Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

2. nóvember 2001 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Ávarp við stofnun samtaka atvinnurekenda á Norðurlandi , 01.11.2001

Valgerður Sverrisdóttir,
iðnaðar- og viðskiptaráðherra

Ávarp á stofnfundi samtaka atvinnurekenda á
Norðurlandi 1. nóvember 2001.

Góðir fundarmenn,

Ég vil byrja á því að óska ykkur til hamingju með stofnun samtakanna "Fyrirtæki og fólkið á landsbyggðinni".

Nú stendur yfir umfangsmikil vinna við mótun nýrrar byggðaáætlunar, en gildandi áætlun rennur úr gildi um næstu áramót. Skipulag vinnunnar nú er með talsvert öðrum hætti en áður. Að þessari vinnu koma 25 manns víðs vegar að af landinu - með reynslu af ýmsum sviðum þjóðfélagsins. Jafnframt hefur verið leitað í smiðju til enn fleiri aðila sem hafa þekkingu á tilteknum sviðum. Ég vænti þess að þessi nýju vinnubrögð við mótun byggðaáætlunar reynast farsæl og að þær tillögur sem út úr þessari vinnu koma verði til þess að efla atvinnu og búsetu á landsbyggðinni.

Formaður sex manna verkefnisstjórnar er Páll Skúlason háskólarektor. Auk verkefnisstjórnar hafa starfað þrír vinnuhópar en þeir hafa nú skilað tillögum sínum. Gert er ráð fyrir að verkefnisstjórnin skili tillögum til ráðuneytisins um næstu mánaðarmót. Einum hópnum var sérstaklega falið að fjalla um atvinnumál en formaður þess hóps er Ingi Björnsson, útibússtjóri Íslandsbanka á Akureyri. Ekki er hægt - á þessu stigi - að greina frá einstökum tillögum.

Í flestum löndum Evrópu eru menn að glíma við svipuð vandamál, og hafa í gegnum tíðina, beitt ýmsum aðgerðum til að reyna að hafa áhrif á þróun byggðar. Við vitum að á vegum Evrópusambandsins er miklum fjármunum varið til að þróa einstök svæði og hjálpa svæðum til að hjálpa sér sjálf. Þessar aðgerðir eru með ýmsum hætti. Þar getur verið um að ræða styrki til stofnunar nýrra fyrirtækja, þjálfun starfsfólks og fjármagn til verkefna á sviði rannsókna og þróunar.
Í Noregi og Svíþjóð hefur verið reynt að jafna aðstöðu milli fyrirtækja í þéttbýli og dreifbýli hvað varðar flutningskostnað.

Atvinnurekstur á tilteknum svæðum í Noregi og Svíþjóð býr við lægra tryggingargjald til að koma til móts við hærri flutningskostnað. Framkvæmdarstjórn Evrópusambandsins hefur þó gert athugasemdir við það fyrirkomulag sem er í Svíþjóð. Hér er um flókið mál að ræða sem ég ræði ekki frekar hér, en þó liggur fyrir að það er stefna framkvæmdarstjórnar ESB að flutningsstyrkir verði frekar greiddir beint til viðkomandi atvinnugreina en að veita þá í formi lægri skatta. Á sama hátt hafa Norðmenn að kröfu Eftirlisstofnunar EFTA þurft að gera breytingar á því fyrirkomulagi sem var þar í landi varðandi flutningsstyrki. Ég nefni þessi dæmi frá Noregi og Svíþjóð af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi til að benda á að ef við t.d. tækjum ákvörðun um að taka upp flutningsstyrki þá er það hægt innan vissra marka. Í öðru lagi vildi ég benda á að við þyrftum að fá slíkt fyrirkomulag viðurkennt af hálfu Eftirlitsstofnunar EFTA.

Löggjafinn hér á landi hefur tryggt að á landinu öllu skuli vera sama verð á olíuvörum og sementi. Sérstök lög eru í gildi sem tryggja þetta og er grunnhugmyndin sú að með sérstöku flutningsjöfnunargjaldi sé tryggt að verð sé hið sama á landinu öllu á hverjum tíma en ekki að skila tekjum í ríkissjóð. Þessi jöfnun verður rúmar 500 millj. kr. fyrir olíuvörur á næsta ári en 170 millj. kr. fyrir sement. Þá má ekki gleyma því að sum fyrirtæki beita eigin flutningsjöfnun. Ég veit ekki betur en ákveðin fyrirtæki á matvörumarkaði bjóði vörur sínar á sama verði hvar sem er á landinu. Sama á við um kaffi og málningavörur. Þá má nefna verðjöfnun sem á sér stað innan Rarik og nemur um 500 m.kr.

Ljóst er að skipulag flutningamála hefur tekið miklum breytingum á undanförnum árum. Flutningar á vegum hafa aukist gríðarlega á kostnað sjóflutninga. Þessi breyting hefur bæði skapað ný tækifæri fyrir landsbyggðina og ógnanir ef svo má segja. Þessi þróun hefur að mörgu leyti bætt samkeppnisstöðu fyrirtækja á landsbyggðinni. Í því sambandi má nefna að nú geta flest ef ekki öll fiskvinnslufyrirtæki landsins tekið þátt í útflutningi á ferskum flökum með flugi. Slíkt var óhugsandi fyrir 10 árum síðan og öll slík vinnsla byggðist upp í kringum flugvöllinn í Keflavík. Þá er öll flutningsþjónusta við fólk og fyrirtæki á landsbyggðinni mun greiðari nú en áður var og kostnaður við lagerhald hefur stórlækkað. Það hefur skapað best samkeppnisskilyrði fyrir þau landsbyggðarfyrirtæki sem keppa á markaði höfðuborgarsvæðisins með framleiðslu sína. Jafnframt hefur það skapað skilyrði fyrir fyrirtæki sem fyrst og fremst hafa starfað á höfðuborgarsvæðinu að hafa starfsstöðvar t.d. á Akureyri.

Opinber skattlagning flutninga hefur hins vegar aukist og skipting þeirra skatttekna milli ríkis og sveitarfélaga (hafnarsjóða) hefur breyst. Það stafar af því að skattlagning landflutninga er mun meiri en skattlagning sjóflutninga. Reiknað hefur verið út að um 95% af sköttum af landflutningum renni til ríkisins en um 5% til sveitarfélaga. Í sjóflutningum renna hins vegar rúmlega 80% af sköttum og gjöldum til sveitarfélaga (þ.e.a.s. til hafnarsjóða) en tæplega 20% til ríkisins.

Ríkisstjórnin hefur ákveðið að skipa starfshóp sem fulltrúi samgönguráðherra veitir forystu til að fara yfir almennan flutningskostnað hér á landi og milli landa miðað við þarfir ativnnulífsins. Gert er ráð fyrir að starfshópurinn vinni að þessu verki í tveimur áföngum. Í fyrsta áfanga er hópnum falið að vinna greinagott yfirlit um flutningskostnað fyrirtækjanna í dag og hvernig hann hafi þróast undanfarin ár. Í öðru lagi er starfshópnum falið að fjalla um leiðir til þess að lækka flutningskostnað og það hvort um geti verið að ræða mismunandi samkeppnisstöðu flutningsmáta vegna aðgerða stjórnvalda. Að lokum er hópnum falið að koma með tillögur um aðgerðir sem mynda skilyrði fyrir sem mestri samkeppni og lágum flutningskostnaði á landsbyggðinni. Í starfhópnum eiga sæti fulltrúar frá samgönguráðuneyti, iðnaðarráðuneyti og fjármálaráðuneyti. Ég bind vonir við störf hópsins og vænti þess að hann muni hraða störfum sínum eins og kostur er.

Eins og kunnugt er hefur ríkisstjórnin lagt fram viðamiklar tillögur um skattalækkanir sem munu snerta bæði fólk og fyrirtæki. Þær aðgerðir sem snerta fyrirtæki eru þessar:

· Tekjuskattur fyrirtækja lækkar almennt úr 30% í 18% 1. janúar 2002
· Eignarskattur fyrirtækja lækkar úr 1,2% í 0,6% miðað við árslok 2002
· Sérstakur eignaskattur fyrirtækja (þjóðarbókhlöðuskattur) fellur niður
miðað við árslok 2002
· Verðbólgureikningsskil verða afnumin frá 1. janúar 2002
· Fyrirtækjum verður heimilt að færa bókhald og ársreikninga í erlendri
mynt frá 1. janúar 2002
· Tryggingagjald hækkar um 0,77% frá 1. janúar 2003
· Þá verður stimpilgjald lækkað frá 1. janúar 2003, bæði fyrirtækjum og
einstaklingum til hagsbóta.

Ég er sannfærð um að þessar aðgerðir munu almennt styrkja samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja. Þær munu hafa örvandi áhrif á erlenda fjárfestingu sem skiptir miklu máli fyrir þjóðarbúið sem heild.
Ég geri mér hinsvegar fulla grein fyrir að þessar skattabreytingar eru ekki hafnar yfir gagnrýni.

Góðir fundarmenn

Ég óska hinum nýju samtökum velfarnaðar í starfi og vona að ég geti átt sem best samstarf við ykkur, bæði sem þingmaður þessa svæðis og eins í embætti mínu sem ráðherra iðnaðar- og viðskiptamála.
Mér þykir leitt að geta ekki verið með ykkur í dag. Ástæðan er ykkur kunn og þarf svo sem ekki að koma neinum á óvart í nóvember á Íslandi.
Ég þakka áheyrnina.


Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum