auðveldari. Þungaskattur hefur verið lækkaður, styrkir til sérleyfishafa tvöfaldaðir í þeim tilgangi að skjóta styrkari stoðum undir almenningssamgöngur eins og fyrr er nefnt, og fasteignagjöld á landsbyggðinni hafa verið lækkuð.
Gerðir hafa verið samningar um gestastofur og fjármunum er varið árlega til eflingar upplýsingamiðstöðva á landsbyggðinni. Og síðast en ekki síst vil ég nefna að skattalækkanir stjórnvalda styrkja ferðaþjónustuna líkt og aðrar atvinnugreinar.
Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á heilsutengda ferðaþjónustu. Kannanir hafa sýnt, að ferðamönnum á aldrinum 50-70 ára mun fjölga mest á komandi árum. Þessi aldurshópur er bæði vel í stakk búinn fjárhagslega og sækist mikið eftir heilsutengdri ferðaþjónustu.
Nefnd um heilsutengda ferðaþjónustu, skilaði skýrslu sinni um mitt síðasta ár. Þar komu fram fjölmargar mikilvægar tillögur sem án efa hafa nýst greininni við uppbyggingu og þróun. Er augljóst að bæði einstaklingar og sveitarfélög hafa séð þá möguleika sem heilsutengd ferðaþjónusta býður upp á. Má í því sambandi nefna að Reykjavíkurborg kynnir hina fjölmörgu baðstaði sem aðdráttarafl fyrir bæði innlenda og erlenda ferðamenn, og Orkuveita Reykjavíkur hefur ráðið sérstakan starfsmann til að sinna þessum málaflokki. Stykkishólmsbær hefur í samstarfi við fjárfesta staðið fyrir athugun á því, hvernig standa megi að eflingu heilsutengdrar ferðaþjónustu, með því að nýta heita vatnið á staðnum, en það hefur fengið sérstaka vottun.
Í Hveragerði er áratugahefð fyrir heilsutengdri þjónustu, staður sem hefur fyrir löngu sannað gildi sitt og Bláa Lónið er að sjálfsögðu heilsutengdur ferðamannastaður á heimsmælikvarða. Á Mývatni eru kjöraðstæður fyrir ferðaþjónustu sem þessa og hafa þegar verið settar fram athyglisverðar tillögur um uppbyggingu á svæðinu. Þetta eru ólíkir staðir með mismunandi áherslur, en sýna vaxtarbroddinn sem felst í greininni.
Ferðamálaráði var falið að fylgja eftir tillögum nefndarinnar, til að greina þær aðgerðir sem mættu verða til að stuðla að frekari framgangi heilsutengdrar ferðaþjónustu á Íslandi. Haldin verður ráðstefna um heilsutengda ferðaþjónustu þann 6. desember nk. Verður þar leitast við að kanna möguleika á samstarfsvettvangi orkufyrirtækja og ferðaþjónustunnar. Í samræmi við tillögur nefndar um heilsutengda ferðaþjónustu verða veitt hvatningaverðlaun Ferðamálaráðs því fyrirtæki eða einstaklingi sem þykir hafa skarað fram úr á þessu sviði. Er ætlunin að veita þessi verðlaun árlega og eru vonir bundnar við að þau hvetji ferðaþjónustuna enn frekar til dáða á þessu sviði.
Fyrir stuttu skilaði nefnd um menningartengda ferðaþjónustu yfirgripsmikilli skýrslu og tillögum sem þegar hefur verið dreift til ráðstefnugesta. Í tillögum sínum kemst nefndin að þeirri niðurstöðu, að grundvöllur sé fyrir því að byggja íslenska ferðaþjónustu í framtíðinni upp á tveimur meginstoðum, íslenskri náttúru og íslenskri menningu. Megináhersla verði lögð á að kynna saman náttúru landsins og menningu þjóðarinnar.
Lagt er til að menningartengd ferðaþjónusta verði skilgreind sem sérstök grein ferðaþjónustunnar. Til að skipuleggja uppbyggingu menningartengdrar ferðaþjónustu, leggur nefndin til að gerðar verði svæðisbundnar áætlanir, sem allar varpi ljósi á tengsl menningar og náttúru, en á hinn bóginn verði lögð áhersla á að draga fram sérkenni og styrkleika hvers svæðis fyrir sig. Er ljóst að tillögur nefndarinnar falla mjög vel að þeirri hugmynd sem ég varpaði fram á síðasta aðalfundi SAF um ákveðin vaxtarsvæði, sem væru sérstaklega skilgreind og horft til við uppbyggingu og markaðsetningu. Hef ég nú þegar falið Ferðamálaráði úrlausn þessa verkefnis. Nefndin leggur til að stofnaðir verði tveir sjóðir til að styðja við uppbyggingu þessarar greinar ferðaþjónustu. Þessar tillögur kalla á vissa uppstokkun í greininni sjálfri og því nauðsynlegt að allir þeir er vinna að ferðamálum, fari vel yfir tillögur nefndarinnar og móti sér skoðun á því hvernig beri að hrinda þeim í framkvæmd.
Hér hefur verið stiklað á stóru af tillögum nefndarinnar. Þó að hér séu settar fram hugmyndir um stóraukin ríkisframlög til styrktar þessari nýju grein ferðaþjónustunnar, er nauðsynlegt að benda á að hér er ekki síður um að ræða verkefni greinarinnar sjálfrar og hinna fjölmörgu menningar- og listastofnana vítt og breitt um landið. Ég ætlast til að skýrslan komist í sem flestra hendur, svo að hugmyndir þær sem þar koma fram, verði virkjaðar og hrint í framkvæmd af þeim sem best þekkja til á hverjum stað. Menningartengd ferðaþjónusta verður ekki að veruleika nema þeir, sem starfa í atvinnugreininni og að menningarmálum, vinni nánar úr þeim tillögum sem settar eru fram í skýrslunni.
Mér finnst nú eins og það sé að bera í bakkafullan lækinn að minnast á eina nefndina enn í þessari ræðu, en ég verð að geta Framtíðarnefndar ferðaþjónustunnar, sem skipuð var í vor. Verkefni hennar er að horfa allt fram til ársins 2030, leitast við að meta þá sýn sem við blasir og leggja á ráðin um nauðsynlegar aðgerðir, svo ferðaþjónustan megi vaxa í sátt við umhverfið. Er nefndinni ætlað að skila tillögum í apríl á næsta ári. Bind ég miklar vonir við starf þessarar nefndar, sem skipuð er valinkunnum einstaklingum undir formennsku Hrannar Greipsdóttur.
Hugmynd mín er sú að á grundvelli tillagna Framtíðarnefndar verði lagður grunnur að nýrri stefnumótun íslenskrar ferðaþjónustu. Þar verði byggt á þeim mikla árangri sem í raun hefur áunnist á undanförnum árum, og þeim hugmyndum sem fram hafa komið um eflingu íslenskrar ferðaþjónustu.
Ég vil að endingu óska ykkur öllum, fulltrúum á 31. ferðamálaráðstefnu Ferðamálaráðs Íslands, ánæglulegra og árangursríkra daga hér á Njáluslóð.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum