Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

7. desember 2001 InnviðaráðuneytiðSturla Böðvarsson, samgönguráðherra 1999-2007

Hvatningarverðlaun Ferðamálaráðs

Í tengslum við ráðstefnu um heilsutengda ferðaþjónustu voru veitt, í fyrsta skipti, hvatningarverðlaun Ferðamálaráðs í heilsutengdri ferðaþjónustu.



Eins og ávallt þegar verðlaun eru veitt eru margir til kallaðir en fáir útvaldir. Eins er það í þessu tilfelli þegar Ferðamálaráð veitir í fyrsta sinn Hvatningarverðlaun Ferðamálaráðs í Heilsutengdri ferðaþjónustu.
Meðal þeirra sem komu til greina má nefna Heilsustofnun Náttúrulækningafélagsins í Hveragerði, en þar á bæ eru uppi áform um mikla uppbyggingu á komandi árum og verður spennandi að fylgjast með hvernig tekst til. Þá má einnig nefna Orkuveitu Reykjavíkur, sem með nýjum hætti er að markaðssetja sundlaugar Reykjavíkur á erlendum mörkuðum undir nafninu Reykjavík SPA City.
Eitt fyrirtæki þykir þó standa upp úr þegar kemur að veitingu þessarar viðurkenningar nú í fyrsta skiptið og var það samdóma álit allra í Ferðamálaráði að Bláa lónið skyldi hljóta verðlaunin.
Bláa Lónið var stofnað árið 1992 og tók við rekstri baðstaðarins við Bláa lónið árið 1994. Aðaleigendur eru Hitaveita Suðurnesja, Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins, fyrirtækin Hvatning, Olís og Flugleiðir ásamt sveitarfélögum á Suðurnesjum.
Nýi baðstaðurinn við Bláa lónið var opnaður formlega þann 15. júlí 1999. Þar gefur að líta glæsilega aðstöðu í mannvirkjum, sem falla einkar vel að stórbrotnu umhverfi. Frá því að nýi baðstaðurinn opnaði hafa um 790.000 gestir sótt staðinn heim. Þess má einnig geta, að í könnunum Ferðamálaráðs meðal erlendra ferðamanna, er Bláa lónið sá staður sem flestir sækja meðan þeir dvelja hér á landi.
Bláa lónið er gott dæmi um hve náttúran og auðlindir hennar nýtast okkur mannfólkinu á margvíslegan hátt. Í Bláa lóninu er jarðsjór sem hefur verið nýttur til upphitunar ferskvatns og til framleiðslu rafmagns. Glöggir menn uppgötvuðu jákvæð áhrif vatnsins í lóninu á húðsjúkdóminn psoriasis. Í dag er boðið upp á náttúrulega meðferð við psoriasis á göngudeildinni við Bláa lónið. Meðferðin byggist á einstakri samsetningu steinefna og vistkerfi blágrænna þörunga í jarðsjónum sem myndar Bláa lónið.
Bláa lónið framleiðir einnig athyglisverðar snyrtivörur sem sérstaklega eru ætlaðar til meðhöndlunar á húðvandamálum. Þannig gefst þeim, sem ekki eiga möguleika á að baða sig í lóninu sjálfu, tækifæri til að njóta einstakra áhrifa þess. Í dag er Bláa lónið þó fyrst og fremst staður sem allir, jafnt ungir sem aldnir, sækja sér til hressingar og afslöppunar.
Ég vil því biðja Grím Sæmundsen að koma hér og veita verðlaununum viðtöku.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum