Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

24. janúar 2002 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Ávarp við afhendingu FKA-verðlauna, Hótel Saga, 17.01.2002

Iðnaðar- og viðskiptaráðherra
Valgerður Sverrisdóttir

FKA verðlaun,
Hótel Saga 17. janúar 2002


Ágætu félagskonur og aðrir gestir,

Það er mér mikil ánægja að vera stödd hér í dag og afhenda hin árlegu FKA-verðlaun.
Félag kvenna í atvinnurekstri hefur sérstaka þýðingu í mínum huga. Það þarf kjark, þor og dugnað til að standa að stofnun og rekstri fyrirtækis. Hér eru kjarkmiklar konur, sem láta sér ekki allt fyrir brjósti brenna en einmitt þess vegna ber ég mikið traust til ykkar sem fyrirmynda komandi kynslóða.

Konur sem fyrirmyndir gegna veigamiklu hlutverki í því að jafna hlut kynjanna. Á það bæði við um vinnumarkaðinn og einkalíf. Hvort sem okkur þykir það ljúft eða leitt þá erum við konur fyrirmyndir ungra stúlkna, sem eru að láta sig dreyma um allt sem þær ætla að afreka í framtíðinni. Mikilvægi fyrirmynda lýsir sér vel í sögunni um það þegar nokkur börn í leikskóla voru spurð að því hvað þau ætluðu að verða. Þetta var í forsetatíð Vigdísar Finnbogadóttur og þegar einn strákurinn sagðist ætla að verða forseti, hló ein stelpan og sagði: "Strákar verða ekki forsetar." Þessi litla saga segir meira en mörg orð. Nauðsynlegt er að horfa fram á veginn en jafnframt er mikilvægt að minnast kyndilbera og frumkvöðla líkt og Vigdísar Finnbogadóttur, Bjargar Þorláksson og fleiri mætra kvenna. Þessar konur ruddu brautina fyrir okkur hinar.

Þrátt fyrir það að miklu hafi verið áorkað, er enn langt í land. Kvenfyrirmyndir í stjórnun og atvinnurekstri eru of fáar. Nærtækasta dæmið er ráðherraembættið, einungis þrír ráðherrar af tólf eru konur og 36% alþingismanna. Betur má ef duga skal og það á líka við um fjölda kvenna í atvinnurekstri.
Atvinnuþátttaka kvenna á Íslandi er um 80%, en konur reka einungis 20% íslenskra fyrirtækja. Sem iðnaðar- og viðskiptaráðherra og kona, tel ég það mjög mikilvægt að bæði kynin komi að mótun og uppbyggingu atvinnurekstrar í landinu. Rannsóknir hafa sýnt að fyrirtæki þar sem konur eru við stjórn, fara síður í þrot en þau sem rekin eru af körlum. Þetta sýnir ótvírætt að konur eiga mikla möguleika á þessum vettvangi í framtíðinni.

Það er gaman að vera hér í dag þar sem konum er veitt viðurkenning fyrir störf sín. Slíkt gerir þær sýnilegri og verður án efa til þess að fleiri konur hefja atvinnurekstur.

Kæru félagskonur,

Mig langar að ljúka máli mínu með tilvitnun í fleyg orð skáldsins en þar segir: "Ég er draumlyndur að eðlisfari og hef gaman af góðum skáldskap en skemmtilegasti skáldskapurinn er samt að sjá draumana rætast"

Takk fyrir
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum