Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

24. nóvember 2001 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Ávarp við opnun Lagnakerfamiðstöðar Íslands, 24.11.2001 -

Valgerður Sverrisdóttir
iðnaðar- og viðskiptaráðherra.

Ávarp
við opnun Lagnakerfamiðstöðvar Íslands á Keldnaholti
laugardaginn 24. nóvember 2001.

Ágætu lagnamenn og aðrir gestir.

Lagnakerfi húsa hefur verið líkt við æðakerfi og meltingarkerfi líkamans. Hvortveggja er bráðnauðsynlegt, en oft illa sinnt þar til vandamál koma upp. Menn leiða vart hugann að þessum kerfum, - vilja helst ekkert af þeim vita, en verða samt áþreifanlega varir við þau þegar þau bila.

Með tilkomu Lagnakerfamiðstöðvar Íslands batnar stórlega aðstaða og möguleikar til þess að sinna þessum málaflokki og er það vissulega fagnaðarefni. Á síðasta ári, þegar ég veitti verðlaun fyrir vel unnið lagnaverk, gerði ég mér ljóst hversu umfangsmikið fagsvið hér er um að ræða. Kerfin voru fjölmörg og gegndu hvert sínu hlutverki, eins og vatnskerfi, hitakerfi, frárennsliskerfi, -loftræsikerfi, brunavarnakerfi o.s.frv. Ég sá að mörgum þessum kerfum er stýrt með flóknum tækjabúnaði, en undraðist að ekki var fyrir hendi sómasamleg aðstaða eða búnaður til kennslu eða rannsókna í lagnatækni.

Þetta mun nú breytast. Iðnaðarráðuneyti og menntamálaráðuneyti auk Orkuveitu Reykjavíkur og Brunamálastofnunar hafa heitið stuðningi við Lagnakerfamiðstöðina. Þessir aðilar koma að málinu út frá mismunandi forsendum. Iðnaðarráðuneytið leggur til grundvallar ríkan vilja til að efla hagnýtar rannsóknir, sem eru til þess fallnar að auka þekkingu atvinnulífsins og gera það samkeppnishæfara. Iðnaðarráðuneytið vill með aðild sinni tengja núverandi lagnakerfisrannsóknir Rannsóknarstofnunar byggingariðnaðarins hinni nýju starfsemi hér og þannig stuðla að því að fjármunir, aðstaða, búnaður og þekking nýtist sem best.

Rannsóknarverkefnin sem bíða eru fjölmörg. Þau tengjast m.a. aðgerðum til að minnka vatnstjón, en þau skipta hundruðum í hverjum mánuði. Árlegur kostnaður vegna vatnstjóna hérlendis er nú áætlaður um 1,5 milljarður króna og fjárhagslegur ávinningur af fækkun þeirra augljós. Bæði þarf að huga að fyrirliggjandi lögnum og einnig nýjum.

Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins hefur getið sér gott orð hér heima, sem og erlendis, m.a. í alþjóðlegum rannsóknarverkefnum og eru lagnarannsóknir þar ekki undanskildar. Aðstaðan hér gefur fyrirheit um nýja möguleika sem áður voru óhugsandi. Hún mun m.a. nýtast til að byggja upp aðstöðu til tæringamælinga.

Lagnakerfamiðstöðin er glöggt dæmi um tengsl menntunar, rannsókna og atvinnulífs. Menntunin er undirstaða rannsókna og rannsóknirnar eru forsenda nýsköpunar atvinnulífsins og efnahagslegra framfara þjóðarinnar. Það er oft bent á að þessi tengsl skorti og er því ástæða til að fagna því sem er að gerast hér í dag.

Ég vil óska öllum þeim sem að uppbyggingu þessarar glæsilegu Lagnakerfamiðstöðvar hafa komið til hamingju og bið þeim velfarnaðar við lausn þeirra fjölmörgu úrlausnarefna sem bíða þeirra. Það er trú mín að hér geti orðið til það þekkingarsetur í lögnum sem svo lengi hefur verið beðið eftir.

Takk fyrir.
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum