Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

7. desember 2001 InnviðaráðuneytiðSturla Böðvarsson, samgönguráðherra 1999-2007

Ráðstefnu um heilsutengda ferðaþjónustu

Samgönguráðherra flutti ávarp á ráðstefnu um heilsutengda ferðaþjónustu sem haldin var í Bláa lóninu í gær. Setningarávarpið fylgir hér á eftir.

Ráðstefnustjóri, ágætu ráðstefnugestir.

Það gleður mig að fá tækifæri til að ávarpa ráðstefnu Ferðamálaráðs um heilsutengda ferðaþjónustu. Það ber vott um bjartsýni og styrk í ferðaþjónustu að blásið sé til sóknar og boðað til þessarar ráðstefnu. Viðbúið er að mikil vinna bíði þeirra er starfa í greininni, svo hægt verði að viðhalda þeim öra vexti sem hefur einkennt hana síðustu árin.
Ráðstefna eins og þessi er, góður vettvangur fyrir umræðu um heilsutengda ferðaþjónustu. Það er von mín að framhald verði á þeirri vinnu sem hafin er með ráðstefnu sem þessari, svo að umræðan um heilsutengda ferðaþjónustu haldi áfram að þróast. Það er vissulelga mikið verk að vinna.
Eins og allir vita, sem koma að ferðaþjónustu á einhvern hátt, hefur íslensk náttúra verið stærsta aðdráttaraflið fyrir erlenda ferðamenn á leið til Íslands. Aðaláherslan hefur verið á skoðunar- og ævintýraferðir um fjöll og firnindi. Þegar kemur að heilsutengdri ferðaþjónustu er það máttur og virkni náttúrunnar sem er varan sem framreidd er til viðskiptavinanna og skipta þá náttúruauðlindirnar höfuðmáli.
Því má segja að með heilsutengdri ferðaþjónustu sé í raun verið að markaðssetja náttúruna sjálfa með nýjum hætti, fremur en að um algjörlega nýtt fyrirbrigði sé að ræða.
Í "Stefnumótun í ferðaþjónustu", sem var unnin árið 1996, kemur skýrt fram að stefnt skuli að því að auka ferðamennsku í tengslum við heilsubót og heilbrigði, og að hefja skuli markaðssetningu á almennri heilbrigðisþjónustu erlendis. Gert er ráð fyrir að sérstaða Íslands, sem hreint og ómengað land, verði notuð til að koma landinu og þjónustunni á framfæri, sem og að gæði heilbrigðisþjónustunnar verði dregin fram.
Í stefnuyfirlýsingu núverandi ríkisstjórnarinnar frá árinu 1999 er lögð áhersla á menningar-og heilsutengda ferðaþjónustu.
Árið 1999 skipaði ég nefnd til að vinna að skýrslu um heilsutengda ferðaþjónustu sem gefin var út í júní árið 2000. Þar voru settar fram tillögur um hvernig best sé að standa að uppbyggingu á heilsutengdri ferðaþjónustu á Íslandi.
Í kjölfarið fól ég Ferðamálaráði að vinna að úrvinnslu og framgangi þeirra tillagna sem skýrslan og nefndarálitið felur í sér. Samkvæmt upplýsingum Ferðamálaráðs stendur yfir söfnun upplýsinga um sundlaugar, líkamsræktarstöðvar og fleiri slíka staði, sem leitt gæti til flokkunar á þessum stöðum í "Thermal baths" og "Spa".
Þá var sett af stað hugmyndavinna fulltrúa ferðamálaráðs og ÍSÍ um hvernig þessir aðilar gætu unnið saman að framgangi heilsutengdrar ferðaþjónustu í samræmi við ábendingar í skýrslunni. Verið er að vinna að þessu verkefni og er þess vænst að hægt verði að kynna frekari úrvinnslu hugmyndanna. Einnig hafa verið gerðar viðamiklar rannsóknir á vegum Orkustofnunar á nýtingu jarðhita til ferðaþjónustu en frekari rannsókna er þörf á einstökum svæðum.
Auk þess er mikilvægt að kortleggja ferskvatnssvæði og kanna möguleika á vinnslu kísils og leirs til baða. Það ber að fagna því að Orkustofnun hefur sýnt heilsutengdri ferðaþjónustu mikinn áhuga og unnið vel að þeim málum.
Áhugi á heilsutengdri ferðaþjónustu í heiminum er mikill og fer vaxandi, til þess benda allar rannsóknir. Segja má að skilyrði fyrir henni og framrás þjónustunnar séu ákjósanleg hér á landi. Hér er heitt vatn í ómældu magni, ómengað drykkjarvatn, hreint loft, leir og jurtir og fagurt mannlíf.
Heilbrigðisþjónusta á Íslandi er í háum gæðaflokki, og ástæða er til að nefna möguleika á að framkvæma aðgerðir hér á erlendum gestum sem hingað koma. Nú þegar hafa læknastofur skoðað þennan möguleika og vonandi verður framhald á þeirri vinnu. Stór hluti heilbrigðistækniiðnaðarins fer til útflutnings og er áætluð velta um 5-6 milljarðar króna á ári hverju, en þar á meðal er stoðtækjaframleiðsla, þjónusta og lyf. Samstarf við þessa aðila getur verið mikilvægt þegar kemur að markaðssetningu á heilsurækt og heilsuvernd á Íslandi.
Heilsu- og líkamsræktarstöðvum hefur fjölgað mjög á síðustu árum hér á landi og eru Íslendingar sífellt duglegri að nýta sér þær. Stöðvar eins og þessar eru stór hlekkur þegar kemur að skipulagningu á heilsuferðamennsku og sífellt er verið að bjóða upp á margþættari þjónustu til að mæta þörfum viðskiptavinanna.
Kröfur ferðamanna aukast stöðugt og því verður að bjóða upp á vel skilgreinda þjónustu sem stendur undir væntingum.
Eins og áður sagði er Ísland vel fallið til þess að stunda heilsutengda ferðaþjónustu. Heilsubaðstaðurinn Bláa Lónið hefur t.d. verið einn vinsælasti ferðamannastaður Íslands á síðustu árum og er einnig orðinn vel þekktur erlendis.
Þá hefur Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands í Hveragerði starfað í nær hálfa öld með það að markmiði að efla heilbrigði og auka vellíðan gesta sinna, en hún hefur til þessa aðallega sinnt innlendum gestum. Ég vil nota þetta tækifæri til að vekja sérstaka athygli á starfi Heilsustofnunarinnar í Hveragerði sem rutt hefur brautina og verið frumkvöðull á sviði heilsutengdrar þjónustu á Íslandi.
Einnig er mikill áhugi á heilsuferðamennsku á Snæfellsnesi og er margþætt undirbúningsvinna þar í fullum gangi.
Dagskrá ráðstefnunnar ber líka vitni um mikla grósku í þessari grein ferðaþjónustunnar, þar sem margir ferðaþjónustuaðilar munu kynna hér starfsemi og hugmyndir sínar og er það vel.
Óhætt er að segja að ástæða sé til bjartsýni í þessari grein ferðaþjónustunnar, því möguleikarnir eru til staðar, þá þarf bara að virkja.
Fyrrgreindir þættir sýna sérstöðu Íslands – sérstöðu sem hægt er að nýta við markaðssetningu á heilsutengdri ferðaþjónustu erlendis.
Náttúruauðlindirnar eru til staðar, sem og tækifærin, og þess vegna verður að vanda til verka við markaðssetningu og aðra undirbúningsvinnu við heilsutengda ferðaþjónustu á Íslandi. Undirbúningur er forsenda árangurs í þessum efnum. Þess vegna skipaði ég starfshópinn til að vinna að heilsutengdri ferðaþjónustu, sem skilaði mjög góðum tillögum. Frumkvöðlar, SAF og Ferðamálaráð hafa því verk að vinna.
Mögulegur ávinningur Íslands af heilsutengdri ferðaþjónustu er að mínu mati mikill. Ímynd Íslands sem ferðamannastaðar hefur í gegnum tíðina byggst á sérstæðri og ósnortinni náttúru og er með þessu verið að styrkja þá ímynd enn frekar.
Með heilsutengdri ferðaþjónustu á að vera hægt að fá hingað til lands erlenda ferðamenn utan háannatíma, en það hefur verið eitt af helstu markmiðum í greininni nú síðustu ár. Þannig er hægt að stuðla að betri nýtingu gistirýmis og minnka neikvæð áhrif lágannar á afkomu fyrirtækja í ferðaþjónustu, sem hefur verið eitt stærsta vandamál fyrirtækja í greininni.
Mikil breyting hefur verið á síðustu árum á högum fólks, þjóðir heims eldast og ráðstöfunartekjur hækka. Heilsulindir og staðir þar sem boðið er upp á líkamlega og andlega uppbyggingu og fyrirbyggjandi heilsuverndarþjónustu, verða sífellt vinsælli. Kanna verður möguleikana á að markaðssetja Ísland á þennan hátt, bæði fyrir Íslendinga og erlenda gesti.
Faglegur undirbúningur og greining helstu markaðssvæða og markaðshópa er nauðsynlegt fyrir stefnumótun í greininni.
Markmið þeirrar stefnu verða að vera skýr, raunhæf og mælanleg, svo auðveldara sé að meta árangurinn hverju sinni. Fagmennska og fyrirhyggja tryggja vissulega ekki velgengni, en eru ein af forsendum þess að vel megi takast.
Það er von mín að ráðstefnan hér í dag verði innlegg í umræðuna og mótun uppbyggingar þessarar greinar ferðaþjónustu sem hefur alla möguleika til að eflast mjög á næstu árum.
Hin mikla ógn hryðjuverka hefur dregið úr vexti ferðaþjónustunnar og valdið mkilu tjóni sem enn er ekki séð fyrir hversu mikið verður. Að undanförnu hefur verið unnið að undirbúningi aðgerða af hálfu stjórnvalda til þess að snúa vörn í sókn eftir 11. september.
Fyrsta skrefið var að tryggja starfsemi flugfélaganna með því að gangast í ábyrgð fyrir íslensku flugfélögin og tryggja öryggisþætti flugvalla.
Næsta skref er að auka fjárveitingar til markaðsaðgerða innanlands sem utan og endurskipuleggja markaðsstarf á vegum samgönguráðuneytisins en skrifstofa Ferðamálaráðs mun sjá um framkvæmdina. Framlög af fjárlögum til markaðsverkefna verða fjórfölduð og hækka úr 50 milljónum í 200 milljónir. Með þeirri hækkun verður á næsta ári varið samtals allt að 380 milljónum króna, til landkynningar og markaðssetningar íslenskrar ferðaþjónustu af hálfu stjórnvalda. Þessi mikla aukning á fjárframlögum er tákræn aðgerð stjórnvalda og um leið öflug útrás til stuðnings fyrirtækjunum sem eru að leggja mikla fjármuni til markaðssetnigar áislenskrar ferðaþjónustu.
Markaðsstarf Ferðamálaráðs verður að skilgreina að nýju í ljósi breyttra aðstæðna í heiminum.
Ákveðið hefur verið að nýta útrás íslenskra fyrirtækja og taka höndum saman við viðpskiptalífið til enn frekari landkynningar. Stefnt er að því að gerðir verði þjónustusamningar við ákveðin fyrirtæki, sem hafa skrifstofur víða um
heim. Þar er gert ráð fyrir að verði til staðar kynningarefni um Ísland, auk þess sem starfsmenn fyrirtækjanna munu miðla frekari upplýsingum um land og þjóð til viðskiptavina sinna. Ég vænti mikils af þessu samstarfi.
Ágætu ráðstefnugestir!
Eins og fram hefur komið hér á undan er nokkuð ljóst að Ísland hefur alla burði til að ná langt í markaðssetningu á heilsutengdri ferðaþjónustu. Náttúruauðlindir hér á landi skapa óteljandi möguleika á að svala þörfum gesta okkar um betri heilsu og líðan. Þessa möguleika þurfum við að nýta á réttan hátt og nýta auðlindirnar af mikilli gát. Framtíðarsýnin er að saman starfi að uppbyggingu þessarar greinar ferðaþjónustunnar fagfólk í heilbrigðisþjónustu, aðilar frá orkufyrirtækjum, forsvarsmenn afþreyingarfyrirtækja sem leggja áherslu á útivist og síðast en ekki síst fagfólk í ferðaþjónustu.
Ég er þess fullviss að ef rétt er að málum staðið bíða góðir tímar heilsuferðamennsku á Íslandi.
Ráðstefnan er sett.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum