Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

15. mars 2002 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Ræða á Iðnþingi

Valgerður Sverrisdóttir,
iðnaðar- og viðskiptaráðherra


Ræða á Iðnþingi,
föstudaginn 15. mars 2002.


Fundarstjóri, ágætu fundarmenn.
Um þessar mundir eru, á vettvangi iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis, óvenju mörg þingmál sem snerta iðn- og atvinnuþróun og tengjast þannig hagsmunum þeirra sem hér eru í dag. Ég hef því valið að tileinka ræðu mína þessum málum og mun hér á eftir fjalla stuttlega um eftirfarandi:

1. Nýskipan opinbers stuðnings við vísindi og nýsköpun atvinnulífsins.
2. Tillögu til þingsályktunar um stefnu í byggðamálum fyrir árin 2002-2005.
3. Kárahnjúkavirkjun og álver Norals á Reyðarfirði.
4. Þróun vaxtamála síðustu misseri.
Víkjum þá fyrst að nýskipan stuðningsumhverfis vísinda og nýsköpunar.
- Okkur er æ betur ljóst að vísindaleg þekking og nýsköpun í atvinnulífinu eru forsendur efnahagslegra framfara og almennrar velferðar. Þrátt fyrir að atvinnulífið hafi verið, og muni vafalítið áfram verða, drifkraftur þeirrar þróunar þá getur ríkisvaldið haft sterk áhrif - með réttri skipulagningu stuðningsumhverfisins og með því að beina þeim takmörkuðu fjármunum sem til ráðstöfunar eru, í réttan farveg.

Nú liggja fyrir Alþingi þrjú frumvörp er lúta að stefnumótum stjórnvalda um stuðning við vísindarannsóknir, tækniþróun og nýsköpun atvinnulífsins.

Þessi frumvörp eru:
· Frumvarp til laga um Vísinda og tækniráð, sem verður á forræði forsætisráðherra.
· Frumvarp til laga um opinberan stuðning við vísindarannsóknir, sem verður á forræði menntamálaráðherra
og loks:
· Frumvarp til laga um opinberan stuðning við tækniþróun og nýsköpun í þágu atvinnulífsins, sem verður á forræði iðnaðarráðherra.

Ekki fer á milli mála að hér er á ferðinni veigamikil breyting á málaflokki sem snertir mjög marga. Einkum hefur þetta áhrif á þau fyrirtæki sem stunda rannsóknir, vöruþróun og nýsköpun og sem fella má í flokk þeirra fyrirtækja sem bera uppi vaxtarbrodda atvinnulífsins. Það er því mikils um vert að þessi breyting verði atvinnulífinu gæfuspor og fái verðuga umfjöllun á þeim vettvangi.

Skilningur á mikilvægi þessa umfangsmikla málaflokks hefur aukist og má gera ráð fyrir að kröfur til stjórnvalda um aukinn stuðning við vísindi og nýsköpun fari vaxandi á komandi árum. Því þykir nú tímabært að færa umfjöllun um málefni vísinda og tækniþróunar á efsta stig stjórnsýslunnar og undir forystu forsætisráðherra. Markmiðið er að ákvarðanir verði teknar með heildarsýn í fyrirrúmi á grundvelli stefnumótunar sem tekur mið af þörfum er varða starfssvið margra ráðuneyta - enda ganga vísindaframfarir núorðið einatt þvert á þá skipan. Einnig þarf að taka mið af því að framfarir í vísindum og tækni eru hraðar og er því mikilvægt að stefnumótunin sé sveigjanleg og falli sem best að þörfum samfélagsins á hverjum tíma. Við gerð frumvarpanna var haft til hliðsjónar að stefna í vísindum, rannsóknum og nýsköpun setja ótvíræðan svip á almenna stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahags- og atvinnumálum.

Ég hef litið svo á að með þessu hilli loks undir möguleika þess að losa um heðfbundna niðurnjörfun atvinnulífsins í tiltekna atvinnubundna flokka og að í framtíðinni geti ný fræðasvið átt greiðari aðgang að opinberum stuðningi og nái því að bera ávöxt fyrr en ella.

Þessi þrjú frumvörp mynda samstæða heild. Vísinda- og tækniráðið mun starfa undir forystu forsætisráðherra, en þar munu sitja auk hans fjármálaráðherra, menntamálaráðherra og iðnaðarráðherra ásamt 14 öðrum fulltrúum samkvæmt tilnefningu. Mál vísinda- og tækniráðsins verða undirbúin í tveim nefndum; annars vegar í vísindanefnd, sem mun heyra undir menntamálaráðuneyti og hins vegar í tækninefnd sem heyra mun undir iðnaðarráðuneyti.

Markmið þessarar nýskipunar er að þjóna öllum atvinnugreinum jafnt og vera vakandi fyrir nýjungum sem geta skapað ný atvinnutækifæri. Á grunni þessa er meðal nýmæla lögfesting nýsköpunarmiðstöðvar fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki sem rekin yrði hjá Iðntæknistofnun. Þjónusta hennar mun beinast að því að efla nýsköpun í atvinnulífinu, m.a. með því að miðla þekkingu og reynslu á milli vísindasamfélagsins og atvinnulífsins. Annað nýmæli, sem stefnt er að, er nýr sjóður, svokallaður Tækniþróunarjóður, sem heyri undir iðnaðarráðherra. Honum er ætlað að vera drifkraftur þeirra aðgerða sem ríkisvaldið vill beita sér fyrir til að ná markmiðum sínum í nýsköpun - í samræmi við áherslur Vísinda- og tækniráðsins.

Þrátt fyrir að þessi frumvörp móti mjög áhugaverða og framsækna umgjörð um málefni vísinda og nýsköpunar er mikið verk framundan við mótun málaflokksins innan hins nýja lagaramma.

Nýlega hef ég lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal og stækkun Kröfluvirkjunar. Tilgangur frumvarpsins er að afla lagaheimilda fyrir svokallaða Kárahnjúkavirkjun, sem er nauðsynleg vegna stóriðjuframkvæmda á Austurlandi sem áformað er að ráðast í á næstu árum. Kárahnjúkavirkjun byggist á miðlunarlóni í farvegi Jökulsár á Brú, svokölluðu Hálslóni, og flutningi vatnsins um jarðgöng að stöðvarhúsi virkjunarinnar í Fljótsdal. Þetta fyrirkomulag nægir til raforkuframleiðslu fyrir 240-280 þúsund tonna álframleiðslu á ári, en það er áætlaður fyrsti áfangi Noral-álversins í Reyðarfirði.

Síðari áfangi álversins, sem er stækkun í 360-420 þúsund tonna ársframleiðslu, kallar á meira vatn, sem ráðgert er að afla með veitu af vatnasvæði Jökulsár á Fljótsdal yfir í Hálslón. Vegna skilyrða umhverfisráðherra, sem takmarkar fyrri ráðagerðir um vatnaflutninga, verður rafmagns einnig aflað með aukinni raforkuvinnslu í jarðgufuvirkjun á Kröflusvæðinu.

Ljóst er að áhrif Kárahnjúkavirkjunar og álvers í Reyðarfirði munu verða veruleg á þjóðfélagið í heild og mjög mikil á samfélagið á Mið-Austurlandi. Síðustu þrjá áratugi hefur orðið hægfara fólksfækkun á Austurlandi og frá 1990 hefur íbúum þar fækkað um nálega 1% á ári eða samtals um rúmlega 10 %. Þessi þróun er alvarleg, einkum vegna þess að hún hefur leitt til skorts á fólki á aldrinum 20-34 ára, sem er augljós ógnun við mannlíf á svæðinu.

Sé tekið mið af íbúaþróun síðustu ára má búast við að íbúum á Austurlandi fækki um tvö þúsund frá því sem nú er og fram til ársins 2010, ef ekki koma til aðrar aðgerðir sem spornað gætu við þessari þróun. Þessa fækkun má að meginhluta rekja til fækkunar í landbúnaði og sjávarútvegi en þessar atvinnugreinar bera uppi þjónustuna í þéttbýlisstöðunum. Ný atvinnutækifæri í frumgreinum eru því brýn forsenda fyrir áframhaldandi tilvist þeirra og vexti.

Þegar bygging og rekstur Kárahnjúkavirkjunar og Noral-álversins í Reyðarfirði ber á góma er mikilvægt að haft sé í huga að þessi verkefni munu leiða til þess að samfélag sem nú einkennist af stöðnun og samdrætti í atvinnulífinu mun eiga þess kost að breytast í samfélag uppgangs og athafnasemi. Ég reikna með að flestir geti verið sammál um að talsvert sé á sig leggjandi til að svo verði.
Fréttir dagsins af erfiðleikum sem fjárfestingar í Þýskalandi hafa skapað Norsk Hydro, gefa mér tilefni til að ítreka að engar ákvarðanir hafa verið teknar um að fresta ákvörðun um byggingu Reyðaráls.
Ekki verður horfið frá umfjöllun um orkumál án þess að geta þess að á næstu vikum verður til umfjöllunar á Alþingi frumvarp til raforkulaga og vænti ég þess að það verði að lögum fyrir þinglok í vor. Frumvarpið felur í sér heildarendurskoðun á löggjöf um vinnslu, flutning, dreifingu og sölu raforku. Það byggir á nýjum viðhorfum í raforkumálum sem hafa verið að ryðja sér til rúms víða um heim á undanförnum árum þar sem horfið er frá einokun eins og unnt er, en í þess stað er lagður grunnur að markaðsbúskap. Í þessu felst að samkeppni verður komið á í framleiðslu og sölu rafmagns. Einnig verður stofnað félag um flutning rafmagns á milli landshluta og gjaldskrár flutnings- og dreififyrirtækja verða háðar opinberu eftirliti, enda er hér um að ræða einokunarstarfsemi sem halda verður aðskilinni frá samkeppnisþáttum í rekstri orkufyrirtækjanna.

Sú breyting hefur verið gerð frá fyrri áformum, að horfið er frá kröfunni um hreinan fyrirtækjaðskilnað, en í þess stað verða rekstrarþættir framleiðslu og dreifingar bókhaldslega aðskildir, sem er í samræmi við tilskipun ESB um innri markað með raforku. Einnig hefur gildistökunni verið breytt þannig að frá 1. janúar 2004 skulu allir geta valið þann raforkusala sem þeir vilja eiga viðskipti við.
Byggðamál, sem sjálfstæður málaflokkur, bættust við verkefnaskrá iðnaðarráðuneytisins fyrir rúmlega tveimur árum. Eftir að lokið var við breytingar á lögum um Byggðastofnun og flutning hennar til Sauðárkróks hefur stærsta verkefnið verið gerð tillögu til þingsályktunar um stefnu í byggðamálum fyrir árin 2002-2005. Áætluninni er ætlað að lýsa markmiðum og stefnu ríkisstjórnarinnar í byggðamálum, með aðgerðum er tengjast almennri stefnu í efnahags- og atvinnumálum og áætlunum á sviði opinberrar þjónustu í landinu.

Meginmarkmið áætlunarinnar eru eftirfarandi:
1. Draga úr mismun sem er á lífskjörum og afkomumöguleikum fólks milli byggðarlaga.
2. Stuðla að eflingu sveitarfélaga.
3. Byggja upp trausta byggðakjarna
4. Aðvelda byggðum landsins að rækta menningu sína og skapa fjölbreytilegri kosti fyrir borgarana í búsetu og lífstíl.
5. Auka fjölbreytni í atvinnulífi, jafna starfsskilyrði og stuðla að því að fyrirtæki á landsbyggðinni geti nýtt atvinnukosti sína sem best með sjálfbærri nýtingu auðlinda og góðri umgengni um náttúru landsins.

Í tillögunni er fjallað um þau sóknarfæri sem eru varðandi frekari uppbyggingu nýrra atvinnutækifæra á landsbyggðinni. Þar er einkum horft til ferðaþjónustu, fiskeldis, líftækni, menningarstarfsemi, uppbyggingar mennta- og rannsóknarstofnana, nýrra búgreina í landbúnaði, opinberrar þjónustu og orkufreks iðnaðar.

Í tillögunum er ennfremur að finna verkefni sem eru þess eðlis að auka fjölbreytni og treysta atvinnulíf á landsbyggðinni. Til þess að gefa hugmynd um eðli þessara verkefna eru eftirfarandi þrjú dæmi tekin:

Í fyrsta lagi:

· Sett verði á fót nýsköpunarmiðstöð á Akureyri er hafi það hlutverk að þróa viðskiptahugmyndir og önnur þau verkefni er miði að því að efla nýsköpun og frumkvæði við uppbyggingu nýrra atvinnutækifæra á landsbyggðinni. Markmið starfseminnar verður að auka fjölbreytni í atvinnulífinu.


    Lögð verður áhersla á að þessi þróunarvinna fari fram í nánum tengslum við einstaklinga, fyrirtæki, sveitarfélög, háskóla og fleiri. Nýsköpunarmiðstöðin mun jafnframt fá það hlutverk að auka samvinnu og samræma þá starfsemi sem nú fer fram á sviði atvinnuþróunar á landsbyggðinni og greitt er fyrir af opinberu fé. Þessi ráðstöfun er í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og í samræmi við þá endurskipulagningu sem nú er unnið að, varðandi opinberan stuðning við tækniþróun og nýsköpun í þágu atvinnulífsins, sem ég gat um hér að framan.
    Þá er lagt til að Byggðastofnun verði falið að vinna að auknu samstarfi þeirra opinberu sjóða sem veita lán eða aðra fjárhagslega fyrirgreiðslu til fyrirtækja á landsbyggðinni. Ljóst er að með samvinnu og samtakamætti þessara sjóða er hægt að stórbæta þjónustuna við atvinnulífið á landbyggðinni.
Annað verkefnið sem ég vil geta um lýtur að jöfnun starfsskilyrða.

· Brýna nauðsyn ber til þess að jafna starfsskilyrði atvinnufyrirtækja án tillits til staðsetningar á landinu. Þó svo að ýmsar upplýsingar liggi fyrir um þessi skilyrði þá er engu að síður nauðsynlegt að láta vinna heildarathugun á því hver sé raunverulegur mismunur á starfsskilyrðum fyrirtækja og sjálfstætt starfandi atvinnurekenda eftir landssvæðum. Þar koma til athugunar áhrif flutningskostnaðar, reglna um þungaskatt, tryggingargjalds og virðisaukaskatts svo dæmi séu tekin. Þegar slík athugun liggur fyrir þarf að taka afstöðu til þess hvort tilefni er til aðgerða og þá í hvaða formi.

Í þriðja lagi vil ég nefna gagnaflutningskerfið.

· Bætt fjarskipti og jöfnun verðs í gagnaflutningum geta skipt sköpum fyrir fólk og fyrirtæki sem starfa á landsbyggðinni. Vegna þess þarf að kanna hvort fýsilegt sé að leggja ljósleiðara um sveitir landsins og leysa þannig þarfir dreifbýlisins fyrir góðar tengingar.

    Ljóst er að hér er um mjög dýra framkvæmd að ræða og svo kann að fara að hægt verði að beita ódýrari lausnum til að ná sama markmiði. Þá er gerð tillaga um að samgönguráðuneytinu verði falið að vinna að tillögu um það með hvaða hætti verði hægt að koma því svo fyrir að allir notendur greiði sama verð fyrir gagnaflutninga á landinu öllu. Þetta er í raun sama fyrirkomulag og gildir varðandi flutning raforku í landinu. Hér er um mikið hagsmunamál að ræða fyrir landsbyggðina og myndi skapa aukin tækifæri fyrir fólk og fyrirtæki.
Ég vænti þess að sú tillaga sem hér hefur verið lögð fram, um aðgerðir í byggðamálum, geti orðið liður í því að auka skilning í þjóðfélaginu á því að við þurfum, rétt eins og aðrar þjóðir, að reka öfluga byggðastefnu. Slík stefna á ekki að byggja á því að viðhalda tilteknu ástandi. Þvert á móti á að miða að því að skapa jöfn skilyrði og vinna með fólki og fyrirtækjum að því að örva frumkvæði og nýsköpun og aðstoða við útfærslu nýrra hugmynda.
Ágætu iðnþingsgestir. Áður en ég lýk máli mínu get ég ekki látið hjá líða að minnast stuttlega á vaxtamál. Ég get tekið undir áhyggjur Samtaka iðnaðarins af háum vöxtum, enda er það vissulega svo að háir vextir eru að sliga mörg skuldsett heimili og fyrirtæki. Ég reikna með að flestir geti verið sammála um að háir vextir eru fyrst og fremst tilkomnir vegna þenslu í þjóðarbúskapnum á síðustu árum og mikillar verðbólgu. Til að lækka vexti hér á landi skiptir mestu máli að koma á jafnvægi í þjóðarbúskapnum og ráða niðurlögum verðbólgunnar.

Samtök iðnaðarins óskuðu eftir því í lok síðasta árs að ég léti kanna álagningu bankakerfisins á síðustu árum. Niðurstaða þeirrar athugunar er að vaxtamunur bankakerfisins hefur lækkað ár frá ári í sex ár þar til í fyrra, eða úr 4,13% árið 1995 í 2,85% árið 2000. Á fyrri helmingi síðasta árs jókst vaxtamunur hins vegar í 3,24% án þess að einhlít skýring væri á því.

Það er ekki gott að segja hvort hér sé verið að reyna að ná fram viðvarandi hækkun og þarf lengri tíma til að átta sig á því hvort bankarnir séu að hækka álagningu til þess að bæta sér upp tap af hlutabréfaviðskiptum. Einnig má gagnrýna þau viðmið sem lögð hafa verið til grundvallar í þessari könnun, sem mér finnst ekki vera þess eðlis að lýsa stöðunni á alveg réttan hátt. Miðað er við efnahagsreikning bankanna í heild, í stað þess að skoða hlutfall vaxtatekna af heildar útlánastarfseminni. Þetta tvennt er gjörólíkt enda hefur þróun vaxtatekna bankanna sem hlutfall af útlánastarfseminni verið á jafnri uppleið síðustu árin. Það er von mín að með aukinni samkeppni lækki þessi vaxtamunur - atvinnulífinu til hagsbóta.

Takk fyrir.





Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum