Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

30. október 2001 DómsmálaráðuneytiðBjörn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra 2003-2009

Ávarp við opnun á vefsíðu Barnaheilla

Opnun á vefsíðu Barnaheilla "Stöðvum barnaklám á netinu"

30. október 2001.

Ávarp dómsmálaráðherra




Ágætu gestir.

Það er mér sérstök ánægja og heiður að fá að vera hér í dag og fylgja úr hlaði þessu áhugaverða og góða framtaki Barnaheilla gegn barnaklámi á netinu, sem Guðbjörg Björnsdóttir formaður Barnaheilla gerði grein fyrir hér áðan. Hér er um þarft verkefni að ræða sem verður án efa mikilvægur hlekkur í baráttu okkar allra gegn barnaklámi, framleiðslu og útbreiðslu þess.

I would also specially like to welcome Mr. Cormack Callanan, President of Inhope, and congratulate him on behalf of the Inhope Association on their good work in the fight against child pornography from the Internet.

Framfarir á undanförnum árum á sviði upplýsingatækni og upplýsingamiðlunar hafa verið gríðarlegar og breytt lífi og starfi okkar allra. Flestar þær breytingar eru til batnaðar en framförum af þessu tagi fylgja vissulega skuggahliðar. Ein af þeim er að miðlun á ólöglegu efni á netinu og þar á meðal er miðlun barnakláms eitt það alvarlegasta. Netið er einfaldur og aðgengilegur miðill eins og við þekkjum, sem lýtur að ákveðnu marki eigin lögmálum. Þess vegna er brýnt fyrir stjórnvöld og almenning að vera á tánum ef svo má að orði komast, til að þau geti tekist á við þessar skuggahliðar netsins.

Ég hef í starfi mínu sem dómsmálaráðherra lagt sérstaka áherslu á að lögreglan sé í stakk búin til að takast á við mál af þessu tagi. Hjá embætti ríkislögreglustjóra hefur verið settur saman þverfaglegur hópur, sem ber ábyrgð á rannsókn tölvubrota í heild sinni og þar á meðal rannsóknaraðstoð í tengslum við rannsókn á barnaklámsmálum. Haldin hafa verið námskeið hér á landi í samvinnu við erlend lögregluyfirvöld auk þess sem ýmis námskeið erlendis hafa verið sótt. Lögð er sérstök áhersla á að mennta starfsmenn í rannsóknum brota af þessu tagi og búa um leið til sérþekkingu, sem nýst getur við rannsóknir slíkra brota. Á sama tíma hefur tækjabúnaður og aðstaða til rannsókna tölvubrota verið efld, og er sá búnaður, sem notaður er hjá embætti ríkislögreglustjóra til rannsóknar á gögnum, sem geymd eru á tölvutæku formi, með því besta sem völ er á í dag.

Alþjóðleg lögreglusamvinna á þessu sviði er mikilvæg og er nauðsynlegt að leggja á það áherslu enda á netið sér engin landamæri. Fyrr á þessu ári gerði Ísland samstarfssamning við Evrópulögregluna, Europol, en undir það samkomulag falla meðal annars samstarf og upplýsingaskipti vegna mála af þessu tagi. Europol hefur meðal annars í hyggju að setja á stofn miðlæga deild til að hafa eftirlit með brotum gegn börnum á netinu, og mun Ísland hafa aðgang að því starfi í gegnum áðurnefndan samstarfssamning. Á vettvangi Interpol er starfandi sérfræðingahópur um brot gegn börnum og hefur Ísland tekið þátt í því starfi. Náið samstarf er einnig við bandarísku alríkislögregluna, sem komið var á laggirnar í kjölfar heimsóknar minnar og viðræðna við þarlend yfirvöld árið 1999.

Þá má einnig nefna að barnaklám og aðferðir til að stemma stigu við útbreiðslu þess var rætt á síðasta fundi norrænna dómsmálaráðherra en samvinna Norðurlandanna á þessu sviði er mikil og náin. Af hálfu Evrópusambandsins er unnið að þessu máli með ýmsum hætti og höfum við aðgang að því starfi á grundvelli Schengen og EES samstarfsins. Má þar nefna þátttöku í störfum European Judicial Network og störfum Forum on Preventing Organised Crime.

Það er að sjálfsögðu einnig mikilvægt að alvarleiki þeirra brota, sem hér um ræðir, endurspeglist í íslenskri löggjöf. Ég mun síðar í dag mæla fyrir á Alþingi frumvarpi til laga um breyting á almennum hegningarlögum, sem miðar að því að veita börnum ríkari refsivernd gegn kynferðisbrotum.

Kynferðisbrot og þar á meðal kynferðisbrot gegn börnum hafa undanfarið verið til sérstakrar athugunar í dómsmálaráðuneytinu, og er frumvarpið afrakstur af því starfi. Með því er lagt til að mælt verði fyrir um refsinæmi þess að kaupa kynlífsþjónustu af börnum og ungmennum og að þyngri refsingar verði lagðar við því að flytja inn eða hafa í vörslum sínum efni, sem hefur að geyma barnaklám. Þessar breytingar eru aðeins hluti af heildarendurskoðun á þessu sviði, en í ljósi mikilvægis þeirra tel ég rétt að setja það í sérstakan forgang með áðurnefndu frumvarpi. Markmið þess að lýsa vörslu efnis með barnaklámi refsiverða er að auka vernd barna gegn kynferðislegri misnotkun. Það er mitt mat að nauðsynlegt sé að við stórfelldum brotum af þessu tagi liggi þyngri refsing en nú er, meðal annars til að draga úr eða jafnvel fyrirbyggja kynferðislega misnotkun barna í tengslum við gerð slíks efnis. Eins og allir vita er hér um einstaklega meiðandi og alvarleg brot að ræða, sem eðli sínu samkvæmt geta fylgt brotaþola allt lífið.

Þau mál sem hér um ræðir þurfa að vera í stöðugri skoðun og þróun af hálfu stjórnvalda. Vændisnefndin, sem ég skipaði fyrr á þessu ári, er með til skoðunar ýmis atriði þessu tengd, meðal annars atriði er snúa að dreifingu á barnaklámi. Brýnt er að halda vöku sinni á þessu sviði sérstaklega, þar sem örar tækniframfarir opna nýja möguleika fyrir hina óprúttnu afbrotamenn, og við því verður að bregðast í orði og á borði.

Ágætu gestir!

Það er mikilvægt að vinna saman gegn ófögnuði eins og barnaklámi. Barnaheill hafa með þessu framtaki sínu sýnt mikilsvert frumkvæði sem ber að fagna og vænti ég mikils af þeirra starfi á þessu sviði og samvinnu við stjórnvöld. Um leið og ég opna þennan nýja vef Barnaheilla óska ég samtökunum og landsmönnum öllum til hamingju með vefinn.

Tenging við vefsíðuna barnaheill.is

Tenging við frumvarp til laga um breyting á almennum hegningarlögum nr. 19 12. febrúar 1940 (kynferðisbrot gegn börnum).


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum